Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1085/2011

Nr. 1085/2011 22. nóvember 2011
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir sveitarfélagið Dalabyggð.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur á hendi yfirstjórn allra fjallskilamála innan sveitar­félagsins. Hún skipar fjallskilanefndir sem annast stjórn og framkvæmd fjallskila hver í sinni fjallskiladeild. Komi upp ágreiningur vegna ákvörðunar fjallskilanefndar sker sveitar­stjórn úr.

2. gr.

Fjallskiladeildir í Dalabyggð eru:

Fjallskiladeild Skógarstrandar
Fjallskiladeild Suðurdala (Hörðudalur og Miðdalir)
Fjallskiladeild Haukadals
Fjallskiladeild Laxárdals
Fjallskiladeild Hvammssveitar
Fjallskiladeild Fellsstrandar
Fjallskiladeild Skarðsstrandar
Fjallskiladeild Saurbæjar.

Umdæmi framangreindra fjallskiladeilda miðast við landfræðileg mörk þeirra byggðarlaga sem þær eru kenndar við. Sveitarstjórn er heimilt að breyta mörkum þeirra eða sameina þær, ef það er vilji þeirra fjallskilanefnda sem hlut eiga að máli. Skeri sauðfjár­veiki­varnar­girðing land fjallskiladeildar, þannig að hluti hennar lendi í öðru varnar­hólfi, skal viðkomandi fjallskilanefnd eða sveitarstjórn leita eftir samvinnu um fjallskil á því landi við nærliggjandi fjallskiladeildir eða sveitarfélög.

3. gr.

Fundargerðir fjallskilanefndar skal færa á tölvutæku formi og senda sveitarstjórn, en fjallskilanefnd skal einnig skrá fundargerðirnar í sérstaka gerðabók.

Reikningshaldi hverrar fjallskiladeildar skal haldið aðgreindu í bókhaldi sveitarsjóðs en sveitarfélagið annast bókhald og innheimtu fjallskiladeildanna. Endurskoða skal fjallskila­reikninga á sama hátt og reikninga sveitarsjóðs.

II. KAFLI

Um fjallskil og leitarlönd.

4. gr.

Land það sem fjallskilasamþykkt þessi nær til, skiptist í heimalönd og önnur beitilönd sem nytjuð eru sem sumarhagar fyrir sauðfé. Allar jarðir eiga heimalönd en til þeirra teljast girt eða ógirt landsvæði á láglendi næst húsum, ræktarland og önnur svæði innan girðinga. Séu vandkvæði á reglubundinni haustsmölun heimalanda skv. 8. gr. er fjallskilanefnd heimilt að fella þau undir skipulagðar haustleitir, að fengnu samþykki umráðamanns landsins.

5. gr.

Fjallskilaskyldur er hver sá sem á kindur hvort sem þær ganga í heimalandi eða í öðrum sumarhögum. Heimilt er að leggja fjallskil á eigendur hrossa gangi þau í sumarhögum sauðfjár, þar sem skipulagðar haustleitir fara fram. Einnig er heimilt að leggja fjallskil á eigendur geitfjár.

Fjallskil og kostnað vegna þeirra skal fjallskilanefnd meta til peningaverðs og jafna niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búfjár, samkvæmt skýrslum búfjáreftirlitsmanns við vorskoðun.

Fjallskilanefnd er heimilt að leggja allt að 33% af fjallskilakostnaði á landverð jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda samkvæmt fasteignamati á hverjum tíma. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða innan fjallskiladeildarinnar, óháð búfjáreign á hverri jörð. Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu, eftir því sem þörf krefur og fjallskilanefnd ákveður, ella greidd í peningum. Sé heimild til að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða notuð, skal landeigendum sem ekki eiga fjallskilaskylt búfé gefin kostur á að vinna af sér fjallskilin á sambærilegan hátt og fjallskilaskyldir búfjáreigendur gera.

Reki menn fénað sinn í aðra fjallskiladeild til sumargöngu, eða hafi fé sitt í girðingu yfir sumarið, er fjallskilanefnd heimilt að færa niður fjallskilakostnað. Full fjallskil greiðast af því fé sem fjáreigendur reka til sumargöngu, í þeirri fjallskiladeild sem féð er rekið í. Tekjum fjallskilasjóðs skal varið til að greiða kostnað við flutning búfjár milli fjallskiladeilda (sjái fjáreigendur ekki um hann sjálfir), kostnað við gæslu á úrtíningsfé o.fl. eftir ákvörðun fjallskilanefndar. Tekjur fjallskilasjóðs hafa lögtaksrétt.

6. gr.

Öllum þeim sem skyldir eru skv. 5. gr. að gera fjallskil, þar með töldum eigendum fjárlausra jarða, skal sent afrit af fjallskilaseðli viðkomandi fjallskiladeildar með a.m.k. 15 daga fyrirvara. Þar skal taka fram hvaða fjallskil hver og einn á að inna af hendi, tilgreindir leitarstjórar og réttarstjórar, á hvaða svæði hver skuli leita, hverjir eigi að sækja fé í réttir utan sem innan fjallskiladeildar og sérhvað annað er að fjallskilum lýtur. Allir fjáreigendur skulu að forfallalausu taka við leitarstjórastarfi. Fjallskilaseðlar allra fjallskiladeilda í sveitarfélaginu skulu vera aðgengilegir á vefsíðu sveitarfélagsins.

7. gr.

Eigendum jarða er óheimilt að ráðstafa beitarafnotum til fjáreigenda sem búa í annarri fjallskiladeild, án samþykkis fjallskilanefndar þar sem land viðkomandi jarðar liggur.

8. gr.

Allir sem hafa jörð til ábúðar eða umráða, eru skyldir að láta smala heimaland hennar fyrir aðra rétt (skilarétt) og koma ókunnugu fé til réttar áður en réttarhald hefst. Sinni umráðamaður jarðar ekki smölunarskyldu sinni, geta sveitarstjórn og fjallskilanefnd látið smala landið á hans kostnað.

9. gr.

Falli það landsvæði sem fjallskiladeild nær yfir eða verulegur hluti þess úr byggð, getur viðkomandi fjallskilanefnd óskað eftir því að sveitarstjórn sjái um að fjallskil séu framkvæmd á þeim eyðilöndum. Kostnaður við þau skiptist þannig að eigendur bera ½, fjallskiladeildir þær sem fjárvon eiga í löndunum ¼ og ríkið ¼. Bændasamtök Íslands úrskurða kostnaðarreikninga.

10. gr.

Aðal haustleitir skulu vera tvær:

Í Dalahólfi syðra skal fyrri leit fara fram laugardag 12. til 18. september og seinni leit laugardag 26. september til 2. október.
Í Dalahólfi nyrðra skal fyrri leit fara fram laugardag 14. til 20. september og seinni leit laugardag 28. september til 4. október.
Á Skógarströnd skal fyrri leit fara fram laugardag í 22. viku sumars og seinni leit laugardag í 24. viku.

Heimil eru eftirtalin frávik frá framangreindum dagsetningum, ef um það er samstaða milli þeirra fjallskiladeilda sem hlut eiga að máli:

Að skipta leitum niður á fleiri daga en að framan greinir.
Að fella niður leit á ákveðnu landsvæði þegar fyrsta leit á að fara fram, enda fari þrátt fyrir það fram tvær leitir á svæðinu.
Að flýta annaðhvort fyrri eða seinni leit eða báðum leitum, um eina viku.

Fjallskiladeildir í Dalabyggð sem liggja að Strandasýslu, Mýrasýslu og Snæfellsness- og Hnappadalssýslu skulu leita eftir samvinnu um haustleitir við þær fjallskiladeildir framan­greindra sýslna, sem land eiga á móti þeim. Ef þörf er talin á skipulögðum eftir­leitum fara þær fram samkvæmt ákvörðun fjallskilanefndar.

11. gr.

Réttir skulu haldnar laugardag, sunnudag eða mánudag eftir fyrstu og aðra leit í öllum fjallskiladeildum sveitarfélagsins.

12. gr.

Hver bóndi eða umráðamaður lands er skyldur að hirða það búfé sem finnst í heimalandi hans eftir að leitum er lokið, og tilkynna það réttum eiganda.

Finnist búfé í ógirtum sumarhögum eftir að skipulögðum haustleitum er lokið á að handsama það eða tilkynna fjallskilanefnd viðkomandi svæðis, sem skal þá í samráði við landeiganda, leitarstjóra og fjáreiganda (ef kunnur er), sjá um að því sé náð svo fljótt sem kostur er og tilkynna réttum eiganda. Þurfi að flytja búféð til eiganda greiði hann kostnað við flutning þess samkvæmt reikningi sem fjallskilanefnd eða sveitarstjórn hafa samþykkt.

Með björgun kinda úr ógöngum skal farið eins og sagt er í VII. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, með síðari breytingum.

13. gr.

Leitarstjórar sem og aðrir fjallskilaskildir aðilar skulu gæta þess að allir þeir sem eiga að leggja til menn í leitir, sendi svo marga fullgilda leitarmenn sem fjallskilanefnd hefur fyrirskipað. Leitarstjórar skulu stjórna göngum leitarmanna og sjá um að allt fari skipulega fram. Þeir skulu einnig sjá um að leitarmenn bíði hver eftir öðrum á gangnamótum að svo miklu leyti sem því verður við komið, og haldi leitum samhliða. Ef einhver sendir mann í leit sem leitarstjóri telur óhæfan eða vanbúinn, skal vísa honum heim aftur, og er þá sá er slíkan mann sendir, skyldur að borga eins og hann hafi engan sent. Sama gildir um þann, er sendir ófullgildan mann í útréttir. Leitarmenn skulu vera vel búnir í áberandi litum klæðnaði.

14. gr.

Vanræki menn álögð fjallskil skal leitarstjóri eða fjallskilanefnd kaupa mann í staðinn sé þess kostur, og sá er fjallskilin átti að inna af hendi skal greiða dagsverkið til fjall­skila­sjóðs. Fáist ekki maður til að vinna verkið skal að auki greiða sekt allt að helm­ingi af matsverði fjallskilanna.

Athugasemdir við niðurjöfnun, vanrækslu eða annað sem við kemur fjallskilum skal skilað skriflega til viðkomandi fjallskilanefndar fyrir 1. nóvember.

III. KAFLI

Um réttir og réttarstörf.

15. gr.

Fjallskilanefndir skulu sjá um í samráði við sveitarstjórn, að safngirðingar, lögréttir og aukaréttir séu í góðu ástandi til notkunar. Nægjanlegt dilkrými skal vera fyrir alla þá sem fjárvon eiga í réttinni, einnig góð aðstaða til sundurdráttar og til að koma réttarfé á bíla eða fjárvagna. Sé þess kostur skal merkja dilka með bæjarnöfnum og bæjarnúmerum en dilka fyrir fé úr öðrum fjallskiladeildum með nafni og númeri viðkomandi deildar. Kostnaður við byggingu, niðurrif og viðhald lögrétta, safngirðinga og vega að lögréttunum greiðist úr sveitarsjóði.

16. gr.

Þeim bændum eða landeigendum sem leggja til land undir réttir og girðingar við þær skal árlega greiða leigu úr sveitarsjóði. Gerður skal skriflegur samningur við landeiganda. Landeigandi á rétt á bótum fyrir jarðrask vegna réttarbyggingar eftir mati óvilhallra manna, sem sýslumaður tilnefnir.

17. gr.

Lögréttir eru þessar:

Vörðufellsrétt og Ósrétt á Skógarströnd.
Hólmarétt í Hörðudal.
Fellsendarétt í Miðdölum.
Kirkjufellsrétt í Haukadal.
Gillastaðarétt í Laxárdal.
Skerðingsstaðarétt í Hvammssveit.
Flekkudalsrétt á Fellsströnd og aukarétt er Tungurétt.
Skarðsrétt á Skarðsströnd.
Brekkurétt í Saurbæ.

Ef breyta á um lögréttarstað, þarf samþykki sveitarstjórnar og almenns fundar þeirra fjáreigenda sem fjallskil eru lögð á, í viðkomandi fjallskiladeild.

18. gr.

Fjallskilanefnd skipar réttarstjóra og skal hann sjá um að réttarstörf fari vel og skipulega fram og skulu allir sem vinna við réttarhaldið hlíta fyrirmælum hans í hvívetna. Réttar­stjóra er heimilt að skipa menn til að líta eftir því að fé misdragist ekki.

19. gr.

Enginn má marka kind á eyra í lögrétt, nema með leyfi réttarstjóra. Ekki má taka fé úr dilkum án leyfis réttarstjóra.

20. gr.

Ómerkinga skal láta í sérstakan dilk og hleypa þangað ám, sem líkur eru á að lamb vanti undir. Þá ómerkinga sem af ganga skal farið með eftir gildandi reglum. Kindur sem hafa skemmd eyru og ekki er hægt að greina mark á skal farið með sem ómerkinga. Andvirði þeirra kinda sem engin sannar eignarrétt sinn á rennur í fjallskilasjóð. Leitast skal við að auðkenna ómerkinga og mæður sem finnast í leitum, ef tök eru á.

21. gr.

Þeir menn sem sendir eru í lögréttir utan sem innan fjallskiladeildar, skulu skila því sauð­fé sem þeir taka í réttum samkvæmt ákvörðun fjallskilanefndar.

IV. KAFLI

Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.

22. gr.

Ómerkingum og óskilafé sem kemur fyrir í réttum og ekki finnast eigendur að, skal réttarstjóri sjá um að koma í sláturhús svo fljótt sem kostur er. Áður en slíku fé er lógað skal skrifa nákvæma lýsingu á því þar sem getið er marks og annarra einkenna, sem eigendur gætu helgað sér það eftir. Óskilafé sem fram kemur eftir réttir eða fé sem ekki kemst til eigenda vegna fjarlægðar, skal fara með á sama hátt. Annan óskilapening, svo sem hross og nautgripi, skal sýslumaður selja á opinberu uppboði með 4 vikna innlausnarfresti.

23. gr.

Fyrir árslok skal sveitarstjóri birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár, eða um sölu ef um óskilahross eða nautgripi er að ræða. Skal í tilkynningu greint mark og auðkenni hverrar skepnu, eftir því sem kostur er, og skorað á eigendur að gefa sig fram innan tilskilins tíma.

24. gr.

Af sláturverði ómerkinga og annars óskilafjár sem og andvirði seldra hrossa og nautgripa greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðist eiganda ef hann sannar eignar­rétt sinn innan tiltekins tíma, ella í fjallskilasjóð þeirrar fjallskiladeildar þar sem óskila­peningurinn kom fyrir.

V. KAFLI

Um mörk og markaskrár.

25. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum og er búfjáreiganda skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu. Búfjármörk eru: Örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Mark helgar markeiganda eignarrétt nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér búpening sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun eignar er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Bæði lömb og ásett fé er skylt að merkja með lituðu plötumerki skv. reglugerð, nr. 289/2005, með síðari breytingum nr. 972/2005.

Um fjármörk, merkingar á búfé og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., reglugerð um búfjármörk, markaskrár og tak­mörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998.

26. gr.

Sveitarstjórn ræður markavörð til að hafa umsjón með upptöku nýrra marka og að búa markaskrá undir prentun. Markeiganda er skylt að tilkynna mark sitt til prentunar í markaskrá sýslunnar.

VI. KAFLI

Um ágang búfjár o.fl.

27. gr.

Verði mikil brögð að ágangi búfjár úr sumarhögum í heimaland, getur sá er fyrir verður gert sveitarstjórn og viðkomandi fjallskilanefnd aðvart. Ef um verulegan eða óeðlilegan ágang er að ræða, er sveitarstjórn/fjallskilanefnd heimilt að fyrirskipa smölun ágangspenings á viðkomandi svæði og færa hann til réttar. Þar er eigendum skylt að hirða fénað sinn.

Búfé sem er sérstaklega áleitið við fullgildar girðingar (að mati úttektarmanns) er eiganda skylt að sækja þegar honum hefur verið tilkynnt um og koma í örugga vörslu. Vanræki eigandi að hirða tilsagðan fénað, má kæra til sýslumanns. Ætíð skal þó vísa slíkum málum sem að framan greinir til sveitarstjórnar áður en kærur til sýslumanns eru lagðar fram.

28. gr.

Verði verulegur ágangur sauðfjár eða hrossa frá einni fjallskiladeild í aðra, getur sú fjallskiladeild er fyrir ágangi verður óskað eftir að hin fjallskiladeildin greiði bætur fyrir áganginn eða sendi menn í göngur. Miða skal greiðslu við að andvirði eins dagsverks í þeirri fjallskiladeild sem féð gengur í verði greitt fyrir hverjar 60 kindur sem koma til réttar.

Réttarstjóri skal sjá um að telja það fé sem til réttar kemur. Verði ágreiningur um gjaldtöku skulu viðkomandi fjallskiladeildir tilnefna einn mann hver og sýslumaður einn mann í nefnd til að úrskurða endanlega um ágreiningsefnið.

29. gr.

Sé ágangspeningur settur inn skal þess gætt að hann sé ekki í svelti. Ef innsettur fénaður ferst eða slasast greiði sá er inn setur bætur til eiganda.

30. gr.

Með mál sem varða ítölu og verndun beitilands skal farið eins og sagt er í III. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, með síðari breytingum.

VII. KAFLI

Um hross.

31. gr.

Sérhver hrossaeigandi er skyldur að hafa viðurkennt búfjármark á hrossum sínum. Sveitarstjórn getur bannað að hross gangi í sumarhögum sauðfjár ef henni þykir ástæða til.

32. gr.

Hrossum skal smala til annarrar réttar séu lögð fjallskil á eigendur þeirra. Fara skal með óskilahross á sama hátt og óskilakindur. Þó skulu þau seljast með 10 daga auglýsingarfresti fyrir söludag og 4 vikna innlausnarfresti eftir söludag. Gjaldfrestur á söluverðinu sé einnig 4 vikur. Eigandi greiðir allan kostnað.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

33. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum refsiheimildum. Renna sektir í fjallskilasjóð þeirrar fjallskiladeildar sem brot er framið í. Mál sem rísa út af brotum á samþykkt þessari, skal fara með að hætti opinberra mála.

34. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samið og samþykkt staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum til þess að öðlast gildi. Jafnframt er felld úr gildi fjallskilasamþykkt fyrir Dalasýslu nr. 532/1997.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 22. nóvember 2011.

F. h. r.

Óskar Páll Óskarsson.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

B deild - Útgáfud.: 30. nóvember 2011