1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um hugtakalista, gjaldskrá og gjaldayfirlit sem greiðsluþjónustuveitandi skal láta neytanda í té samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 5/2023, um greiðslureikninga.
2. gr.
Hugtakalisti og gjaldskrá.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 5/2023, um greiðslureikninga, skal greiðsluþjónustuveitandi láta neytanda í té gjaldskrá á pappír eða öðrum varanlegum miðli, þar sem fram koma stöðluð hugtök yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningi og tilsvarandi gjöld fyrir hverja þjónustu sem greiðsluþjónustuveitandi býður. Reglur þessar eru settar til að innleiða reglugerðir (ESB) sem mæla fyrir um framsetningarform fyrir slíka gjaldskrá og sameiginlegt tákn þess sem og staðlaða hugtakanotkun Evrópusambandsins yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum. Gjaldskrá skal jafnframt taka mið af lokaskrá yfir hugtök sem birt er í viðauka við reglur þessar.
3. gr.
Gjaldayfirlit.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 5/2023, um greiðslureikninga, skal greiðsluþjónustuveitandi, a.m.k. einu sinni á ári og án endurgjalds, láta neytanda í té yfirlit yfir öll gjöld sem stofnað hefur verið til með notkun greiðslureiknings. Reglur þessar eru settar til að innleiða reglugerðir (ESB) að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir slíkt gjaldayfirlit og sameiginlegt tákn þess. Gjaldayfirlit skal jafnframt taka mið af lokaskrá yfir hugtök sem birt er í viðauka við reglur þessar.
4. gr.
Innleiðing reglugerða (ESB).
Með vísan til 2. og 3. gr. öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 frá 28. september 2017, um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um staðlaða hugtakanotkun Sambandsins yfir dæmigerðustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18. frá 17. mars 2022, bls. 660-682.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/33 frá 28. september 2017, um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlitið og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18. frá 17. mars 2022, bls. 683-693.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/34 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarsnið fyrir gjaldskrána og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18. frá 17. mars 2022, bls. 694-701.
5. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 5. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 5/2023, um greiðslureikninga, taka gildi 1. júlí 2023.
Seðlabanka Íslands, 17. maí 2023.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Björk Sigurgísladóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits. |
VIÐAUKI (sjá PDF-skjal)
|