Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
I. KAFLI
Gildissvið o.fl.
1. gr.
Eftir ákvæðum laga þessara er lögaðila, sem nýtur hæfis til að eiga aðild að einkamáli fyrir dómi og hefur á hendi atvinnustarfsemi, unnt að leita heimildar til endurskipulagningar á fjárhag sínum að fullnægðum skilyrðum 2. gr., enda hafi grundvelli starfseminnar verið raskað verulega og orsakir þess verða raktar hvort heldur beint eða óbeint til opinberra ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna COVID-19-faraldurs sem hófst hér á landi í febrúar 2020.
Lögaðili sem fellur undir 1. mgr. er í lögum þessum nefndur skuldari.
2. gr.
Til að fá heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar eftir ákvæðum þessara laga verður skuldari að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Hann eigi undir lögsögu dómstóla hér á landi skv. 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
- Atvinnustarfsemi hans hafi byrjað ekki síðar en 1. desember 2019.
- Hann hafi greitt einum manni eða fleiri laun í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari hið minnsta til lágmarkslauna fyrir fullt starf í hverjum þessara mánaða.
- Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir hans sem falla í gjalddaga á næstu tveimur árum séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar hans, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.
Þá verður skuldari að uppfylla a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða:
- Mánaðarlegar heildartekjur af starfseminni hafi frá 1. apríl 2020 og þar til sótt er um úrræðið lækkað um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020.
- Mánaðarlegar heildartekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið hafi lækkað um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tímabil árið áður.
- Fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tíma árið áður.
3. gr.
Sé skuldari félag, þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum, er það ekki skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar að sá eða þeir sem bera ábyrgð á skuldbindingum félagsins afli sér jafnframt slíkrar heimildar fyrir sitt leyti.
Þegar atvikum er háttað eins og segir í 1. mgr. skal við mat á skilyrðum skv. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. líta jafnframt til peningaeignar, innstæðna, verðbréfa og krafna þess eða þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum félags.
Ákvæði 2. og 3. mgr. 5. gr. og 2. og 3. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga að breyttu breytanda við um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
II. KAFLI
Heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
4. gr.
Skuldari sem leitar heimildar til endurskipulagningar á fjárhag sínum skal í því skyni ráða sér til aðstoðar lögmann eða löggiltan endurskoðanda.
Beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skal vera skrifleg og í henni greint frá eftirtöldum atriðum svo skýrt sem verða má:
- nafni skuldarans og kennitölu,
- upplýsingum um eignir hans og skuldir ásamt því hvort veðbönd eða önnur tryggingarréttindi hvíli á einstökum eignum og þá fyrir hvaða skuldum,
- greinargerð skuldarans um það hvernig uppfyllt séu í einstökum atriðum skilyrði fyrir veitingu heimildarinnar skv. 1. og 2. gr.,
- nafni, kennitölu og starfsheiti aðstoðarmanns við fjárhagslega endurskipulagningu, sem skuldari ræður í því skyni, ásamt staðfestingu hans á því að hann taki starfann að sér frá og með því tímamarki sem greinir í 6. gr. og yfirlýsingu hans um að hann uppfylli skilyrði 3. mgr. 10. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Beiðninni skulu fylgja síðustu tveir ársreikningar skuldarans, svo og árshlutauppgjör frá sama tímabili, hafi þau verið gerð. Einnig skal fylgja beiðninni yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða viðurkennds bókara um að bókhald skuldarans sé í lögboðnu horfi.
5. gr.
Beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skal beint til héraðsdóms eftir 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og gilda jafnframt um hana ákvæði 3.–5. mgr. 8. gr. og 9. gr. sömu laga.
Í skilningi laga þessara, svo og laga um gjaldþrotaskipti o.fl., skoðast sem frestdagur sá dagur sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Komi í kjölfar slíkrar beiðni heimild handa skuldaranum eða aðgerð gagnvart honum eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda þessu til viðbótar fyrirmæli 2. gr. þeirra laga um hvernig frestdagur ráðist.
6. gr.
Frá þeim tíma sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, og svo lengi sem hún er þar til meðferðar, er óheimilt að taka bú skuldarans til gjaldþrotaskipta. Á þeim tíma er hvorki heimilt að kyrrsetja eign skuldarans, taka hana í löggeymslu, gera í henni fjárnám eða ráðstafa henni með nauðungarsölu, né að beina að skuldaranum aðfarargerð til fullnustu öðru en skyldu til greiðslu peninga. Er stjórnvöldum og óheimilt á því tímabili að neyta þvingunarúrræða gagnvart skuldaranum vegna vanefnda hans á skuldbindingu sinni við ríkið eða sveitarfélag.
Sé krafa tryggð með lögveði þegar beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar berst héraðsdómi skal sá tími sem heimildin er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs.
7. gr.
Héraðsdómur skal eftir því sem átt getur við fara með beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar á sama hátt og farið verður með beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, sbr. 11. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og taka án ástæðulauss dráttar afstöðu til hennar með úrskurði.
Synja skal beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
- ekki er fullnægt öllum skilyrðum 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr., til að verða við beiðninni,
- rökstuddur grunur er um að upplýsingar af hendi skuldarans séu vísvitandi rangar eða villandi,
- beiðni skuldarans eða fylgigögnum með henni er áfátt eða sá sem skuldari hefur ráðið sér til aðstoðar telst vanhæfur til að gegna því starfi og skuldari sinnir ekki ábendingu héraðsdóms um að ráða sér annan mann til aðstoðar.
Telji héraðsdómur að skilyrði til að verða við beiðni skuldarans séu uppfyllt skal ákveðið í úrskurði að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar sé veitt til tiltekins dags og stundar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu úrskurðarins þegar þing verði háð til að taka málefnið fyrir á ný. Dómari skal sjá til þess að tilkynning um að skuldari hafi fengið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar og hver sé aðstoðarmaður hans birtist í Lögbirtingablaði á kostnað skuldara.
Úrskurði héraðsdóms samkvæmt þessari grein verður ekki skotið til æðra dóms.
8. gr.
Innan sex vikna frá því að skuldara er veitt heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skal aðstoðarmaður hans halda fund á varnarþingi skuldarans með lánardrottnum hans til að kynna þeim stöðu skuldarans og ráðagerðir um hvað gera megi til að koma endurskipulagningunni fram. Til fundarins skal með sannanlegum hætti boða alla lánardrottna sem aðstoðarmanni hefur orðið kunnugt um fyrir fundinn og veita þeim um leið upplýsingar um hvenær skuldara var veitt heimildin, hvar og hvenær fundur verður haldinn og hvenær málefnið verður tekið fyrir á dómþingi á nýjan leik. Auk þeirra sem fengið hafa fundarboð skulu þeir eiga rétt til að sækja fundinn sem þar gefa sig fram og kveðast eiga kröfu á hendur skuldaranum, sem hann annaðhvort kannast þá þegar við eða þeir leggja fram skilríki fyrir.
Á fundinum skal aðstoðarmaður leggja fram tæmandi og sundurliðaða skrá um eignir og skuldir skuldarans þar sem tilgreint er áætlað verðmæti hverrar eignar og heildarfjárhæð hverrar skuldar ásamt upplýsingum um hvort veðbönd eða önnur tryggingarréttindi hvíli á einstökum eignum og þá fyrir hvaða skuldum. Á fundinum skal jafnframt greint frá ráðagerðum skuldara um framhald aðgerða til fjárhagslegrar endurskipulagningar og hvernig viðbúið sé að þeim verði lokið, svo og hvort hann muni leita eftir framlengingu á heimild sinni og þá til hve langs tíma. Aðstoðarmaður skal eftir föngum leita afstöðu lánardrottna til ráðagerða skuldarans og tillagna þeirra.
Aðstoðarmaður stýrir fundi og færir fundargerð þar sem greint skal skýrlega frá viðhorfum lánardrottna.
9. gr.
Nú æskir skuldarinn framlengingar á heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar og skal hann þá leggja fram skriflega beiðni um það í þinghaldi sem héraðsdómur hefur ákveðið í úrskurði skv. 3. mgr. 7. gr. Beiðninni skulu fylgja sönnur fyrir að boðað hafi verið til fundar með lánardrottnum skv. 8. gr., fundargerð frá fundinum og greinargerð aðstoðarmanns um hvernig staðið hafi verið að rekstri skuldarans og aðgerðum frá því að heimildin var upphaflega veitt, hvernig rekstrinum hafi reitt af á þeim tíma, þar á meðal hvert hlutfall tekna hafi verið af tekjum á viðmiðunartímabili skv. 2. gr., og hvað fyrirhugað sé að gera verði heimildin framlengd.
Lánardrottinn skuldarans getur sótt þinghald skv. 1. mgr. þar sem beiðni skuldarans um framlengingu heimildar er tekin fyrir og lagt þar fram skrifleg og rökstudd mótmæli gegn því að hún verði tekin til greina. Ef hvorki lánardrottinn fellur frá mótmælum sínum né skuldarinn frá beiðni sinni skal farið með ágreining þeirra eftir 166. gr. og XXIV. kafla, sbr. XXV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Leggi skuldarinn fram beiðni skv. 1. mgr. framlengist heimild hans til fjárhagslegrar endurskipulagningar sjálfkrafa þar til hann annaðhvort fellur frá beiðninni eða héraðsdómur, eða eftir atvikum æðri dómur, kveður upp úrlausn um hana.
Beiðni skuldara um framlengingu heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar skal synja ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
- að svo standi á sem segir í 2. mgr. 7. gr.,
- að skuldarinn hafi gert ráðstafanir í andstöðu við ákvæði 13.–15. gr.,
- að talið verði í ljósi aðstæðna að ekki hafi verið staðið eðlilega að aðgerðum til fjárhagslegrar endurskipulagningar á þeim tíma sem heimild til hennar hefur verið fyrir hendi,
- að framlenging heimildarinnar muni ekki þjóna tilgangi,
- að framlenging á heimildinni sé óþörf sökum þess að árangur hafi þegar náðst af henni, sbr. 18. gr.,
- að tekjur af rekstri skuldarans hafi aftur náð a.m.k. 75 hundraðshlutum af tekjum á viðmiðunartímabili skv. 2. gr.
Úrskurði héraðsdóms um synjun um framlengingu heimildar verður ekki skotið til æðra dóms.
Telji héraðsdómur að skilyrði til að verða við beiðni skuldarans séu uppfyllt skal ákveðið í úrskurði að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar sé framlengd til tiltekins dags og stundar þegar þing verði háð til að taka málefnið fyrir á ný innan sex mánaða frá þeim degi sem beiðnin var lögð fram.
Aðstoðarmaður skal án tafar tilkynna öllum þekktum lánardrottnum skuldarans á sannanlegan hátt um niðurstöðu dómstóla um beiðni skuldarans.
10. gr.
Í þinghaldi, sem héraðsdómur hefur ákveðið skv. 6. mgr. 9. gr., getur skuldari leitað frekari framlengingar á heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, en um það skal hann þá leggja fram skriflega beiðni ásamt greinargerð aðstoðarmanns um þau atriði sem tiltekin eru í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. Um meðferð beiðni skuldarans um frekari framlengingu og aðrar aðgerðir í tengslum við hana gilda ákvæði 2.–5. mgr. og 7. mgr. 9. gr. eftir því sem átt getur við.
Telji héraðsdómur skilyrði til að verða við beiðni skuldarans skal ákveðið í úrskurði að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar sé framlengd til tiltekins dags og stundar ekki síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem beiðnin var lögð fram.
Framlengja má heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar oftar en tvisvar, en þó þannig að hún standi aldrei lengur samanlagt en í eitt ár, sbr. þó 5. mgr. 20. gr. og 4. mgr. 21. gr.
11. gr.
Heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar fellur sjálfkrafa niður ef eitthvað af eftirtöldu gerist:
- Sá tími er á enda sem heimildinni hefur verið markaður og beiðni um framlengingu hennar kemur ekki fram eða ekki er mætt af hálfu skuldarans í þinghaldi við lok áður veittrar heimildar.
- Héraðsdómi berst skrifleg tilkynning skuldarans um að hann afsali sér heimildinni.
- Úrskurður gengur um að skuldaranum sé veitt heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana eða að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu hans sjálfs.
- Skilanefnd fær löggildingu til félagsslita og hefur heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
Heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar fellur einnig niður við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms um höfnun beiðni um framlengingu heimildarinnar eða úrlausnar æðra dóms um slíka höfnun, svo og þegar lokatímabili heimildarinnar lýkur.
Ef heimild fellur niður eftir 1. eða 2. mgr. falla sjálfkrafa niður fundir með lánardrottnum skuldara og þinghöld í tengslum við heimildina sem áður hefur verið ákveðið að halda.
Aðstoðarmanni ber án tafar að tilkynna öllum þekktum lánardrottnum skuldarans á sannanlegan hátt ef heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar fellur niður eftir ákvæðum þessarar greinar.
12. gr.
Lánardrottinn skuldara getur krafist þess við héraðsdóm að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verði felld niður ef lánardrottinn telur atvik vera með þeim hætti að skuldara yrði hafnað um framlengingu heimildarinnar skv. 4. mgr. 9. gr. Héraðsdómari getur ákveðið með bókun í þingbók að vísa kröfunni á bug án frekari aðgerða ef hann telur hana bersýnilega tilefnislausa, efni hennar verulega áfátt eða að komið verði að lokum heimildarinnar þegar unnt yrði að taka afstöðu til kröfunnar. Ákvörðun héraðsdómara um þetta verður ekki skotið til æðra dóms.
Aðstoðarmanni ber að krefjast þess við héraðsdóm að heimild verði felld niður ef hann telur atvik vera slík sem í 1. mgr. segir eða skuldara ekki hafa sinnt skyldum sínum skv. 3. mgr. 17. gr.
Krafa skv. 1. eða 2. mgr. skal vera skrifleg og rökstudd. Þau gögn skulu fylgja henni sem hún er studd við.
Berist héraðsdómi krafa samkvæmt framansögðu skal án tafar boða skuldara og þann sem hana hefur uppi til þinghalds með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Ef skuldarinn sækir ekki þing og gagnaðili krefst þess skal héraðsdómur þegar í stað kveða á þeim grunni upp úrskurð um að fella niður heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Sæki skuldarinn á hinn bóginn þing og mótmæli kröfu gagnaðila skal farið með ágreining þeirra eftir 167. gr. og XXIV. kafla, sbr. XXV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en þó þannig að kærufrestur á úrskurði um niðurfellingu heimildar er einn sólarhringur og frestar kæra réttaráhrifum úrskurðar þar til máli lýkur fyrir æðra dómi.
Aðstoðarmanni ber án tafar að tilkynna öllum þekktum lánardrottnum skuldarans á sannanlegan hátt ef heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar fellur niður eftir ákvæðum þessarar greinar.
III. KAFLI
Réttaráhrif heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
13. gr.
Á meðan skuldari nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar er honum óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum og stofna til skuldbindinga á hendur sér nema með samþykki aðstoðarmanns, enda standi heimild til slíkrar aðgerðar í 14. eða 15. gr.
Samþykki skv. 1. mgr. skal ávallt liggja fyrir áður en ráðstöfun er gerð, en aðstoðarmaður getur dregið það til baka allt fram að því að skuldarinn verður bundinn gagnvart þriðja manni af ráðstöfun á grundvelli þess. Samþykkið getur hvort heldur varðað eina eða fleiri tilteknar ráðstafanir eða falið í sér almennt samþykki til að verja fjármunum innan tiltekinna marka til að standa straum af reglubundnum eða nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri skuldarans. Ber skuldaranum að gera grein fyrir ráðstöfunum í skjóli slíks almenns samþykkis með reglubundnu millibili samkvæmt ákvörðun aðstoðarmanns.
Aðstoðarmanni ber eftir föngum að hafa eftirlit með fjárreiðum skuldarans til að koma í veg fyrir að hann brjóti gegn ákvæðum 1. og 2. mgr.
14. gr.
Skuldari sem nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar má ekki ráðstafa eignum sínum eða réttindum nema ráðstöfunin verði talin nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri hans eða endurskipulagningunni og komi þá eðlilegt verð fyrir.
Svo lengi sem skuldarinn nýtur heimildarinnar má ekki verja peningaeign hans, peningum sem fást við ráðstöfun eigna eða réttinda, arði af eignum eða réttindum eða tekjum sem hann aflar í atvinnurekstri til annarra þarfa en að:
- standa straum af nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri hans,
- greiða skuldir að því leyti sem það er heimilt skv. 15. gr.,
- greiða þóknun aðstoðarmanns og annan kostnað af undirbúningi og framkvæmd endurskipulagningarinnar,
- standa að aðgerðum til að koma í veg fyrir verulegt tjón.
15. gr.
Skuldari má ekki greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar á meðan hann nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar nema að því leyti sem skuldbindingin yrði efnd eða skuldin greidd eftir stöðu hennar í réttindaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi hans í beinu framhaldi af því að heimildin félli niður. Einnig má þó greiða skuld eða efna aðra skuldbindingu ef það er nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni.
Svo lengi sem skuldari nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar má hann ekki stofna til skulda eða annarra skuldbindinga eða leggja höft á eignir sínar eða réttindi nema það sé nauðsynlegt til að halda áfram atvinnurekstri hans eða varna verulegu tjóni. Komi til gjaldþrotaskipta á búi skuldarans og markist frestdagur við þau af beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar getur skuld sem stofnað er til á þennan hátt notið stöðu í réttindaröð skv. 4. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
16. gr.
Ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda taka ekki gildi gagnvart skuldara á þeim tíma sem hann nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar, en krefjast má þó dráttarvaxta, dagsekta eða févítis vegna vanefnda hans á skyldum sínum án tillits til heimildarinnar.
Á meðan heimild skuldarans stendur má ekki taka bú hans til gjaldþrotaskipta nema hann krefjist þess sjálfur, en á því tímabili verður ekki virk skylda hans til að bera fram slíka kröfu skv. 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki má heldur kyrrsetja eignir hans, taka þær í löggeymslu, gera fjárnám í þeim eða ráðstafa þeim með nauðungarsölu. Þá verður ekki komið fram gagnvart skuldara aðfarargerð til efnda á skyldu hans til annars en peningagreiðslu.
Stjórnvöld mega ekki neyta þvingunarúrræða í garð skuldara sem nýtur heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar vegna vanefnda hans á skuldbindingu við ríkið eða sveitarfélag. Við veitingu heimildarinnar falla niður áhrif slíkrar þvingunar sem stjórnvald hefur komið á áður en heimildin var fengin.
IV. KAFLI
Ráðstafanir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
17. gr.
Ráðstafanir til að endurskipuleggja fjárhag skuldara, sem gerðar eru í skjóli heimildar eftir lögum þessum, skulu taka mið af þeim tilgangi endurskipulagningar að stuðla að því að lögaðila, sem orðið hefur fyrir verulegri röskun á fjárhagslegum grundvelli atvinnustarfsemi sinnar af þeim tímabundnu aðstæðum sem getið er í 1. mgr. 1. gr., takist að halda velli þar til aðstæðum þessum léttir og skilyrði til að afla tekna með starfseminni geta aftur orðið samsvarandi og áður var. Ber skuldara í hvívetna að haga gerðum sínum af trúmennsku eftir þessu markmiði.
Þegar aðstoðarmaður tekur til starfa skal hann án tafar kanna hag skuldarans eftir föngum til að staðreyna réttmæti upplýsinga sem hann veitti við öflun heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Aðstoðarmaður skal einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir þegar í stað til að koma á eftirliti með fjárreiðum skuldarans, sbr. 3. mgr. 13. gr.
Skuldaranum er skylt að veita aðstoðarmanni sérhverjar upplýsingar um fjárhagsmálefni sín og rekstur sem eftir er leitað, svo og ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum um þau efni. Við fjárhagslega endurskipulagningu gilda að öðru leyti ákvæði 81. og 82. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
18. gr.
Nú telur skuldari rekstur sinn og fjárhag vera með þeim hætti að honum geti auðnast að standa í skilum við lánardrottna sína án þess að annað þurfi til en að tekjur myndist þegar starfsemi hans verði aftur virk í því greiðsluskjóli sem leiðir af lögum þessum og þannig verði rekstrarhæfi starfsemi hans tryggð til frambúðar. Sé aðstoðarmaður á sama máli getur skuldari látið hjá líða að grípa til frekari ráðstafana á meðan heimild hans til fjárhagslegrar endurskipulagningar er við lýði, enda kynni aðstoðarmaður lánardrottnum skuldarans þá afstöðu.
Ef ekki stendur svo á sem í 1. mgr. segir skal í aðgerðum til fjárhagslegrar endurskipulagningar leitast við að ná frjálsum samningum um það efni milli skuldarans og lánardrottna hans, þar á meðal um nauðsynlega gjaldfresti af skuldum hans og eftir atvikum aðra eftirgjöf, til að tryggja rekstrarhæfi starfsemi skuldarans til frambúðar eftir að heimild hans samkvæmt lögum þessum lýkur. Ef skuldari óskar eftir því eða lánardrottinn krefst þess skal aðstoðarmaður taka eftir þörfum þátt í slíkum samningsumleitunum, en að öðrum kosti er skuldara skylt að greina aðstoðarmanni frá framvindu þeirra. Takist að ná samningum um þessi efni getur skuldari með samþykki aðstoðarmanns látið þar við sitja án þess að gera frekari ráðstafanir á þeim tíma sem heimildin stendur. Skal aðstoðarmaður kynna það lánardrottnum skuldarans.
19. gr.
Hyggist skuldari leita þeirra leiða sem kveðið er á um í 20. eða 21. gr. skal hann áður leita til héraðsdóms og óska eftir skipun manns til að hafa umsjón með nauðasamningsumleitunum. Aðstoðarmaður ber áfram ábyrgð á öðrum þáttum fjárhagslegrar endurskipulagningar verði annar einstaklingur skipaður umsjónarmaður. Ákvæði XIII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um hæfi skiptastjóra, réttindi hans, skyldur og frávikningu gilda um umsjónarmanninn eftir því sem átt getur við, en þó þannig að skuldari nýtur einnig réttar til að bera upp aðfinnslur um störf hans eftir 76. gr. þeirra laga. Umsjónarmaður á rétt til þóknunar fyrir störf sín úr hendi skuldarans eftir því sem þeim miðar fram og skal hún ákveðin sem tímagjald eftir reglum sem dómstólasýslan setur. Umsjónarmaður skal tilkynna lánardrottnum skuldara um skipun sína.
20. gr.
Náist ekki árangur af heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar samkvæmt því sem segir í 18. gr. á skuldari þess kost að ljúka henni með þeim hætti sem hér á eftir greinir, enda telji hann eina af þessum ráðstöfunum eða fleiri til samans nægja til að tryggja megi rekstrarhæfi starfsemi hans til frambúðar:
- að felldir verði niður dráttarvextir og innheimtukostnaður af vanskilum á öllum gjaldföllnum skuldum eða afborgunum af þeim en í staðinn komi eftir atvikum vextir sem gjaldfallin fjárhæð hefði borið samkvæmt samningi eða lögum ef í skilum hefði verið,
- að gjaldfrestur á öllum skuldum, þar á meðal af einstökum afborgunum af þeim, sem ekki voru gjaldfallnar fyrir 1. mars 2020, verði lengdur um sem svarar þeim tíma sem ætla má að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar muni í heild standa,
- að gjalddagi allra skulda, þar á meðal einstakra afborgana af þeim, án tillits til þess hvort þær voru gjaldfallnar þegar heimild var veitt til fjárhagslegrar endurskipulagningar, verði færður aftur um jafnlangan tíma, allt að þremur árum, með óbreyttum lánskjörum að öðru leyti,
- að niður falli allar kröfur sem skipað yrði í réttindaröð eftir 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Ráðstöfunum skv. 1. mgr. má beita þótt kröfuhafi njóti veðréttar eða annarra tryggingarréttinda fyrir kröfu sinni í eign skuldarans. Að öðru leyti verður slíkum ráðstöfunum aðeins beint að kröfum sem teldust samningskröfur skv. 1. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef skuldarinn hefði á frestdegi óskað eftir heimild til að leita nauðasamnings án undangenginna gjaldþrotaskipta.
Ráðstöfunum skv. 1. mgr. verður að beina jafnt að öllum lánardrottnum skuldarans sem þær geta átt við um. Heimilt er þó að binda ráðstafanir skv. 1., 2. og 3. tölul. 1. mgr. við þá lánardrottna sem njóta samningsbundinna veðréttinda fyrir kröfum sínum í einni og sömu eign skuldarans eða undanskilja þá alla eða haga þeim ráðstöfunum á annan veg en gagnvart öðrum lánardrottnum.
Vilji skuldari grípa til ráðstafana samkvæmt framansögðu skal hann leggja fyrir umsjónarmann frumvarp að nauðasamningi um þær ásamt skriflegu og rökstuddu erindi um það áður en einn mánuður stendur eftir af heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Ber umsjónarmanni að taka rökstudda afstöðu til erindisins svo fljótt sem verða má og tilkynna lánardrottnum skuldarans um hana á sannanlegan hátt. Það eitt að umsjónarmaður hafni erindinu raskar ekki gildi heimildar skuldarans.
Taki umsjónarmaður erindi skuldarans til greina skal litið svo á að í þeirri afstöðu felist jafngildi þess að á sama tíma hefði frumvarp skuldarans að nauðasamningi verið samþykkt með atkvæðagreiðslu eftir VIII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við nauðasamningsumleitanir án undangenginna gjaldþrotaskipta. Skal þá skuldarinn krefjast staðfestingar þess nauðasamnings fyrir héraðsdómi, en eftir því sem átt getur við skal farið með þá kröfu eftir ákvæðum IX. kafla sömu laga. Takist ekki að ljúka þeirri málsmeðferð innan þess tíma sem heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar var markaður með úrskurði héraðsdóms skal heimildin sjálfkrafa teljast framlengd þar til endanleg niðurstaða hefur fengist fyrir dómi um kröfu skuldarans.
21. gr.
Takist ekki að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu með einhverjum þeim aðgerðum sem um ræðir í 18. og 20. gr. getur skuldari áður en mánuður stendur eftir af heimild hans til hennar leitað nauðasamnings samkvæmt því sem mælt er fyrir um í þessari grein. Vilji skuldari fara þá leið skal hann tilkynna umsjónarmanni það skriflega og tilgreina þar með á hvaða forsendum samningsboð hans sé reist og hvernig hann telji sig munu geta staðið við það. Þar skal einnig gefa nauðsynlegar skýringar á frumvarpi að nauðasamningi, en það skal fylgja tilkynningunni og gert þannig úr garði sem mælt er fyrir um í 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með tilkynningunni skulu jafnframt fylgja skriflegar yfirlýsingar frá a.m.k. fjórðungi þeirra lánardrottna, sem þá er vitað um og atkvæðisrétt mundu eiga um nauðasamning skuldarans eftir fjárhæðum krafna talið, um að þeir mæli með að slíkur samningur komist á samkvæmt frumvarpinu.
Umsjónarmaður skal ákveða svo fljótt sem verða má hvort leitað verði nauðasamnings á grundvelli frumvarps skuldarans, en því skal umsjónarmaður hafna ef einhver þau atvik sem talin eru í 1. mgr. 38. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru fyrir hendi að mati hans. Það eitt að umsjónarmaður hafni ósk skuldarans um nauðasamningsumleitanir raskar ekki gildi heimildar hans til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
Verði umsjónarmaður við ósk skuldarans um nauðasamningsumleitanir skal umsjónarmaður án tafar tilkynna það héraðsdómi, þar sem úrskurður gekk um heimild skuldarans til fjárhagslegrar endurskipulagningar, og lánardrottnum hans, sem þegar er vitað um, og senda þeim jafnframt frumvarp að nauðasamningi ásamt tilkynningu skv. 1. mgr. Skulu þá hefjast nauðasamningsumleitanir og gilda um þær, svo og um staðfestingu nauðasamnings og réttaráhrif hans, ákvæði 44.–63. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Gegnir þá umsjónarmaður samkvæmt lögum þessum hlutverki umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum. Að því leyti sem reglur 3. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. miða tiltekin áhrif við þann dag sem úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings skal varðandi nauðasamning samkvæmt þessari grein miða þau við þann dag sem úrskurður gekk um heimild skuldarans til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
Verði nauðasamningsumleitunum ekki lokið eða eftir atvikum málsmeðferð til staðfestingar nauðasamnings innan þess tíma sem heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skuldarans var markaður með úrskurði héraðsdóms skal heimildin sjálfkrafa teljast framlengd þar til endanleg niðurstaða hefur fengist um hvort nauðasamningur komist á fyrir skuldarann.
22. gr.
Hafi skuldari notið heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar sem runnið hefur skeið sitt á enda án þess að komist hafi á nauðasamningur fyrir hann eftir 20. eða 21. gr. getur lánardrottinn hans krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, en sú krafa verður þá að berast héraðsdómi innan mánaðar eftir að heimild skuldarans lauk. Krafa á þessum grundvelli verður ekki tekin til greina ef skuldarinn sýnir fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma.
V. KAFLI
Gildistaka o.fl.
23. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Beiðni skuldara skv. 4. gr. um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verður að berast héraðsdómi fyrir 1. janúar 2021.
24. gr.
Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum:
- Á eftir orðunum „vegna nauðasamningsins“ í 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II.
- 5. mgr. 33. gr. laganna verður svohljóðandi:
Þótt nauðasamningur geymi ákvæði um breytta greiðsluskilmála kröfu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II fer lánardrottinn ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hefur afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 28. gr.
- Við 1. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að hvaða leyti breyta eigi greiðsluskilmálum kröfu sem samningsveð er fyrir í eign skuldarans, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, hver sú eign sé, til hverra krafna sú breyting taki og hvað í henni felist.
- Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Slík tilkynning skal jafnframt send lánardrottnum, sem vitað er um og fara með kröfu sem trygging er fyrir í eign skuldarans, ef í frumvarpi skuldarans er gert ráð fyrir að þær kröfur sæti breytingum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II.
- Við 2. málsl. 2. mgr. 46. gr. laganna bætist: og hvort og þá hverjar breytingar skuldarinn vilji gera á greiðsluskilmálum kröfunnar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II.
- Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
- Í stað orðanna „skrám sínum skv. 1. og 2. mgr.“ í 4. tölul. 2. mgr. kemur: skrá sinni skv. 1. mgr.; og í stað orðsins „þeim“ í sama tölulið kemur: henni.
- Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: skrá sinni skv. 2. mgr. 46. gr., hvað liggi fyrir um viðhorf lánardrottna sem tilgreindir eru í skránni til óska skuldarans um breytta greiðsluskilmála og hvernig ætla megi að slíkar breytingar eða afsal þessara lánardrottna á réttindum skv. 2. mgr. 28. gr. geti haft áhrif á hæð samningsboðs skuldarans og getu hans til að standa við það.
- Við 58. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Enn fremur getur héraðsdómari hafnað kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef sá krefst sem nýtur samningsveðs fyrir kröfu í eign skuldarans og ekki er fullnægt skilyrðum ákvæðis til bráðabirgða II fyrir breytingu á greiðsluskilmálum kröfu þess lánardrottins eða slíkar breytingar á kröfum annarra rétthafa í sömu eign gætu leitt til þess að tryggingarréttur hans rýrnaði að mun.
- 2. mgr. 60. gr. laganna verður svohljóðandi:
Þegar nauðasamningur er kominn á bindur hann lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra og þær kröfur sem samningsveð er fyrir í eign skuldarans og nauðasamningurinn hefur áhrif á. Efndir kröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafa sömu áhrif og ef hún hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.
- Í stað orðsins „samningskröfu“ í fyrra sinnið í 1. mgr. 62. gr. laganna kemur: kröfu sem samningurinn hefur áhrif á; og í stað sama orðs í síðara sinnið kemur: kröfu.
- Í stað orðsins „samningskrafna“ í 1. mgr. 63. gr. laganna kemur: krafna.
- Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Í nauðasamningi samkvæmt lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar má kveða á um breytingu á greiðsluskilmálum kröfu sem samningsveð er fyrir í eign skuldarans, þar á meðal að lengja lánstíma eða fresta gjalddaga á greiðslu hluta skuldarinnar eða hennar allrar í allt að 18 mánuði, en slík breyting verður þá að ganga jafnt yfir alla sem njóta samningsveðs í sömu eign. Breytingu sem þessa má ekki gera nema að því marki sem nauðsynlegt er til að skuldari fái til ráðstöfunar fé til að efna samningskröfur eftir ákvæðum nauðasamnings.
Gjört á Bessastöðum, 22. júní 2020.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|