Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1023/2024

Nr. 1023/2024 30. ágúst 2024

REGLUR
um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Jafnframt gilda ákvæði 4.-10. gr. og 12. gr. framseldrar reglugerðar framkvæmda­stjórnar (ESB) 2022/1288 um lífeyrissjóði sem bjóða upp á lágmarkstryggingavernd í skilningi laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þegar þeir birta upplýsingar skv. 3.-5. gr. reglugerðar (ESB) 2019/2088, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 25/2023.

 

2. gr.

Innleiðing reglugerða.

Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB):

  1. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/1288 frá 6. apríl 2022 um við­bætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla sem tilgreina atriði er varða efni og framsetningu upplýsinganna í tengslum við meginregluna um að „valda ekki verulegu tjóni“, tilgreina efni, aðferðafræði og fram­setningu upplýsinganna í tengslum við sjálfbærnivísa og neikvæð áhrif á sjálfbærni og efni og fram­setningu upplýsinganna í tengslum við eflingu umhverfislegra eða félags­legra eigin­leika og sjálfbær fjárfestingarmarkmið í skjölum áður en samningur er gerður, á vefsíðum og í reglu­bundnum skýrslum, sbr. leiðréttingar í Stjórnartíðindum ESB L 332, 27. desember 2022, bls. 1, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 325/2023 frá 8. desember 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 58 frá 1. ágúst 2024, bls. 128.
  2. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/363 frá 31. október 2022 um breyt­ingu og leiðréttingu á tæknilegum eftirlitsstöðlum sem mælt er fyrir um í framseldri reglugerð (ESB) 2022/1288 að því er varðar efni og framsetningu upplýsinganna í tengslum við upplýsingagjöf í skjölum áður en samningur er gerður og reglubundnum skýrslum fyrir fjármálaafurðir sem fjárfesta í umhverfislega sjálfbærri atvinnustarfsemi, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 325/2023 frá 8. desember 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 58 frá 1. ágúst 2024, bls. 200.

 

3. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, öðlast gildi 1. desember 2024.

 

Seðlabanka Íslands, 30. ágúst 2024.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 13. september 2024