Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
- B-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja lögreglurannsóknar- og greiningardeild sem hefur það hlutverk að koma í veg fyrir og rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum, leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri brotastarfsemi og sinna upplýsingaöflun og greiningum í þágu afbrotavarna á landsvísu, m.a. með rekstri miðlægs gagnagrunns.
- Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu. Hlutverk þess er að stuðla að bættri löggæslu og hafa eftirlit með að lögregla starfi í samræmi við lög og verklagsreglur. Héraðssaksóknara og lögreglustjórum, þ.m.t. ríkislögreglustjóra, er skylt að afhenda innra gæðaeftirliti þær upplýsingar sem það þarf til að sinna starfsskyldum sínum. Gæðastjóri lögreglu, sbr. 1. mgr. 28. gr., fer með forstöðu eftirlitsins og skal vera sjálfstæður í störfum sínum.
2. gr.
Við 8. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
9. Starfræktur skal stýrihópur sem hefur það hlutverk að tryggja samræmingu lögreglu á landsvísu til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og efla samvinnu og upplýsingaskipti á milli lögregluembætta. Stýrihópurinn skal skipaður fulltrúum frá embætti héraðssaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, lögreglustjóranum á Suðurlandi og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, tengslafulltrúa Íslands hjá Europol og Eurojust, ef við á, sem og fulltrúum frá öðrum embættum eða stofnunum sem ríkissaksóknari kann að mæla fyrir um í verklagsreglum skv. 10. mgr.
10. Ríkissaksóknari setur verklagsreglur um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, þar á meðal um starfsemi og skipan stýrihóps skv. 9. mgr.
3. gr.
Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: að því undanskildu að þeir skulu vera 20 ára eða eldri.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 11. gr. a laganna:
- Í stað orðanna „er heimilt að“ kemur: skal.
- Á eftir orðunum „þar á meðal um“ kemur: löggæsluverkefni sem erlendum lögreglumönnum er heimilt að sinna hér á landi, m.a. öryggisgæslu vegna alþjóðlegra viðburða.
- Í stað orðanna „erlendra lögreglumanna“ kemur: þeirra.
5. gr.
Við 14. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
2. Ríkislögreglustjóri og aðrir lögreglustjórar geta gefið fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast í samræmi við reglur sem settar eru skv. 3. mgr.
3. Ráðherra setur nánari reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna hjá lögreglu.
4. Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur og leiðbeiningar um nauðsynlegar áætlanir lögregluliða varðandi viðbúnað með vopnum.
6. gr.
Á eftir 15. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 15. gr. a – 15. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
a. (15. gr. a.)
Aðgerðir í þágu afbrotavarna.
1. Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi.
2. Um vinnslu persónuupplýsinga skv. 1. mgr. gilda ákvæði laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
3. Ráðherra skal, að höfðu samráði við lögregluráð, setja nánari reglur um aðgerðir í þágu afbrotavarna, þar á meðal um tilhögun þeirra og framkvæmd.
b. (15. gr. b.)
Aðgerðir til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi.
1. Hafi lögregla áreiðanlegar upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur taki virkan þátt í skipulögðum brotasamtökum eða hafi annars konar bein tengsl við slík samtök er henni heimilt að afla upplýsinga um viðkomandi skv. 15. gr. a auk þess að fylgjast með ferðum hans á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.
2. Ákvörðun um að hafa eftirlit með einstaklingi verður aðeins tekin af lögreglustjóra og skal bera hana undir stýrihóp um skipulagða brotastarfsemi til staðfestingar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðun er tekin. Sá lögreglustjóri sem ber ákvörðun um eftirlit með einstaklingi undir stýrihópinn skal ekki taka þátt í afgreiðslu málsins á vettvangi stýrihópsins. Ákvörðun skal skráð í kerfi lögreglu og tilkynnt til ríkissaksóknara eins fljótt og kostur er.
3. Eftirlit skal ekki viðhaft lengur en nauðsynlegt er. Eigi síðar en að fjórum vikum liðnum skal lögreglustjóri taka ákvörðun um framlengingu eftirlits og bera hana að nýju undir stýrihópinn.
4. Sé einstaklingur undir eftirliti lengur en fjóra mánuði í senn skal bera ákvörðun lögreglustjóra um áframhaldandi eftirlit undir héraðsdóm til staðfestingar. Um þá málsmeðferð fer skv. XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar nema lögreglustjóri ákveði annað. Kæra má úrskurð dómara til Landsréttar ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála. Aðrir úrskurðir en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.
5. Leiði eftirlit með einstaklingi á grundvelli ákvæðis þessa til gruns um afbrot skal rannsókn fara fram samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
6. Þegar eftirliti með einstaklingi er lokið skal lögregla tilkynna þeim sem eftirlitið beindist að um það án tafar nema ríkir hagsmunir standi því í vegi er varða afbrotavarnir, rannsókn sakamála, öryggi ríkisins eða samskipti við erlend ríki.
c. (15. gr. c.)
Afbrotavarnir í þágu öryggis ríkisins.
1. Lögreglu er heimilt í samræmi við 15. gr. b að taka ákvörðun, eftir því sem við á, um eftirlit með einstaklingi sem lögregla hefur áreiðanlegar upplýsingar um að kunni að stafa sérgreind hætta af fyrir öryggi ríkisins eða almennings. Skilyrði er að hætta sé á að framið verði brot sem varðað getur a.m.k. fimm ára hámarksfangelsisrefsingu skv. X. eða XI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
2. Sé einstaklingur undir eftirliti lengur en fjóra mánuði í senn skal bera ákvörðun lögreglustjóra um áframhaldandi eftirlit undir héraðsdóm til staðfestingar. Um þá málsmeðferð fer skv. XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar nema lögreglustjóri ákveði annað. Kæra má úrskurð héraðsdómara til Landsréttar ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála. Aðrir úrskurðir en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.
3. Leiði eftirlit með einstaklingi á grundvelli ákvæðis þessa til gruns um afbrot skal rannsókn fara fram samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
4. Þegar eftirliti með einstaklingi er lokið skal lögregla tilkynna þeim sem eftirlitið beindist að um það án tafar nema ríkir hagsmunir standi því í vegi er varða afbrotavarnir, rannsókn sakamála, öryggi ríkisins eða samskipti við erlend ríki.
5. Lögreglu er heimilt að afla upplýsinga, þar á meðal persónuupplýsinga, hjá öðrum stjórnvöldum og stofnunum ef það er nauðsynlegt og til þess fallið að hafa verulega þýðingu fyrir störf hennar í tengslum við rannsókn alvarlegra brota gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eða til að afstýra slíkum brotum. Viðkomandi stjórnvaldi eða stofnun er skylt að verða við beiðni samkvæmt ákvæði þessu.
6. Lögreglu er heimilt að leggja hald á muni í eigu eða vörslum annars aðila en sætir eftirliti eða beina því til eiganda eða vörsluhafa að veita aðgang að munum eða láta í té upplýsingar sem hann hefur að geyma, svo sem með því að afhenda afrit af skjali eða annars konar upplýsingum. Skilyrði fyrir haldlagningu eru að hún sé nauðsynleg og líkleg til að veita lögreglu upplýsingar sem hafa verulega þýðingu fyrir aðgerðir til að koma í veg fyrir brot gegn X. eða XI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Haldlagning skal ákveðin með úrskurði dómara. Um þá málsmeðferð fer skv. 68. og 69. gr. auk ákvæða XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Kæra má úrskurð dómara til Landsréttar ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála. Aðrir úrskurðir en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar. Aflétta skal haldi þegar þess er ekki lengur þörf og hlutast til um að skila munum til þess sem rétt á til þeirra.
d. (15. gr. d.)
Eftirlit með aðgerðum í þágu afbrotavarna.
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd lögreglu á aðgerðum á grundvelli 15. gr. b og 15. gr. c, þar á meðal að lögregla tilkynni þeim sem aðgerðir beindust að um aðgerðirnar þegar það á við.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
- Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skipar gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn.
- Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
6. Gæðastjóri lögreglu skal fullnægja skilyrðum b–e-liðar 2. mgr. og 3. mgr.
8. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 38. gr. laganna:
- Í stað orðanna „20 ára eða eldri“ í a-lið kemur: 19 ára á inntökuári eða eldri.
- B-liður orðast svo: hafa hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að viðkomandi varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta.
9. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskilinni 7. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2025.
Ákvæði b-, c- og d-liðar 6. gr. (15. gr. b – 15. gr. d), þ.m.t. varðandi dómsúrskurð, skulu endurskoðuð innan þriggja ára frá gildistöku. Eigi síðar en 1. júlí 2026 skal ráðherra sem fer með dómsmál skipa nefnd til að leggja mat á reynslu af beitingu ákvæðanna. Nefndin skal skipuð fulltrúum frá dómsmálaráðuneyti, ríkissaksóknara, nefnd um eftirlit með lögreglu, Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, samstarfsnefnd háskólastigsins og Mannréttindastofnun Íslands.
Nefndin skal skila ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. janúar 2027.
10. gr.
Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996: Á eftir orðinu „aðstoðarlögreglustjórar“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: gæðastjóri lögreglu.
Gjört á Bessastöðum, 4. júlí 2024.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Guðrún Hafsteinsdóttir.
|