Með vísan til 124. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, tilkynnir ráðuneytið að það hefur í dag staðfest sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, í umdæmi sýslumannsins á Austurlandi, í eitt sveitarfélag.
Boða skal til sveitarstjórnarkosninga þann 18. apríl nk. og kjósa skal ellefu fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags, auk átta fulltrúa og átta til vara með beinni kosningu í fjórar heimastjórnir sveitarfélagsins. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins sameinaða sveitarfélags þann 3. maí 2020 og á sama tíma tekur sameiningin gildi.
Samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp, sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett ný samþykkt, verður birt sérstaklega. Jafnframt verður heiti hins sameinaða sveitarfélags auglýst sérstaklega.
Íbúar allra sveitarfélaganna skulu vera þegnar hins sameinaða sveitarfélags. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land sem nú tilheyrir sveitarfélögunum fjórum. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn beggja sveitarfélaga skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu.
Sveitarstjórnir sveitarfélaganna fjögurra kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, skulu vera undirkjörstjórnir við kosningar, nema annað verði ákveðið.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 14. febrúar 2020.
F. h. r.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
|