I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið og gildissvið.
Tilgangur reglna þessara er að dreifa fjárframlagi til háskóla á gagnsæjan hátt með það að markmiði að efla gæði náms og rannsókna, ásamt því að auka fyrirsjáanleika við fjármögnun þeirra.
Reglurnar taka til úthlutunar fjárframlaga úr ríkissjóði til viðurkenndra háskóla skv. 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.
2. gr.
Skilgreiningar.
Merking orða og hugtaka í reglum þessum er sem hér segir:
- Áhrifastuðull (e. Impact factor): Stuðullinn byggir á fjölda tilvísana í tímarit sem skráð eru í alþjóðlega gagnagrunninn Scopus og eru mælanleg innan gagnagrunnsins.
- Bakkalárpróf: Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið öllum einingum af skipulagðri námsleið á háskólaþrepi 1, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður.
- Birtingatölfræði: Tölulegar upplýsingar um rannsóknavirkni við íslenskan háskóla, mældar í ritrýndum birtingum sem skráðar eru í alþjóðlega gagnagrunninn Scopus.
- Brautskráður: Nemandi sem hefur uppfyllt kröfur námsleiðar og þar með lokið námi á háskólastigi með prófgráðu eða öðrum staðfestum námslokum.
- Diplómapróf: Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið öllum einingum af skipulagðri námsleið á háskólaþrepi 1, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður.
- Doktorspróf: Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið öllum einingum af skipulagðri námsleið á háskólaþrepi 3, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður. Doktorspróf skal innihalda rannsóknarverkefni sem stenst alþjóðleg viðmið um slík verkefni.
- Efsta 1% ritrýndra birtinga: Birting telst til þessa flokks sé hún í efsta 1% birtinga hvað varðar tilvísanafjölda, leiðrétt fyrir birtingarári og fræðasviði í alþjóðlega gagnagrunninum Scopus.
- Efstu 10% ritrýndra birtinga: Birting telst til þessa flokks sé hún í efsta 10% birtinga hvað varðar tilvísanafjölda, leiðrétt fyrir birtingarári og fræðasviði í alþjóðlega gagnagrunninum Scopus.
- Einingar: Staðlaðar námseiningar sem endurspegla vænt vinnuframlag nemanda til að standast kröfur tiltekins námskeiðs.
- Veginn áhrifastuðull tilvísana (e. Field-weighted Citation Impact): Stuðullinn segir til um hversu margar tilvísanir birting hefur fengið hlutfallslega samanborið við sambærilegar birtingar í alþjóðlega gagnagrunninum Scopus.
- Háskólaár: Telst frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár.
- Háskólaþrep 1: Á háskólaþrepi 1 eru tvö stig, diplómapróf og bakkalárpróf, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður hverju sinni.
- Háskólaþrep 2: Á háskólaþrepi 2 eru tvö stig, viðbótarpróf og meistarapróf, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður hverju sinni.
- Háskólaþrep 3: Á háskólaþrepi 3 er eitt stig, doktorspróf, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður hverju sinni.
- Loknar einingar: Staðlaðar einingar námskeiðs þar sem nemandi sem skráður er í námskeiðið hefur fengið námsmatið „staðið“.
- Meistarapróf: Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið öllum einingum af skipulagðri námsleið á háskólaþrepi 2, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður. Meistarapróf felur í sér að minnsta kosti 30 eininga rannsóknarverkefni.
- Námsleið: Tiltekin samsetning háskólanáms með einkvæmt heiti, sem hefur jafnan heildarfjölda eininga sem nemandi þarf að ljúka til að ljúka háskólanámi með prófgráðu eða öðru lokaprófi.
- Opinber háskóli: Háskóli sem er sjálfstæð ríkisstofnun og heyrir undir ráðherra. Opinberir háskólar eru tæmandi taldir í 1. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Opinber háskóli skal hafa hlotið viðurkenningu ráðherra skv. 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.
- Sjálfstætt starfandi háskóli: Háskóli sem hlotið hefur viðurkenningu skv. 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Sjálfstætt starfandi háskóla má reka sem sjálfseignarstofnun eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi.
- Skólagjöld: Með skólagjöldum er átt við þátttöku nemenda í kennslu- og stjórnunarkostnaði, að frátöldum þjónustugjöldum sambærilegum þeim sem opinberir háskólar hafa heimild til að innheimta skv. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.
- Viðbótarpróf á meistarastigi: Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið öllum einingum af skipulagðri námsleið á háskólaþrepi 2, sbr. gildandi viðmið um æðri menntun og prófgráður. Undir viðbótarpróf á meistarastigi falla próf sem annaðhvort hafa ekki rannsóknarverkefni eða verkefnin innihalda færri en 30 einingar.
3. gr.
Fjárframlög úr ríkissjóði.
Fjárframlög til háskóla greiðast úr ríkissjóði í samræmi við fjárheimildir í fjárlögum í málaflokki 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi. Ákvörðun um úthlutun á árlegu fjárframlagi til opinberra háskóla og sjálfstætt starfandi háskóla skal vera í samræmi við reglur þessar.
Fjármögnun háskóla tekur til fjárframlaga vegna kennslu og rannsókna í háskólum, og samfélagslegs hlutverks þeirra. Hlutfallsleg dreifing fjármagns skv. 1. mgr. á milli þessara flokka skal vera sem hér segir:
- Kennsla, 60%.
- Rannsóknir, 15%.
- Samfélagslegt hlutverk, 25%.
Sjálfstætt starfandi háskólar sem innheimta ekki skólagjöld skulu fá óskert fjárframlag samkvæmt reglum þessum líkt og opinberir háskólar.
Sjálfstætt starfandi háskólar sem innheimta skólagjöld skulu fá fjárframlag sem nemur 75% af fjárframlagi til opinberra háskóla vegna kennslu og rannsókna skv. II. og III. kafla reglna þessara en óskert fjárframlag vegna samfélagslegs hlutverks skv. IV. kafla reglna þessara.
II. KAFLI
Fjárframlög vegna kennslu.
4. gr.
Skipting fjárframlags vegna kennslu.
Fjárframlögum vegna kennslu í samræmi við a-lið 1. mgr. 3. gr. reglna þessara skal skipt hlutfallslega niður í tvo flokka sem hér segir:
- Loknar einingar, 70%.
- Brautskráningar af háskólaþrepi 1 og 2, 30%.
5. gr.
Loknar einingar.
Greiða skal háskólum vegna lokinna eininga nemenda í samræmi við 1. mgr. 4. gr. reglna þessara.
Við útreikning á greiðslu skv. 1. mgr. skal taka mið af heildarfjölda lokinna eininga nemenda undanfarinna þriggja háskólaára hlutfallslega í samræmi við hlutdeild hvers háskóla (þannig skal til dæmis fyrir fjárlög 2025 taka mið af heildarfjölda lokinna eininga nemenda fyrir háskólaárin 2021-2022, 2022-2023 og 2023-2024) og stuðul hverrar námsleiðar skv. 3. mgr.
Skipta skal námsleiðum í fjóra flokka í samræmi við kennsluaðferðir í hverri námsleið. Flokkarnir skulu hafa stuðlana 1, 1,5, 2 og 4. Ráðuneytið ákvarðar endanlega flokkun námsleiða og stuðla sem birta skal árlega í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
6. gr.
Brautskráningar af háskólaþrepi 1 og 2.
Greiða skal háskólum vegna brautskráðra nemenda af háskólaþrepi 1 og 2 í samræmi við 1. mgr. 4. gr. reglna þessara.
Við útreikning á greiðslu vegna brautskráninga úr háskólum skv. 1. mgr. skal miða við meðaltal brautskráninga úr viðkomandi háskóla undanfarinna tveggja háskólaára (þannig skal til dæmis fyrir fjárlög 2025 taka mið af meðaltali brautskráninga úr háskólum fyrir háskólaárin 2022-2023 og 2023‑2024) og eftirfarandi stuðlum eftir prófgráðum:
- Bakkalárpróf, stuðull 1.
- Meistarapróf sem telur 120 einingar, stuðull 2.
- Meistarapróf sem telur 90 einingar, stuðull 1,5.
- Viðbótarpróf á meistarastigi sem telur 120 einingar, stuðull 1,5.
- Viðbótarpróf á meistarastigi sem telur 90 einingar, stuðull 1,125.
- Viðbótarpróf á meistarastigi sem telur færri en 90 einingar og diplómapróf, stuðull 0,2.
- Ekki skal greiða fyrir nám sem fellur undir 23. gr. a. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.
III. KAFLI
Fjárframlög vegna rannsókna.
7. gr.
Skipting fjárframlags vegna rannsókna.
Fjárframlögum vegna rannsókna í samræmi við b-lið 1. mgr. 3. gr. reglna þessara skal skipt hlutsfallslega niður í þrjá flokka sem hér segir:
- Birtingatölfræði, 55%.
- Brautskráningar af háskólaþrepi 3, 15%.
- Erlendir styrkir, 30%.
8. gr.
Birtingatölfræði.
Greiða skal háskólum vegna birtingatölfræði í samræmi við 1. mgr. 7. gr. reglna þessara.
Við útreikning á greiðslu vegna birtingatölfræði skal miða við ritrýndar birtingar síðustu þriggja almanaksára hlutfallslega eftir hlutdeild hvers háskóla. Við útreikning á birtingatölfræði skal byggja á sex undirbreytum sem fengnar eru úr alþjóðlega gagnagrunninum Scopus sem hér segir:
- Fjöldi ritrýndra birtinga eftir fræðasviðum, margfaldað með vegnum áhrifastuðli tilvísana (e. Field-weighted Citation Impact), 55%.
- Fjöldi ritrýndra birtinga í opnum aðgangi óháð birtingarleið, 10%.
- Fjöldi birtinga í flokki efstu 10% ritrýndra birtinga á sínu fræðasviði, 12%.
- Fjöldi birtinga í flokki efstu 1% ritrýndra birtinga á sínu fræðasviði, 2%.
- Fjöldi ritrýndra greina í þeim 10% tímarita sem hafa hæstan áhrifastuðul (e. Impact Factor) á því ári sem viðkomandi grein er gefin út, 9%.
- Alþjóðlegt samstarf, þ.e. fjöldi birtinga þar sem einhverjir meðhöfundar að birtingu starfa við erlendar rannsóknastofnanir eða háskóla, 12%.
9. gr.
Brautskráningar af háskólaþrepi 3.
Greiða skal háskólum vegna brautskráðra nemenda af háskólaþrepi 3 í samræmi við 1. mgr. 7. gr. reglna þessara.
Við útreikning á greiðslu vegna brautskráninga nemenda með doktorspróf úr háskólum skal miða við meðaltal brautskráninga af háskólaþrepi 3 úr viðkomandi háskóla síðustu tveggja ára hlutfallslega eftir hlutdeild hvers háskóla.
10. gr.
Erlendir styrkir.
Greiða skal háskólum vegna erlendra styrkja skv. c-lið 1. mgr. 7. gr. reglna þessara.
Greiða skal fyrir styrki sem tilgreindir eru og birtir árlega í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
Við útreikning á greiðslu vegna erlendra styrkja skal miða við hlutdeild háskólans af heildarhlutdeild í veittum styrkjum úr sjóðum skv. 2. mgr. ákvæðis þessa, á undangegnum fimm almanaksárum.
IV. KAFLI
Fjárframlög vegna samfélagslegs hlutverks.
11. gr.
Skipting fjárframlags vegna samfélagslegs hlutverks.
Greiða skal háskólum vegna samfélagslegs hlutverks í samræmi við c-lið 1. mgr. 3. gr. reglna þessara. Fjárframlögum vegna samfélagslegs hlutverks skal skipta niður í sjö flokka sem hér segir:
- Efling byggða og fjarnám, 12,8%.
- Sókn í STEAM, 12%.
- Stefna háskóla, 20%.
- Stuðningur við fámennar, mikilvægar grunngreinar, 4%.
- Kennsluauki, 20%.
- Rannsóknarauki, 20%.
- Innleiðing, 11,2%.
Fjárframlög vegna samfélagslegs hlutverks eru stefnubundnar fjárveitingar þar sem forsendur innan flokka skulu endurskoðaðar og birtar árlega í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.
Endurskoðun.
Reglur þessar skulu koma til endurskoðunar að liðnum þremur árum frá gildistöku.
13. gr.
Lagaheimild og gildistaka.
Reglur þessar eru settar með heimild í 1. mgr. 22. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.
Reglur þessar öðlast þegar gildi og á sama tíma falla reglur um fjárframlög til háskóla nr. 646/1999 úr gildi.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. júní 2024.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|