Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1537/2024

Nr. 1537/2024 4. desember 2024

REGLUR
um upplýsingagjöf vegna starfsemi rekstrarfélaga verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða yfir landamæri.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um rekstrarfélög verðbréfasjóða, sbr. 1. gr. laga nr. 116/2021 um verðbréfa­sjóði, og rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sbr. 1. gr. laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

 

2. gr.

Upplýsingagjöf vegna starfsemi yfir landamæri.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 105. gr. laga nr. 116/2021 skal rekstrarfélag með staðfestu hér á landi sem hyggst reka verðbréfasjóð eða veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr. laganna í öðru ríki innan EES tilkynna það Fjármálaeftirlitinu og skal tilkynningin innihalda þær upplýsingar sem til­greindar eru í 1. og 2. mgr. 105. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 116/2021 skal rekstrarfélag með stað­festu í öðru ríki inn­an EES sem sækir um staðfestingu verðbréfasjóðs með staðfestu hér á landi senda Fjármálaeftirlitinu, til við­bótar upp­lýsingum skv. 27. og 32. gr. laganna, þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. mgr. 107. gr. lag­anna. Rekstraraðili sérhæfðs sjóðs sem hyggur á starfsemi yfir landamæri skal tilkynna Fjármála­eftir­litinu um þá starfsemi sína eða sérhæfðs sjóðs í sínum rekstri og skulu tilkynningunni fylgja þær upplýsingar sem kveðið er á um í viðeigandi ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/2020. Reglur þessar eru settar til að leiða í íslenskan rétt framseldar reglugerðir framkvæmda­stjórnarinnar (ESB) sem tilgreina nánar þær upplýsingar sem tilkynna skal til Fjár­mála­eftirlitsins vegna framangreindrar starfsemi yfir landamæri.

 

3. gr.

Innleiðing reglugerða.

Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB):

  1. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/911 frá 15. desember 2023 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla þar sem tilgreindar eru upplýsingarnar sem tilkynna skal í tengslum við starf­semi rekstrarfélaga og verðbréfasjóða sem nær yfir landamæri, sem tekin var upp í EES-samn­inginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 126/2024 frá 12. júní 2024. Reglu­gerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 65 frá 29. ágúst 2024, bls. 302-305.
  2. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/912 frá 15. desember 2023 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla sem tilgreina upplýsingarnar sem tilkynna skal í tengslum við starfsemi rekstrar­aðila sérhæfðra sjóða yfir landamæri, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2024 frá 12. júní 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 65 frá 29. ágúst 2024, bls. 306-309.

 

4. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 14. og 15. tölul. 2. mgr. 134. gr. laga nr. 116/2021 og 9. tölul. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 45/2020, öðlast þegar gildi.

 

Seðlabanka Íslands, 4. desember 2024.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 18. desember 2024