Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 756/2016

Nr. 756/2016 6. september 2016

REGLUGERÐ
um ráðstöfun 2.000 tonna viðbótaraflaheimilda í makríl á árinu 2016.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um úthlutun viðbótaraflaheimilda í makríl samkvæmt ákvæði VIII til bráða­birgða í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

2. gr.

Úthluta skal allt að 2.000 lestum af makríl gegn greiðslu gjalds, á árinu 2016 til skipa sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn að stærð, sem stunda veiðar með línu og handfærum. Heimilt er að úthluta á skip, sem hafa veiðileyfi með aflamarki eða króka­aflamarki, allt að 20 lestum í senn. Ekkert skip getur fengið úthlutað viðbótaraflaheimild fyrr en það hefur veitt 80% af úthlutuðum aflaheimildum sínum samkvæmt reglugerð nr. 284/2016 um stjórn makríl­veiða íslenskra fiskiskipa árið 2016. Þessi takmörkun gildir ekki um skip sem ekki fengu úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 284/2016 og ekki um þau skip sem fengu minni úthlutun en 27 lestir.

3. gr.

Úthlutun viðbótaraflaheimilda samkvæmt þessari reglugerð er bundin því skilyrði að skip hafi veitt 80% af áður úthlutuðum viðbótaraflaheimildum. Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari reglugerð er óheimilt að framselja.

4. gr.

Fiskistofa annast úthlutun viðbótaraflaheimilda gegn greiðslu gjalds á grundvelli umsókna og skal vikulega úthluta aflaheimildum á grundvelli umsókna sem borist hafa undanfarandi viku.

Ef umsóknir um viðbótaraflaheimildir eru umfram þær aflaheimildir sem til ráðstöfunar eru skal Fiskistofa skipta því sem til ráðstöfunar er jafnt á milli umsækjenda, enda hafi umsækjandi ekki sótt um minna magn en því nemur. Verð á viðbótaraflaheimildum í makríl er 8 kr. fyrir hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Hafi gjald ekki verið greitt í síðasta lagi á öðrum virkum degi úthlutunarviku fellur réttur útgerðar til úthlutunar á grundvelli umsóknarinnar niður.

Á heimasíðu Fiskistofu skal vikulega birta upplýsingar um magn makríls sem til ráðstöfunar er.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, ákvæði til bráðabirgða VIII. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 6. september 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.


B deild - Útgáfud.: 6. september 2016