Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 490/2019

Nr. 490/2019 3. maí 2019

REGLUR
um starfskjör forstöðumanna.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um starfskjör þeirra forstöðumanna ríkisins, sem heyra undir ákvörðunarvald fjármála- og efnahagsráðherra hvað varðar laun og starfskjör, sbr. 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

2. gr.

Laun.

Reglubundin heildarlaun eru ákveðin í samræmi við niðurstöðu grunnmats starfs forstöðumanns stofnunar. Reglubundin heildarlaun samanstanda af föstum launum fyrir dagvinnu og öðrum launum er starfinu fylgja.

Hlutaðeigandi ráðherra, eða eftir atvikum stjórn, getur að auki ákvarðað greiðslu viðbótarlauna, samkvæmt reglum sem fjármála- og efnahagsráðherra setur.

Fyrsta desember ár hvert skal forstöðumaður í fullu starfi fá greidda persónuuppbót sem skal vera sama krónutala og háð sömu skilyrðum og gilda fyrir Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS).

3. gr.

Orlof.

Um orlof og orlofsuppbót forstöðumanna gildir 4. kafli kjarasamnings fjármála- og efnahags­ráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma að því undanskildu að ríkissjóður skal greiða gjald af launum í sérstakan orlofssjóð, Árnessjóð. Gjald þetta skal nema 0,3% af reglu­bundnum heildarlaunum og greiðist mánaðarlega eftir á.

4. gr.

Veikindaréttur.

Forstöðumenn skulu njóta sama réttar vegna veikinda og slysa og félagsmenn í Bandalagi háskóla­manna (BHM), Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og Kennarasambandi Íslands (KÍ) sam­kvæmt 12. kafla kjarasamnings fjármálaráðherra við þau stéttarfélög sem tilheyra fyrr­greindum samtökum. Réttindi embættismanna skv. 30. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins, skerðast þó á engan hátt.

5. gr.

Tryggingar.

Um tryggingar forstöðumanna gildir 7. kafli kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma.

6. gr.

Fræðsla og endurmenntun.

Forstöðumaður skal viðhalda og þróa starfshæfni sína og menntun með þátttöku á ráðstefnum, námskeiðum eða sækja viðurkennt framhaldsnám með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis. For­stöðu­maður á rétt á launuðu leyfi til að sækja endurmenntun eða sinna starfsþróun í samræmi við starfs­þróunar­áætlun stjórnenda. Lengd leyfis er allt að tvær vikur á ári. Unnt er að veita lengra leyfi á lengra árabili en uppsafnaður réttur getur aldrei orðið meiri en sex mánuðir. Um laun og önnur atriði í leyfinu gilda sambærileg ákvæði og í 10. kafla kjarasamnings fjármála- og efnahags­ráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma.

Einstaka sérreglur um fræðslu og endurmenntun um ákveðna forstöðumenn halda gildi sínu, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

Ríkissjóður greiðir gjald í starfsmenntunarsjóð embættismanna. Gjald þetta nemur 0,92% af reglu­bundnum heildarlaunum.

7. gr.

Viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar.

Um viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar gildir 15. kafli kjarasamnings fjármála- og efnahags­ráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma.

8. gr.

Fjölskyldu- og styrktarsjóður.

Launagreiðandi greiðir gjald vegna forstöðumanna í Fjölskyldu- og styrktarsjóð BHM. Gjaldið er það sama og kemur fram í 14. kafla kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma.

9. gr.

Ferðir og gisting.

Um ferðakostnað forstöðumanna gildir 5. kafli kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og FHSS eins og hann er á hverjum tíma.

10. gr.

Annar kostnaður og styrkir.

Forstöðumaður skal njóta sömu hlunninda og tíðkast innan viðkomandi stofnunar hvað varðar önnur almenn starfskjör.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 3. maí 2019.

Bjarni Benediktsson.

Guðmundur Árnason.


B deild - Útgáfud.: 24. maí 2019