I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
Með reglugerð þessari eru settar reglur um starfrækslu fjarstýrðra loftfara með það að markmiði að tryggja flugöryggi og öryggi og réttindi borgaranna.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um flug fjarstýrðra loftfara á Íslandi og innan íslenskrar lofthelgi.
Undanþegin gildissviði reglugerðar þessarar eru loftför sem vega minna en 250 g.
3. gr.
Orðskýringar.
Fjarstýrt loftfar (dróni eða flugmódel): Ómannað loftfar sem er fjarstýrt þ.e. flogið með notkun fjarstýribúnaðar.
Flug fjarstýrðra loftfara í tómstundaskyni: Flug sem stundað er til tómstunda eða keppnisflug.
Umráðandi (e. Operator): Einstaklingur eða lögaðili sem hefur fjarstýrt loftfar til ráðstöfunar.
Fjarflugmaður (e. Remote pilot): Einstaklingur sem stjórnar fjarstýrðu loftfari með notkun fjarstýribúnaðar.
Umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars (e.RPA observer): Einstaklingur sem aðstoðar fjarflugmann við örugga framkvæmd flugs með því að halda beinu sjónrænu sambandi við fjarstýrða loftfarið á flugi.
Flug í augsýn fjarflugmanns (e. Visual line of sight – VLOS operations): Notkun þar sem fjarflugmaður eða umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars heldur beinu sjónrænu sambandi við fjarstýrða loftfarið án hjálparbúnaðar.
Flug úr augsýn fjarflugmanns (e. Beyond visual line of sight – BVLOS operations): Notkun þar sem fjarflugmaður eða umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars heldur ekki beinu sjónrænu sambandi við fjarstýrða loftfarið.
Flugvallarsvæði (e. Aerodrome area): Svæði innan flugvallargirðingar. Ef flugvöllur er ekki afgirtur skal svæðið sem inniheldur flugbraut/-ir, akbraut/-ir og hlað teljast til flugvallarsvæðis.
Svæðishindranir (e. Geofencing): Virkni sem takmarkar aðgang hins fjarstýrða loftfars að tilteknum svæðum eða loftrými þar sem landfræðilegar takmarkanir eru byggðar á staðsetningu og leiðsögugögnum fjarstýrða loftfarsins.
Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.
Hámarksþyngd (e. Maximum take off mass): Heildarþyngd loftfars með farmi.
Flugmálahandbók (e. Aeronautical Information Publication – AIP): Handbók sem gefin er út í umboði ríkis og inniheldur varanlegar flugmálaupplýsingar sem nauðsynlegar eru við flugleiðsögu. Flugmálahandbók Íslands er að finna á vef Samgöngustofu: http://eaip.samgongustofa.is/.
4. gr.
Lögbært yfirvald og framkvæmd.
Samgöngustofa sér um veitingu leyfa og undanþága samkvæmt 17. og 18. gr. reglugerðar þessarar og hefur eftirlit með því að handhafar þeirra leyfa og undanþága starfi innan ramma þeirra.
5. gr.
Ábyrgð umráðanda.
Umráðandi fjarstýrðs loftfars er ábyrgur fyrir því að fylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar. Umráðandi fjarstýrðs loftfars er ábyrgur fyrir því tjóni sem hlotist getur af notkun tækisins.
6. gr.
Tilkynningarskylda slysa og/eða flugatvika.
Slys og alvarleg flugatvik sem verða vegna notkunar fjarstýrðra loftfara skulu tilkynnt í samræmi við gildandi reglur um tilkynningarskyldu flugslysa og atvika í almenningsflugi. Samgöngustofa gefur út leiðbeiningar um slíkar tilkynningar.
7. gr.
Tíðni- og tæknikröfur.
Fjarstýribúnaður fjarstýrðra loftfara, sem ekki starfar á opnu og samræmdu tíðnisviði samkvæmt tíðniskipulagi Póst- og fjarskiptastofnunar í samræmi við þær tæknikröfur sem þar eru tilgreindar, er háður leyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt 62. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003. Allur slíkur búnaður, hvort sem hann er leyfisskyldur eður ei, skal uppfylla grunnkröfur um tæknilega eiginleika og vera CE-merktur því til staðfestingar samkvæmt 65. gr. laganna.
Sé búið að taka frá sérstök tíðnisvið fyrir fjarskipti við fjarstýrð loftför skal nota þau. Að öðrum kosti skal nota tíðnir samþykktar af Póst- og fjarskiptastofnun.
8. gr.
Tryggingar.
Umráðandi fjarstýrðs loftfars með hámarksþunga 20 kg eða meira skal taka og viðhalda vátryggingu til greiðslu skaðabóta í samræmi við reglugerð um skylduvátryggingar loftfara.
Umráðandi fjarstýrðs loftfars, sem hefur fengið útgefna undanþágu skv. 18. gr. skal óháð þyngd loftfarsins taka og viðhalda vátryggingu til greiðslu skaðabóta.
9. gr.
Auðkenning fjarstýrðra loftfara.
Fjarstýrð loftför skulu auðkennd a.m.k. með nafni, heimilisfangi og símanúmeri umráðanda.
10. gr.
Almennar tilvísanir til annarra laga og reglna.
Um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga með notkun fjarstýrðra loftfara fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Um heimildir til flugs í grennd við íbúðarhúsnæði eða annars staðar þar sem fólk dvelst og á athafnasvæðum gilda almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuverndar.
Við vinnslu persónuupplýsinga sem verða til við notkun fjarstýrðra loftfara gilda ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
II. KAFLI
Almenn skilyrði fyrir notkun fjarstýrðra loftfara.
11. gr.
Notkun fjarstýrðra loftfara.
Heimilt er að starfrækja fjarstýrð loftför, sem vega allt að 25 kg að hámarksþyngd, að uppfylltum skilyrðum II. kafla reglugerðar þessarar. Fyrir starfrækslu loftfara þyngri en 25 kg að hámarksþyngd þarf leyfi Samgöngustofu, sbr. 17. gr.
Umráðandi skal tryggja að notkun fjarstýrðra loftfara valdi ekki óþarfa ónæði eða hættu. Tryggja skal að notkunin skaði ekki fólk og dýr eða valdi tjóni á eignum. Í þessu skyni skal áður en flug er framkvæmt, skilgreina starfrækslusvæði þannig að tryggð sé nægjanleg fjarlægð frá fólki, dýrum og eignum.
Taka skal tillit til aðstæðna og umhverfis t.d. vegna hindrana, tíðni stjórntækja, veðurs o.fl.
Fjarflugmaður skal ekki vera undir áhrifum áfengis, annarra vímuefna eða sljóvgandi lyfja við stjórn fjarstýrðs loftfars.
Fjarflugmaður skal hafa þekkingu á virkni og stjórnun loftfarsins og fullvissa sig um að flugið geti verið starfrækt með öruggum hætti, m.a. með tilliti til gildandi flugreglna.
Sé fjarstýrt loftfar útbúið sjálfstýringu skal ávallt vera hægt að taka yfir stjórn loftfarsins í því skyni að forða árekstrum, t.d. við önnur loftför, fólk eða byggingar.
12. gr.
Takmarkanir á flugi fjarstýrðra loftfara.
1. Óheimilt er að fljúga fjarstýrðu loftfari yfir mannfjölda.
2. Innan þéttbýlis er eingöngu heimilt að fljúga í tómstundaskyni fjarstýrðu loftfari sem vegur að hámarki 3 kg.
3. Utan þéttbýlis er heimilt að fljúga fjarstýrðu loftfari sem vegur að hámarki 25 kg.
4. Fylgja skal fyrirmælum, takmörkunum og banni flugumferðarþjónustu, lögreglu, Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofu sem og annarra yfirvalda um flug fjarstýrðra loftfara á tilteknum svæðum, þ. á m. takmörkunum sem settar eru innan friðlýstra svæða á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli sérlaga sem um viðkomandi svæði kunna að gilda.
5. Samgöngustofu er heimilt að skilgreina tiltekin svæði, þ. á m. svæði innan þéttbýlis, sem svæði þar sem bannað er að fljúga fjarstýrðu loftfari og skulu þau svæði auglýst á vef Samgöngustofu. Samgöngustofu er heimilt að kveða á um að búnaður fyrir svæðishindranir skuli vera virkur ef flogið er á tilteknum svæðum.
6. Taka skal tillit til takmarkana sem settar eru fram í flugmálahandbók (sjá eaip.samgongustofa.is).
7. Taka skal tillit til allrar flugumferðar sem og annarrar umferðar. Fylgjast skal með loftrými þar sem flug á sér stað svo að hægt sé að stöðva flug/víkja ef loftför með stjórnanda um borð nálgast rýmið. Jafnframt skal þess gætt að flug trufli ekki aðra umferð s.s. skipa eða ökutækja eða sé til þess fallið að skerða athygli stjórnenda eða annarra um borð. Fjarstýrð loftför skulu víkja fyrir annarri umferð og óheimilt er að nýta fjarstýrt loftfar til að hafa áhrif á aðra umferð.
8. Óheimilt er að fljúga fjarstýrðu loftfari í meiri hæð en 120 m yfir láði og legi.
9. Flug fjarstýrðra loftfara skal ávallt fara fram í augsýn fjarflugmanns eða umsjónarmanns fjarstýrðs loftfars. Þó er heimilt að fljúga fjarstýrðu loftfari sem vegur minna en 3 kg úr augsýn fjarflugmanns sé um að ræða flug utan þéttbýlis og byggðra svæða, að því gefnu að aðskilnaður sé tryggður og að flug ógni ekki fólki, dýrum og loftförum með stjórnanda um borð eða sé til þess fallið að valda tjóni á eignum eða raska varpstöðvum eða búsvæðum villtra dýra.
10. Leyfi rekstraraðila flugvallar þarf til þess að fljúga fjarstýrðu loftfari innan flugvallarsvæða.
11. Leyfi rekstraraðila flugvallar þarf til þess að fljúga fjarstýrðu loftfari innan:
- 2 km frá svæðamörkum Keflavíkurflugvallar, Reykjavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar,
- 1,5 km frá svæðamörkum annarra áætlunarflugvalla,
að því undanskildu að flug er heimilt ef loftfarinu er flogið undir hæð hæstu mannvirkja í næsta nágrenni við flugferil loftfarsins.
12. Í kringum flugbrautir annarra flugvalla og lendingarstaða skal sýna ýtrustu varkárni og gæta fyllsta öryggis. Fjarstýrð loftför skulu ávallt víkja fyrir annarri flugumferð.
Upplýsingar um svæðamörk flugbrauta og áætlunarflugvelli er að finna á vef Samgöngustofu.
13. Óheimilt er að fljúga innan 150 metra fjarlægðar frá opinberum byggingum s.s. Alþingi, forsetabústað, ráðuneytum, lögreglustöðvum og fangelsum.
14. Lögregla, Landhelgisgæslan og aðrir viðbragðsaðilar almannavarna eins og þeir eru skilgreindir í reglugerð nr. 100/2009 um skipulag og störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna, eru undanþegnir takmörkunum í 1.-3., 8.-9. og 13. tl.
13. gr.
Fjarflugmaður og umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars.
Fjarflugmaður skal hafa þekkingu á virkni og stjórnun loftfarsins og fullvissa sig um að flugið geti verið starfrækt með öruggum hætti, hann skal m.a. hafa kunnáttu til að bregðast við vegna nauðlendingar loftfars. Umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars skal hafa þekkingu og hæfni til þess að aðstoða fjarflugmann við örugga framkvæmd flugs.
Samgöngustofu er heimilt að kveða á um að fjarflugmaður og/eða umsjónarmaður fjarstýrðs loftfars hafi lokið tiltekinni þjálfun/námskeiði í tengslum við starfrækslu loftfarsins og að þeir hafi staðist próf til staðfestingar hæfni sinni.
Samgöngustofu er heimilt að viðurkenna þjálfunaraðila skv. 2. mgr.
Staðfesting þjálfunaraðila sem viðurkenndur hefur verið í öðru EES-ríki, á hæfni fjarflugmanns og/eða umsjónarmanns, skal að jafnaði teljast fullnægjandi.
III. KAFLI
Sérstök skilyrði fyrir notkun fjarstýrðra loftfara sem ekki er flogið í tómstundaskyni.
14. gr.
Tilkynningar til Samgöngustofu.
Umráðendur fjarstýrðra loftfara með hámarksþyngd allt að 25 kg og sem ekki er flogið í tómstundaskyni skulu senda Samgöngustofu eftirfarandi upplýsingar áður en notkun þeirra hefst í fyrsta skipti:
upplýsingar um umráðanda, upplýsingar um loftfarið, upplýsingar um fyrirhugaða notkun, upplýsingar um hvort fyrirhugað er að fljúga í þéttbýli.
Breytingar á notkun skulu tilkynntar Samgöngustofu áður en þær koma til framkvæmda.
15. gr.
Skráning flugupplýsinga.
Allt flug samkvæmt kafla þessum skal skráð. Skráin skal innihalda a.m.k. eftirfarandi atriði:
- dagsetningu flugs,
- staðsetningu flugs,
- framleiðanda og tegund loftfars,
- nafn fjarflugmanns loftfars,
- auðkenni loftfars,
- flugtaks- og lendingartíma,
- heildarflugtíma,
- tegund verkefnis og frávik ef við á.
Geyma þarf flugupplýsingar í þrjú ár.
16. gr.
Notkun fjarstýrðra loftfara í öðrum tilgangi en til tómstunda innan þéttbýlis.
Innan þéttbýlis er heimilt að fljúga fjarstýrðu loftfari sem vegur 7 kg eða minna að hámarksþyngd og tilkynnt hefur verið til Samgöngustofu, sbr. 14. gr. Áður en slíkt flug á sér stað skal umráðandi gera öryggismat, þar sem áhætta af þeirri tegund starfsemi sem hann hyggst framkvæma, er metin og viðeigandi mildunarráðstafanir eru útfærðar og þeim komið í framkvæmd. Öryggismatið skal innihalda að lágmarki:
- lýsingu á því hvernig tryggt sé að flugið eigi sér stað eingöngu innan skilgreinds svæðis (bæði lárétt og lóðrétt),
- lýsingu á því hvernig aðskilnaður frá öðrum loftförum verður tryggður,
- lýsingu á því hvernig brugðist verður við óvæntum aðstæðum svo sem eins og bilun í fjarskiptabúnaði og sjónarmissi. Upplýsingar þær sem kveðið er á um í málsgreininni skal varðveita í a.m.k. þrjá mánuði eftir að umráðandi hefur hætt starfsemi og skal komið á framfæri við Samgöngustofu óski stofnunin þess.
Lögreglu, Landhelgisgæslu og öðrum viðbragðsaðilum almannavarna eins og þeir eru skilgreindir í reglugerð nr. 100/2009 um skipulag og störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna er heimilt að víkja frá framkvæmd öryggismats þegar aðstæður krefjast þess.
17. gr.
Leyfi vegna notkunar fjarstýrðra loftfara yfir 25 kg.
Leyfi Samgöngustofu þarf til notkunar allra fjarstýrðra loftfara sem vega meira en 25 kg að hámarksþyngd. Samgöngustofa setur nánari skilyrði leyfis, sbr. viðauka við reglugerðina.
IV. KAFLI
Önnur ákvæði.
18. gr.
Undanþágur.
Að því er varðar fjarstýrð loftför sem ekki eru starfrækt í tómstundaskyni og að því gefnu að öryggi sé ekki stefnt í hættu getur Samgöngustofa veitt undanþágur frá takmörkunum í 12. gr. reglugerðarinnar og frá þyngdartakmörkunum í 16. gr.
Áður en Samgöngustofa heimilar undanþágur samkvæmt grein þessari skal umsækjandi koma eftirfarandi gögnum á framfæri við Samgöngustofu:
- öryggismati fyrir þá notkun sem fyrirhuguð er, þ. á m. lýsingu á þeim ráðstöfunum eða mildunaraðgerðum sem gerðar eru til að tryggja ásættanlega áhættu við notkunina. Öryggismatið skal innihalda að lágmarki:
- lýsingu á því hvernig tryggt sé að flugið eigi sér stað eingöngu innan skilgreinds svæðis (bæði lárétt og lóðrétt) sem óskað er eftir fyrir notkunina,
- lýsingu á því hvernig aðskilnaður/fjarlægð frá öðrum loftförum verður tryggður,
- lýsingu á því hvernig brugðist verður við óvæntum aðstæðum svo sem eins og við bilun í fjarskiptabúnaði eða sjónarmissi;
- rekstrarhandbók, eða önnur fullnægjandi gögn, þar sem fram kemur lýsing á bæði venjubundinni notkun og einnig verklagi þegar bilun kann að koma upp sem og neyðaráætlun vegna nauðlendingar;
- staðfestingu á tryggingum;
- lýsingu á tækjum og búnaði sem notast skal við;
- lýsingu og kort af því svæði sem fljúga á yfir, þ.m.t. því loftrými sem óskað er eftir að fljúga innan (hliðar- og hæðarmörk);
- lýsingu á þeirri starfrækslu sem óskað er leyfis fyrir;
- upplýsingar um hæfni og þjálfun fjarflugmanns og/eða umsjónarmanns fjarstýrðs loftfars.
Samgöngustofu er heimilt að gera kröfu um staðfestingu frá eiganda eða umráðanda landsvæðis, lögreglu, veitanda flugumferðarþjónustu og sveitarstjórn eða öðrum stjórnvöldum, um að ekki sé gerð athugasemd við fyrirhugað flug eða starfrækslu.
19. gr.
Gjaldtaka.
Samgöngustofa innheimtir gjald vegna útgáfu leyfa og undanþága í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar.
20. gr.
Kæruheimild.
Ákvarðanir Samgöngustofu eru kæranlegar til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og laga um Samgöngustofu.
21. gr.
Viðurlög.
Brjóti umráðandi gegn skilyrðum undanþágu eða leyfis sem Samgöngustofa hefur gefið út, getur Samgöngustofa afturkallað undanþáguna eða leyfið. Samgöngustofa getur lagt dagsektir eða févíti á handahafa leyfis eða undanþágu sem brýtur gegn ákvæðum þeirra, sbr. 3. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum, sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.
22. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 2. gr., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi 15. desember 2017.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 27. október 2017.
Jón Gunnarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
VIÐAUKI (sjá PDF-skjal)
|