Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 977/2019

Nr. 977/2019 6. nóvember 2019

REGLUR
um störf ráðgefandi nefnda er fjalla um hæfni umsækjenda um embætti seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um störf ráðgefandi hæfnisnefnda sem skipaðar eru samkvæmt 6. og 7. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti seðla­banka­stjóra og varaseðlabankastjóra.

2. gr.

Sérstakt hæfi nefndarmanna.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.

Áður en nefndarmaður er skipaður í hæfnisnefnd skal hann meta hæfi sitt m.a. með hliðsjón af því hverjir eru umsækjendur um embættið.

Þegar hlutaðeigandi ráðherra skv. 6. og 7. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, hefur skipað hæfnisnefnd skal hæfnisnefnd gefa umsækjendum kost á að koma á framfæri athuga­semdum við hæfi nefndarmanna. Komi fram athugasemdir við hæfi nefndarmanns taka aðrir með­limir nefndarinnar afstöðu til hæfis viðkomandi.

Hæfnisnefnd tilkynnir umsækjendum um niðurstöðu um hæfi nefndarmanns með rökstuðningi í stuttu máli. Reynist nefndarmaður í hæfnisnefnd vanhæfur til setu í nefndinni skal hlutaðeigandi ráð­herra, sbr. 6. og 7. mgr. 4. gr. laga nr. 92/2019, skipa nýjan í hans stað, að fenginni nýrri til­nefningu ef við á og svo fljótt sem kostur er.

3. gr.

Verkefni hæfnisnefndar.

Verkefni hæfnisnefndar er að leggja mat á hæfni umsækjenda til að hljóta skipun í viðkomandi embætti miðað við lögbundin hæfnisskilyrði og önnur hæfnisviðmið sem tilgreind eru í auglýsingu um embættið og styrkja þannig faglegan grundvöll að skipun í embættið af hálfu ráðherra. Hæfnis­nefnd skal í hvívetna gæta samræmis gagnvart umsækjendum þannig að jafnræði sé í heiðri haft. Hæfnisnefnd skal vera sjálfstæð í störfum sínum.

4. gr.

Nánar um málsmeðferð.

Hæfnisnefnd fer yfir og metur umsóknir, fylgigögn með þeim og aðrar þær upplýsingar sem aflað er.

Hæfnisnefnd getur boðað umsækjendur í viðtal og krafið þá um viðbótargögn ef hún telur það nauðsynlegt vegna hæfnismatsins. Hæfnisnefnd getur jafnframt aflað gagna og upplýsinga um starfs­feril umsækjanda hjá fyrri vinnuveitanda hans og öðrum sem hafa átt samskipti við umsækj­anda vegna starfa hans. Umsækjanda skal gefinn kostur á að tjá sig um upplýsingar sem hæfnis­nefnd aflar frá þriðja aðila, ef þær eru umsækjanda í óhag, áður en nefndin veitir umsögn um hæfni hans.

Hæfnisnefnd skal gæta þess að skrá niður upplýsingar sem veittar hafa verið munnlega eða nefndin fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess.

Í því skyni að stuðla að jafnræði milli umsækjenda er hæfnisnefnd rétt að styðjast við staðlaðan spurningalista í viðtölum.

5. gr.

Greinargerð hæfnisnefndar.

Hæfnisnefnd skal skila greinargerð um störf sín til þess ráðherra sem fer með málefni Seðla­banka Íslands og jafnframt, ef um er að ræða skipun í embætti varaseðlabankastjóra fjármála­stöðugleika og varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, til þess ráðherra sem fer með efnahagsmál og málefni fjármála­markaða.

Í greinargerð hæfnisnefndar skal í stuttu máli rekja málsmeðferð nefndarinnar og vinnubrögð, þar á meðal hvernig samskiptum nefndar við ráðuneyti, umsækjendur og umsagnaraðila hefur verið háttað.

Hæfnisnefnd skal í greinargerðinni veita stutta rökstudda umsögn um hæfni hvers umsækjanda fyrir sig auk rökstudds álits á því hverja nefndin telur hæfasta meðal umsækjenda miðað við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við skipun í embættið, sbr. 3. gr. Skulu umsækjendur í þessu skyni flokkaðir í eftirfarandi fjóra flokka eftir hæfni samkvæmt mati nefndarinnar:

  1. Mjög vel hæfur.
  2. Vel hæfur.
  3. Hæfur.
  4. Ekki hæfur.

Nefndarmönnum er heimilt að skila séráliti um hæfni umsækjanda ef ekki næst samkomulag um sameiginlega umsögn nefndarmanna.

6. gr.

Andmælaréttur umsækjenda.

Hæfnisnefnd skal senda umsækjendum drög að endanlegri greinargerð nefndarinnar þegar hún liggur fyrir og gefa þeim hæfilegan frest til að koma á framfæri athugasemdum við mat hæfnis­nefndar á hæfni þeirra til að gegna viðkomandi embætti. Berist hæfnisnefnd athugasemdir skal hún taka greinar­gerðina til endurskoðunar og gera breytingar á henni ef hún telur tilefni til.

Endanleg greinargerð hæfnisnefndar, ásamt andmælum og athugasemdum umsækjenda og öðrum gögnum sem orðið hafa til í starfi hæfnisnefndar, skal send til þess ráðherra sem fer með mál­efni Seðlabanka Íslands og jafnframt, ef um er að ræða skipun í embætti varaseðlabankastjóra fjármála­stöðugleika og varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, til þess ráðherra sem fer með efna­hags­mál og málefni fjármálamarkaða.

7. gr.

Birting greinargerðar hæfnisnefndar.

Ráðherra sem fer með málefni Seðlabanka Íslands skal birta endanlega greinargerð hæfnis­nefndar, að því marki sem lög leyfa, um leið og hann birtir ákvörðun sína um skipun í embættið.

8. gr.

Þóknun nefndarmanna og annar kostnaður.

Nefndarmönnum í hæfnisnefnd skal greidd þóknun fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun þess ráðherra sem skipar hæfnisnefnd hverju sinni. Hlutaðeigandi ráðherra sér nefndinni jafnframt fyrir starfsaðstöðu ef þörf krefur og greiðir annan kostnað af störfum hennar.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í 8. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, sbr. ákvæði til bráðabirgða I með lögunum, sbr. 7. gr. laga nr. 117/2019, öðlast þegar gildi.

Forsætisráðuneytinu, 6. nóvember 2019.

Katrín Jakobsdóttir.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 7. nóvember 2019