1. gr.
Gildissvið.
Ákvæði reglnanna gilda um styrkveitingar til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla, sem eru starfræktir utan höfuðborgarsvæðisins hér á landi.
2. gr.
Fjárveitingar.
Fjárveitingar til verkefnisins eru annars vegar framlag menningar- og viðskiptaráðuneytis og hins vegar fjárveitingar á fjárlögum til verkefnis C.07 í byggðaáætlun.
3. gr.
Markmið.
Markmið með styrkveitingum til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins er að efla starfsemi þeirra enda gegni þeir mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðji með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.
4. gr.
Orðskýringar.
Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér greinir:
- Einkarekinn fjölmiðill er fjölmiðill sem er hvorki í heild eða að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags eða annars lögaðila alfarið í þeirra eigu.
- Fjölbreytt efni er efni sem birtist í fjölmiðlum og hefur breiða skírskotun og er fyrir allan almenning á Íslandi en ekki afmarkaða hópa. Í þessu felst að efnistök séu almenn og fjölbreytt en ekki bundin við eitt afmarkað eða fá svið.
- Fjölmiðlaveita er einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil.
- Höfuðborgarsvæðið nær yfir sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ, Seltjarnarnesbæ og Mosfellsbæ.
- Staðbundinn fjölmiðill er landshluta-, héraðs-, hverfis- eða bæjarmiðill sem hefur fyrst og fremst staðbundna efnisskírskotun og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðilsins.
5. gr.
Skilyrði fyrir styrkveitingu.
Skilyrði fyrir styrkveitingum til einkarekins staðbundins fjölmiðils utan höfuðborgarsvæðisins eru eftirfarandi:
- Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.
- Fjölmiðlaveita skal hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar, skv. 23. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og hafa veitt fjölmiðlanefnd fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald fjölmiðlaveitunnar þar með talin gögn um raunverulegan eiganda og yfirráð.
- Fjölmiðlaveita sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.
- Aðalmarkmið fjölmiðilsins skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni í viðkomandi héraði eða dreifingarsvæði miðilsins.
- Efni sem birtist í fjölmiðlinum skal vera fjölbreytt og ætlað fyrir almenning á útbreiðslusvæði fjölmiðilsins.
- Prentmiðlar skulu koma út reglulega og að lágmarki 12 sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni skv. d-lið eigi sjaldnar en á tveggja vikna fresti.
- Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í miðlinum og að minnsta kosti helmingur ritstjórnarefnisins varði útbreiðslusvæði miðilsins með beinum eða óbeinum hætti.
6. gr.
Umsókn.
Menningar- og viðskiptaráðherra tekur ákvörðun um úthlutun styrkja til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki.
Ef fjölmiðlaveita starfrækir beint eða óbeint fleiri en einn staðbundinn fjölmiðil utan höfuðborgarsvæðisins sem uppfylla skilyrði 5. gr. reglnanna skal umsókn vera sameiginleg vegna þeirra beggja eða allra.
Í umsókn skulu meðal annars koma fram upplýsingar um meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka, upplýsingar úr síðasta endurskoðaða ársreikningi um heildartekjur og útgjöld ásamt bráðabirgðatölum um heildartekjur og útgjöld næstliðins árs. Einnig um útgáfutíðni, dreifingu og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði skv. 5. gr.
Umsækjanda ber að staðfesta í umsókn að hann samþykki þær skuldbindingar sem hugsanleg styrkveiting felur í sér gagnvart ráðuneytinu um ráðstöfun styrkfjárins, upplýsingagjöf og fleira sem nánar er tiltekið á umsóknareyðublaði og í styrkveitingarbréfi.
Séu gögn ófullnægjandi skal veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum.
Við mat á umsóknum getur ráðuneytið aflað álits sérfróðra aðila um hvort skilyrði 5. gr. séu uppfyllt. Heimilt er að fela stofnun á málasviði menningar- og viðskiptaráðuneytis umsýslu með umsóknum og fleira. Kostnað við mat á umsóknum og annarri umsýslu skal greiða úr ríkissjóði af fjárveitingu til rekstrarstuðningsins.
7. gr.
Úthlutun og hámark styrkja.
Við úthlutun styrkja er miðað við að þeirri fjárhæð, sem veitt er til verkefnisins, verði skipt jafnt á milli umsækjenda sem teljast styrkhæfir skv. ákvæðum þessara reglna.
Fjárstyrkurinn skal eigi vera meiri en sem nemur helmingi af heildartekjum umsækjanda samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi og áætlun eða bráðabirgðaniðurstöðu um heildartekjur næstliðins árs.
8. gr.
Gildistími.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 og reglugerðar nr. 642/2018 og taka þegar gildi og gilda til 31. janúar 2023.
Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 18. nóvember 2022.
Lilja D. Alfreðsdóttir.
|