Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 59/2025

Nr. 59/2025 10. janúar 2025

REGLUR
Sveitarfélagsins Hornafjarðar um akstursþjónustu fatlaðra.

Reglur þessar eru settar skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Einnig er stuðst við leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Stuðnings- og virkniþjónusta velferðarsviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar sinnir þjónustu við íbúa sveitarfélagsins samkvæmt reglum þessum.

Um málsmeðferð samkvæmt IV. kafla reglna þesara fer samkvæmt XVII. kafla laga um félags­þjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið með akstursþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almennings­farartæki vegna fötlunar, kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélagsins vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

 

II. KAFLI

Umsókn um þjónustu og réttur til þjónustu.

2. gr.

Umsókn og fylgigögn.

Akstursþjónusta fatlaðs fólks þjónar þeim sem hafa lögheimili í Sveitarfélaginu Hornafirði og geta ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar sinnar.

Umsókn um akstursþjónustu skal berast í gegnum íbúagátt á vefsíðu Sveitarfélagsins Horna­fjarðar. Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn s.s. læknisvottorð eða greining á fötlun. Mats­nefnd „Þjónustunnar heim“, sem er úrræði á vegum velferðarsviðs Sveitarfélagsins Horna­fjarðar annast afgreiðslu umsóknar um akstursþjónustu fatlaðra. Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fyrir sína hönd.

Umsækjandi um akstursþjónustu samkvæmt reglum þessum skal uppfylla eitt eða fleiri eftir­farandi skilyrða:

  1. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól.
  2. Er blindur og getur ekki notað önnur farartæki.
  3. Er ófær um að nota almenningsfarartæki vegna annarrar langvarandi fötlunar.

Skilyrði fyrir veitingu akstursþjónustu samkvæmt reglum þessum er að fötlun umsækjanda falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að umsækjandi eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum. Þeir aðilar sem hafa fengið styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem njóta bensínstyrks skulu alla jafna ekki njóta réttar til akstursþjónustu samkvæmt reglum þessum. Þó er heimilt að veita undanþágu frá framangreindu skilyrði vegna sérstakra aðstæðna s.s. færðar, tímabundinna veikinda eða bilunar á bifreið sem þeir hafa til umráða og skal þá miða við tilfallandi ferðir skv. 7. gr.

Reglur þessar taka ekki til þeirra sem eru eldri en 67 ára. Hafi einstaklingur sem orðinn er 67 ára talist fatlaður samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og notað akstursþjónustu fatlaðs fólks áður en hann náði þeim aldri, á hann rétt á því áfram á meðan þörf krefur.

 

3. gr.

Akstursþjónusta fyrir börn.

Forsjáraðilar fatlaðra barna geta sótt um akstur samkvæmt reglum þessum. Barn yngra en 6 ára skal ávallt vera í fylgd með fullorðnum einstaklingi þegar ferðast er með akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þurfi barn bílstól er það á ábyrgð foreldra að útvega hann. Reglur þessar taka ekki til skóla­aksturs barna í grunnskóla. Með skólaakstri er átt við allan akstur á skólatíma þ.m.t. á þeim tíma sem barn dvelur í lengri viðveru á vegum skólans.

 

4. gr.

Gildistími umsóknar.

Gildistími samþykktrar umsóknar skal taka mið af þörfum hvers og eins. Matsnefnd metur umsóknir og hefur heimild til að taka tillit til tímabundinna eða sérstakra aðstæðna, sem metnar eru sérstaklega hverju sinni. Niðurstaða umsóknar er kynnt rafrænt á íbúagátt sveitarfélagsins. Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt er fram­kvæmd þjónustunnar í umsjá starfsmanna stuðnings- og virkniþjónustu.

Umsókn um undanþágu vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna fjölda ferða og tímabundinna veikinda skal berast í gegnum íbúagátt á vefsíðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Heimilt er að kalla eftir nauðsynlegum gögnum s.s. læknisvottorði, greiningu á fötlun og upplýsingum um styrk frá Tryggingastofnun ríkisins til bifreiðakaupa eða reksturs bifreiðar.

Gildistími samþykktrar umsóknar skal taka mið af niðurstöðum þjónustumats og er því einstak­lings­bundið til hversu langs tíma þjónustan er samþykkt. Ef um varanlega hreyfihömlun er að ræða er heimilt að samþykkja umsókn ótímabundið. Ef um er að ræða verulegar breytingar á högum umsóknaraðila eftir að umsókn hefur verið samþykkt er heimilt að endurskoða gildistíma samþykkis fyrir akstursþjónustu.

 

III. KAFLI

Framkvæmd akstursþjónustunnar.

5. gr.

Þjónustutími.

Akstursþjónusta fatlaðra er í boði á eftirtöldum tímum:

Virka daga frá kl. 8.00 til kl. 22.00.
Um helgar frá kl. 10.00 til kl. 22.00.

Akstur á stórhátíðardögum er eins og um helgar að undanskildum aðfanga- og gamlársdegi. Þá daga er akstursþjónusta til kl. 17.00 og aftur frá kl. 20-22. Miðað er við að ferðir hefjist innan þjónustutíma.

 

6. gr.

Tilhögun ferða.

Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur frá einum stað til annars innan þjónustusvæðis.

Notandi skal vera tilbúinn til brottfarar í anddyri brottfararstaðar á umsömdum tíma. Við sérstakar aðstæður skal veita notanda aðstoð við að komast frá brottfararstað í bílinn. Ekki er beðið á meðan notandi sinnir erindi sínu. Bílstjórum er ekki heimilt að sinna sendiferðum fyrir notanda.

Notanda sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu enda hafi það ekki verið vitað fyrir fram hve viðtalið tæki langan tíma.

Akstursþjónusta fatlaðra er sérhæfð þjónusta og þurfa notendur því að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun, s.s. vegna færðar og umferðartafa á annatímum.

 

7. gr.

Pantanir/afpantanir.

Notendur panta ferðir símleiðis og tekið er á móti pöntunum alla virka daga frá kl. 8.00-15.30. Ekki er unnt að tryggja að hægt sé að veita þjónustu til einstaklinga nema pantað sé með a.m.k. dags fyrirvara, þó reynt sé að bregðast við pöntunum eins fljótt og auðið er. Notendur skulu gefa upp­lýsingar um fastar ferðir t.d. vegna vinnu, skóla eða þjálfunar til að þjónustuaðilar geti leitað hag­ræðis við skipulagningu ferða. Afpöntun reglubundinna ferða skal vera með sem lengstum fyrirvara, helst deginum áður en í undantekningartilvikum með tveggja klukkustunda fyrirvara fyrir fyrir­hugaða ferð. Að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri.

 

8. gr.

Aðrir farþegar/aðstoðarmenn.

Notendum er heimilt að hafa með sér annan farþega sé það tekið fram þegar pantað er og greiðir notandinn þá sama verð fyrir hann. Börn undir tíu ára aldri í fylgd með fötluðum foreldrum greiða ekkert gjald.

Geti notandi ekki ferðast einn að mati matsnefndar er hægt að krefjast þess að aðstoðarmaður fylgi notanda. Fyrir aðstoðarmann er ekki greitt fargjald.

 

9. gr.

Gjaldtaka, fjöldi ferða og þjónustusvæði.

Gjald fyrir akstursþjónustu fatlaðra skal miðast við gjaldskrá velferðarsviðs um akstursþjónustu fatlaðra sem samþykkt er í bæjarstjórn í janúar ár hvert.

Heildarfjöldi samþykktra ferða tekur mið af þörfum hvers og eins.

Þjónustusvæði akstursþjónustunnar er Sveitarfélagið Hornafjörður. Þjónustuveitanda er heimilt að sérsníða þjónustu sem fer fram fjærst þéttbýlinu Höfn.

 

10. gr.

Breyting á færni eða aðstæðum.

Umsækjanda ber að senda inn nýja umsókn hafi orðið breytingar á færni eða aðstæðum hans sem geta orðið til breytinga á þjónustu.

 

11. gr.

Öryggi.

Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu uppfylla ákvæði gildandi laga og reglugerða um starfsemina auk þess sem hafa ber hliðsjón af leiðbeiningum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.

Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu fatlaðs fólks skal hafa ökuréttindi, sótt skyndihjálpar­námskeið og önnur þau námskeið sem bætt geta öryggi þjónustuþega. Fyrir ráðningu ökumanns skal liggja fyrir sérstakt sakavottorð eða heimild veitt af hans hálfu til öflunar sérstaks sakavottorðs og upplýsinga úr sakaskrá.

Ökumaður skal jafnframt sitja námskeið á vegum sveitarfélagsins um þjónustu við fatlað fólk, til þess að vera vel búinn undir það verkefni að sinna ólíkum notendum og til að auka skilning og hæfni við þjónustuna.

Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs eða annarrar þjónustu fyrir fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

IV. KAFLI

Málsmeðferð.

12. gr.

Könnun á aðstæðum.

Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um akstursþjónustu fatlaðra hefur borist. Sama á við ef matsnefnd berast upplýsingar um nauðsyn á akstursþjónustu með öðrum hætti.

Matsnefnd skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

 

13. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Við meðferð umsóknar, öflun gagna og upplýsinga sem og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við persónulegan talsmann hans eða umboðsmann hans ef við á. Persónulegur talsmaður skal leggja fram samkomulag við hinn fatlaða, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Umboðs­maður skal framvísa skriflegu umboði.

 

14. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu, er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

Ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu skrifa undir yfirlýsingu um trúnað. Trúnaðarskylda helst þó að látið sé af starfi.

 

15. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal matsnefnd bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upp­lýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal matsnefnd einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna umsóknar um aksturs­þjónustu fatlaðra.

 

16. gr.

Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum.

Starfsmenn stuðnings- og virkniþjónustu taka ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði velferðarnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Ábendingum notenda varðandi þjónustuna skal beina til stjórnanda stuðnings- og virkniþjónustu.

Velferðarnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og notandi fer fram á það með sérstakri beiðni til velferðarsviðs innan fjögurra vikna frá því notanda barst vitneskja um ákvörðun. Velferðarnefnd skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

 

17. gr.

Kynning á ákvörðun um akstursþjónustu fatlaðra.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar um akstursþjónustu fatlaðra fyrir umsækjanda rafrænt á íbúagátt sveitarfélagsins svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal notandi fá svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða reglna þessara og/eða annarra reglna eða laga, eftir því sem við á. Þar skal umsækjanda jafnframt kynntur réttur hans til að fara fram á að velferðarnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar fjalli um ákvörðunina. Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til velferðarnefndar frá því að honum barst vitneskja um ákvörðunina.

Taki velferðarnefnd mál til umfjöllunar skal niðurstaða hennar kynnt umsækjanda á íbúagátt sveitarfélagsins og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík.

 

18. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála – áfrýjun.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun velferðarnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar til úrskurðar­nefndar velferðarmála. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að tilkynning barst um ákvörðunina. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist úrskurðar­nefndinni eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.

 

19. gr.

Endurupptaka.

Eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt aðila máls á hann rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný, innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var kynnt, ef ákvörðun hefur byggst á ófull­nægjandi eða röngum upplýsingum, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

 

20. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Reglur þessar gilda frá 1. janúar 2025.

Samþykkt í bæjarráði Sveitarfélagsins Hornafjarðar 7. janúar 2025.

Samþykkt í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar 9. janúar 2025.

 

Hornafirði, 10. janúar 2025.

 

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 24. janúar 2025