I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi fjallar um afrekssjóð í skák samkvæmt lögum nr. 100/2024 um skák.
2. gr.
Yfirstjórn.
Ráðherra sem fer með yfirstjórn mála sem varða skák ber ábyrgð á starfrækslu afrekssjóðs í skák og úthlutunar styrkjum úr sjóðnum. Stjórn afrekssjóðs í skák fer með umsýslu sjóðsins.
3. gr.
Markmið.
Markmiðið með reglugerðinni er að búa afreksskákfólki og efnilegu skákfólki fjárhagslega og faglega umgjörð til að hámarka árangur sinn í skák.
Styrkveitingar skulu hafa það að meginmarkmiði að styðja við afreksfólk og efnilegt skákfólk sem stefnir að alþjóðlegum árangri, efla starfsemi á sviði afreksmála og bæta árangur keppnisfólks sem hyggur á hámarksárangur á alþjóðavísu í skák.
II. KAFLI
Stjórn afrekssjóðs í skák.
4. gr.
Stjórn.
Ráðherra skipar þrjá fulltrúa í stjórn afrekssjóðs í skák til þriggja ára í senn, tvo samkvæmt tilnefningum Skáksambands Íslands og einn án tilnefningar. Varafulltrúar skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalfulltrúa en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Ekki er heimilt að skipa sama einstakling aðalfulltrúa í stjórn lengur en tvö samfelld starfstímabil.
Við skipan í stjórn afrekssjóðs í skák skal gætt að jöfnu hlutfalli kynja eins og nánar er kveðið á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
5. gr.
Hlutverk stjórnar.
Stjórn afrekssjóðs í skák gerir tillögu til ráðherra um stefnu við úthlutun styrkja úr sjóðnum til þriggja ára í senn, gerir tillögu til ráðherra um styrkveitingar úr sjóðnum, sbr. 6. gr. og fylgist með því að skákfólk sem fær úthlutað úr sjóðnum fari eftir skilmálum úthlutunar og gerir ráðherra viðvart ef svo er ekki. Þegar stjórn afrekssjóðs í skák tekur þátt í undirbúningi stjórnsýslumála skal hún gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af fjárframlögum sjóðsins, samkvæmt ákvörðun ráðherra.
6. gr.
Stefna við úthlutun styrkja.
Ráðherra skal setja stefnu við úthlutun styrkja úr afrekssjóði í skák til þriggja ára í senn að fenginni tillögu stjórnar sjóðsins.
Í stefnu skal meðal annars koma fram:
- Hlutfall styrkja sem stefnt er að því að veita annars vegar til afreksskákfólks og hins vegar til efnilegs skákfólks.
- Viðmiðunarfjárhæðir.
- Skákmót sem litið er til við mat á umsóknum.
- Þátttöku í kostnaði við ferðalög.
- Áherslur á kennslu og fræðslu í skák.
III. KAFLI
Málsmeðferð styrkja.
7. gr.
Auglýsing.
Ráðherra auglýsir ár hvert eftir umsóknum um styrki úr afrekssjóði í skák.
Auglýsing er undirbúin af stjórn afrekssjóðs í skák. Hún skal vera í samræmi við stefnu og áherslur við úthlutun styrkja úr sjóðnum og skal þar greina frá skilyrðum úthlutunar ásamt viðmiðunarfjárhæðum. Í auglýsingu skulu m.a. koma fram greinargóðar upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, form umsókna og umsóknarfrestur.
Birta skal auglýsingu með þeim hætti að líklegt sé að þeir sem uppfylli skilyrði til styrkveitinga úr sjóðnum verði hennar varir. Stjórn sjóðsins leggur til birtingarhátt við ráðherra.
Auglýst skal eftir umsóknum eigi síðar en 1. október ár hvert fyrir næsta ár á eftir og skal umsóknarfrestur að jafnaði vera eigi skemmri en sex vikur.
8. gr.
Umsóknir.
Umsóknum um styrk úr afrekssjóði í skák skal skilað á því formi sem ráðherra ákveður.
Í umsókn skal með hnitmiðuðum hætti gera grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hyggst vinna. Þar skulu jafnframt koma fram aðrar upplýsingar sem óskað er eftir hverju sinni.
Í umsókn skulu eftirfarandi atriði koma fram:
- Almennar upplýsingar um umsækjanda.
- Tímabil sem sótt er um ásamt tíma- og kostnaðaráætlun.
- Skákmót sem umsækjandi stefnir að þátttöku í.
- Nánari lýsing á markmiðum umsækjanda og hvernig umbeðinn styrkur nýtist til að ná markmiðunum.
9. gr.
Mat á umsóknum.
Eftir að umsóknarfrestur rennur út skal stjórn afrekssjóðs í skák taka umsóknir til meðferðar og gera rökstudda tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Við mat á umsóknum skal líta til ákvæða reglugerðar þessarar, stefnu til þriggja ára við úthlutun styrkja úr sjóðnum, skilyrða sem sett voru í auglýsingu um styrkina og eftir atvikum annarra málefnalegra sjónarmiða. Við mat á umsóknum skal gæta þess að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu reistar á faglegum sjónarmiðum.
Eftir að tillaga afrekssjóðsins liggur fyrir er ráðherra heimilt að óska eftir því við stjórn sjóðsins að taka umsóknirnar aftur til meðferðar, þ.m.t. veita frekari rökstuðning fyrir mati stjórnar á umsóknunum.
10. gr.
Tilkynning um afgreiðslu umsókna og samningsgerð við styrkþega.
Ráðherra tilkynnir umsækjendum um afgreiðslu umsókna og upplýsir stjórn afrekssjóðsins um þær.
Í kjölfarið gerir stjórn afrekssjóðs samning um verkefni sem hlotið hafa styrk við styrkþega. Í samningi skal gera grein fyrir kröfum sem gerðar eru til styrkþega á því tímabili sem hann hlýtur styrk. Meðal annars er heimilt að gera þær kröfur til umsækjenda að þeir njóti ekki annarra launa eða greiðslna á því tímabili sem styrkurinn nær til.
Ákvarðanir um úthlutanir eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru. Réttur til rökstuðnings samkvæmt stjórnsýslulögum gildir ekki um ákvarðanir um úthlutun úr sjóðnum. Miðað skal við að úthlutun styrkja sé tilkynnt fyrir 1. febrúar ár hvert.
IV. KAFLI
Mat á umsóknum.
11. gr.
Skilyrði úthlutunar.
Skilyrði þess að fá úthlutun úr afrekssjóði í skák eru eftirfarandi:
- Styrkþegi skal vera á aldrinum 18 til 70 ára. Í undantekningartilvikum er heimilt að veita styrki til umsækjanda sem er yngri en 18 ára.
- Styrkþegi skal keppa í skák fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vettvangi sé hann valinn til þess af Skáksambandi Íslands nema að lögmæt forföll hamli. Til lögmætra forfalla teljast til dæmis alvarleg veikindi, slys, náttúruhamfarir, heimsfaraldur og sambærilegir þættir sem aðili hefur ekki stjórn á sem verður til þess að hann geti ekki tekið þátt.
Til að bæta stöðu og auka möguleika kvenna í skák er heimilt að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin. Þannig skal a.m.k. veita einni konu styrk ár hvert ef slík umsókn liggur fyrir uppfylli hún skilyrði 11. gr. reglugerðarinnar.
Ef styrkþegi hefur ekki nýtt fyrri styrk úr afrekssjóðnum í þeim tilgangi sem ætlað var skal honum að jafnaði ekki veittur styrkur úr sjóðnum.
12. gr.
Mat á umsóknum afreksskákmanna.
Með afreksskákfólki er átt við þá sem hlotið hafa nafnbótina stórmeistari í skák, náð hafa alþjóðlegum meistaratitli, hafa lokið áföngum í því að hljóta nafnbótina stórmeistari eða hafa lokið áföngum að alþjóðlegum meistaratitli. Með stórmeistaraárangri í reglugerð þessari er átt við stórmeistaraáfanga samkvæmt reglum alþjóðaskáksambandsins FIDE og stórmeistari kvenna í skák.
Við mat á umsóknum afreksskákfólks um styrki úr afrekssjóði í skák skal litið til eftirfarandi þátta:
- Skákstiga og stöðu umsækjanda á heimslista.
- Mikilvægi og styrkleiki móta sem umsækjandi stefnir að.
- Virkni umsækjanda síðastliðna tólf mánuði. Þó er heimilt að líta til annarra tímabila vegna sérstakra ástæðna, til að mynda fæðingarorlofs eða veikinda.
- Annarra starfa umsækjanda.
Að öðru leyti skal fara eftir stefnu sjóðsins, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar.
13. gr.
Mat á umsóknum efnilegs skákfólks.
Með efnilegu skákfólki er átt við þá sem stefna að áföngum að alþjóðlegum meistaratitlum og eru líklegir til að ná slíkum árangri.
Við mat á umsóknum efnilegs skákfólks um styrki úr afrekssjóði í skák skal litið til eftirfarandi þátta:
- Aldurs.
- Skákstiga.
- Mikilvægi og styrkleiki móta sem umsækjandi stefnir að.
- Virkni umsækjanda síðastliðna tólf mánuði. Þó er heimilt að líta til annarra tímabila vegna sérstakra ástæðna, til að mynda fæðingarorlofs eða veikinda.
V. KAFLI
Eftirfylgni.
14. gr.
Styrkur styrkþega.
Styrkþegar skulu gera skýrslu um ráðstöfun styrks úr afrekssjóði í skák. Skýrslan skal send stjórn sjóðsins ásamt fyrirliggjandi gögnum sem staðfesta ráðstöfun styrks fyrir lok samningstímabils.
Ráðherra og stjórn afrekssjóðsins er ávallt heimilt að óska eftir skýringum frá styrkþegum varðandi ráðstöfun styrks.
Ef styrkurinn hefur ekki verið nýttur í þeim tilgangi sem ætlað var, eða fyrirséð er að styrkur verði ekki nýttur í þeim tilgangi getur ráðherra, að fenginni afstöðu sjóðstjórnar, krafist þess að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta.
VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
15. gr.
Skýrslur stjórnar.
Stjórn afrekssjóðs í skák skal eigi sjaldnar er annað hvert ár gefa út skýrslur um starfsemi sína.
16. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. gr. laga nr. 100/2024 um skák og öðlast gildi 1. febrúar 2025.
Ákvæði til bráðabirgða.
Stórmeistari í skák, sem gegndi starfi og fékk laun á grundvelli laga nr. 58/1990, nýtur forgangs til styrkja úr afrekssjóði í skák sem veittir verða árið 2025.
Mennta- og barnamálaráðuneytinu, 19. nóvember 2024.
Ásmundur Einar Daðason.
|