1. gr.
Við 40. gr. reglnanna bætist svohljóðandi ákvæði:
Fagháskólanám:
Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skal eftirfarandi gilda um fagháskólanám í tilraunaskyni. Öðrum en þeim sem uppfylla skilyrði um inntöku í grunnnám við Háskólann á Akureyri má í tilraunaskyni heimila að hefja skilgreint fagháskólanám sem skipulagt er af háskóladeild og leitt getur til inntöku í grunnnám til prófgráðu í viðeigandi námsleið. Fagháskólanám er að lágmarki 60 eininga nám á faglegri ábyrgð deildar og að jafnaði skipulagt sem tveggja ára nám með starfi og eftir atvikum 30 eininga starfsþjálfun til viðbótar. Standist nemandi námskröfur fagháskólanámsins getur hann hafið grunnnám til prófgráðu (bakkalárgráðu) í viðeigandi námsleið og fengið 60 eininga fagháskólanámið metið sem hluta af því námi.
Við inntöku í fagháskólanám skal við það miðað að umsækjandi hafi þriggja ára starfsreynslu í viðeigandi starfsgrein og hafi aflað undirbúnings sem telst eftir atvikum sambærilegur við þann sem felst í staðfestri námsbraut fyrir leikskólaliða (leikskólabrú) samkvæmt gildandi aðalnámskrá framhaldsskóla. Hliðstæðar kröfur eiga við um inntöku nemenda í annað fagháskólanám sem kann að verða skipulagt í tilraunaskyni. Við inntöku í fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða er krafa um að umsækjandi hafi lokið sjúkraliðanámi og hafi gilt starfsleyfi frá embætti landlæknis. Viðkomandi deild tekur ákvörðun um inntöku í fagháskólanám.
2. gr.
Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði, sem settar eru á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla og laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi.
Háskólanum á Akureyri, 25. maí 2023.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.
|