1. gr. Markmið og gildissvið. Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra. Einnig til að koma í veg fyrir ágang búfjár á lóðir í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins og vernda gróður í sveitarfélaginu svo og að setja að öðru leyti reglur um búfjárhald þannig að það geti verið í sátt við íbúa sveitarfélagsins. Þéttbýliskjarnar sveitarfélagsins sem hér um ræðir eru: Borðeyri, Hvammstangi og Laugarbakki. Umsjón með málefnum varðandi búfjárhald, í umboði sveitarstjórnar, er í höndum landbúnaðarráðs Húnaþings vestra og búfjáreftirlitsmanna, að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum með lögum. Ákvarðanir landbúnaðarráðs taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af sveitarstjórn. 2. gr. Búfjárhald. Með búfjárhaldi samkvæmt samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita- og alifuglahald, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum. Búfjárhald utan lögbýla í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra er óheimilt nema með leyfi sveitarstjórnar Húnaþings vestra. Þó er takmarkað búfjárhald leyft samkvæmt gildandi deiliskipulagssamþykktum fyrir smábýli við Höfðabraut og í hesthúsahverfi í Kirkjuhvammi á Hvammstanga. 3. gr. Takmörkun á búfjárhaldi og skilyrði til búfjárhalds utan lögbýla. Sá sem vill stunda búfjárhald utan lögbýla, sbr. 2. gr., skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar, sem tekur afstöðu til umsókna að fenginni tillögu landbúnaðarráðs. Í umsókninni skal gera grein fyrir tegund og fjölda búfjár og skulu búfjáreigendur sýna fram á að þeir hafi fullnægjandi aðstöðu til þess að halda búfé sem sé í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur um aðbúnað búfjár, bæði hvað varðar húsakost og fóður. Búfjáreftirlitsmenn skulu fylgjast með því að farið sé eftir þessum reglum. 4. gr. Leyfisveitingar. Telji sveitarstjórn að umsækjandi uppfylli skilyrði samkvæmt 3. gr., veitir hún leyfi til búfjárhalds. Leyfisveiting til búfjárhalds skuldbindur þó ekki sveitarfélagið til að sjá búfjáreigendum fyrir beitilandi, hagagöngu eða slægjum fyrir búfé né veita þeim aðra aðstöðu til búfjárhalds. Leyfi til búfjárhalds er veitt til ákveðins tíma en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Um leyfið fer eftir gildandi lögum og reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma og skal það gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Sá sem fær leyfi til búfjárhalds samkvæmt samþykkt þessari skal ávallt hafa búféð í öruggri vörslu og ber ábyrgð á öllu því tjóni sem það kann að valda. Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og stjórnvaldsreglum. 5. gr. Búfjárhald á lögbýlum. Umráðamenn búfjár sem haldið er á lögbýlum í sveitarfélaginu þurfa ekki að sækja um sérstakt leyfi til búfjárhalds. 6. gr. Aðbúnaður búfjár. Óheimilt er að halda búfé nema að hafa fyrir það hús eða annan aðbúnað sem samræmist gildandi lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum, og stjórnvaldsreglum sem settar hafa verið með heimild í lögunum. Sama gildir um allt umhverfi húsanna. Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir búfé sitt og hann skal tryggja góða meðferð þess. 7. gr. Bann við lausagöngu. Lausaganga búfjár er óheimil á eftirtöldum svæðum: Á vegsvæði þjóðvegar 1 frá Gljúfurá að Hrútafjarðará. Á vegsvæði Miðfjarðarvegar nr. 704 að ristarhliði sunnan við þéttbýli á Laugarbakka. Á vegsvæði Hvammstangavegar nr. 72 að þéttbýli á Hvammstanga. Viðhald girðinga og eftirlit með friðuðum vegsvæðum er samkvæmt samningi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar um það efni. Einnig er lausaganga búfjár bönnuð í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins, sbr. ákvæði 1. gr. 8. gr. Forðagæsla, skráning búfjáreigenda og fjölda búfjár. Búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og beit. Sveitarstjórn er heimilt að krefja umráðamann búfjár um kostnað sem hlýst af handsömun, fóðrun og hýsingu gripa, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum, sem og kostnað við búfjáreftirlit samkvæmt 6. málsl. 11. gr. sömu laga. 9. gr. Búfjáreftirlit. Hver sá, er á búfé í hagagöngu innan marka Húnaþings vestra en hefur ekki fasta búsetu þar sjálfur, skal hafa tilsjónarmann með búfé sínu sem sveitarstjórn samþykkir, að fenginni tillögu landbúnaðarráðs, og skal hann hafa fasta búsetu í Húnaþingi vestra. Búfjáreigandi skal bera allan kostnað af ráðstöfunum sem sveitarstjórn grípur til ef afskipti þarf að hafa af búfjárhaldinu vegna vanfóðrunar og/eða vanrækslu eiganda/tilsjónarmanns. 10. gr. Viðurlög við brotum gegn samþykktinni. Brot gegn samþykkt þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Hafi búfjáreigandi ítrekað brotið gegn lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum, eða samþykkt þessari, er heimilt að svipta hann leyfi til búfjárhalds með eins mánaðar fyrirvara. 11. gr. Gildistaka. Samþykkt þessi, sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Húnaþings vestra, staðfestist hér með samkvæmt 5. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 675 frá 10. nóvember 1981, um búfjárhald á Hvammstanga. Ákvæði til bráðabirgða. Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar eiga eða hafa í umsjá sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar skulu sækja um leyfi til búfjárhalds til sveitarstjórnar innan tveggja mánaða frá gildistöku samþykktarinnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. júlí 2013. F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristinn Hugason. Sigríður Norðmann. |