I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að:
- viðhalda gæðum andrúmslofts þar sem þau eru mikil en bæta þau ella að því er varðar brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk, blý og óson og halda loftmengun af völdum þessara efna í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti,
- setja viðmiðunar- og viðvörunarmörk fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk, blý og óson í andrúmslofti sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild,
- tryggja nægilegar og samræmdar mælingar á styrk brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks, blýs og ósons í andrúmslofti og miðla upplýsingum til almennings um styrk þessara efna.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um eftirlit, mat, mælingar, viðmiðunarmörk, vöktun, upplýsingaskipti og tilkynningar til almennings vegna brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíðs, bensens, kolsýrings, svifryks, blýs og ósons í andrúmslofti.
Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands. Reglugerðin gildir um athafnir einstaklinga eins og við á.
Um viðmiðunarmörk á vinnustöðum gilda ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
Andrúmsloft: er loft í veðrahvolfi að undanskildu lofti á vinnustöðum og innandyra.
Atvinnurekstur: er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
Besta fáanlega tækni: er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
Efri viðmiðunarmörk mats: eru mörk sem eru tilgreind í A-þætti V. viðauka, en innan marka þeirra er unnt að nota samþættar aðferðir sem byggjast á mælingum og reiknilíkönum til að meta gæði andrúmslofts í samræmi við 13. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.
Eftirlit: er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
Eftirlitsaðilar: eru viðkomandi heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun, sbr. ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Fastar mælingar: eru mælingar framkvæmdar á föstum mælistöðvum, annaðhvort samfelldar eða slitróttar.
Forefni ósons: eru efni sem stuðla að ósonmyndun við yfirborð jarðar en nokkur þeirra eru tilgreind í XIII. viðauka.
Gróðurverndarmörk: eru mörk sem miða að því að vernda gróður gegn skaðlegum áhrifum af völdum þeirra efna sem reglugerð þessi gildir um.
Gæðamarkmið: er mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi (lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum) og/eða lýsing á ástandi, sem ákveðið er að gilda eigi fyrir svæði til þess að enn minni hætta sé á að áhrifa mengunar gæti en stefnt er að með viðmiðunarmörkum og til að styðja tiltekna notkun umhverfisins og/eða viðhalda henni til lengri tíma.
Heilsuverndarmörk: eru mörk sem eiga að tryggja heilsu manna til lengri tíma.
Köfnunarefnisoxíð: er summa köfnunarefnismónoxíðs og köfnunarefnisdíoxíðs reiknuð sem milljarðshlutar og gefin upp sem köfnunarefnisdíoxíð í míkrógrömmum á rúmmetra.
Langtímamarkmið: er tiltekinn styrkur, sem á að ná þegar til langs tíma er litið í því skyni að skapa haldgóða vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfið.
Mat: er hvers kyns aðferð til að mæla, reikna út, spá fyrir um eða meta styrk mengunar í andrúmslofti.
Mengun: er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Mengunarefni: eru efni sem eru í andrúmslofti og líklegt er að hafi skaðleg áhrif á heilbrigði manna og/eða umhverfið í heild.
Mengunarlögsaga Íslands: er hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðamörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög nr. 41/1997 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
Mengunarvarnaeftirlit: er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar og eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
Mæling á umhverfisgæðum: er mæling og skráning á einstökum þáttum í umhverfinu, óháð atvinnurekstri og starfsleyfum, venjulega framkvæmd í stuttan tíma.
Náttúruatburður: er eldgos, jarðskjálftavirkni, náttúruleg jarðvarmavirkni, óheftur eldur á opnu landi, stormar eða uppþyrlun eða flutningur náttúrulegra agna frá þurrum svæðum.
Neðri viðmiðunarmörk mats: eru mörk sem eru tilgreind í A-þætti V. viðauka en neðan þeirra er unnt að nota aðferðir, sem byggjast annaðhvort eingöngu á reiknilíkönum eða hlutlægu mati, til þess að meta gæði andrúmslofts í samræmi við 13. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.
PM10: er svifryk sem fer gegnum staðlað inntak sem með 50% skilvirkni skilur frá agnir sem hafa loftfræðilegt þvermál 10 µm.
PM2,5: er svifryk sem fer gegnum staðlað inntak sem með 50% skilvirkni skilur frá agnir sem hafa loftfræðilegt þvermál 2,5 µm.
Rokgjörn lífræn efnasambönd: eru öll lífræn efnasambönd, manngerð og af lífrænum uppruna, önnur en metan, sem geta myndað ljósoxandi efni við efnahvörf með köfnunarefnisoxíðum fyrir tilstilli sólarljóss.
Styrkur mengunar: er styrkur mengunarefnis í andrúmslofti eða ákoma þess á yfirborð á ákveðnum tíma.
Svæði: er hluti landsins sem afmarkaður hefur verið til að meta loftgæði og stjórna þeim í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.
Upplýsingamörk: eru tiltekinn styrkur mengunarefna sem er ákvarðaður þannig að ef farið er yfir mörk efnanna skapast áhætta fyrir heilbrigði manna vegna skammvinnra váhrifa sem sérlega viðkvæmir hópar fólks verða fyrir og nauðsynlegt er að nýjustu og viðeigandi upplýsingar liggi fyrir um.
Viðmiðunarmörk: eru leyfilegt hámarksgildi mengunar í tilteknum viðtaka byggt á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Viðmiðunarmörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk til verndunar vistkerfa).
Viðvörunarmörk: eru tiltekinn styrkur mengunarefna sem er ákvarðaður þannig að ef farið er yfir mörk efnanna skapast áhætta fyrir heilbrigði manna vegna skammvinnra váhrifa sem almenningur verður fyrir og skal gripið til viðeigandi ráðstafana tafarlaust.
Vöktun: merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
Þéttbýlisstaður: er svæði þar sem þéttleiki byggðar er slíkur að nauðsynlegt er að meta og stjórna gæðum andrúmslofts í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.
4. gr.
Hlutverk Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda.
Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndum ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.
II. KAFLI
Reglur um mat á loftgæðum, stjórnun loftgæða o.fl.
5. gr.
Meginreglur.
Halda skal loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.
Í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks, blýs eða ósons skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun af völdum efnanna og beita skal til þess bestu fáanlegu tækni, og viðbótarráðstöfunum þar sem þess er þörf.
Sveitarfélögum er heimilt að setja sér samþykktir þar sem gerðar eru ítarlegri kröfur en reglugerð þessi segir til um í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og viðhalda góðum loftgæðum.
6. gr.
Viðmiðunarmörk fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, PM10 og blý.
Styrkur brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, PM10 og blýs, sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferðir í A-þætti IX. viðauka eða aðrar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun telur sambærilegar, skal ekki vera yfir þeim viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í B-þætti I. viðauka.
7. gr.
Viðmiðunarmörk fyrir PM2,5.
Styrkur PM2,5, sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferð í A-þætti IX. viðauka eða aðrar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun telur sambærilegar, skal ekki vera yfir þeim viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í B-þætti I. viðauka.
8. gr.
Viðmiðunarmörk og langtímamarkmið fyrir óson.
Styrkur ósons, sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferð í A-þætti IX. viðauka eða aðrar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun telur sambærilegar, skal ekki vera yfir þeim viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í B-þætti X. viðauka.
Langtímamarkmið um styrk ósons eru tilgreind í C-þætti X. viðauka.
Halda skal skrá yfir mælistaði þar sem styrkur ósons er hærri en langtímamarkmið kveða á um, sbr. C-þátt X. viðauka, en þó innan marka þess sem kveðið er á um í 1. mgr. Fyrir þau svæði og þéttbýlisstaði skulu gerðar viðeigandi ráðstafanir til að hægt verði að uppfylla langtímamarkmið.
9. gr.
Mælistöðvar.
Umhverfisstofnun skal sjá um að mælistöðvar sem veita nauðsynlegar upplýsingar, séu settar upp svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar. Þá skal stofnunin sjá um framkvæmd vöktunar.
Fjöldi mælistöðva fyrir mælingar á brennisteinsdíoxíði, köfnunarefnisdíoxíði, köfnunarefnisoxíðum, benseni, kolsýringi, svifryki og blýi skal ákveðinn í samræmi við VIII. viðauka. Staðsetning mælistöðva fyrir efnin skal vera í samræmi við VI. viðauka.
Fækka má fjölda mælistöðva, sbr. 2. mgr., vegna fastra mælinga á svæðum og þéttbýlisstöðum ef til viðbótar upplýsingum frá mælistöðvum liggja einnig fyrir upplýsingar frá reiknilíkönum og/eða leiðbeinandi mælingum.
Flokkun og val á mælistöðvum á styrk ósons skal ákveðið í samræmi við A-þátt XI. viðauka og skal endurskoða staðarvalið reglulega í samræmi við C-þátt XI. viðauka.
Lágmarksfjöldi fastra mælistöðva fyrir samfelldar mælingar á ósoni á hverju svæði og þéttbýlisstað þar sem mat á loftgæðum byggist einvörðungu á upplýsingum sem fást með mælingum skal ákveðinn í samræmi við A-þátt XII. viðauka. Að minnsta kosti ein mælistöð skal vera starfrækt til að afla gagna um styrk forefna ósons sem tilgreind eru í B-þætti XIII. viðauka.
Fækka má fjölda mælistöðva, sbr. 4. mgr., vegna fastra mælinga á svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem langtímamarkmið hafa náðst í samræmi við B-þátt XII. viðauka.
Þar sem sýnt hefur verið fram á að þörf sé á mælistöð vegna staðbundinnar uppsprettu getur eftirlitsaðili gert kröfu um uppsetningu mælistöðva og skal sá atvinnurekstur sem valdur er að menguninni kosta uppsetningu og rekstur mælistöðva. Viðkomandi eftirlitsaðili fer með eftirlit með mælingum og sér um birtingu mæliniðurstaðna.
Rekstraraðilar mælistöðva skulu skila rafrænni ársskýrslu til Umhverfisstofnunar um rekstur stöðvanna og niðurstöður mælinga fyrir 1. maí ár hvert. Í þeirri skýrslu skulu m.a. koma fram yfirfarin og leiðrétt gögn um ársmeðaltöl, öll sólarhringsmeðaltöl ársins og öll klukkustundarmeðaltöl ársins.
10. gr.
Mælingar og mat á styrk brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks og blýs.
Við mælingar á styrk brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks og blýs skal nota tilvísunaraðferðir í A-þætti IX. viðauka eða aðrar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun telur sambærilegar.
Umhverfisstofnun skal flokka hvert svæði með tilliti til efri og neðri viðmiðunarmarka mats fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý sem eru tilgreind í A-þætti V. viðauka og skal flokkunin endurskoðuð á fimm ára fresti hið minnsta. Ef marktæk breyting verður á starfsemi á svæði eða hluta svæðis sem hefur áhrif á styrk framangreindra efna skal endurskoða flokkun fyrr.
Til viðbótar mælingum í föstum mælistöðvum má nota aðrar aðferðir við mat á loftgæðum, s.s. líkanagerð, leiðbeinandi mælingar og hlutlægar matsaðferðir. Á svæðum þar sem ekki er krafist fastra mælistöðva má nota slíkar aðferðir eingöngu.
11. gr.
Mælingar og mat á styrk ósons.
Við mælingar á styrk ósons skal nota tilvísunaraðferð í A-þætti IX. viðauka eða aðrar greiningaraðferðir sem Umhverfisstofnun telur sambærilegar.
Fastar og samfelldar mælingar skal framkvæma á svæðum og þéttbýlisstöðum þar sem styrkur ósons hefur á undangengnu fimm ára tímabili farið yfir þau gildi sem sett eru skv. langtímamarkmiði.
Ef fyrirliggjandi gögn ná yfir styttra tímabil má styðjast við stutt mælingarátak á þeim tíma árs og á þeim stöðum þar sem líklegast þykir að mestrar mengunar gæti og styðjast við reiknilíkön sem byggja á niðurstöðum upplýsinga úr skrám um losun til að ákvarða hvort farið hefur verið yfir viðmiðunarmörk.
Til viðbótar mælingum í föstum mælistöðvum má nota aðrar aðferðir við mat á loftgæðum, s.s. líkanagerð, leiðbeinandi mælingar og hlutlægar matsaðferðir. Á svæðum þar sem ekki er krafist fastra mælistöðva má nota slíkar aðferðir eingöngu.
12. gr.
Mælingar og mat á styrk forefna ósons.
Við mælingar á styrk forefna ósons skal styðjast við XIII. viðauka.
III. KAFLI
Miðlun upplýsinga, aðgerðaáætlanir o.fl.
13. gr.
Miðlun upplýsinga og tilkynningar til almennings.
Ef styrkur brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs eða ósons fer yfir viðvörunarmörk, sbr. gildi sem fram koma í A-þætti og B-þætti II. viðauka, ber viðkomandi heilbrigðisnefnd að gefa almenningi upplýsingar um það í fjölmiðlum í samræmi við upplýsingar og leiðbeiningar sem fram koma í XIV. viðauka.
Heilbrigðisnefndir skulu upplýsa almenning sem og viðeigandi samtök, svo sem umhverfissamtök, neytendasamtök, samtök sem annast hagsmuni viðkvæmra hópa, og aðra viðeigandi aðila á sviði heilsugæslu um styrk brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks, blýs og ósons til dæmis fyrir tilstilli útvarps- og sjónvarpsstöðva, fréttamiðla, upplýsingaskilta eða netsins. Um upplýsingar til almennings fer nánar samkvæmt XIV. viðauka.
Upplýsingar um styrk brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks, blýs og ósons skulu uppfærðar daglega hið minnsta og ef klukkustundargildi liggja fyrir skal uppfæra upplýsingarnar á hverri klukkustund ef því verður við komið.
Fari styrkur svifryks og brennisteinsdíoxíðs yfir mörk vegna náttúruatburða skal það tilgreint sérstaklega og færð rök fyrir því að svo sé.
Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur og hlutaðeigandi hagsmunasamtök fái upplýsingar um gæði andrúmslofts og skulu þær vera aðgengilegar á vefsetri Umhverfisstofnunar.
14. gr.
Upplýsingagjöf.
Heilbrigðisnefndum ber að senda upplýsingar um niðurstöður mælinga á umhverfisgæðum til Umhverfisstofnunar í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar. Á sama hátt ber Umhverfisstofnun að senda upplýsingar til heilbrigðisnefnda um niðurstöður vöktunar.
15. gr.
Aðgerðaáætlanir.
Um aðgerðaáætlanir og ráðstafanir sem gilda á þeim svæðum þar sem hætta er á að farið verði yfir viðmiðunarmörk og á þeim svæðum þar sem styrkur er yfir viðmiðunarmörkum gilda ákvæði reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði.
IV. KAFLI
Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög, gildistaka o.fl.
16. gr.
Aðgangur að upplýsingum.
Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, upplýsingalögum nr. 140/2012 og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
17. gr.
Þagnarskylda eftirlitsaðila.
Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
18. gr.
Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.
Um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
19. gr.
Innleiðing.
Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:
- Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu, sem vísað er til í tölulið 14c, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 59, frá 18. október 2012, 2012/EES/59/01, bls. 1-44.
- Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1480 frá 28. ágúst 2015 sem vísað er til í tölulið 14c, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2016, frá 5. febrúar 2016. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18, frá 31. mars 2016, 2016/EES/18/40, bls. 292-299.
20. gr.
Lagastoð, gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. og 6. gr. d. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna, hvað varðar skyldur sveitarfélaga.
Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 251/2002 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings, með síðari breytingum og reglugerð nr. 745/2003 um styrk ósons við yfirborð jarðar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 24. október 2016.
Sigrún Magnúsdóttir.
Sigríður Auður Arnardóttir.
VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal)
|