Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1529/2024

Nr. 1529/2024 4. desember 2024

SAMÞYKKT
um fráveitur í Hvalfjarðarsveit.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitur í Hvalfjarðarsveit, sbr. skilgreiningu í 3. tölul. 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, og nær til allra fasteigna íbúðarhúsnæðis, frístunda­húsa, stofnana og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Samþykktin nær til allra fráveitna, þar með talið allra mannvirkja sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem skólp­hreinsi­­stöðva, rotþróa með siturlögn, set- og sandskilja, fellitanka og olíu- og fitugildra.

Kröfur um söfnun, hreinsun og losun fráveitu byggja á lögum um hollustuhætti og mengunar­varnir, nr. 7/1998, og reglugerð nr. 796/1999 um fráveitur og skólp, reglugerð nr. 799/1999 um með­höndlun seyru, reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, hefur heilbrigðisnefnd Vestur­lands eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Sveitarstjórn heldur skrá yfir hreinsivirki, svo sem rotþrær og siturlagnir þeirra og settanka og færir staðsetningu þeirra í skipulags­áætlanir sveitarfélagsins. Þeir aðilar sem sjá um losun og meðhöndlun seyru skulu hafa til þess tilskilin starfs­leyfi í samræmi við reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunar­varna­eftirlit.

 

2. gr.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. Skýra skyldur sveitarfélagsins og notenda hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir.
  2. Tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið.
  3. Skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna.
  4. Stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

 

II. KAFLI

Fráveitur.

3. gr.

Hvalfjarðarsveit ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Umhverfis- og skipulagsdeild fer með umsjón, framkvæmdir og rekstur fráveitna sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar. Hvalfjarðar­sveit starfrækir fráveitu í þéttbýlinu í Melahverfi. Sveitarfélagið getur tekið að sér fráveitu á öðrum svæðum í sveitarfélaginu í samræmi við 6. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um upp­byggingu og rekstur frá­veitna. Sveitarsjóður kostar rekstur fráveitna sveitarfélagsins og fram­kvæmdir við þær. Sveitar­félagið sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga. Sveitarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveitur og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun sveitarsjóðs til reksturs og framkvæmda við þær. Sveitarstjórn eða félagi í eigu sveitarfélaga er heimilt að gera þjónustusamninga við einkaaðila um rekstur fráveitu sveitar­félagsins, að hluta til eða öllu leyti. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi sem er að meirihluta í eigu sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna samkvæmt 6. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

 

4. gr.

Fráveitur veita frárennsli sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn hita­veitu, kælivatn og ræsisvatn um fráveitulagnir frá byggð til hreinsivirkis. Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum fráveitulögnum.

Sveitarsjóður er eigandi fráveitna sveitarfélagsins að heimæðum húseigna. Óheimilt er að leggja fráveitulögn og tengja í aðalfráveitu nema með leyfi sveitarstjórnar og er öllum skylt að lúta í einu og öllu fyrirmælum um gerð og legu fráveitna.

 

5. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær til skal húseigendum séð fyrir tengingu frá fráveitukerfi að heimæð húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn. Umhverfis- og skipulagsdeild sveitarfélagsins, undir yfirstjórn sveitarstjórnar, eða sá aðili sem falin hefur verið framkvæmd og rekstur fráveitna, ákveður legu götuholræsa og tengigreina. Umhverfis- og skipulagsdeild er heimilt að fela sérstökum umsjónarmanni yfirstjórn fráveitukerfisins.

 

6. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita sveitarfélagsins liggur er skylt að annast, á sinn kostnað, lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Lagnirnar skulu tengjast lögnum fráveitu á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem sveitarfélagið tilgreinir. Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda skólpi aðskildu frá ofanvatni og bakrennslisvatni hitaveitu og skal leitast við að leiða ofanvatn í blágrænar ofanvatns­lausnir. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, reglugerðar um fráveitur og skólp og reglugerðar um meðhöndlun seyru.

 

7. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á frárennslislögn húseignar að fráveitu sveitar­félagsins skal húseigandi leiða frárennsli frá húseigninni að stöku hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn eða safnbrunni, þannig staðsettu að hægt sé að veita frárennsli frá hreinsivirkinu í fráveitu sveitarfélagsins. Hafi fráveita ekki verið komin þegar húseign var byggð skal húseigandi kosta og tengja fráveitu húseignar sinnar við fráveitu sveitarfélagsins eftir að hún hefur verið lögð í sam­ræmi við sam­þykkta upp­drætti og gild­andi bygg­ing­ar­reglu­gerð.

 

III. KAFLI

Uppsetning og framkvæmd fráveitna og rotþróa eða annarra hreinsivirkja.

8. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær ekki til skulu húseigendur leiða frárennsli húsa um hreinsi­virki. Kerfisbundin söfnun og sameiginlegt hreinsivirki skal þó vera á svæðum sem falla undir 3. og 4. mgr. 4. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009. Enn fremur skal sveitar­stjórn setja ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki inn í deiliskipulag þar sem það á við.

Húseigandi kostar niðursetningu og annan frágang staks hreinsivirkis, svo sem rotþróa með situr­lögn, og lagna svo og viðhald þeirra en sveitarstjórn getur sett sérstakar reglur um stuðning við fram­kvæmdirnar. Rotþró með siturlögn og önnur hreinsivirki skulu samþykkt af byggingar­fulltrúa. Gerð og hönnunarforsendur rotþróar eru háðar samþykki heilbrigðisnefndar og skulu vera í samræmi við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.

Hverja rotþró og önnur hreinsivirki skal hreinsa og tæma eftir þörfum samkvæmt nánari ákvæðum samþykktar þessarar. Hreinsun fer fram á vegum Hvalfjarðarsveitar. Um meðhöndlun seyru fer samkvæmt reglugerð um meðhöndlun seyru. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum aðilum með­höndlun seyru og framkvæmd hreinsunar. Meðhöndlun seyru er háð starfsleyfi heilbrigðis­nefndar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Farga skal seyru á viðurkenndri móttöku­stöð í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

9. gr.

Þegar tengja skal heimæð húseigna við fráveitu sveitarfélagsins eða veita frárennsli frá þeim um hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, skal sækja um það til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins á þar til gerðum rafrænum eyðublöðum. Umsóknir skulu undirritaðar af húseigendum eða fullgildum umboðsmönnum þeirra. Sé þörf á er umhverfis- og skipulagsdeild heimilt að óska eftir teikningum af fráveitulögnum húsa og lóða sem tengja á fráveitu sveitarfélagsins, ásamt teikningum sem sýna gerð hreinsivirkis, stærð og staðsetningu þess. Hreinsivirki skal valinn þannig staður að auðvelt sé að komast að því með tæki til hreinsunar.

 

10. gr.

Teikningar skulu gerðar í samræmi við almennar reglur um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. byggingarreglugerð, íslenska staðla og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

 

11. gr.

Byggingarstjóri viðkomandi húseignar skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðurkenna fráveitu frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu sveitarfélagsins eða stök hreinsi­virki, svo sem rotþrær og siturlagnir.

 

12. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald og hreinsun. Sveitarfélaginu er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

 

13. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og stakra hreinsivirkja á sinn kostnað og gæta þess að þær stíflist ekki. Óheimilt er að láta í fráveitu sveitarfélagsins blaut­þurrkur, olíur, bensín, lífræn leysiefni, önnur spilliefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins eða skaðað viðtaka. Eigendum húseigna sem skylt er að hafa fitu- eða olíugildru á fráveitu bera ábyrgð á að slíkum búnaði sé komið fyrir og viðhaldið. Olíugildru skal setja þar sem unnið er með olíur og hætta er á að olía geti borist í niðurföll s.s. á smur- og bifreiða­verkstæðum. Fitugildrur skulu vera á fráveitum rekstraraðila þar sem hætta er á að fita berist í fráveitu s.s. stóreldhús. Um mengunarvarnir fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo og starfsleyfum.

 

14. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá fráveitu sveitarfélagsins flæði til baka um frárennslis­lagnir frá húsum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða öðrum orsökum skulu húseigendur koma fyrir sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll eða gera aðrar sambærilegar ráðstafanir.

 

15. gr.

Hreinsibúnaður svo sem rotþró, lífræn hreinsistöð, safntankur og lagnir eru eign húseigenda sem kosta niðursetningu og annan frágang svo og viðhald þeirra en sveitarstjórn getur sett sérstakar reglur um stuðning við framkvæmdirnar.

Tilkynning um lagningu á nýjum hreinsibúnaði, s.s. rotþró, lífrænni hreinsistöð eða safntanki, skal senda byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar. Umsókn skal fylgja sérteikning sem sýnir gerð og stað­setningu.

Rotþró skal að jafnaði ekki staðsetja nær húseign en sem nemur fimm metrum. Sama gildir um fjarlægð rotþróar að nærliggjandi lóðarmörkum. Sé þörf á að hafa rotþró nær skal lofta hana með lögnum sem ná upp fyrir mæni húss. Verði rotþró og situr- eða sandsíulögn ekki komið niður innan lóðar viðkomandi húseignar skal leita samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar.

 

18. gr.

Í rotþró skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn úr öllum niðurföllum innanhúss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum né þakvatn og annað yfirborðsvatn í rotþró.

 

19. gr.

Frárennsli frá rotþró skal leitt um siturlögn. Frárennslislögn frá rotþró skal hafa vatnshelt útloft­unarop.

 

V. KAFLI

Hreinsun seyru og setefna.

20. gr.

Hvalfjarðarsveit annast hreinsun rotþróa (þ.e. tæmingu og förgun seyru) frá samþykktu íbúðar- og frístundahúsi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd verksins. Eingöngu aðilar með starfsleyfi til holræsahreinsunar skv. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnu­rekstur sem getur haft í för með sér mengun, mega annast framkvæmdina.

 

21. gr.

Húseigandi skal sjá um að greiður aðgangur sé fyrir hreinsitæki að rotþrónni. Eigendur húseigna í Hvalfjarðarsveit sem ekki falla undir 20. gr. og eru tengdir við rotþróarkerfi eru sjálfir ábyrgir fyrir reglubundinni tæmingu og hreinsun rotþróa sinna. Eigendur skulu tryggja að við notkun rotþróar­kerfis verði ekki mengun í nágrenni hennar.

 

22. gr.

Hreinsun seyru skal að öllu jöfnu framkvæmd þriðja hvert ár við allar stofnanir sveitarfélagsins, íbúðar- og frístundahús. Fulltrúi sveitarfélagsins hefur yfirumsjón með verkinu og skal hann jafn­framt vera tengiliður og sjá um samskipti við þá aðila sem annast verkefnin á hverjum tíma.

Sérhverjum húsráðanda er skylt að sjá til þess að aðgengi fyrir hreinsunaraðila sé gott að hreinsi­virkjum.

 

IV. KAFLI

Gjaldtaka.

24. gr.

Sveitarfélagið skal innheimta gjald fyrir tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Gjaldið skal miðað við stærð og lengd tenginga. Sveitarfélaginu er heimilt að innheimta með tengigjaldi hlut­deild í stofnkostnaði við aðliggjandi fráveitukerfi. Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjald­skrá sam­kvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem sveitar­stjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og meng­unar­varnir, nr. 7/1998.

 

25. gr.

Af þeim fasteignum í Hvalfjarðarsveit sem liggja við vegi, götur eða opin svæði sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélagsins skal árlega greiða fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins. Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera hlutfall af fasteignamati húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og samkvæmt lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009.

 

26. gr.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar. Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og skal sveitar­félagið birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 8. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um upp­byggingu og rekstur fráveitna.

Fráveitugjald skal innheimt á sama hátt og fasteignaskattur til sveitarsjóðs Hvalfjarðarsveitar. Fráveitugjaldi og tengigjaldi ásamt innheimtukostnaði og vöxtum fylgir lögveðsréttur í fasteigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfararveðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að fráveitugjald eða heimæðargjald gjaldfellur er sami forgangs­réttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.

 

27. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að nýta sér heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna til að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þeim lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.

 

28. gr.

Fyrir hreinsun og tæmingu á rotþró, annarra stakra hreinsivirkja og förgun seyru skal húseigandi greiða gjald sem standa skal undir kostnaði við verkið. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sbr. og ákvæði 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn setur og birtir gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hreinsunar­gjald skal innheimt á sama hátt og fasteignaskattur til sveitarsjóðs Hvalfjarðarsveitar.

Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseignum þar sem um óvenjumikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu, svo sem vegna barkalengdar, endurkomu o.s.frv., eða þegar um sérstaka rotþró við útihús er að ræða. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannan­legum kostnaði við verkið. Hreinsunargjaldi ásamt innheimtukostnaði og vöxtum fylgir lögveðs­réttur í fasteigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfarar­veðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að hreinsunargjald gjaldfellur er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.

 

29. gr.

Um rotþrær staðsettar á verndarsvæðum vatnsbóla gilda ákvæði um vatnsvernd eins og þau eru sett fram í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og gildandi samþykkt um vatns­verndar­svæði með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

VI. KAFLI

Málsmeðferð og gildistaka.

30. gr.

Hafi fasteignareigandi kvörtun fram að færa vegna hreinsunar rotþróa og annarra hreinsivirkja skal hann koma slíkri kvörtun á framfæri við Hvalfjarðarsveit. Telji viðkomandi sig ekki fá full­nægjandi úrlausn hjá sveitarfélaginu, getur hann leitað til heilbrigðisnefndar Vesturlands.

 

31. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga um hollustuhætti og meng­unarvarnir, nr. 7/1998. Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga um hollustuhætti og mengunar­varnir. Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þessari samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

 

32. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir, ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 4. desember 2024.

 

F. h. r.

Erla Arnardóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 18. desember 2024