Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 300/2019

Nr. 300/2019 12. mars 2019

REGLUR
um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglur þessar gilda um málsmeðferðina við veitingu utanríkisráðuneytisins á styrkjum til félaga­samtaka, sem starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs, sem er í samræmi við áherslur íslenskra stjórn­valda í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.

Markmiðið með reglunum er að tryggja jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppnissjónarmið við úthlutun og umsýslu styrkja. Styrkveitingar skulu samræmast áherslum stjórnvalda um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, sbr. 6. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu, nr. 121/2008, ákvæðum 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og reglugerð um styrkveitingar ráðherra, nr. 642/2018. Styrkjum skal úthlutað til ákveðinna verkefna og til ákveðins tíma hverju sinni.

Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum á sviði þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoðar að fengnu áliti þriggja manna matshóps sem er skipaður tveimur óháðum sérfræðingum, eftir því sem við á, og fulltrúa utanríkisráðuneytisins. Matshópar á sviði þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoðar skulu skipaðir af ráðherra til eins árs í senn.

Meta skal umsóknir um kynningarstyrki og fræðslustyrki af þremur sérfræðingum með þekkingu á málaflokknum.

Matshópar mega kalla til aðra sérfræðinga ef þörf er á.

2. gr.

Skilgreiningar.

a) Með nýliðaverkefni er átt við þróunarsamvinnuverkefni aðila sem ekki hefur áður sótt um verkefnisstyrk hjá utanríkisráðuneytinu.
b) Með félagasamtökum er átt við aðila sem eru skráðir sem félagasamtök að annaðhvort rekstrarformi eða skv. starfsgreinaflokkun í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
c) Með þróunarsamvinnu er átt við samstarf við aðila í ríkjum á lista þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu yfir þiggjendur alþjóðlegrar þróunaraðstoðar sem miðar að því að ýta undir efnahags- og félagslega uppbyggingu til langs tíma.
d) Með mannúðaraðstoð er átt við aðgerðir til að bregðast við hamförum, náttúrulegum eða af manna völdum, sem beinist að björgun mannslífa, útvegun brýnustu nauðsynja og vernd borgara.
e) Með alþjóðlegu neyðarkalli er átt við ákall um alþjóðlega aðstoð vegna hamfara, af nátt­úru­legum eða manna völdum, frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórnum á lista þró­unar­samvinnu­nefndar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu yfir þiggjendur alþjóðlegrar þróunar­aðstoðar, eða annarra alþjóðlegra aðila sem gegna lykilhlutverki við veitingu mannúðar­aðstoðar.
f) Með rammasamningi er átt við skuldbindandi samning styrkhæfs aðila við utanríkisráðuneytið um veitingu aðstoðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í málaflokknum þar sem samn­ings­aðilar skilgreina yfirmarkmið sem stefnt skuli að á samningstímabilinu, en verkefna­val styrkþega er óbundið.
g) Með rökrammatöflu er átt við stjórnunartæki til að greiða fyrir skipulagningu, framkvæmd og mati á verkefnum.

3. gr.

Hlutverk stuðnings við verkefni félagasamtaka.

Hlutverk styrkveitinga utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mann­úðar­aðstoð er að hvetja til þátttöku og framlags þeirra til málaflokksins. Markmið verkefna skulu vera í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áherslur stjórnvalda í alþjóðlegri þróunar­samvinnu Íslands.

Veittir eru styrkir til eftirtalinna tegunda verkefna:

  a) þróunarsamvinnu:
    a. nýliðaverkefni í þróunarsamvinnu til að hámarki eins árs og nema styrkir að hámarki 4 m.kr.,
    b. þróunarsamvinnuverkefni reyndari samtaka til allt að fjögurra ára,
  b) mannúðaraðstoðar:
    a. mannúðarverkefni sem svara alþjóðlegum neyðarköllum hverju sinni,
  c) fræðslu og kynningu um þróunarmál og mannúðaraðstoð:
    a. kynningarverkefni til að auka þekkingu almennings á málaflokknum,
    b. fræðsluverkefni til uppbyggingar þekkingar og eflingar stofnanagetu umsækjanda í tengslum við þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoð.

Ráðuneytið getur gert rammasamninga við félagasamtök um þróunarsamvinnu eða mann­úðar­aðstoð að undangenginni auglýsingu, sbr. 4. gr. Sá fjárhagsrammi sem rammasamningar byggja á tekur mið af fyrri úthlutunum og starfi samtakanna. Félagasamtök sem gert hafa ramma­samn­ing við ráðuneytið eru að öllu jöfnu ekki styrkhæf til stakra styrkja til sams konar verkefna og rammasamningur nær til.

4. gr.

Auglýsingar.

Að minnsta kosti einu sinni á ári auglýsir utanríkisráðuneytið opinberlega fyrirhuguð framlög til félagasamtaka og kallar eftir umsóknum frá styrkhæfum aðilum.

Í auglýsingum skal meðal annars vísa til úthlutunarreglna þessara og úthlutunarskilmála sem eiga við, sbr. 7. gr., sem og viðeigandi leiðbeininga. Í auglýsingu skal gerð grein fyrir markmiðum og áherslum með veitingu umræddra framlaga, þeim fjárhæðum sem í boði eru, hvaða skilyrði umsækjandi þarf að uppfylla til að eiga rétt á framlagi, á hvaða formi skuli skila inn umsókn, þeim gögnum sem fylgja skulu umsókn, tímafresti til að skila inn umsókn og áætluðum afgreiðslutíma umsókna.

Tekið skal fram í auglýsingu að umsækjandi um styrk skuli lýsa með greinargóðum hætti mark­miðum verkefnis sem liggur til grundvallar umsókn, áætlun um framkvæmd þess og tíma- og kostn­aðar­áætlun, auk þess að veita aðrar upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar. Njóti umsækjandi annarra styrkja eða framlaga vegna verkefnisins skuli hann gera grein fyrir þeim. Þá skal taka fram að einungis umsóknir sem uppfylla skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilmála verði teknar til greina.

5. gr.

Styrkhæfir aðilar.

Styrkveitingar til félagasamtaka eru takmarkaðar við samtök sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  a) eru skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem félagasamtök að annaðhvort rekstrarformi eða skv. starfs­greina­flokkun,
  b) starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs,
  c) hafa sett sér lög og hafa stjórn,
  d) félagsmenn, styrktaraðilar eða stuðningsaðilar eru minnst 30 talsins,
  e) tilgangur samtakanna gangi ekki gegn yfirmarkmiðum íslenskrar þróunarsamvinnu,
  f) samtök sem sækja um styrki til mannúðarverkefna halda í heiðri grundvallarreglur um mann­úðar­aðstoð,
  g) hafa lagt fram áritaðan ársreikning í samræmi við kröfur Ríkisendurskoðunar.

Heimilt er að veita styrki til þróunarsamvinnu- og mannúðarverkefna er koma til framkvæmda í ríkjum á lista þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) um við­töku­lönd opinberrar þróunaraðstoðar. Kynningarverkefni og fræðsluverkefni skulu koma til fram­kvæmda á Íslandi.

Umsækjandi skal, í samræmi við 8. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu, nr. 121/2008, geta sýnt fram á að hann uppfylli viðurkenndar kröfur alþjóðasamfélagsins á sviði þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoðar, m.a. OECD-DAC, hvað varðar þekkingu, gæði tæknilegra lausna, almenna getu og fjárhagslega burði til að taka þátt í alþjóðlegum þróunarsamvinnu- eða mannúðarverkefnum.

Umsækjendur þurfa að uppfylla þær kröfur um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunar­samvinnu og mannúðaraðstoðar sem Ríkisendurskoðun gerir.

6. gr.

Umsóknir.

Umsókn skal skilað á þar til gerðu umsóknareyðublaði og skýra hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum.

Öllum umsóknum skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar, eða staðfest að skil hafi áður farið fram með rafrænum hætti eða í prenti:

  a) útfyllt umsóknareyðublað,
  b) nafnalisti yfir skipan stjórnar samtakanna,
  c) staðfesting frá fyrirtækjaskrá um löglega skráningu samtakanna,
  d) afrit af lögum samtakanna,
  e) yfirlit um verkefni og áherslur samtakanna, í hvaða löndum þau starfa og umfang starfs­eminnar,
  f) ársskýrsla síðasta starfsárs,
  g) áritaður ársreikningur sbr. 5. gr.,
  h) fjárhagsáætlun vegna verkþátta á vettvangi og vegna verkþátta er lúta að verkefnis­umsjón, eftirliti og kynningar á verkefninu,
  i) greinargerð um starfshætti og verklag samtakanna í verkefninu, þar á meðal upplýsingum um undirbúning, framkvæmd og vöktun verkefna,
  j) upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila sem og aðrar upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar til stuðnings umsókn,
  k) tímarammi verkefnis.

Umsóknum um styrki til þróunarsamvinnuverkefna skulu jafnframt fylgja eftirtalin gögn:

  a) rökrammatafla eða sambærileg viðurkennd aðferðafræði fyrir mótun þróunar­samvinnu­verkefna eða breytingastjórnunar,
  b) greinargerð um hvernig eftirliti og árangursmati er háttað.

Umsóknum um styrki til mannúðarverkefna skal auk gagna sem talin eru upp í 1. mgr. fylgja tilvísun í það alþjóðlega neyðarkall sem verið er að svara.

Umsóknum um styrki til kynningarverkefna og fræðsluverkefna skulu auk gagna sem talin eru upp í 1. mgr. fylgja eftirtalin gögn:

  a) lýsing á eðli og umfangi verkefnis,
  b) greinargerð um hvernig kynningarverkefni nýtast til að kynna mannúðar- og þróunarmál fyrir almenningi og/eða starf samtakanna í íslensku samfélagi,
  c) greinargerð um hvernig fræðsluverkefni nýtast til að efla mannauð og faglegt starf sam­takanna (stofnanagetu) og hvort þessi faglega uppbygging sé líkleg til að styðja við hlut­verk samtakanna til framtíðar,
  d) greinargerð um hvernig skal tryggja óhlutdrægni og virðingu í framkvæmd verkefnis,
  e) sundurgreining kostnaðar.

7. gr.

Úthlutunarskilmálar.

Auk þeirra krafna sem gerðar eru til umsækjenda í 4., 5. og 6. gr. reglna þessara, svo og krafna sem leiða má af 8. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu, þá gilda eftirtaldir úthlutunarskilmálar um styrkveitingar skv. reglum þessum:

  a) öll verkefni skv. reglum þessum þurfa að taka tillit til jafnréttis- og umhverfissjónarmiða,
  b) þróunarmarkmið í samstarfslandi þar sem þróunarsamvinnuverkefni mun vera framkvæmt þurfa ávallt að vera meginmarkmið verkefna og verkefni skulu ekki stríða gegn áætlunum og þörfum samstarfslands,
  c) þróunarsamvinnuverkefni hafi mælanleg þróunaráhrif.

8. gr.

Styrkfjárhæðir.

Heimilt er að veita styrki til allt að fjögurra ára fyrir þróunarsamvinnuverkefni en eins árs fyrir önnur verkefni. Gerð er krafa um mótframlag til þeirra verkefna sem sótt er um styrk fyrir. Mót­framlag má koma frá umsækjanda sjálfum, samstarfsaðila umsækjanda eða þriðja aðila. Til sam­starfs­aðila og þriðja aðila geta t.a.m. talist aðilar háskólasamfélagsins, önnur félagasamtök, aðilar atvinnu­lífsins eða aðrir einkaaðilar. Mótframlag má ekki greiða með opinberum styrkjum. Er upphæð mótframlaga sem hér segir:

  a) vegna þróunarsamvinnuverkefna er gerð krafa um 20% mótframlag að lágmarki,
  b) vegna mannúðarverkefna er gerð krafa um 5% mótframlag að lágmarki,
  c) vegna kynningarverkefna og fræðsluverkefna er gerð krafa um 20% mótframlag að lág­marki.

9. gr.

Mat á umsóknum.

Matshópur metur styrkhæfi umsókna og gildi þeirra fyrir áherslur ráðuneytisins í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð sbr. einkum 3., 5. og 7. gr. reglna þessara. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum viðmiðum:

  a) gildi og mikilvægi verkefnis fyrir stefnu stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoðar, eftir því sem við á, sbr. 3. gr. reglna þessara og markmiðum við­kom­andi samstarfslanda,
  b) starfsferli og faglegum bakgrunni umsækjanda og annarra samstarfsaðila, sbr. 5. gr. reglna þessara,
  c) líkum á að umsækjanda eða öðrum samstarfsaðilum takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
  d) fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verk­efnis.

Umsóknir skulu metnar og þeim gefnar einkunnir á grundvelli matsviðmiða sem taka mið af tilgangi stuðnings utanríkisráðuneytisins við verkefni félagasamtaka og hvort óskað hafi verið, í auglýsingu, eftir styrkumsóknum með tilteknum áherslum. Innbyrðis vægi gæðaviðmiða skal ákveðið fyrirfram fyrir hverja úthlutun og birt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Matshópur getur óskað eftir frekari upplýsingum frá umsækjendum ef þörf er á. Við mat á umsóknum er matshópnum heimilt að leita umsagnar fagaðila, gerist þess þörf.

10. gr.

Úthlutun.

Matshópur gerir tillögu til ráðherra um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna. Tillögur skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á framkvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina. Sérhverri umsókn skal fylgja stutt umsögn ásamt tillögu um afgreiðslu hennar.

Ráðherra tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli framkominna tillagna. Tilkynna skal öllum umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsóknar og þeim afhent álit matshóps á umsókn sinni.

Utanríkisráðuneytið birtir nöfn styrkþega, upplýsingar um verkefni og upphæð styrks á heimasíðu ráðuneytisins.

11. gr.

Úthlutunarsamningur og úthlutunarskilmálar.

Gerður skal skriflegur samningur um framlag á grundvelli úthlutunarskilmála, sbr. 7. gr. reglna þessara, þar sem tryggð er fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu verkefnisins og reikningsskil. Sé framlagið til lengri tíma en fjárlagaársins skal í samningi koma fram skýr og bindandi fyrirvari um að áframhaldandi fjárstuðningur við verkefnið sé háður því að fyrir hendi verði fjárheimildir í fjár­lögum þeirra ára sem samningur tekur til.

12. gr.

Framkvæmd og eftirlit.

Framkvæmd styrkts verkefnis er á ábyrgð styrkþega og samstarfsaðila hans. Eftirlit er á hendi þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Skýrt verður í samningi, vegna styrkja, að utanríkis­ráðuneytið og Ríkisendurskoðun hafi aðgang að öllum viðeigandi gögnum til að endurskoða fjárreiður og framgang verkefnisins.

Styrkþegum er skylt að kynna ráðuneytinu eða Ríkisendurskoðun stöðu verkefnis sé þess óskað. Heimilt er ráðuneytinu að stöðva greiðslu styrkveitinga og krefjast endurgreiðslu skili ábyrgðaraðili verkefnis ekki inn framvinduskýrslum, miklar breytingar verða á verkefni, eða vakni grunur um að fé sé ekki nýtt samkvæmt verkefnaskjali og fjárhagsáætlun. Jafnframt er ráðuneytinu heimilt að stöðva greiðslu styrkveitinga og krefjast endurgreiðslu vakni grunur um misbeitingu valds í tengslum við framkvæmd verkefnisins, t.a.m. í kynferðislegum tilgangi, af hálfu eða í garð þeirra sem að verkefninu koma. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins. Styrkþegi skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að fyrirbyggja hvers konar spillingu í tengslum við nýtingu fjármuna, sem og misbeitingu valds við framkvæmd verk­efna.

Styrkþegar skulu hafa í starfsemi sinni og gera kröfu um að samstarfsaðilar sínir hafi, eða komi sér upp, verkferlum eða viðbragðskerfum fyrir viðtakendur aðstoðar til að bregðast við ábendingum um misnotkun eða misbeitingu valds.

Að verkefni loknu skal styrkþegi kynna ráðuneytinu árangur og niðurstöður þess með skriflegri skýrslu.

13. gr.

Fjármálastjórnun.

Styrkþegar eru ábyrgir fyrir því að tryggja að samstarfsaðilar þeirra á vettvangi fylgi viðeigandi stöðlum varðandi bókhald og fjármálastjórn. Styrkþegar eru jafnframt ábyrgir fyrir því að tryggja að samstarfsaðilar hafi fullnægjandi getu og hæfni á þessu sviði. Kaup á vörum, vinnu og þjónustu skal vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilavenjur og góðar innkaupavenjur. Styrkþegar skulu viðhafa góða stjórnarhætti og sýna ráðdeild við nýtingu styrksins.

Beiðni um frávik frá samþykktri fjárhagsáætlun skal send til ráðuneytisins áður en til útgjalda kemur. Styrkþegum er þó heimilt að færa sem nemur 10% af útgjöldum á meginútgjaldaliðum milli liða og ára. Valdi tilfærslurnar verulegum breytingum á verkefninu skal leita samþykkis ráðu­neytis­ins.

Styrkþegar skulu setja stefnu um afstöðu sína og ráðstafanir gegn spillingu og siðareglur varðandi meðferð fjár. Styrkfé má aldrei renna beint til opinberra starfsmanna, íslenskra eða erlendra, í því skyni að greiða fyrir eða tryggja að mannúðar- eða þróunaraðstoð komist til skila. Styrkþegar eru jafnframt ábyrgir fyrir því að þjálfa og upplýsa sína samstarfsaðila um stefnu, siðareglur og aðra slíka staðla sem samstarfsaðilar þurfa að fara eftir. Styrkþegum er skylt að setja inn ákvæði um afstöðu og ráðstafanir gegn spillingu í þá samninga sem þeir gera við verktaka og undirverktaka.

Styrkþegar skulu án tafar upplýsa ráðuneyti skriflega um ólögmætar gjörðir, spillingu eða mis­notkun fjár sem styrkþegar komast á snoðir um eða þeim hefur verið bent á, hvort sem slíkt á sér stað innan samtaka styrkþega sjálfra eða samstarfsaðila þeirra. Styrkþegar skulu rannsaka og ef nauð­syn ber til, grípa til ráðstafana gegn einstaklingum sem verða uppvísir að spillingu eða mis­notkun fjár. Slíkar ráðstafanir geta til dæmis verið lögsókn eða brottvísun úr starfi. Styrkþegar skulu halda ráðuneyti upplýstu um þær ráðstafanir sem gripið er til, framvindu úttekta og rann­sókna, og láta ráðuneyti í té lokaskýrslu er slíku ferli er lokið.

Vannýttar styrkupphæðir skulu endurgreiddar ráðuneytinu að verkefni loknu.

14. gr.

Framvinduskýrslur verkefna.

Framvinduskýrslur eru gerðar af framkvæmdaaðilum. Þar er framgangur verkefnis miðað við verk­áætlun útlistaður og frávik skýrð. Skýrslurnar skulu byggjast á þeim árangursramma sem settur var fram í verkefnaskjali og vera einfaldar, skýrar og skorinorðar. Framvinduskýrslur skulu m.a. inni­halda upplýsingar um aðföng og útgjöld, sem og vöktun verkefna og byggjast á árangurs­vísum sem settir eru fram í styrkumsókn.

Uppsetning og framsetning framvinduskýrsla er ekki stöðluð. Skýrslur sem notaðar eru við verkefna­stjórnun má nota við upplýsingagjöf til ráðuneytisins.

Framvinduskýrslum vegna langtímaþróunarverkefna skal skila á að minnsta kosti hálfs árs fresti til verkloka. Jafnframt skal skila ársskýrslum allra verkefna. Greina skal tafarlaust frá aðstæðum sem torvelda framkvæmdir verkefnis. Ráðuneytið áskilur sér rétt til að kalla eftir ítarlegri upplýsingum frá styrkþega um vöktun og stöðu verkefna.

15. gr.

Lokaskýrslur verkefna.

Í lokaskýrslu skal gerð grein fyrir aðföngum og útgjöldum verkefnisins, auk þess sem greint skal frá framvindu þess yfir verkefnistímann. Koma skal fram hvort og hvernig þau markmið sem sett voru með verkefninu hafi náðst og mat lagt á áhrif þeirra. Skila skal lokaskýrslu til ráðuneytisins að öðru jöfnu eigi síðar en níu mánuðum eftir verklok fyrir langtíma þróunarverkefni en þremur mánuðum eftir verklok fyrir önnur verkefni.

16. gr.

Greinargerð ráðherra um framlög.

Ráðherra gerir grein fyrir fyrirhuguðum útgjöldum vegna framlaga í fylgiriti með frumvarpi til fjár­laga, sbr. 19. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og í árskýrslu sinni skv. 62. gr. sömu laga.

17. gr.

Lagagrundvöllur og gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með vísan til 5. gr. reglugerðar um styrkveitingar ráðherra, nr. 642/2018, sbr. 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015 og á grundvelli 10. gr., sbr. 6. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu nr. 121/2008, öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 12. mars 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Sturla Sigurjónsson.


B deild - Útgáfud.: 29. mars 2019