1. gr.
Tilgangur og markmið.
Talsetningar- og textunarsjóði fjölmiðlaveitna er ætlað að styrkja innlenda einkarekna fjölmiðla sem talsetja og texta barnaefni á íslensku með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fjölmiðlaveitum og stuðla að vernd íslenskrar tungu. Sjóðurinn er starfræktur tímabundið til þriggja ára.
2. gr.
Fjármögnun og úthlutanir.
Sjóðnum eru lagðar til árlega 60 m.kr. af fjárlögum áranna 2024-2027. Menningar- og viðskiptaráðherra úthlutar fé úr sjóðnum en umsýsla er í höndum fjölmiðlanefndar.
Við úthlutun styrkja er miðað við að þeirri fjárhæð, sem veitt er til verkefnisins, verði skipt jafnt á milli umsækjenda sem teljast styrkhæfir skv. ákvæðum þessara reglna. Styrkur til verkefnis getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 80% kostnaðaráætlunar.
Verði ljóst að framangreind reikniregla leiði af sér afgang af því fjármagni sem til úthlutunar er, er heimilt að deila þeim afgangi á milli verkefna sem hafa ekki náð 80% viðmiðinu.
Úthlutað er einu sinni á ári.
3. gr.
Orðskýringar.
Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér greinir:
- Áskriftarfjölmiðill er fjölmiðill með fleiri en 2000 áskrifendur.
- Barnaefni er hljóð- og myndmiðlunarefni ætlað börnum yngri en 12 ára.
- Einkarekinn fjölmiðill er fjölmiðill sem er hvorki í heild eða að hluta í opinberri eigu, þ.e. opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags eða annars lögaðila alfarið í þeirra eigu.
- Fjölmiðlaveita er einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil.
4. gr.
Umsýsla og auglýsing um styrkveitingar.
Fjölmiðlanefnd hefur umsýslu með sjóðnum og skal auglýsa eftir umsóknum.
Í auglýsingu skal tilgreina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast.
5. gr.
Skilyrði fyrir styrkveitingu.
Styrkir eru veittir til einkarekinna fjölmiðla sem eru skráðir eða hafa leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í skilningi IV. kafla laga um fjölmiðla nr. 38/2011.
Styrkir eru veittir til talsetningar og/eða textunar á barnaefni á íslensku sem er til sýningar á innlendum áskriftarfjölmiðli. Miðað er við að efnið hafi verið frumsýnt síðastliðna 12 mánuði og er þar miðað við dagsetningu umsóknarfrests.
6. gr.
Umsókn og meðferð umsókna.
Í umsókn skal meðal annars koma fram heiti fjölmiðlaveitu, titill verks ásamt kostnaðaruppgjöri vegna talsetningar og/eða textunar verksins.
Í því skyni að sannreyna kostnað sem tilgreindur er í umsókn getur fjölmiðlanefnd óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækjanda. Séu gögn ófullnægjandi skal veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum.
Njóti umsækjandi annarra styrkja fyrir verkefnið skal það koma fram í umsókn.
Öllum umsóknum skal svarað skriflega.
7. gr.
Uppgjör.
Styrkurinn er greiddur út í heilu lagi.
8. gr.
Gildistaka og gildistími.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál og 5. gr. reglugerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Reglur þessar, sem taka þegar gildi, skal endurskoða áður en auglýst verður eftir umsóknum úr Talsetningar- og textunarsjóði fjölmiðlaveitna árið 2025.
Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 11. október 2024.
Lilja D. Alfreðsdóttir.
Sigrún Brynja Einarsdóttir.
|