I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
Markmið Hveragerðisbæjar með akstursþjónustu við fatlað fólk er að gera þeim, sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar, kleift að stunda atvinnu og nám, hæfingu, sækja heilbrigðisþjónustu og njóta tómstunda. Haft er að leiðarljósi að aðstoða fatlað fólk til fullrar þátttöku í samfélaginu og til sjálfstæðs lífs eins og kostur er hverju sinni.
2. gr.
Réttur til akstursþjónustu.
Rétt til akstursþjónustu eiga þeir íbúar Hveragerðisbæjar með lögheimili í sveitarfélaginu sem:
- Geta ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar.
- Eiga ekki bifreið sem keypt er með styrkjum frá Tryggingastofnun ríkisins.
- Eiga ekki rétt á akstursþjónustu eða niðurgreiddri akstursþjónustu á grundvelli annarra reglna, laga eða reglugerða.
Þjónustusvæði akstursþjónustu Hveragerðisbæjar við fatlað fólk nær yfir svæði innan marka Hveragerðisbæjar auk þess sem hún nær til miðlægra þjónustueininga á Selfossi.
Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna færðar, tímabundinna veikinda, bilunar á bifreið sem umsækjandi hefur til umráða eða annarra sérstakra aðstæðna.
3. gr.
Akstursþjónusta fyrir fötluð börn.
Foreldrar/forsjáraðilar fatlaðra barna geta sótt um akstursþjónustu fyrir börn sín til að sækja heilbrigðisþjónustu, vegna tómstundaiðkunar eða annarrar félagslegrar þátttöku.
Börn yngri en sex ára skulu ávallt vera í fylgd fullorðins einstaklings þegar þau ferðast með akstursþjónustu við fatlað fólk. Þurfi barn barnabílstól er það á ábyrgð foreldra/forsjáraðila barnsins að útvega hann. Um aðstoðarmenn gilda sömu reglur og fyrir fullorðna einstaklinga.
Reglur þessar taka ekki til skólaaksturs barna í grunnskóla, skv. 22. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Fötluð börn og ungmenni geta átt rétt á akstursþjónustu samkvæmt reglum þessum til og frá grunn- og framhaldsskóla innan sveitarfélagsins með sömu skilyrðum og getið er um í 2. gr. þessara reglna.
Geti barn ekki nýtt sér akstursþjónustu við fatlað fólk þá er heimilt að gera tímabundinn akstursþjónustusamning við foreldri/forsjáraðila eða náinn aðstandanda um að sinna akstri gegn gjaldi. Skal gjaldið hverju sinni taka mið af almennu gjaldi samkvæmt gildandi auglýsingu ferðakostnaðarnefndar um akstursgjald ríkisstarfsmanna.
4. gr.
Inntak þjónustu og umfang.
Ferð er skilgreind sem akstur milli tveggja staða en ekki akstur fram og til baka. Viðmið um ferðafjölda skal taka mið af þörfum hvers og eins. Ferðir til og frá skóla, vinnu, hæfingu og vegna heilbrigðisþjónustu ganga fyrir öðrum ferðum.
Fjöldi ferða til annarra erinda en greinir hér að framan skal metinn í samráði við hvern og einn umsækjanda en við það skal miðað að þær verði ekki fleiri en 18 í mánuði að jafnaði og heildarfjöldi ferða eigi fleiri en 64 að jafnaði í mánuði sé akstur vegna tómstundaiðkunar talinn með.
5. gr.
Tilhögun ferða.
Akstursþjónusta fatlaðra er sérhæfð þjónusta og byggist á samnýtingu ökutækja þannig að fleiri farþegar ferðast að jafnaði saman.
Farþegi skal vera tilbúinn til brottfarar á umsömdum tíma í anddyri á tilgreindum brottfararstað. Biðtími fyrir farþega skal að jafnaði ekki fara yfir tíu mínútur frá umsömdum tíma. Þurfi farþegi aðstoð við að komast í og úr bifreið og að/frá heimili sínu skal ökumaður aðstoða hann við það sé þess nokkur kostur. Aðstæður skulu metnar út frá öryggi annarra farþega.
Miða skal við að ferðatími milli staða sé svipaður og hjá almenningsvögnum. Ferðatími skal ekki vera lengri en 30 mínútur í senn. Farþegar þurfa að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun, s.s. vegna færðar og umferðartafa á annatímum.
Ekki er beðið á meðan farþegi sinnir erindi sínu. Farþega sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu enda hafi það ekki verið vitað fyrir fram hve viðtalið tæki langan tíma. Bílstjórum er ekki heimilt að sinna sendiferðum fyrir farþega.
Farþegum akstursþjónustu skal sýnd tilhlýðileg virðing og sveigjanleiki. Bifreiðastjórum sem annast akstursþjónustu er heimilt að synja akstri í einstöku tilvikum séu til þess ríkar ástæður vegna ástands farþega.
II. KAFLI
Umsóknir og mat á þeim.
6. gr.
Umsóknir um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
Umsókn um akstursþjónustu skal berast fræðslu- og velferðarsviði Hveragerðisbæjar á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má á skrifstofu fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar og á heimasíðu Hveragerðisbæjar. Í umsókn skulu koma fram almennar upplýsingar um notanda s.s. fötlun, aðstæður, óskir um fjölda ferða og í hvaða tilgangi þær eru farnar.
7. gr.
Samvinna og ráðgjöf.
Við meðferð umsókna, öflun gagna og upplýsinga sem og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda, eftir því sem unnt er, forsjáraðila ef um barn er að ræða, en að öðrum kosti við persónulegan talsmann umsækjanda eða umboðsmann hans ef við á. Persónulegur talsmaður skal leggja fram samkomulag við hinn fatlaða, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði.
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar og leiðbeiningar um önnur réttindi sem hann kann að eiga. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna umsóknar um akstursþjónustu við fatlað fólk.
8. gr.
Mat á umsókn.
Starfsmenn fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar leggja mat á umsókn og ákveða umfang og tímalengd þjónustunnar. Umsókn er metin með hliðsjón af getu og færni notanda og möguleika hans til að nýta sér þjónustu almenningsfarartækja og/eða annarra ferðamöguleika. Við mat á umsókn um akstursþjónustu er einkum stuðst við viðurkennt staðlað mat á þjónustuþörf einstaklings á hverjum tíma, ef slíkt er fyrirliggjandi. Þá er stuðst við gögn sem umsækjandi leggur fram, eftir því sem við getur átt, og önnur gögn sem kann að vera aflað við málsmeðferðina. Ef sótt er um akstursþjónustu sem ekki fellur undir reglur þessar er umsókn tekin fyrir á teymisfundi fræðslu- og velferðarsviðs.
9. gr.
Undanþágur.
Umsókn um undanþágu vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna fjölda ferða og tímabundinna veikinda skal berast í gegnum íbúagátt, á heimasíðu Hveragerðisbæjar eða til fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar.
10. gr.
Tímabundin akstursþjónusta utan þjónustusvæðis.
Þegar notandi akstursþjónustu við fatlað fólk dvelur tímabundið utan þjónustusvæðis, sbr. 2. gr., og óskar eftir akstursþjónustu við fatlað fólk þar sem hann er staddur skal samþykki Hveragerðisbæjar liggja fyrir um greiðslu kostnaðar vegna akstursþjónustunnar og samþykki dvalarsveitarfélags um veitingu þjónustunnar. Samþykki á grundvelli þessa ákvæðis er ávallt tímabundið.
III. KAFLI
Framkvæmd þjónustu.
11. gr.
Kröfur til ökutækja, ökumanna og starfsmanna akstursþjónustu.
Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu við fatlað fólk skulu uppfylla ákvæði gildandi laga og reglugerða sem um starfsemina gilda auk þess sem hafa ber hliðsjón af leiðbeiningum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu við fatlað fólk.
Ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu við fatlað fólk skulu skrifa undir yfirlýsingu um trúnað. Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu við fatlað fólk skal hafa aukin ökuréttindi, hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla.
Ökumaður þarf einnig að hafa setið námskeið um þjónustu við fatlað fólk, til þess að vera vel búinn undir það verkefni að sinna ólíkum notendum og til að auka skilning og hæfni við veitingu þjónustunnar. Ökumaður skal leggja fram sakavottorð við umsókn sína um starf.
Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs eða annarrar þjónustu við fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
12. gr.
Annars konar akstursþjónusta við fatlað fólk.
Ef akstursþjónusta við fatlað fólk byggist á notkun leigubifreiða eða einkabifreiða starfsfólks, sem sinnir félagslegri heimaþjónustu eða liðveislu, skal gera einstaklingsbundna samninga um slíkt fyrirkomulag. Í samningi milli hins fatlaða, starfsmanns og sveitarfélagsins skal kveðið á um greiðslu kostnaðar og tryggingamál.
Starfsmaður fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar skipuleggur akstursáætlun í samvinnu við bílstjóra með þarfir notanda í huga.
Við framkvæmd þjónustunnar skal taka mið af því að farþegum sé sýnd tilhlýðileg virðing og sveigjanleiki.
IV. KAFLI
Málsmeðferð.
13. gr.
Könnun á aðstæðum og afgreiðsla umsóknar.
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um akstursþjónustu hefur borist. Umsókn um akstursþjónustu skal afgreidd af starfsmönnum fræðslu- og velferðarsviðs svo fljótt sem unnt er og skulu þeir jafnframt sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
Umsókn skal svarað skriflega innan fjögurra vikna frá því að hún berst. Ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla tefjist skulu starfsmenn fræðslu- og velferðarsviðs upplýsa umsækjanda um tafirnar og hvenær fyrirsjáanlegt er að umsóknin verði afgreidd.
14. gr.
Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum. Starfsmenn eru bundnir trúnaði og skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu um persónulega hagi notenda og fara með allar upplýsingar sem þeir fá sem trúnaðarmál. Starfsmenn skrifa undir þagnarheit og helst þagnarskyldan þótt látið sé af störfum. Starfsmönnum er ekki heimilt að taka við gjöfum eða greiðslum frá umsækjendum eða aðstandendum þeirra.
15. gr.
Kynning á ákvörðun um veitingu akstursþjónustu og heimild til endurupptöku ákvörðunar.
Kynna skal niðurstöðu umsóknar um akstursþjónustu fyrir umsækjanda með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er, sbr. 13. gr. Ef fyrirhugað er að synja umsókn í heild eða að hluta skal umsækjanda veitt færi á að koma að andmælum við þá niðurstöðu innan tveggja vikna.
Sé umsókn synjað í heild eða að hluta skal niðurstaðan kynnt umsækjanda skriflega þar sem synjunin er rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða reglna þessara og/eða annarra reglna eða laga sem við eiga. Jafnframt skal umsækjanda kynntur réttur sinn til að óska eftir endurupptöku ákvörðunarinnar, sbr. 16. gr.
16. gr.
Endurupptaka ákvörðunar.
Umsækjandi getur óskað endurupptöku ákvörðunar um synjun umsóknar í heild eða að hluta hjá bæjarráði Hveragerðisbæjar. Skal það gert skriflega innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um endanlega ákvörðun í málinu. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðuninni er unnt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 17. gr.
17. gr.
Kæruheimild.
Umsækjandi getur skotið ákvörðun um synjun á umsókn í heild eða að hluta til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kæra telst nógu snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.
18. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar eru settar skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Einnig er í reglum þessum stuðst við leiðbeiningar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu við fatlað fólk.
Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.
Reglur þessar voru samþykktar af velferðar- og fræðslunefnd Hveragerðisbæjar 21. október 2024 og samþykktar af bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 14. nóvember 2024 til að öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.
Hveragerði, 20. nóvember 2024.
Pétur G. Markan bæjarstjóri.
|