1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar taka til móðurfélaga og samstæðna viðskiptabanka sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga, um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, eins og nánar greinir í reglum þessum.
2. gr.
Skilgreiningar.
Dótturfélag: Félag sem fellur undir skilgreiningu dótturfélags skv. 10. tölul. 1. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
Eiginfjárgrunnur: Eigið fé skv. 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
Eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum: Eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahagsreiknings, sem eru í erlendum gjaldmiðli auk liða í íslenskum krónum sem taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla.
Framvirk staða: Öll viðskipti í erlendum gjaldmiðlum sem gerð eru upp þremur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra eða síðar, að meðtöldum gjaldmiðlaskiptasamningum og öðrum skiptasamningum.
Móðurfélag: Með móðurfélagi er í reglum þessum átt við móðurfélag eins og það er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, enda sé um að ræða viðskiptabanka.
Mótaðili: Mótaðili í framvirkum samningum sem er annaðhvort fjárhagslegur mótaðili eða ófjárhagslegur mótaðili, eins og það er skilgreint skv. 8. og 9. tölul. 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 16. mars 2017, bls. 412–470, en með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 206/2016, frá 30. september 2016, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 63–71, sbr. og 2. gr. laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018; ellegar annars konar mótaðili en fjárhagslegur eða ófjárhagslegur mótaðili skv. framansögðu.
Nústaða í gjaldmiðli: Eignir og skuldir í einum gjaldmiðli, þar með talin núviðskipti.
Núviðskipti: Viðskipti sem gerð eru upp eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra (e. spot transaction).
Samstæða: Með samstæðu er í reglum þessum átt við samstæðu móður- og dótturfélags eins og það er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, enda sé móðurfélagið viðskiptabanki.
Viðskiptabanki: Með viðskiptabanka er í reglum þessum átt við fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, og samstæðu hans.
3. gr.
Útreikningur á framvirkri gjaldeyrisstöðu.
Viðskiptabanka ber að reikna framvirka gjaldeyrisstöðu gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig, sem byggir á samningum þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Viðskiptabanki þarf þó ekki að reikna framvirka gjaldeyrisstöðu gagnvart öðrum viðskiptabanka sem jafnframt fellur undir gildissvið reglnanna.
Útreikningur á framvirkri gjaldeyrisstöðu gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig skv. 1. mgr. skal innihalda eftirfarandi liði:
- Stöður í framvirkum samningum, stöðluðum framvirkum samningum og gjaldmiðlaskiptasamningum, að því marki sem þessir samningar teljast ekki til nústöðu. Gjaldmiðlaskiptasamninga og framvirka samninga skal meðhöndla sem eign í einum gjaldmiðli og skuld í öðrum.
- Samanlagt nettó deltavirði af valréttarsamningum um gjaldeyri. Reikna skal deltavirði í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 233/2017, um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja.
- Markaðsvirði annarra afleiðusamninga í erlendum gjaldmiðli en skv. 1. og 2. lið að ofan.
Enn fremur skal viðskiptabanki reikna brúttó framvirka gjaldeyrisstöðu sem samtölu tölugilda allra framvirkra gjaldeyrisstaða viðskiptabanka gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig skv. 1. mgr.
Við útreikning á framvirkri gjaldeyrisstöðu gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig skulu allir eigna- og skuldaliðir hafa 100% vægi. Gnóttstaða viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðli telst jákvæð en skortstaða viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðli telst neikvæð. Skylt er að skipta fjármálagerningi sem samsettur er úr mörgum gjaldmiðlum upp eftir vægi hvers gjaldmiðils í viðkomandi gjaldmiðil. Umreikna skal fjárhæðir miðað við miðgengi íslensku krónunnar eins og það er skráð af Seðlabanka Íslands, sbr. 29. gr. laga nr. 92/2019. Viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði er þó heimilt að miða við dagslokagengi.
Í tilviki samstæðu er að fengnu leyfi Seðlabanka Íslands heimilt við útreikning á framvirkri gjaldeyrisstöðu að undanskilja dótturfélag enda sé annað hvort eftirtalinna skilyrða uppfyllt:
- Starfsemi félagsins, án tillits til þess hvað segir um tilgang í samþykktum þess, felst ekki í því að eiga eða stunda viðskipti með verðbréf af hvaða tagi sem er, annars konar fjármálagerninga en verðbréf, afleiður, gjaldmiðla eða aðrar eignir.
- Félagið er í eigu viðskiptabanka eða dótturfélags á grundvelli 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002; án tillits til þess hvort um innlent eða erlent félag er að ræða.
Beiðni um heimild skv. 4. mgr. skal vera skrifleg og rökstudd og er aðeins veitt tímabundið, að hámarki til 12 mánaða, en fellur sjálfkrafa niður í lok gildistímans.
4. gr.
Umfang afleiðuviðskipta þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli.
Afleiðuviðskipti viðskiptabanka hér á landi, þar sem íslensk króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli, eru háð eftirfarandi skilyrðum:
- Framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig skv. 1. mgr. 3. gr. skal á hverjum tíma hvorki vera jákvæð né neikvæð um hærri fjárhæð en sem samsvarar 10% af eiginfjárgrunni.
- Brúttó framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka skv. 3. mgr. 3. gr. skal á hverjum tíma ekki nema hærri fjárhæð en sem samsvarar 50% af eiginfjárgrunni.
Víki framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka gagnvart hverjum mótaðila fyrir sig eða brúttó framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka frá þeim mörkum sem tilgreind eru í 1. mgr. skal hlutaðeigandi viðskiptabanki grípa til aðgerða til að eyða frávikinu eigi síðar en innan þriggja viðskiptadaga.
Við útreikning á mörkum sem tilgreind eru í 1. mgr. skal miða við eiginfjárgrunn samkvæmt síðasta uppgjöri viðskiptabanka. Viðskiptabanka er heimilt að leiðrétta eiginfjárgrunn um mánaðamót vegna breytinga á gengi gjaldmiðla, enda sé Seðlabanka Íslands gerð grein fyrir slíkri breytingu sérstaklega. Hafi heimildin verið notuð skal samsvarandi leiðrétting til hækkunar eða lækkunar gerð um hver mánaðamót.
5. gr.
Skýrsluskil.
Viðskiptabankar skulu skila Seðlabanka Íslands skýrslu um afleiðusamninga þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli, eigi síðar en fimmta virka dag hvers mánaðar.
Nemi einstök viðskipti hærri fjárhæð en kr. 1.500.000.000 skal tilkynna Seðlabanka Íslands sérstaklega um afleiðuviðskiptin fyrir kl. 10 næsta viðskiptadag. Nemi heildarviðskipti (brúttó) afleiðusamninga hærri fjárhæð en kr. 3.000.000.000 innan viðskiptadags skal tilkynna Seðlabanka Íslands sérstaklega um afleiðuviðskiptin fyrir kl. 10 næsta viðskiptadag. Viðskipti sem tilkynnt eru sérstaklega skv. 2.-3. málsl. skulu einnig færð í mánaðarlega skýrslu skv. 1. mgr.
Seðlabanki Íslands getur krafist tíðari skýrsluskila en hér er kveðið á um.
6. gr.
Viðurlög.
Brot gegn reglum þessum geta varðað stjórnvaldssektum og refsingum skv. 15. og 19. gr. laga nr. 70/2021.
7. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 6. gr. laga nr. 70/2021, um gjaldeyrismál og hafa verið samþykktar af fjármálastöðugleikanefnd, taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 765/2021 um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli.
Seðlabanka Íslands, 28. mars 2022.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Haukur C. Benediktsson framkvæmdastjóri. |
|