Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 733/2012

Nr. 733/2012 20. ágúst 2012
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar.

I. KAFLI

Stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitar­félaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, Sogs, Þingvallavatns, þjóðgarðs­girðingar og varnarlína í Hvalfjörð (Landnámshólf).

2. gr.

Fjallskilaumdæmi og fjallskiladeildir.

Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaup­staður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.

Sveitarstjórnir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði og annast þær stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í sam­vinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.

3. gr.

Fjallskilanefnd.

Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstrarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjall­skila­nefnd til að sjá um lögboðin fjallskil svo og aðrar smalanir og fjárleitir í upp­rekstrar­löndum. Fjallskilanefnd starfar í umboði viðkomandi sveitarstjórna og skal hún skipuð minnst einum manni úr hverju sveitarfélagi, kjörnum til fjögurra ára í senn. Aldurs­forseti nefndarinnar boðar til fyrsta fundar hennar og skal þá kosinn formaður sem annast síðan stjórn og boðun funda. Einstökum sveitarstjórnum er einnig heimilt að kjósa fjallskila­nefndir.

4. gr.

Samráðsnefnd.

Sveitarstjórnir skulu kjósa fimm manna samráðsnefnd til fjögurra ára í senn sem skal fylgjast með framkvæmd fjallskilamála í Landnámi Ingólfs Arnarsonar og gera tillögur til sveitarstjórna um úrbætur eftir því sem þörf krefur hverju sinni. Skulu þrír nefndar­manna vera úr Árnessýslu vestan vatna og tveir úr Kjalarnesþingi. Aldursforseti nefndar­innar boðar til fyrsta fundar hennar og skal þá kosinn formaður sem annast síðan stjórn og boðun funda.

II. KAFLI

Notkun upprekstrarlanda o.fl.

5. gr.

Upprekstrarlönd og notkun þeirra.

Upprekstrarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 10. og 11. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau ein­göngu nýtt til sumarbeitar. Upprekstur hrossa í afrétti er óheimill og skulu þau undan­þegin fjallskilum.

Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis sveitarstjórnar. Eigi má heldur færa fénað í heimalönd eða upprekstrarlönd né ónáða þar án leyfis land­ráðenda eða sveitarstjórnar. Ennfremur er einstaklingum óheimilt að taka fénað til upp­rekstrar í félagslegt upprekstrarland nema með leyfi sveitarstjórnar.

Enginn má taka búfé í heimalönd sín nema girt sé öruggri gripheldri girðingu eða með samþykki allra nágrannabænda og sveitarstjórnar. Landráðandi ber fulla ábyrgð á þeim fénaði sem hann tekur í hagagöngu.

Á svæðum þar sem í gildi er vörsluskylda eða bann gegn lausagöngu búfjár skal ætíð halda allt búfé í öruggum gripheldum girðingum.

Eigi skal upprekstur leyfður fyrr en gróður er nægur að mati sveitarstjórnar eða fjallskila­nefndar. Komi upp ágreiningur er heimilt að leita álits gróðurverndarnefndar við­komandi sýslu. Enginn má smala upprekstrarlönd fyrir leitir nema með leyfi við­kom­andi sveitarstjórnar eða fjallskilanefndar. Óheimilt er að sleppa aftur fé úr haust­réttum á afrétti.

6. gr.

Smölun ágangsfénaðar.

Sveitarstjórn skal ætíð láta smala saman ágangsfénaði eða handsama ef þörf krefur og færa þangað sem hann á að vera.

III. KAFLI

Bygging og viðhald rétta.

7. gr.

Lögréttir.

Sveitarstjórnir og fjallskilanefndir skulu auglýsa í Lögbirtingablaðinu byggingar skilarétta á nýjum stað eða flutning þeirra.

Sveitarstjórnir og fjallskilanefndir annast byggingu og viðhald skilarétta og sundur­dráttar­rétta. Kostnaður við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald skilarétta og sundur­dráttar­rétta greiðist úr fjallskilasjóði viðkomandi fjallskiladeilda. Landeigandi á rétt á bótum fyrir jarðrask vegna réttarbyggingar að mati dómkvaddra manna.

Skylt er að sjá utansveitarmönnum fyrir nægilegu dilkrými og aðstaða skal vera til að ein­angra sjúkar kindur. Ómerkingum, óskilafé og línubrjótum skulu ætlaðir sérstakir dilkar.

IV. KAFLI

Búfjármörk og skráning marka.

8. gr.

Búfjármörk.

Til búfjármarka teljast eyrnamörk, brennimörk, plötumerki og frostmörk og örmerki. Hver búfjáreigandi er skyldur að merkja greinilega allt sauðfé, geitfé og hross en um merkingar nautgripa fer eftir reglum sem einstakar sveitarstjórnir geta sett í samráði við markavörð.

Allt sauðfé og geitfé skal eyrnamarka, lömb og kið fyrir lok 12. viku sumars. Rétt er að brennimerkja allt hyrnt sauðfé og geitfé, veturgamalt og eldra, með númeri bæjar eða eiganda, sýslu eða kaupstaðartákni og númeri sveitarfélags, á hægra horn. Nota skal plötumerki í eyru fyrir allt fé, áletruð með sama hætti og að framan greinir fyrir brenni­mörk. Á hinni hlið plötumerkisins skal skráð númer gripsins og skal merkið vera grátt að lit nema á þeim stöðum þar sem notaður er rauður litur vegna sauðfjárveiki­varna. Hross sem ekki eru eyrnamörkuð skal frostmerkja og/eða örmerkja samkvæmt viður­kenndu kerfi. Um frostmerkingar og örmerkingar gilda ákvæði reglugerðar um búfjár­mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, nr. 200/1998, með síðari breyt­ingum.

Aðeins er heimilt að nota þau eyrnamörk sem tilgreind eru í reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, nr. 200/1998, með síðari breyt­ingum, sbr. einnig upplýsingar um eyrnamörk og markaheiti í markaskrá. Skal marka­vörður gæta þess að þeim reglum sé fylgt. Einnig skal hann gæta þess að ekki séu tekin upp eða notuð mikil særingarmörk og mega mörk ekki vera meira en átta hnífs­brögð alls. Aðeins tvö undirmörk má nota sömu megin á eyra. Á hross er rétt að nota ekki áberandi yfirmörk.

Sammerking, þ.e. að tveir eða fleiri markeigendur eigi sama mark, er óheimil fyrir sauðfé og geitfé innan Landnáms Ingólfs Arnarsonar. Sammerkingar stórgripa eru óheimilar innan fjallskilaumdæma og óæskilegar innan Landnáms Ingólfs Arnarsonar. Auk þess gilda eftirfarandi reglur, sbr. reglugerð um búfjármörk, markaskrár og tak­mörkun á sammerkingum búfjár, nr. 200/1998, með síðari breytingum:

a)

Árnessýsla vestan vatna má ekki hafa sammerkt við Borgarfjarðarsýslu, Mýra­sýslu, Húnavatnssýslur nema hreppa norðan Vatnsneslínu í Vestur-Húnavatns­sýslu, Skagafjarðarsýslu vestan Héraðsvatna nema hreppana norðan Seylu­hrepps að undanskildu Eyhildarholti í Rípurhreppi. Auk þess eru bannaðar sam­merk­­ingar við Rangárvallasýslu vestan Markarfljóts.

b)

Gullbringusýsla, Kjósarsýsla og allir kaupstaðir í Kjalarnesþingi mega ekki hafa sammerkt við Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu og Árnessýslu austan vatna.

Í Landnámi Ingólfs Arnarsonar skulu notuð eftirtalin sýslu- eða kaupstaðatákn og númer sveitarfélaga, eða hluta þeirra, á brennimörk og plötumerki:

A 1

Selvogur (hluti Ölfushrepps)

A 2

Ölfushreppur (utan Selvogs)

A 3

Grafningshreppur (hinn forni)

A 4

Þingvallahreppur (hinn forni)

A 17

Hveragerðisbær

A 18

Selfoss (hluti Árborgar)

G 5

Bessastaðahreppur

G 6

Garðabær

G 7

Vogar

G 9

Garður

G 10

Sandgerðisbær

Gv

Grindavíkurbær

HF

Hafnarfjörður

K1

Kjósarhreppur

K 2

Kjalarneshreppur (hinn forni)

K 3

Mosfellsbær

K 4

Seltjarnarnes

K 5

Kópavogur

Kv

Reykjanesbær - Keflavík

Njv

Reykjanesbær - Njarðvík

RF

Reykjavík - Fjárborg

RVK

Reykjavík (utan Fjárborgar og Kjalarness).

9. gr.

Markaskráning.

Sveitarstjórnir skulu ráða markavörð, að fenginni tillögu samráðsnefndar, til að annast söfnun marka og útgáfu markaskrár fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar eigi sjaldnar en á átta ára fresti svo og upptöku nýrra marka og eigendaskipti marka á milli þess að markaskrár eru prentaðar. Sveitarstjórnum er heimilt að kjósa allt að fimm menn, þrjá úr Árnessýslu vestan vatna og tvo úr Kjalarnesþingi að fenginni tillögu samráðsnefndar, til að aðstoða markavörð við útgáfu og dreifingu markaskráa.

Allir sem vilja birta búfjármark í markaskrá milli þess að markaskrár eru prentaðar skulu greiða markaverði markagjald um leið og þeir senda eða afhenda honum markið. Sveitarstjórnir ákveða markagjaldið að fenginni tillögu markavarðar. Skal gjaldið ætíð vera svo hátt að það nægi fyrir öllum kostnaði við söfnun marka, útgáfu markaskrár og önnur störf markavarðar svo og aðstoðarmanna eftir því sem þörf krefur. Markaskrána skal prenta í svo mörgum eintökum að hver markeigandi geti fengið eitt eintak og einnig skal henni dreift til lögreglustjóra, sláturhússtjóra, vörslumanna búfjár, markavarða aðliggjandi fjallskilaumdæma og annarra sem málið varðar.

Vilji einhver taka upp nýtt mark, nota aðflutt mark eða skrá nýjan eiganda að marki á milli útgáfa markaskráa skal hann fá til þess samþykki markavarðar sem annast birtingu marksins í landsmarkaskrá. Er það þá heimilt til notkunar. Komi upp álitamál varðandi skráningu marka skal markavörður hafa samráð við Bændasamtök Íslands sem halda landsmarkaskrá og hafa eftirlit með útgáfu markaskráa, sbr. ákvæði reglugerðar um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, nr. 200/1998, með síðari breytingum.

V. KAFLI

Göngur og réttir.

10. gr.

Fjallskil.

Allir, sem jörð hafa til ábúðar eða umráða, og allir sem sauðfé eiga eða hafa undir höndum eru fjallskilaskyldir samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórna eða fjallskilanefnda. Hver maður er fjallskilaskyldur í því sveitarfélagi þar sem hann notar upprekstrarland fyrir fé sitt eða á land. Til leita í hverju upprekstrarlandi ber einkum að skipa þá er það nýta. Fjallskilakostnaði má jafna niður og leggja á í vinnu eða peningum í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds sauðfjár. Þó er heimilt að leggja allt að þriðjung fjallskilakostnaðar á landverð jarða að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Undanþiggja má fjall­skilum að einhverju eða öllu leyti fénað sem sannanlega gengur ætíð í öruggum girð­ingar­­hólfum eða í eyjum.

Fjallskilasjóður skal vera í hverri fjallskiladeild og skulu reikningar hans endurskoðaðir á sama hátt og sveitarsjóðsreikningar. Fjallskilagjöld má taka lögtaki. Að jafnaði skal miða reksturinn við að tekjur sjóðsins standi undir kostnaði. Sveitarstjórn getur þó ákveðið að sérstakir kostnaðarliðir fjallskila greiðist úr sveitarsjóði, svo sem vegna réttarbyggingar, sbr. 7. gr. III. kafla þessarar samþykktar.

Sveitarstjórn eða fjallskilanefnd boðar með fjallskilaseðli þrem vikum fyrir haustleitir öllum þeim sem hlut eiga að máli, hvaða fjallskil þeim ber að inna af höndum, og er sérhverjum skylt að hlíta þeim fyrirmælum án undandráttar. Vanræki maður að vinna tilskilin fjallskil má kaupa mann í stað þess er vantar á kostnað þess sem skipaður var. Fyrir gangnarof skal greiða sem svarar allt að einu og hálfu dagsverki.

Hver bóndi er skyldur að smala heimaland sitt á hausti samhliða leitum, ef sveitarstjórn mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eyðibýla þó að þeir eigi þar ekki fjárvon. Hlýði umráðamaður lands ekki fyrirmælum sveitarstjórnar ber honum að greiða smöl­unar­kostnað eftir mati hennar, nema honum sé meinað að nota land sitt til sumar­beitar eða leigja það. Heimilt er sveitarstjórn að veita þeim aðstoð sem erfiðastar hafa aðstæður og mest landrými til smölunar og greiðist sá kostnaður úr sveitarsjóði. Gangi meirihluti fjár í heimalöndum á sumrum getur sveitarstjórn ákveðið að haust­smölun heimalanda verði metin til fjallskila að meira eða minna leyti.

Sveitarstjórn eða fjallskilanefnd skipar leitarstjóra, safngæslumenn, tvo marklýs­inga­menn og réttarstjóra. Leitarstjórar skipa fyrir um leitir og ber leitarmönnum að hlýða þeim í hvívetna. Leitarstjórar ráða yfir safni sínu uns komið er til réttar og safn­gæslu­menn taka við. Leitarstjórar sjá um að leitarmenn séu viðhlítandi útbúnir og að öðru leyti starfa sínum vaxnir. Séu sendir í leitir vanbúnir liðléttingar sem að dómi leitarstjóra fái ekki unnið fullt gagn telst slíkt sem vanrækt fjallskil. Skipa skal menn í útréttir eftir þörfum, svo markglögga sem kostur er, og ber þeim að hirða allan fénað úr sveitarfélagi sínu og koma til rétta eða bæja í fjallskiladeildinni. Marklýsingamenn skulu kunna góð skil á búfjármörkum.

Þess skal gætt að fara vel með fénað við smölun, rekstur, gæslu, sundurdrátt og flutning. Við rekstur skal gæta þess að valda ekki tjóni á fénaði eða löndum sem rekið er um eða áð í.

11. gr.

Haustleitir.

Aðalhaustleitir skulu vera tvennar. Þá skal smala allt land þar sem fénaður hefur gengið á sumarbeit, sem mest á sama tíma. Sérstaklega skal þess gætt að göngur fari fram samtímis á samliggjandi leitarsvæðum svo að eigi verði misgöngur. Skulu leitarstjórar hafa samráð um þá tilhögun sem best er talin henta til að tryggja samræmingu við smölun. Skal safnið réttað sem fyrst eftir hverja leit. Þess skal þó gætt að hvíla það vel eftir langan rekstur.

Verði misbrestur á framkvæmd haustleita skal samráðsnefnd tilkynna viðkomandi sveitar­­stjórn, ef um einstaklinga er að ræða en ráðuneytinu ef sveitarfélag á í hlut. Leitað skal úrbóta án tafar í samræmi við V. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

Skilaréttir í Landnámi Ingólfs Arnarsonar skulu vera þessar, taldar upp í tímaröð, sú fyrri í 22. viku sumars og sú seinni tveim vikum síðar:

Réttir

Fyrri
22. vika sumars

Seinni
24. vika sumars

Heiðarbæjarrétt fyrir Þingvallasveit

laugardagur

laugardagur

Húsmúlarétt fyrir Ölfushrepp o.fl.

laugardagur

laugardagur

Krísuvíkurrétt fyrir Bessastaðahrepp,

Garðabæ og Hafnarfjörð

laugardagur

laugardagur

Vatnsleysustrandarrétt fyrir Voga

laugardagur

laugardagur

Þórkötlustaðarétt fyrir Grindavíkurbæ

laugardagur

laugardagur

Brúsastaðarétt fyrir Þingvallasveit

sunnudagur

sunnudagur

Hraðastaðarétt fyrir Mosfellsbæ

sunnudagur

sunnudagur

Fossvallarétt fyrir Kópavog,

Reykjavík og Seltjarnarnes

sunnudagur

sunnudagur

Kjósarrétt fyrir Kjósarhrepp

sunnudagur

sunnudagur

Kollafjarðarrétt, fyrir Kjalarneshrepp

sunnudagur

sunnudagur

Selvogsrétt fyrir Selvog (hluta Ölfushrepps)

sunnudagur

sunnudagur

Selflatarrétt, fyrir Grafning

mánudagur

mánudagur

Ölfusrétt fyrir Ölfushrepp
(utan Selvogs), Hveragerðisbæ og
Selfoss (vestan Ölfusár)

mánudagur

mánudagur

Sundurdrátt má hafa þar sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir ákveða og skal færa til skila­réttar það fé sem ekki er dregið upp í sundurdráttarrétt.

Komi fram óskir um að göngur og réttir fari fram á öðrum tíma en hér er ákveðið skal samráðsnefnd tilkynnt það a.m.k. fjórum vikum fyrir fyrstu haustleitir. Skal hún kanna málavöxtu og ákveða hvort og með hvaða hætti unnt er að verða við óskinni. Komi upp ágreiningur úrskurða sveitarstjórnir. Heimild um breytingu gildir að jafnaði fyrir eitt skipti í senn nema öðruvísi sé ákveðið.

12. gr.

Réttarstörf.

Réttarstjórar skulu sjá um að réttarstörf gangi sem greiðast og skulu réttarmenn hlíta fyrirskipunum þeirra í hvívetna. Réttarstjórum er heimilt að kveða til aðstoðarmenn eftir þörfum. Skylt er hverjum þeim sem fjárvon á í skilarétt að mæta þar á réttum tíma til sundurdráttar eða gera ráðstafanir til að féð sé hirt.

Réttarstjórar sjá um að allir ómerkingar séu einangraðir í sérstökum dilkum og réttar­mönnum síðan gefinn kostur á að láta mæður helga sér afkvæmi sín. Sömuleiðis skulu línubrjótar og óskilafé dregið í sér dilk og sjúkar kindur settar í einangrun.

Þegar ástæða er talin til að hefja töfludrátt skal réttarstjóri kalla marklýsingamenn til starfa. Á sauðfé og geitfé er brennimark rétthæst, þá löggild plötumerki og síðast eyrna­mörk. Á hrossum eru löggild örmerki rétthæst. Marklýsingamenn eða réttarstjóri í hans stað, úrskurða um búfjármörk. Ómerkingum og óskilafé sem ekki finnast eigendur að, svo og línubrjótum, skal þegar lógað í sláturhúsi, og sér réttarstjóri um að svo sé gert.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Aukasmalanir og eftirleitir.

Auk þeirra tveggja lögboðnu haustleita sem að framan greinir getur sveitarstjórn eða fjallskilanefnd ákveðið aukasmölun, eina eða fleiri, ef þurfa þykir. Skal þá sjá til þess að öll upprekstrarlönd og heimalönd séu smöluð samtímis, eða því sem næst, sem fyrst eftir seinni haustleit í 24. viku sumars.

Nú verður vart fjár í afrétti eða öðru upprekstrarlandi eftir 24. viku sumars og skal þá sveitarstjórn eða fjallskilanefnd láta handsama féð og flytja til byggða. Kostnaður við eftirleitir greiðist úr fjallskilasjóði. Sömu ákvæði gilda um fé sem finnst í ógöngum eða ósjálfbjarga.

Nú verður vart aðkomufénaðar í heimalandi eftir 24. viku sumars og er þá viðkomandi bónda eða landeiganda skylt að smala heimalandið og greiða fyrir skilum á þeim fénaði annarra sem þar kann að finnast. Verði einhver uppvís að því að smala heimaland sitt slælega eða alls ekki er sveitarstjórn heimilt að láta smala landið á kostnað viðkomandi bónda eða landráðanda hafi áminning ekki borið árangur.

14. gr.

Óskilafénaður.

Sveitarstjórn skal láta handsama lausagöngufénað hvenær árs sem er og gripir sem eru í óskilum skulu afhentir lögreglustjóra eða vörslumanni búfjár í viðkomandi sveitarfélagi.

Óskilafé, sem ekki finnast eigendur að, skal lógað í sláturhúsi en óskilahross skal lög­reglu­stjóri selja á opinberu uppboði með 12 vikna innlausnarfresti. Um meðferð grað­penings sem ekki er í öruggri vörslu vísast til ákvæða laga um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002.

15. gr.

Gildistaka o.fl.

Brot gegn fyrirmælum þessarar samþykktar varða sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum refsiheimildum, og renna sektir í fjallskilasjóð þeirrar fjallskiladeildar sem brot er framið í.

Samþykkt þessi, sem sveitarstjórnir Árnessýslu, Kjósarsýslu og Suðurnesja hafa sam­þykkt, að tillögu samráðsnefndar og er sett samkvæmt heimildum í lögum um afrétta­málefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi felld fjallskila­samþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar, nr. 401/1996.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 20. ágúst 2012.

F. h. r.

Óskar Páll Óskarsson.

Hrafn Hlynsson.

B deild - Útgáfud.: 29. ágúst 2012