Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 822/2020

Nr. 822/2020 10. ágúst 2020

AUGLÝSING
um landslagsverndarsvæði í Kerlingarfjöllum.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með samþykki sveitarstjórna Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákveðið að friðlýsa Kerlingarfjöll og nærliggjandi svæði sem landslags­verndar­svæði, sbr. 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Kerlingarfjöll eru fjallabálkur skammt suðvestur af Hofsjökli. Svæðið er að hluta óbyggt víðerni sem einkennist af stórbrotnu og litríku landslagi. Mikil líparítfjöll einkenna svæðið ásamt lægri móbergs­fjöllum. Nokkur líparítfjallanna eru líparítstapar sem eru fágætir á heimsvísu. Kerlingarfjöll eru megin­eldstöð með tveimur öskjum sem skarast ekki. Allmikið háhitasvæði er í Kerlingarfjöllum og skiptist það í þrjú meginsvæði; Hverabotn, Hveradali og Efri-Hveradali. Í Hverabotni er öflugur hver í lækjar­gili þar sem hiti hefur mælst 145-150°C sem er hæsta skráða hitamæling í hver á Íslandi. Mikil samfelld ummyndun í berg- og jarðgrunni einkennir hverasvæðin, en algengustu hverirnir eru gufuaugu, gufuhverir, soðpönnur og leirhverir. Í hverunum þrífst sérstætt lífríki hvera­örvera.

Innan verndarsvæðisins eru menningarminjar sem vitna um mannvistir á svæðinu fyrr á tímum.

Verndargildi svæðisins í Kerlingarfjöllum byggir fyrst og fremst á jarðfræðilegri sérstöðu og fágæti og sérstöku og fögru landslagi. Á svæðinu eru einnig mikil tækifæri til að stunda útivist og sjálf­bæra ferðamennsku.

Við ákvörðun um friðlýsingu var höfð hliðsjón af samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeiro, 1992), sbr. Stjórnartíðindi C-deild nr. 11/1995.

Hið friðlýsta svæði er 344 km² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðminjar, landslag, óbyggðir og ásýnd, sbr. 3. gr. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Verndunin nær til fágætra jarðmyndana, megineldstöðvar, landslagsheilda, lífríkis og menningarminja. Með vernduninni skal tryggt að ekki sé gengið á auð­lindir svæðisins og nýting innan verndarsvæðisins skal ekki spilla jarðminjum, landslagi og ásýnd þess.

Með friðlýsingu svæðisins er stuðlað að því að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í allri nýtingu, stjórnun, framtíðarskipulagningu og rekstri innan þess. Friðlýsingunni er ætlað að efla Kerlingarfjöll sem útivistarsvæði og stuðla að góðri umgengni og bættu aðgengi að svæðinu.

 

3. gr.

Mörk hins friðlýsta landslagsverndarsvæðis.

Mörk landslagsverndarsvæðisins eru sýnd á korti sem birt er með auglýsingu þessari í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

Innan landslagsverndarsvæðisins eru skilgreind tvö svæði með sérreglum. Svæðaskiptinguna má sjá á korti í viðauka I. Svæði I nær til svæðis í Ásgarði og nágrenni sem ætlað er til uppbyggingar og innviða í tengslum við móttöku ferðamanna í Kerlingarfjöllum. Svæði II nær yfir hverasvæði í Hvera­botni, Hveradölum og Efri-Hveradölum og svæði í kringum drangann Kerlingu sem Kerlingar­fjöll draga nafn sitt af. Svæði II eru svæði sem vernda þarf sérstaklega vegna viðkvæmni, sérstöðu eða af öryggissjónarmiðum.

 

4. gr.

Umsjón.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Með stofnuninni starfar þriggja manna samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Skal hver aðili skipa einn fulltrúa. Fulltrúi Umhverfisstofnunar skal vera formaður nefndarinnar. Skipunartími nefndar­innar er sá sami og kjörtímabil sveitarstjórna. Skal samstarfsnefndin funda minnst einu sinni á ári.

Hlutverk samstarfsnefndar er að fjalla um framkvæmdaáætlun og landvörslu fyrir verndar­svæðið, samvinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar ásamt endurskoðun og breytingum á henni svo og önnur stefnumótandi mál er varða verndarsvæðið.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið í samstarfi við samstarfsnefnd og einnig sbr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um sjálfbæra landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi ferðamanna, framandi lífverur, notkun vél­knúinna farartækja, umferð hrossa, umferð loftfara, viðhald mannvirkja, fráveitu- og úrgangs­mál og veiðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við eigendur svæðisins, viðkomandi sveitar­stjórnir, Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila. Leita skal umsagnar félagasamtaka og hagsmunaaðila vegna gerðar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið.

Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

 

6. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.

Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar. Rannsóknir á hveraörverum eru auk þess háðar leyfi Orkustofnunar, sbr. 34. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Niðurstöður rannsókna skulu vera aðgengilegar fyrir Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

7. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Hrunamannahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp, mun koma upp skiltum innan svæðisins og hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um svæðaskiptingu verndarsvæðisins og mismunandi umgengnisreglur sem þar gilda. Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

 

8. gr.

Verndun landslags.

Varðveita skal einkenni og sérkenni landslags Kerlingarfjalla og svæðisins í heild. Óheimilt er að valda spjöllum á landslagi svæðisins. Framkvæmdir skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðis­ins og mannvirki skulu falla sem best að svipmóti lands.

 

9. gr.

Verndun jarðminja.

Allt rask á jarðminjum er óheimilt innan verndarsvæðisins, nema með sérstöku leyfi skv. 12. gr.

Óheimilt er að raska hverum og öðrum uppsprettum á svæðinu.

 

10. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu, þ.m.t. að rækta framandi plöntutegundir, sbr. reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntu­tegunda. Fjarlægja skal framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það. Nánar skal fjallað um framandi lífverur í stjórnunar- og verndaráætlun.

Óheimilt er að hafa áhrif á lífríki sem tengist hverum og öðrum heitum uppsprettum nema með leyfi skv. 6. gr.

 

11. gr.

Verndun menningarminja.

Óheimilt er að hrófla við menningarminjum á verndarsvæðinu. Um vernd menningarminja fer eftir lögum nr. 80/2012 um menningarminjar.

Óheimilt er að hlaða nýjar vörður innan svæðisins sem hluta af varðaðri leið nema með leyfi Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.

 

12. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Framkvæmdir á verndarsvæðinu eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þ.m.t. notkun á tækjum til framkvæmda. Um leyfisveitingar vegna fram­kvæmda að öðru leyti gilda m.a. ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 um mann­virki og laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Jafnframt kunna framkvæmdir og áætlanir að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Við landnotkun og mannvirkjagerð skal miða að því eins og kostur er að verndarsvæðið sé sjálfbært og framkvæmdir afturkræfar. Mannvirki skulu falla vel að landslagi.

Orkuvinnsla sem fellur undir lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun er óheimil innan verndarsvæðisins. Rekstrar- og umsjónaraðilum er aðeins heimilt að nýta orku á svæðinu fyrir þá starfsemi sem leyfileg er samkvæmt gildandi deiliskipulagi og í samræmi við samþykkt bygg­ingar- og framkvæmdaleyfi svo fremi að sú nýting gangi ekki gegn friðlýsingu og verndargildi og að fengnum leyfum, sbr. 1. mgr. Öll orkuvinnsla skal vera sjálfbær og skal ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins. Með sjálfbærri orkuvinnslu er átt við að notaðar séu endurnýjanlegar orku­auðlindir, að ekki sé gengið á orkuforða þeirra auðlinda sem á svæðinu eru og möguleikar kom­andi kynslóða á nýtingu auðlindanna séu ekki skertir. Óheimilt er að flytja orku sem unnin er innan verndar­svæðisins til notkunar utan þess.

Efnistaka er heimil þar sem efnistökusvæði eru skipulögð í gildandi aðalskipulagi. Efni úr námum innan verndarsvæðisins má einungis nota til viðhalds vega og slóða innan verndarsvæðisins og í vegi og slóða sem tengjast því. Jafnframt er efnistaka til uppbyggingar og viðhalds innan svæðis­ins heimil úr Ásgarðsá að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Efnistaka úr Ásgarðsá skal ekki hafa í för með sér varanlega röskun og sýnt skal fram á með áhrifamati að ummerki efnistökunnar séu horfin að tveimur árum liðnum.

Heimilt er að halda við mannvirkjum, s.s. skálum, vegum og göngubrúm, sem þegar eru í notkun án þess að leita þurfi leyfis Umhverfisstofnunar en um þær framkvæmdir gilda skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010. Nánar skal fjallað um viðhald mannvirkja í stjórn­unar- og verndaráætlun.

Réttur bænda til nýtingar afrétta til beitar og smölunar helst óbreyttur.

Sérreglur um mannvirkjagerð og landnotkun á svæði I.

Á svæðinu er gert ráð fyrir uppbyggingu innviða og þjónustu í tengslum við móttöku ferðamanna.

Sérreglur um mannvirkjagerð og landnotkun á svæði II.

Á svæðinu er aðeins heimilt að leggja nýjar gönguleiðir og reisa ný mannvirki í tengslum við þær, s.s. göngubrýr og útsýnispalla, að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar og Hrunamanna­hrepps, sbr. 1. mgr. og í samræmi við deiliskipulag. Aðrar framkvæmdir eru óheimilar.
Við veitingu leyfis skal setja skilyrði um að mannvirki skulu hönnuð með þeim hætti að þau falli sem best að svipmóti lands.

 

13. gr.

Starfsemi innan svæðisins.

Öll starfsemi innan svæðisins skal rekin á grundvelli sjálfbærni. Óheimilt er að reka atvinnu­tengda starfsemi á svæðinu án samnings um slíka starfsemi við Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitar­félag. Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, meðal annars vegna verndarmarkmiða svæðisins. Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórn­unar- og verndaráætlun.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, list­viðburða og samkomuhalds.

Sveitarfélögum á svæðinu er heimilt að gera samninga við rekstraraðila um nýtingu svæðisins, sbr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlands, þjóðlendna og afrétta, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun.

 

14. gr.

Umferð um verndarsvæðið.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en ber að ganga vel og snyrtilega um og fylgja umgengnis­reglum sem þar gilda.

Umferð vélknúinna ökutækja er heimil á merktum vegum og slóðum, sbr. kort í viðauka I. Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. þó 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Heimilt er að aka slíkum tækjum á snævi þakinni jörð utan vega svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum að undanskildu svæði II, þar sem sérreglur gilda. Umhverfisstofnun er heimilt, að höfðu samráði við Hrunamannahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp, að bæta við eða breyta vegum og slóðum innan verndarsvæðisins vegna verndar­ráðstafana eða náttúruhamfara.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka ákveðnum svæðum í verndarskyni, sbr. 25. gr. og 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Á þeim svæðum þar sem heimilt er að nota vélknúin ökutæki skal leitast við að draga úr nei­kvæðum umhverfisáhrifum eins og kostur er. Við skipulag á svæðinu skal gera ráð fyrir aðstöðu sem hvetur til notkunar farartækja sem nota vistvæna orkugjafa. Stefnt skal að því að nota fyrst og fremst slík farartæki innan verndarsvæðisins. Nánar skal fjallað um notkun vélknúinna farartækja í stjórn­unar- og verndaráætlun.

Innan verndarsvæðisins er óheimilt að nota tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sam­bærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða. Fólki sem ferðast fótgangandi með allan sinn farangur er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum utan skipulagðra tjaldsvæða. Hópar göngu­­manna þar sem eru 5 tjöld eða fleiri þurfa leyfi Umhverfisstofnunar til að tjalda utan merktra tjald­svæða. Þegar tjaldað er utan skipulagðra tjaldsvæða skal þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á náttúru svæðisins.

Ríðandi mönnum er aðeins heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum, vegum og slóðum. Hrossa­beit er óheimil utan áningarhólfa. Notkun hesta við smölun er heimil, sbr. 12. gr. Nánar skal fjallað um umferð hrossa í stjórnunar- og verndaráætlun.

Hundar á verndarsvæðinu skulu vera undir tryggri stjórn og ekki valda truflun fyrir gesti svæðis­ins eða dýralíf.

Hefðbundinn réttur bænda til smölunar sauðfjár verður óbreyttur. Um umferð vélknúinna öku­tækja vegna smölunar fer skv. 5. gr. reglugerðar nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.

Heimilt er að fara á reiðhjólum um verndarsvæðið en fylgja skal vegum, slóðum eða stígum, svo að ekki hljótist af náttúruspjöll. Um umferð reiðhjóla um verndarsvæðið fer samkvæmt umferðar­lögum nr. 77/2019.

Um umferð loftfara um svæðið fer skv. almennum reglum þar um. Heimilt er að setja ítarlegri reglur um umferð loftfara í stjórnunar- og verndaráætlun.

Sérreglur um umferð um svæði I.

Á svæðinu er óheimilt að tjalda utan merktra tjaldsvæða.
Á svæðinu skulu hundar ávallt vera í bandi.

Sérreglur um umferð um svæði II.

Á svæðinu gilda ekki ákvæði um undanþágur frá akstri utan vega skv. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd nema hvað varðar björgunarstörf. Einungis er heimilt að aka léttum vinnu­tækjum utan vega á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði vegna göngustígagerðar og viðhalds göngu­leiða. Afmá skal öll ummerki um umferð vinnutækja að framkvæmdum loknum.
Gangandi vegfarendur skulu fylgja merktum stígum í hvívetna.
Óheimilt er að fara á reiðhjólum um göngustíga á svæðinu. Heimilt er að teyma reiðhjól um svæðið.
Á svæðinu er óheimilt að tjalda.
Á svæðinu skulu hundar ávallt vera í bandi.

 

15. gr.

Umgengni um verndarsvæðið.

Óheimilt er að skilja eftir eða urða rusl eða annan úrgang innan verndarsvæðisins nema á þar til gerðum stöðum á svæði I. Úrgangur skal flokkaður eins mikið og kostur er. Nánari markmið um stjórnun fráveitu- og úrgangsmála skal setja í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

16. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Veiðar eru heimilar á svæðinu í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Nánar skal fjallað um veiðar á verndarsvæðinu í stjórnunar- og verndaráætlun.

Veiðar á ref eru heimilar skv. almennum reglum þar um enda skulu þær stundaðar á vegum við­komandi sveitarfélags og í samráði við Umhverfisstofnun. Halda skal skrá yfir greni og veidd dýr og skila til Umhverfisstofnunar.

Stefnt skal að útrýmingu minks. Veiðar á mink skulu stundaðar á vegum viðkomandi sveitar­félags og í samráði við Umhverfisstofnun. Halda skal skrá yfir veidd dýr og skila henni til Umhverfis­stofn­unar.

Sérreglur um veiði og notkun skotvopna á svæði I og svæði II.

Veiði og notkun skotvopna er óheimil á svæðum I og II.

 

17. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum friðlýsingarinnar fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

18. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Leyfi Umhverfisstofnunar og Hrunamannahrepps þarf til framkvæmda á svæði I, sbr. 1. mgr. 12. gr. Framkvæmdir í samræmi við samþykkt Hrunamannahrepps frá 8. janúar 2015, sbr. aug­lýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 307/2015 um deiliskipulag í Hrunamannahreppi, sem er í gildi við undirritun friðlýsingar þessarar eru ekki háðar leyfi Umhverfisstofnunar, enda verði hvorki raskað vistkerfum né jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um nátt­úru­vernd. Frárennsli vegna slíkra framkvæmda skal hreinsað með fullnægjandi hætti sbr. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 og frágangur að framkvæmdum loknum skal ætíð vera til fyrir­myndar. Verði gerðar breytingar á samþykktu deiliskipulagi á svæði I eftir undirritun friðlýsingar­innar eru framkvæmdir háðar leyfi í samræmi við 1. mgr. 12. gr. Framkvæmdaraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun með hæfilegum fyrirvara um upphaf framkvæmda og fylgja nánari leiðbeiningum stofnunarinnar um tilhögun og frágang.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 10. ágúst 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 25. ágúst 2020