1. gr.
Markmið, gildissvið og umsjón.
Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í þéttbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði og koma þannig í veg fyrir ágang á lóðir íbúa og einnig til verndar gróðri í sveitarfélaginu.
Þeir þéttbýlisstaðir sem samþykkt þessi tekur til eru Sauðárkrókur, Hofsós, Varmahlíð og Steinsstaðir, sbr. meðfylgjandi uppdrætti sem sýnir afmörkun svæðanna samkvæmt fylgiskjali 1.
Landbúnaðarnefnd fer með framkvæmd þessarar samþykktar, í umboði sveitarstjórnar, og felur þjónustufulltrúa að vinna samkvæmt henni, að svo miklu leyti sem hún sé ekki falin öðrum samkvæmt lögum.
Með umráðamanni búfjár í samþykkt þessari er átt við eiganda búfjár eða aðila sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í Sveitarfélaginu Skagafirði eða samkvæmt samningi milli aðila, sbr. 9. tl. 3. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.
2. gr.
Takmörkun á búfjárhaldi.
Búfjárhald er almennt óheimilt í þéttbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði. Búfjárhald er þó heimilt í þéttbýli í sérstaklega skipulögðum hverfum eða að fengnu sérstöku leyfi landbúnaðarnefndar.
Í þessari samþykkt er með búfjárhaldi átt við nautgripa-, hrossa-, svína-, sauðfjár-, kanínu-, geita-, loðdýra- og alifuglahald, sbr. lög nr. 38/2013 um búfjárhald.
Heimilt er að halda allt að 10 hænsni á hverri lóð, en hanar eru með öllu bannaðir í þéttbýli í sveitarfélaginu.
3. gr.
Umsókn.
Sá sem stunda vill búfjárhald í þéttbýli, sbr. 2. gr., skal senda skriflega umsókn til landbúnaðarnefndar. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda búfjár, tegund þess, hvaða húsnæði sé til umráða og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu.
Telji landbúnaðarnefnd umsækjanda uppfylla þau skilyrði sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum gefur hún út skriflegt leyfi á nafn umsækjanda. Leyfið er ekki framseljanlegt. Í leyfinu skal tilgreina til hvaða tegunda leyfi til búfjárhalds nær og hámarksfjölda búfjár. Leyfið er háð gildandi lögum og reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma.
4. gr.
Leyfi til búfjárhalds.
Eigandi búfjár eða umráðamaður þess getur sótt um leyfi til búfjárhalds í þéttbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði, og nefnist hann þá leyfishafi. Veiting leyfis til búfjárhalds skuldbindur ekki sveitarfélagið til að sjá leyfishafa fyrir beitilandi handa búfé né veita honum aðra aðstöðu til búfjárhalds. Leyfishafi skal hafa búféð í öruggri vörslu og ber hann að öllu leyti ábyrgð á því.
Með leyfi öðlast leyfishafi rétt til upprekstrar búpenings á afréttir í sveitarfélaginu. Leyfi til búfjárhalds er veitt til ákveðins tíma, en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara, sem miðast við 15. september ár hvert.
Óski leyfishafi búfjár eftir því að halda annan búfénað en þann sem um getur í leyfisbréfi, fjölga búfénaði eða óska eftir yfirtöku búfjárhalds sem leyfi hefur verið veitt fyrir, skal sótt um nýtt leyfi.
Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum nr. 38/2013 um búfjárhald eða samþykkt þessari og sinnir ekki kröfum um úrbætur, má afturkalla leyfi til búfjárhalds með fjögurra vikna fyrirvara.
5. gr.
Dýralæknismeðferðir búfjár.
Allar lögskipaðar dýralæknismeðferðir á búfénaði, svo sem garnaveikibólusetning og annað sem upp gæti komið, skulu framkvæmdar á ábyrgð og kostnað búfjáreiganda. Um fjallskil af búfé og landi í Sveitarfélaginu Skagafirði fer eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og ákvæðum í fjallskilasamþykkt fyrir Skagafjarðarsýslu nr. 488/1998.
Umráðamanni búfjár er skylt að merkja búfé sitt, sbr. reglugerð um merkingu búfjár nr. 916/2012.
6. gr.
Aðbúnaður búfjár.
Óheimilt er að halda búfé, nema þar til gerður húsakostur sé í samræmi við reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna.
Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir búfé sitt og skal hann tryggja góða meðferð þess, sbr. lög nr. 55/2013 um velferð dýra. Gangi búfé úti á vetrarbeit skal umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.
7. gr.
Beitilönd og lönd til slægna.
Þjónustufulltrúi heldur skrá yfir lönd í eigu sveitarfélagsins, sem leigð eru til beitar og/eða slægna. Umsóknum um land til beitar eða slægna skal senda til þjónustufulltrúa sem úthlutar landi í umboði eignasjóðs.
Umráðamenn búfjár sem hafa land innan þéttbýlis til leigu frá sveitarfélaginu skulu hafa landið girt gripheldri girðingu, sem nauðsynleg er til vörslu þess búfjár sem innan hennar á að vera.
Einstaklingar og félög búfjáreigenda, sem hafa lönd í eigu sveitarfélagsins á leigu til beitar eða slægna skulu leitast við að viðhalda gróðri landsins og efla hann, meðal annars með árlegri áburðargjöf. Í leigusamningi fyrir beiti- og slægjulönd eru tilgreindar reglur um umgengni um landið.
8. gr.
Lausaganga og handsömun búfjár.
Lausaganga búfjár er bönnuð innan þéttbýlisstaða Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Mörkin eru samkvæmt gildandi aðalskipulagi hverju sinni. Komist búfé inn á friðuð svæði þrátt fyrir viðurkennda griphelda vörslu skulu vörsluaðilar lands ábyrgjast handsömun og ráðstöfun þess í samræmi við almenn ákvæði laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, sérstök ákvæði í viðkomandi fjallskilasamþykkt svo og 24. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
Ennfremur geta þeir, sem fyrir ágangi verða, látið handsama ágangsfénað á kostnað eiganda og skulu þeir tilkynna þjónustufulltrúa um það tafarlaust. Kostnaður vegna handsömunar er samkvæmt gjaldskrá og tryggður með lögveði í búfénu. Fénaður sem er handsamaður samkvæmt þessari grein skal vistaður í umsjón sveitarfélagsins þar til umráðamaður vitjar þess.
Við ítrekuð brot eða hafi umráðamaður ekki hirt um að sækja búfé sitt innan tíu daga, er heimilt að svipta viðkomandi leyfi til búfjárhalds. Um ráðstöfun búfjár fer eftir lögum nr. 55/2013 um velferð dýra.
9. gr.
Húsakostur.
Bygging gripahúsa annarra en hænsnakofa er einungis leyfð á sérstaklega skipulögðum svæðum sem eru ætluð fyrir búfjárhald. Óheimilt er að byggja við þau, endurnýja eða endurbyggja og gæta skal þess að þau líti vel út. Byggingarleyfi fyrir hænsnakofa er háð ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar. Þau gripahús sem fyrir eru á þéttbýlisstöðum í sveitarfélaginu og svæðum sem ekki eru ætluð til búfjárhalds samkvæmt aðalskipulagi, skulu fjarlægð þegar sveitarstjórn ákveður slíkt, með eins árs fyrirvara.
10. gr.
Viðurlög.
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og skv. 18. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013.
11. gr.
Gildistaka.
Samþykkt þessi, sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, staðfestist hér með samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2013, um búfjárhald. Samþykktin öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þeir sem eiga eða hafa í umsjón sinni búfé skulu hafa sótt um búfjárleyfi fyrir 1. apríl 2016.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. desember 2015.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Ólafur Friðriksson.
Rebekka Hilmarsdóttir.
Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal, kortið er einnig að finna í meiri upplausn hér)
|