1. gr. Markmið. Markmið með reglugerð þessari er að stuðla að samræmdu verklagi við framkvæmd laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. 2. gr. Miðlun upplýsinga. Vörsluaðilar séreignarsparnaðar og lánveitendur skulu miðla nauðsynlegum upplýsingum til ríkisskattstjóra gegnum miðlægt upplýsingakerfi sem notað er við úrvinnslu allra umsókna um ráðstöfun á séreignarsparnaði samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/2014. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir upplýsingar skv. 1. málsl. og aðrar upplýsingar sem hann ræður yfir á grundvelli skattframkvæmdar eftir því sem nauðsyn krefur. Vörsluaðilar skulu eiga aðgang að upplýsingum um viðsemjendur sína úr skrá ríkisskattstjóra. 3. gr. Viðmiðunarfjárhæðir. Einstaklingur, sem uppfyllir ekki skilyrði til samsköttunar með öðrum, getur að hámarki ráðstafað 1,5 millj. kr. af greiddum iðgjöldum af launagreiðslum fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, eða allt að 250 þús. kr. fyrir hvort árið 2014 og 2017 og allt að 500 þús. kr. fyrir hvort árið 2015 og 2016, skattfrjálst til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Hjón og einstaklingar, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, geta að hámarki ráðstafað 2.250 þús. kr. af greiddum iðgjöldum af launagreiðslum fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, eða allt að 375 þús. kr. fyrir hvort árið 2014 og 2017 og allt að 750 þús. kr. fyrir hvort árið 2015 og 2016, skattfrjálst til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Hámarksfjárhæðir ráðstöfunar skv. 1. og 2. mgr. skulu taka mið af hjúskaparstöðu á umsóknardegi. Verði breytingar þar á skal rétthafi breyta umsókn sinni, sbr. 4. gr. Hámark skattfrjálsrar ráðstöfunar tekjuársins skal taka mið af hjúskaparstöðu í lok þess árs. 4. gr. Umsóknarferill. Umsókn rétthafa um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán eða útgreiðslu húsnæðissparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra. Rétthafi skal tilkynna ríkisskattstjóra rafrænt um breytingar á forsendum umsóknar, sbr. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. lög nr. 40/2014. Breytingin skal taka gildi frá og með þeim mánuði sem hún er gerð og taka til iðgjalda af launagreiðslum fyrir þann mánuð. 5. gr. Ráðstöfun inn á lán. Umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán tekur til iðgjalda af launagreiðslum eftir að umsókn berst, sbr. 4. gr. Umsókn getur þó gilt um iðgjöld af launagreiðslum frá 1. júlí 2014 ef hún berst fyrir 1. september sama ár. Skilyrði er að lán sé tryggt með veði í íbúðarhúsnæði og að vaxtagjöld af þeim verði grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Vörsluaðili skal ráðstafa greiddum iðgjöldum til þess lánveitanda sem rétthafi hefur valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Fyrsta ráðstöfun séreignarsparnaðar skal framkvæmd í nóvember 2014, og skal hún a.m.k. vera vegna iðgjalda af launagreiðslum fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til 30. september 2014, en eftir það eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Ráðstöfun inn á lán eða til útgreiðslu húsnæðissparnaðar skv. 6. gr. takmarkast við greitt iðgjald rétthafa sem myndast hefur í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LV í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. lög nr. 40/2014. Verði ávöxtun iðgjalda neikvæð kemur til skerðingar á fjárhæð iðgjalds sem unnt er að ráðstafa, þar sem það á við. Vörsluaðili skal senda rétthafa yfirlit um ráðstöfun iðgjalda inn á höfuðstól lána í samræmi við III. kafla laga nr. 129/1997, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári. 6. gr. Húsnæðissparnaður. Rétthafa séreignarsparnaðar er heimilt að nýta iðgjöld af launagreiðslum fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þó eigi síðar en 30. júní 2019, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014. Afli rétthafi séreignarsparnaðar sér íbúðarhúsnæðis til eigin nota innan tímabilsins 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 er honum heimilt að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað frá 1. júlí 2014 og fram til þess mánaðar er rétthafi verður þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Eftir það getur rétthafi nýtt sér ráðstöfun skv. 5. gr. Ef rétthafi séreignarsparnaðar er þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði til eigin nota 1. júlí 2014 getur hann nýtt sér ráðstöfun skv. 5. gr. fram til þess mánaðar að eigendaskipti verða, en eftir það verður honum heimilt að ráðstafa iðgjöldum af launagreiðslum skv. 1. mgr. 7. gr. Öflun íbúðarhúsnæðis. Rétthafa séreignarsparnaðar skv. 1. mgr. 6. gr. er heimilt að nýta iðgjöld af launagreiðslum til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, vegna nýbyggingar til eigin nota eða til kaupa á búseturétti til eigin nota. Heimildin tekur ekki til kaupa á lóð. 8. gr. Hámark skattfrjálsrar ráðstöfunar. Ráðstöfun séreignarsparnaðar í formi greiðslu inn á lán, sbr. 5. gr., og húsnæðissparnaðar, sbr. 6. gr., getur samanlagt ekki numið hærri fjárhæðum en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 3. gr. Ef útgreiðsla séreignarsparnaðar fer fram úr því hámarki sem gildir skv. 1. og 2. mgr. 3. gr. telst það sem umfram er til skattskyldra tekna á greiðsluári. 9. gr. Gjaldtaka. Vörsluaðila séreignarsparnaðar er heimilt að taka gjald af rétthafa vegna kostnaðar við ráðstöfun iðgjalda rétthafa til lánveitanda eða við útgreiðslu húsnæðissparnaðar. Vörsluaðili skal draga gjald vegna kostnaðar frá iðgjaldi áður en því er skilað til lánveitanda eða frá útgreiðslu húsnæðissparnaðar. Lánveitanda er heimilt að taka gjald af rétthafa vegna kostnaðar við ráðstöfun iðgjalda inn á höfuðstól láns. Lánveitandi skal draga gjald vegna kostnaðar frá iðgjaldi skv. 1. mgr. áður en því er ráðstafað inn á lán. 10. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014, 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014 og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LV í lögum nr. 90/2003, sbr. lög nr. 40/2014, og öðlast þegar gildi. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 4. nóvember 2014. F. h. r. Hafdís Ólafsdóttir. Maríanna Jónasdóttir. |