1. gr.
Markmið og gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um ræktunar- og framleiðslustöðvar garðyrkjuafurða og er sett vegna plöntuveirusmita sem greinst hafa í ræktunarstöðvum á Íslandi. Gæta skal fyllstu varúðar hvað varðar umgengni til að varna mögulegri útbreiðslu veirusýkinga og sjúkdóma.
2. gr.
Umgengni.
Fyllsta hreinlætis skal gætt við ræktun og umgengni. Óþarfa umgengni milli svæða á ræktunar- og framleiðslustað skal takmörkuð. Áhöld og vinnufatnað skal þrífa í lok hvers dags. Þrif skulu fara fram innan veggja starfsstöðva.
Óviðkomandi aðgangur að ræktunar- og framleiðslustöðvum garðyrkjuafurða skal takmarkaður. Eigi gestir brýnt erindi skulu þeir klæðast viðeigandi hlífðarfatnaði og viðhafa smitgát. Skal jafnframt upplýsa þá um mögulega smithættu og koma í veg fyrir snertingu plantna.
3. gr.
Vegna smithættu.
Til að lágmarka smithættu skal takmarka samgang á milli framleiðslu- og ræktunarstöðva garðyrkjuafurða. Einnig skal takmarka samgang milli einstakra hluta innan starfsstöðva. Samgangur á milli tómataræktunar og kartöfluræktunar er óheimill.
Eigi skal færa plöntur, áburð eða áhöld til ræktunar á milli stöðva. Eigi skal blanda plöntuleifum við annan úrgang heldur farga slíku með þeim hætti sem takmarkar smitleiðir. Vinnufatnað má ekki nota á fleiri en einum framleiðslustað.
Starfsfólk ræktunar- og framleiðslustöðva skal láta verkstjóra eða ábyrgðaraðila vita ef grunur vaknar um sjúkdóms- eða veirusýkingarsmit.
4. gr.
Aðgangur vegna sýnatöku og eftirlits.
Eigendur plantna, gróðrarstöðva og annarra ræktunarstaða skulu veita þar til bærum aðila aðgang og aðstoð vegna sýnatöku, rannsókna eða aðgerða sem þykja nauðsynlegar til að rannsaka eða varna útbreiðslu mögulegra plöntusjúkdóma.
5. gr.
Ef smit greinist.
Ef smit greinist í ræktun skal koma upp sóttvörnum til að takmarka útbreiðslu.
6. gr.
Opinbert eftirlit.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar eftir því sem við á.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 51/1981 um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 3. nóvember 2017.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Ólafur Friðriksson.
Elísabet Anna Jónsdóttir.
|