Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 257/2012

Nr. 257/2012 15. mars 2012
REGLUGERÐ
um tekjuskatt manna með takmarkaða skattskyldu sem afla meiri hluta tekna sinna hér á landi.

1. gr.

Almennt.

Einstaklingar sem búsettir eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum geta sótt um heimild til ríkisskattstjóra til að verða skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi, stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi, sbr. 70. gr. a. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í þessu felst að viðkomandi greiðir tekjuskatt, útsvar, auðlegðarskatt, fjármagnstekjuskatt, gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra og útvarpsgjald sem væri hann búsettur hér á landi.

2. gr.

Skilyrði.

Svo að skattlagning skv. 70. gr. a. og samsköttun skv. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé heimil skal eitthvert af eftirfarandi skilyrðum vera uppfyllt:

  1. að maður sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafi sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, eða
  2. að maður sem ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en hefur einungis verið heimilisfastur hér á landi hluta tekjuársins, hafi sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, eða
  3. að hjón og einstaklingar í staðfestri samvist og óvígðri sambúð, í þeim tilvikum þar sem annað þeirra eða bæði eiga rétt skv. a- eða b-lið, hafi sem nemur eigi minna en 90% samanlagðra tekna þeirra á tekjuárinu frá Íslandi enda séu þau skráð með sama lögheimili í lok viðkomandi tekjuárs.

3. gr.

Umsókn.

Umsókn um heimild skv. 1. gr. skal vera skrifleg á þar til gerðu eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Hjón, einstaklingar í staðfestri samvist og óvígðri sambúð sem óska samsköttunar, skulu bæði staðfesta umsókn. Umsókn gildir fyrir eitt tekjuár í senn og skal umsóknin fylgja skattframtali. Í umsókn skulu eftirtaldar upplýsingar koma fram og skulu þær studdar nauðsynlegum gögnum sbr. neðangreint:

  1. Fullt nafn, kennitala og lögheimili þess/þeirra sem sækir um heimildina.
  2. Upplýsingar um tekjur erlendis. Sé um að ræða hjón, einstaklinga í staðfestri samvist og óvígðri sambúð skulu fylgja upplýsingar um tekjur beggja. Sé óskað samsköttunar getur ríkisskattstjóri óskað eftir hjúskaparvottorði gerist þess þörf. Upplýsingar geta verið eftirfarandi:
    1. staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram, eða
    2. skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum, eða
    3. erlendir álagningarseðlar, eða
    4. staðfesting á skattauppgjöri erlendis.
  3. Staðfesting um barnabætur, vaxtabætur o.þ.h. greiðslur erlendis ef um þær var að ræða. Fram komi heildargreiðslur tekjuársins og í tilviki hjóna, einstaklinga í staðfestri samvist og óvígðri sambúð, heildargreiðslur beggja. Hafi slíkar greiðslur ekki verið greiddar erlendis þarf staðfesting um slíkt að fylgja umsókn.

4. gr.

Afgreiðsla umsókna.

Ríkisskattstjóri skal yfirfara mótteknar umsóknir og fylgigögn með þeim og er honum heimilt að kalla eftir frekari gögnum telji hann það nauðsynlegt. Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan þriggja vikna. Sinni umsækjandi ekki þeim tilmælum telst umsókn hans fallin niður.

Komi í ljós að gögn séu ekki rétt, eftir að ríkisskattstjóri hefur samþykkt heimild skv. 1. gr., getur hann afturkallað heimildina.

5. gr.

Gildistökuákvæði.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 70. gr. a. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 15. mars 2012.

F. h. r.

Maríanna Jónasdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

B deild - Útgáfud.: 15. mars 2012