I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
Markmið með reglugerð þessari er að innleiða reglur um rétt heilbrigðisstarfsmanns, sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss, til að bera starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur á Íslandi með sömu réttindum og skyldum og gilda um íslenska ríkisborgara, hafi hann undir höndum hæfnisvottorð eða vitnisburð um þá faglegu menntun og hæfi sem krafist er enda uppfylli hann skilyrði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-samningsins og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma (hér eftir nefnd tilskipunin).
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir þegar lagt er mat á hvort heilbrigðisstarfsmaður, sem er ríkisborgari aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða í Sviss og hefur hug á að starfa hér á landi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, uppfyllir skilyrði um faglega menntun og hæfi og starfsreynslu til að gegna starfi löggiltrar heilbrigðisstéttar hér á landi skv. 5. og 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og sem hefur aflað sér menntunar og hæfis eða öðlast viðurkenningu starfsréttinda í öðru EES-ríki eða Sviss.
Reglugerðin tekur einnig til heilbrigðisstarfsmanna sem hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari eða óska eftir að bjóða fram þjónustu skv. V. kafla sem fellur innan lögverndaðs starfs með sömu réttindum og skyldum og íslenskir ríkisborgarar sem hlotið hafa samsvarandi leyfi.
Þá gildir reglugerðin um útgáfu evrópsks fagskírteinis til handa fagmenntuðum heilbrigðisstarfsmönnum er þess óska að því gefnu að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi samþykkt innleiðingargerðir fyrir viðkomandi starfsstétt.
Reglugerðin á einnig við um þá heilbrigðisstarfsmenn sem hafa lokið starfsnámi og/eða starfsþjálfun í öðru EES-ríki en heimaaðildarríkinu sem er skilyrði fyrir aðgengi að lögverndaðri starfsgrein hér á landi.
Ákvæði II. kafla um evrópskt fagskírteini og VI. kafla um samvinnu stjórnvalda og fyrirkomulag viðvarana taka ekki til ríkisborgara frá Sviss.
Heimilt er að beita málsmeðferðarreglum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 37. gr., með ákveðnum takmörkunum samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim lögum.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
- Aðlögunartími: Það tímabil þegar heilbrigðisstarfsmaður leggur stund á lögverndað starf hér á landi á ábyrgð aðila sem viðurkenndur er hæfur í því starfi, auk frekari þjálfunar, sbr. 24. og 25. gr., og skal sá tími metinn.
- Almennt lækningaleyfi: Starfsleyfi sem læknir.
- EES-samningurinn: Samningurinn milli Evrópusambandsins og Íslands, Noregs og Liechtenstein sem undirritaður var 2. maí 1992 og gekk í gildi 1. janúar 1994.
- Evrópskt fagskírteini: Rafrænt vottorð sem sannar að umsækjandi hafi annaðhvort uppfyllt nauðsynleg skilyrði til þess að veita þjónustu í gistiaðildarríki tímabundið og óreglubundið eða hlotið viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis til þess að geta öðlast staðfestu í gistiaðildarríki, sbr. II. kafla.
- Evrópskt viðurkenningarkerfi fyrir námseiningar eða ECTS-einingar: Einingakerfi fyrir æðri menntun sem notað er á evrópskum vettvangi æðri menntunar.
- Fagleg menntun og hæfi: Menntun og hæfi sem hefur verið staðfest með sérstökum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, hæfnisvottorði og/eða starfsreynslu, sbr. 21. gr. og fylgiskjal II.
- Gistiaðildarríki: Ríki sem heilbrigðisstarfsmaður hefur sótt um að starfa í, veita tímabundna þjónustu eða hafa lögmæta staðfestu.
- Heimaaðildarríki: Ríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður hefur hlotið faglega menntun og hæfi.
- Hæfnispróf: Prófun á fagþekkingu, færni og hæfni umsækjanda lögð fyrir af til þess bærum aðila hér á landi með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að leggja stund á lögverndað starf, sbr. 24. og 26. gr.
- Hæfnisvottorð: Vottorð sem staðfestir nám sem ekki fellur undir b-, c-, d- eða e-lið almenna kerfisins skv. IV. kafla. Um getur verið að ræða til dæmis staðfestingu á námi eða sérstöku prófi án undangengins náms, á námskeiði, um grunnskólapróf eða almennt framhaldsskólanám án sérstakra réttinda, útgefið af þeim sem býður upp á umrætt nám eða heldur sérstök próf.
- Lögbært stjórnvald: Hvert það stjórnvald eða stofnun sem hefur með höndum útgáfu eða móttöku á prófskírteinum og öðrum skjölum eða upplýsingum sem varða umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
- Lögmæt staðfesta: Föst og varanleg starfsstöð í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss sem skráð er samkvæmt landslögum viðkomandi ríkis.
- Lögvernduð menntun: Hver sú menntun sem er sérstaklega sniðin að því að leggja stund á tiltekið starf innan heilbrigðisþjónustunnar og tekur til náms eða námskeiða sem fela jafnframt í sér, eftir því sem við á, faglegt nám, starf á reynslutíma eða starfsreynslu, sem ákvarðast af lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
- Lögvernduð starfsgrein: Atvinnustarfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem heimild til þess að starfa innan hennar og notkun starfsheitis er háð fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla um sérstaka faglega menntun og hæfi.
- Sérfræðileyfi: Viðurkenning á formlegu sérnámi og hæfi.
- Sjálfkrafa viðurkenning: Viðurkenning á vitnisburði um formlega menntun og hæfi á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun, sbr. III. kafla.
- Staðfestuaðildarríki: Ríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður er með lögmæta staðfestu.
- Starfsleyfi: Viðurkenning á formlegri menntun og hæfi.
- Starfsreynsla: Raunveruleg og lögmæt ástundun viðkomandi starfs í aðildarríki í fullu starfi eða í samsvarandi tíma í hlutastarfi.
- Starfsþjálfun: Faglegt starfsnám á vinnustað sem fer fram undir leiðsögn sem er skilyrði fyrir aðgengi að lögvernduðu starfi og getur verið stundað meðan á námi stendur eða að því loknu.
- Upplýsingakerfi fyrir innri markaðinn (IMI): ESB-gagnagrunnur vegna upplýsingaskipta milli lögbærra stjórnvalda gisti- og heimaaðildarríkjanna.
- Vitnisburður um formlega menntun og hæfi: Prófskírteini, vottorð og annar opinber vitnisburður sem tilnefnd lögbær stjórnvöld í EES-ríki gefa út samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt.
- Ævinám: Öll almenn menntun, starfsmenntun og þjálfun, óformlegt og formlaust nám sem fer fram alla ævi og leiðir til aukinnar fagþekkingar, færni og hæfni sem kann að taka til siðareglna starfsgreinar.
Um mat á vitnisburði um formlega menntun og hæfi vegna umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar í þriðja ríki og sem gefinn er út af þriðja ríki fer skv. 37. gr.
4. gr.
Áhrif viðurkenningar.
Heilbrigðisstarfsmaður sem fær starfsleyfi eða sérfræðileyfi sem veitt er hér á landi skv. III. og IV. kafla gerir heilbrigðisstarfsmanni kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hefur gegnt í heimaaðildarríki sínu og leggja stund á það með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands.
Starf sem umsækjandi óskar eftir að leggja stund á hér á landi er hið sama og hann hefur gegnt í heimaaðildarríki sínu ef starfsemin sem um ræðir er sambærileg og uppfyllir skilyrði tilskipunarinnar.
II. KAFLI
Evrópskt fagskírteini.
5. gr.
Útgáfa evrópsks fagskírteinis.
Evrópsk fagskírteini eru gefin út til handa heilbrigðisstarfsmönnum sem þess óska og sem eru handhafar faglegrar menntunar og hæfis, að því gefnu að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi samþykkt innleiðingargerðir fyrir viðkomandi starf.
Evrópsk fagskírteini eru gefin út af heimaaðildarríki til handa heilbrigðisstarfsmönnum sem óska eftir að veita þjónustu í starfsgreinum skv. III. kafla þar sem ekki er gerð krafa um forathugun skv. 5. mgr. 29. gr.
Evrópsk fagskírteini eru gefin út af gistiaðildarríki til handa heilbrigðisstarfsmönnum sem vilja öðlast lögmæta staðfestu í því ríki eða bjóða fram þjónustu í störfum skv. V. kafla þar sem gerð er krafa um forathugun skv. 5. mgr. 29. gr. Lögbært stjórnvald í heimaaðildarríki skal ljúka allri undirbúningsvinnu hvað varðar einstaklingsbundna skrá umsækjanda í upplýsingakerfinu fyrir innri markaðinn (IMI).
Evrópskt fagskírteini veitir ekki sjálfkrafa rétt til tiltekinna starfa ef fyrir liggja sérstakar kröfur um skráningu eða annars konar takmarkanir voru til staðar áður en evrópskt fagskírteini var tekið upp fyrir viðkomandi starf.
6. gr.
Umsókn um evrópskt fagskírteini og myndun IMI-skrár.
Landlæknir skal gera heilbrigðisstarfsmanni kleift að sækja rafrænt um evrópskt fagskírteini í gegnum evrópskt upplýsingakerfi innri markaðarins (IMI). Við það er stofnuð sérstök skrá fyrir umsækjanda, svokölluð IMI-skrá, og skal hann leggja með öll tilskilin gögn vegna umsóknar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
Heimili landlæknir einnig skriflegar umsóknir skal vera til reiðu allt nauðsynlegt skipulag vegna myndunar IMI-skrár og hvers kyns upplýsingar sem senda skal umsækjanda vegna útgáfu evrópsks fagskírteinis.
Innan viku frá því að umsókn er lögð fram skal landlæknir staðfesta móttöku umsóknar og upplýsa umsækjanda um gögn sem kann að vanta með umsókn.
Landlæknir skal, ef við á, gefa út hvers kyns vottorð, til stuðnings umsókn, sem krafist er samkvæmt tilskipuninni. Landlæknir skal staðfesta hvort umsækjandi hafi lögmæta staðfestu hér á landi og hvort öll nauðsynleg gögn sem gefin hafa verið út hér á landi séu gild og áreiðanleg. Ef til staðar er réttmætur vafi getur landlæknir haft samráð við viðeigandi aðila hér á landi og óskað eftir að umsækjandi leggi fram staðfest afrit gagna. Ef sami umsækjandi leggur fram fleiri umsóknir er lögbærum stjórnvöldum í heima- eða gistiaðildarríki ekki heimilt að fara fram á endurframlagningu gagna sem liggja þegar fyrir í IMI-skránni og eru enn í gildi.
7. gr.
Evrópskt fagskírteini vegna tímabundinnar og óreglubundinnar veitingar þjónustu.
Landlæknir skal innan þriggja vikna frá því að umsókn berst sannprófa umsóknina og meðfylgjandi gögn í IMI-skránni og gefa út evrópskt fagskírteini vegna tímabundinnar og óreglubundinnar veitingar þjónustu, sé ekki gerð krafa um forathugun skv. 5. mgr. 29. gr. Þriggja vikna tímabilið hefst annaðhvort við móttöku gagna sem upp á vantaði eða að liðinni umræddri viku skv. 3. mgr. 6. gr.
Evrópska fagskírteinið er að því búnu fært til sérhvers lögbærs stjórnvalds sem málið varðar og jafngildir yfirlýsingu skv. 29. gr. Umsækjandi skal upplýstur um útgáfu evrópska fagskírteinisins. Landlæknir getur ekki farið fram á frekari yfirlýsingar næstu 18 mánuði.
Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu evrópsks fagskírteinis eða dráttur á útgáfu umfram þriggja vikna tímabilið er kæranlegur til ráðherra.
Ef heilbrigðisstarfsmaður sem er handhafi evrópsks fagskírteinis óskar eftir að veita þjónustu í öðru aðildarríki en því sem fram kemur í upprunalegri umsókn getur hann farið fram á slíka útvíkkun. Ef heilbrigðisstarfsmaður óskar eftir að veita þjónustu umfram 18 mánuðina, sbr. 2. mgr., skal hann upplýsa landlækni um það. Hann skal einnig leggja fram gögn sem landlæknir kann að krefjast um verulegar breytingar á þeirri stöðu sem IMI-skráin sýnir. Landlæknir skal sjá um færslu á uppfærðu evrópsku fagskírteini til lögbærs stjórnvalds í viðkomandi gistiaðildaríki.
Evrópska fagskírteinið skal gilda í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins svo lengi sem handhafi þess heldur rétti sínum til starfa sem heilbrigðisstarfsmaður á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem geymdar eru í IMI-skránni.
8. gr.
Umsókn um evrópskt fagskírteini vegna staðfestu og tímabundinnar og óreglubundinnar þjónustu er varðar öryggisstörf eða störf í heilbrigðisþjónustu.
Þegar sótt er um rétt til staðfestu eða til að veita þjónustu tímabundið og óreglubundið í störfum sem falla undir IV. kafla, þar sem krafa er gerð um forathugun, skal landlæknir innan mánaðar sannreyna að gögn í IMI-skránni séu gild og ósvikin til útgáfu evrópsks fagskírteinis. Það tímabil hefst þegar einhver þau gögn sem vantaði, sbr. 6. gr., hafa borist eða ef engra viðbótargagna var krafist eftir að einnar viku fresturinn er liðinn. Umsóknin um evrópska fagskírteinið er að því búnu færð í skrá sérhvers lögbærs stjórnvalds sem málið varðar og skal umsækjandi upplýstur um það.
Fyrir störf sem njóta sjálfkrafa viðurkenningar skv. III. kafla, þar sem ekki er gerð krafa um forathugun, skal landlæknir ákveða hvort gefa á út evrópskt fagskírteini innan eins mánaðar frá viðtöku umsóknarinnar sem heimaaðildarríkið sendi. Ef fyrir liggur réttmætur vafi er landlækni heimilt að fara fram á viðbótarupplýsingar eða staðfest endurrit gagna frá heimaaðildarríkinu sem ber að senda gögnin eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðnin berst.
Fyrir störf sem falla undir IV. kafla, þar sem krafa er um forathugun eða krafist er uppbótarráðstafana, ákveður landlæknir hvort gefa eigi út evrópskt fagskírteini eða umsækjanda gert að sæta uppbótarráðstöfunum skv. 24. gr. innan tveggja mánaða frá viðtöku umsóknarinnar sem heimaaðildarríki viðkomandi sendi. Ef fyrir liggur réttmætur vafi er landlækni heimilt að fara fram á viðbótargögn eða staðfest endurrit gagna frá heimaaðildarríki umsækjanda sem skal senda gögnin eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðnin er lögð fram.
Ef landlæknir fær ekki nauðsynlegar upplýsingar getur hann synjað um útgáfu evrópsks fagskírteinis. Synjunin skal studd gildum rökum.
Ef landlæknir tekur ekki ákvörðun innan þeirra tímamarka sem sett eru í reglugerð þessari, eða skipuleggur ekki hæfnispróf, skal litið svo á að evrópskt fagskírteini hafi verið gefið út og skal senda það sjálfkrafa um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn til umsækjanda.
Landlæknir getur framlengt frestinn um tvær vikur vegna sjálfkrafa útgáfu evrópsks fagskírteinis. Skal hann útskýra ástæðu framlengingarinnar og upplýsa umsækjandann um hana. Heimilt er að endurtaka slíka framlengingu í eitt skipti og aðeins þegar slíkt er mjög áríðandi, einkum af ástæðum sem varða lýðheilsu eða öryggi sjúklinga og þeirra sem nýta sér þjónustuna. Útgáfa evrópsks fagskírteinis kemur í stað umsóknar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og er ákvörðun landlæknis kæranleg til ráðherra.
9. gr.
Vinnsla og aðgangur að gögnum er varða evrópska fagskírteinið.
Með fyrirvara um regluna um sakleysi uns sekt er sönnuð skulu lögbær stjórnvöld í heima- og gistiaðildarríki uppfæra tímanlega samsvarandi IMI-skrá með upplýsingum sem varða agaviðurlög eða refsiréttarleg viðurlög sem varða sviptingu eða takmörkun á starfsréttindum sem hafa afleiðingar fyrir handhafa evrópsks fagskírteinis/heilbrigðisstarfsmann. Gætt skal að ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Við uppfærslur skal jafnframt eyða upplýsingum sem ekki er lengur þörf fyrir og skal þegar í stað upplýsa handhafa evrópsks fagskírteinis/heilbrigðisstarfsmann og viðkomandi lögbær stjórnvöld sem hafa aðgang að IMI-skrá um hvers kyns uppfærslur. Skyldan skal vera með fyrirvara um viðvörunarskyldu aðildarríkjanna skv. VI. kafla.
Upplýsingar uppfærslu skv. 1. mgr. skulu eingöngu taka til eftirfarandi:
- nafns viðkomandi fagmanns,
- starfsgreinar er um ræðir,
- upplýsinga um það stjórnvald eða dómstól sem tekið hefur ákvörðun um takmörkun eða sviptingu starfsleyfis,
- umfangs takmörkunar eða sviptingar starfsleyfis og
- gildistíma takmörkunar eða sviptingar starfsleyfis.
Aðeins lögbær stjórnvöld í heima- og gistiaðildarríki skulu hafa aðgang að upplýsingunum í IMI-skránni og skulu þau veita heilbrigðisstarfsmanni sem er handhafi evrópsks fagskírteinis upplýsingar um innihald skráarinnar óski hann eftir því.
Upplýsingarnar á evrópska fagskírteininu skulu eingöngu ná til atriða sem nauðsynleg eru til þess að ganga úr skugga um rétt heilbrigðisstarfsmanns til þess að stunda það starf sem fellur undir evrópska fagskírteinið, svo sem nafn og eftirnafn heilbrigðisstarfsmanns, fæðingardag og fæðingarstað, starfsgrein, formlega menntun og hæfi, prófgráðu, regluverk varðandi viðurkenningarkerfi, heiti lögbærs stjórnvalds, númer skírteinis, öryggisráðstafanir og tilvísun í gild persónuskilríki. Einnig skulu koma fram upplýsingar um starfsreynslu sem aflað hefur verið eða uppbótarráðstafanir sem heilbrigðisstarfsmaður hefur staðist.
Varðveita má persónuupplýsingar í IMI-skránni eins lengi og þurfa þykir vegna viðurkenningarferlisins eða sendingar yfirlýsingar skv. 29. gr. Handhafi evrópsks fagskírteinis/heilbrigðisstarfsmaður skal sér að kostnaðarlausu eiga þess kost að fá leiðréttar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um sig í skránni, að skránni sé eytt eða aðgangur takmarkaður. Skal handhafinn upplýstur um þennan rétt sinn þegar evrópska fagskírteinið er gefið út. Komi til þess að upplýsingum um umsækjanda um evrópskt fagskírteini, sem gefið er út vegna staðfestu skv. III. kafla eða starfa þar sem krafist er forathugunar skv. IV. kafla, sé eytt skulu lögbær stjórnvöld gefa heilbrigðisstarfsmanni staðfestingu á að hann hafi hlotið viðurkenningu á faglegri menntun sinni og hæfi. Skal umsækjandi minntur á þennan rétt á tveggja ára fresti, sjálfvirkt um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI).
Komi fram beiðni um eyðingu IMI-skrár, er tengist evrópsku fagskírteini sem gefið er út í þeim tilgangi að koma á tímabundinni og óreglubundinni þjónustu skv. V. kafla, sem hefur áhrif á lýðheilsu og öryggi sjúklinga, skulu lögbær stjórnvöld í viðkomandi gistiaðildarríki gefa handhafa evrópsks fagskírteinis/heilbrigðisstarfsmanni staðfestingu á að hann hafi hlotið viðurkenningu á faglegri menntun sinni og hæfi.
Landlæknir skal með fyrirvara um 4. mgr. veita vinnuveitendum, sjúklingum, viðskiptavinum og öðrum sem málið varðar upplýsingar um réttmæti og gildi evrópskra fagskírteina sem heilbrigðisstarfsmaður leggur fram.
III. KAFLI
Sjálfkrafa viðurkenning til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun.
10. gr.
Meginreglan um sjálfkrafa viðurkenningu.
Landlæknir skal viðurkenna vitnisburð um formlega menntun og hæfi læknis sem veitir aðgang að atvinnustarfsemi læknis með grunnmenntun og sérmenntaðs læknis, hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun, tannlæknis, sérmenntaðs tannlæknis og lyfjafræðings eins og tilgreint er í liðum 5.1.1, 5.1.2, 5.2.2, 5.3.2, 5.3.3 og 5.6.2 í V. viðauka tilskipunarinnar, eftir því sem við á, sem uppfylla lágmarkskröfur um þá menntun sem um getur í 24., 25., 31., 34., 35. og 44. gr. tilskipunarinnar, og skal, að því er varðar aðgang að og stundun þessarar atvinnustarfsemi, láta slíkan vitnisburð hafa sama gildi á Íslandi og vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem gefinn er út hér á landi.
Lögbær stjórnvöld í EES-ríki eða Sviss skulu gefa út vitnisburð um formlega menntun og hæfi og skulu vottorð sem um getur í liðum 5.1.1, 5.1.2, 5.2.2, 5.3.3 og 5.6.2 í V. viðauka fylgja eftir því sem við á.
Ákvæði 1. og 2. mgr. hafa ekki áhrif á áunnin réttindi sem um getur í 23., 27. og 33. gr. tilskipunarinnar, sbr. 12. og 13. gr.
Landlæknir skal viðurkenna vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem skráður er í lið 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar, sbr. 17. gr., og önnur aðildarríki veita EES-borgurum í samræmi við lágmarkskröfur um menntun skv. 29. gr. tilskipunarinnar til að stunda almennar heimilislækningar innan ramma almannatryggingakerfisins.
Ákvæði 4. mgr. hafa ekki áhrif á áunnin réttindin skv. 30. gr. tilskipunarinnar, sbr. 17. gr.
Landlæknir skal viðurkenna vitnisburð um formlega menntun og hæfi ljósmóður, sem önnur aðildarríki veita ríkisborgurum aðildarríkjanna og um getur í lið 5.5.2 í V. viðauka, sem uppfylla lágmarkskröfur um menntun sem um getur í 40. gr. og þau skilyrði sem um getur í 41. gr. og skal, að því er varðar aðgang að og stundun atvinnustarfsemi, láta slíkan vitnisburð hafa sama gildi á yfirráðasvæði sínu og vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem aðildarríkið sjálft gefur út. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á áunnu réttindin sem um getur í 23. og 43. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal VI.
11. gr.
Starfsleyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.
Umsækjandi á rétt á starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, ljósmóðir eða lyfjafræðingur leggi hann fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem vottar að umsækjandi hafi á námstíma öðlast, eftir því sem við á, þá fagþekkingu, færni og hæfni sem um getur:
- Fyrir lækna skv. 3. mgr. 24. gr. tilskipunar, lið 5.1.1 í V. viðauka og eftir atvikum vottorði um starfsnám (kandídatsár).
- Fyrir hjúkrunarfræðinga skv. 6. og 7. mgr. 31. gr. tilskipunar og lið 5.2.2 í V. viðauka.
- Fyrir tannlækna skv. 3. mgr. 34. gr. tilskipunar og lið 5.3.2 í V. viðauka.
- Fyrir ljósmæður skv. 3. mgr. 40. gr. tilskipunar og lið 5.5.2 í V. viðauka.
- Fyrir lyfjafræðinga skv. 3. mgr. 44. gr. tilskipunar, lið 5.6.2 í V. viðauka og eftir atvikum vottorði um starfsþjálfun.
Umsækjandi sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi, sem ekki er í samræmi við þau starfsheiti sem um getur í 1. mgr., á rétt á að fá starfsleyfi leggi hann fram staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki eða Sviss sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi. Þar skal koma fram að menntunin sé í samræmi við kröfur tilskipunarinnar kveðið á um það og að vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé jafngildur vitnisburði sem nefndur er í tilskipuninni.
Starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur skv. 1. og 2. mgr. skal einungis veitt ef vitnisburður um formlega menntun og hæfi fylgir vitnisburði um að umsækjandi búi yfir a.m.k. eftirfarandi hæfni, óháð því hvort námið fór fram innan háskóla, æðri menntastofnana, sem viðurkenndar eru á sama stigi, eða fagskóla eða innan fagnáms í hjúkrun:
- hæfni til að greina sjálfstætt hjúkrunarþörf á grundvelli fyrirliggjandi fræðilegrar og verklegrar þekkingar og áætla og skipuleggja hjúkrun og koma henni til framkvæmda við meðferð sjúklinga á grundvelli þekkingar og færni sem aflað hefur verið í samræmi við a-, b- og c-liði 6. mgr. 31. gr. tilskipunarinnar í því skyni að bæta faglegt starf,
- hæfni til að starfa með virkum hætti með öðrum í heilbrigðisgeiranum, þar með talið við verklega þjálfun heilbrigðisstarfsmanna á grundvelli þekkingar og færni sem aflað hefur verið í samræmi við d- og e-liði 6. mgr. 31. gr. tilskipunarinnar,
- hæfni til að hvetja einstaklinga, fjölskyldur og hópa til að taka upp heilbrigða lifnaðarhætti og persónulega umhirðu á grundvelli þekkingar og færni sem aflað hefur verið í samræmi við a- og b-liði 6. mgr. 31. gr. tilskipunarinnar,
- hæfni til að hefja sjálfstætt aðgerðir þegar lífi er ógnað og grípa til ráðstafana í hættu- og hamfaraástandi,
- hæfni til að veita sjálfstætt einstaklingum, sem þurfa á umönnun að halda, sem og stuðningsaðilum þeirra ráðgjöf, fyrirmæli og stuðning,
- hæfni til að sannreyna sjálfstætt gæði hjúkrunar og meta þau,
- hæfni til að eiga alhliða samskipti og starfa með starfsmönnum innan annarra faggreina í heilbrigðiskerfinu og
- hæfni til að greina gæði umönnunar til að bæta eigið faglegt starf sem hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun.
Starfsleyfi sem ljósmóðir skv. 1. og 2. mgr. skal einungis veitt ef vitnisburður um formlega menntun og hæfi uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:
- fullt nám í ljósmóðurfræðum í a.m.k. þrjú ár, sem tilgreina má einnig sem ígildi ECTS-eininga, eða a.m.k. 4.600 stunda fræðilegt og verklegt nám þar sem klínískt nám er a.m.k. þriðjungur af lágmarkslengd námsins,
- fullt nám í ljósmóðurfræðum sem stendur í a.m.k. tvö ár, sem tilgreina má einnig sem ígildi ECTS-eininga, eða a.m.k. 3.600 stundir, að því tilskildu að viðkomandi hafi undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem um getur í lið 5.2.2 í V. viðauka, eða
- fullt nám í ljósmóðurfræðum sem stendur í a.m.k. 18 mánuði, sem tilgreina má einnig sem ígildi ECTS-eininga, eða a.m.k. 3.000 stundir, að því tilskildu að viðkomandi hafi undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun, sem um getur í lið 5.2.2 í V. viðauka, og á eftir komi starfsreynsla í eitt ár sem er staðfest með vottorði sem er gefið út í samræmi við 5. mgr.
Vottorðið sem um getur í c-lið 4. mgr. skal gefið út af lögbæru stjórnvaldi þess ríkis sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi. Það skal staðfesta að handhafi hafi, eftir að hafa fengið vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ljósmóðir, starfað með fullnægjandi hætti sem ljósmóðir á sjúkrahúsi eða heilsugæslustofnun sem er viðurkennd í þessu skyni.
12. gr.
Starfsleyfi á grundvelli áunninna réttinda.
Umsækjandi um starfsleyfi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi, sem ekki er nefndur í V. viðauka tilskipunarinnar, á rétt á starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur, tannlæknir, ljósmóðir eða lyfjafræðingur ef hann framvísar:
- vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem annaðhvort er gefið út fyrir eða varðar menntun sem hófst fyrir viðmiðunardagsetningu skv. V. viðauka tilskipunarinnar:
- fyrir lækna, sbr. lið 5.1.1,
- fyrir hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, sbr. lið 5.2.2,
- fyrir tannlækna, sbr. lið 5.3.2,
- fyrir ljósmæður, sbr. lið 5.5.2,
- fyrir lyfjafræðinga, sbr. lið 5.6.2 og
- vottorði sem staðfestir að umsækjandi hafi í reynd og með lögmætum hætti gegnt umræddum störfum í a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins.
Fyrir hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun skulu störfin hafa falið í sér fulla ábyrgð á áætlanagerð, skipulagningu og stjórnun hjúkrunar sjúklinga.
Umsækjandi um starfsleyfi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu, fyrrum Tékkóslóvakíu, fyrrum Sovétríkjunum og fyrrum Júgóslavíu á rétt á starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali III.
13. gr.
Starfsleyfi á grundvelli sérstakra áunninna réttinda.
Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem hjúkrunarfræðingur frá Póllandi og Rúmeníu, sem annaðhvort er útgefið fyrir þau tímamörk sem koma fram í lið 5.2.2 í V. viðauka tilskipunarinnar eða varðar menntun sem hefur hafist fyrir þau tímamörk, á aðeins rétt á starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur ef uppfyllt eru þau skilyrði sem fram koma í fylgiskjali IV.
Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem tannlæknir frá EES-ríki eða Sviss sem ekki uppfyllir skilyrði 11. eða 12. gr. á rétt á viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali V.
Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem ljósmóðir frá yfirráðasvæði fyrrum Þýska alþýðulýðveldisins, Rúmeníu, Póllandi eða Króatíu á einungis rétt á viðurkenningu/starfsleyfi sem ljósmóðir að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali VI.
14. gr.
Sérákvæði um lækna og hjúkrunarfræðinga frá Búlgaríu.
Handhafi vitnisburðar frá Búlgaríu (feldsher) sem gefinn er út fyrir 31. desember 1999 á ekki rétt á viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi innan EES sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun.
15. gr.
Sérfræðileyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.
Umsækjandi á rétt á sérfræðileyfi í sérgreinum innan læknisfræði eða tannlæknisfræði ef:
- sérgreinin er viðurkennd á Íslandi,
- hann hefur viðurkenningu sem læknir eða tannlæknir skv. 10., 11. eða 12. gr.,
- hann leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi skv. 25. gr. tilskipunarinnar, liðum 5.1.2 og 5.1.3 í V. viðauka tilskipunarinnar sem sérmenntaður læknir, 35. gr. tilskipunarinnar og lið 5.3.3 í V. viðauka tilskipunarinnar sem sérmenntaður tannlæknir og
- hann leggur fram, ef við á, vottorð um starfsnám eða starfsþjálfun.
Umsækjandi sem uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. í sérgreinum innan læknisfræði eða tannlæknisfræði á rétt á sérfræðileyfi ef uppfylltar eru námskröfur sérgreinar samkvæmt marklýsingu hér á landi. Skal við matið tekið tillit til þess námstíma sem umsækjandi hefur lokið, starfsreynslu, viðbótar- og viðhaldsmenntunar í læknisfræði eða tannlæknisfræði.
Umsækjandi sem uppfyllir ekki námskröfur hér á landi skal í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að allir nauðsynlegir pappírar hafa verið lagðir fram upplýstur um þá viðbótarmenntun sem upp á vantar.
Umsækjandi sem leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem sérfræðingur innan læknisfræði eða tannlæknisfræði og uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. á þó rétt á sérfræðileyfi ef hann leggur fram staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki eða Sviss sem hefur gefið út vitnisburðinn. Staðfestingin (CCPS) skal innihalda upplýsingar um að sérnámið og vitnisburðurinn sé í samræmi, sambærilegur og jafngildur kröfum tilskipunarinnar um formlega menntun og hæfi.
Sérnám má einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í heimalandi viðkomandi.
16. gr.
Sérfræðileyfi á grundvelli áunninna réttinda.
Umsækjandi með sérfræðileyfi sem ekki er nefnt í V. viðauka tilskipunarinnar á rétt á sérfræðileyfi í sérgreinum innan læknisfræði eða tannlæknisfræði ef:
- sérgreinin er viðurkennd á Íslandi,
- hann hefur starfsleyfi sem læknir eða tannlæknir skv. 13., 14. eða 15. gr. og leggur fram vottorð þar sem fram kemur að umsækjandi hafi í reynd og með lögmætum hætti starfað innan viðkomandi sérgreinar samfellt a.m.k. í þrjú ár á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins og
- vitnisburður um formlega menntun og hæfi er gefinn út fyrir eða tekur til menntunar sem hófst:
- fyrir viðmiðunardagsetningu í liðum 5.1.2 og 5.1.3 í V. viðauka tilskipunarinnar fyrir sérmenntaða lækna,
- fyrir viðmiðunardagsetningu í lið 5.3.3 í V. viðauka tilskipunarinnar fyrir sérmenntaða tannlækna.
Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu, fyrrum Tékkóslóvakíu, fyrrum Sovétríkjunum eða fyrrum Júgóslavíu á rétt á sérfræðileyfi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt fylgiskjali III. Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá Spáni sem læknir, sem lauk sérnámi fyrir 1. janúar 1995, á rétt á sérfræðileyfi jafnvel þótt ekki séu uppfylltar þær lágmarkskröfur um menntun sem kveðið er á um í 25. gr. tilskipunarinnar. Vitnisburði um formlega menntun og hæfi skal fylgja vottorð sem útgefið er af lögbærum spænskum stjórnvöldum um að viðkomandi einstaklingur hafi staðist próf sem sýnir fram á sérstaka hæfni í faginu og haldið er á grundvelli óvenjulegra ráðstafana varðandi viðurkenningu sem mælt er fyrir um í konunglegri tilskipun 1497/99.
Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem læknir, sem viðkomandi hefur aflað sér á Ítalíu og skráð er í lið 5.1.2 og 4.1 í V. viðauka tilskipunarinnar og sem hóf sérnám sitt eftir 31. desember 1983 og fyrir 1. janúar 1991, á rétt á sérfræðiviðurkenningu, jafnvel þótt ekki séu uppfylltar allar þær lágmarkskröfur um menntun sem kveðið er á um í 25. gr. tilskipunarinnar, ef þeirri menntun og hæfi fylgir vottorð gefið út af lögbærum ítölskum yfirvöldum þar sem staðfest er að viðkomandi læknir hafi í reynd og með lögmætum hætti starfað á Ítalíu sem sérfræðingur á sama sérsviði í a.m.k. sjö ár samfellt á næstliðnum tíu árum fyrir útgáfu vottorðsins.
17. gr.
Starfsleyfi sem almennur heimilislæknir. (Evrópulæknaleyfi.)
Umsækjandi á rétt á starfsleyfi sem almennur heimilislæknir ef hann:
- hefur hlotið almennt lækningaleyfi samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi, nr. 467/2015, sbr. 11. og 12. gr., og
- leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt lið 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar.
Jafngilt vitnisburði sem krafist er skv. b-lið 1. mgr. telst vottorð útgefið í EES-ríki eða Sviss sem staðfestir að umsækjandi samkvæmt viðmiðunardagsetningu í lið 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar:
- hafi starfað sem læknir í EES-ríki eða Sviss samkvæmt ákvæðum 21. gr. tilskipunarinnar um sjálfkrafa viðurkenningu eða skv. 23. og 30. gr. tilskipunarinnar um áunnin réttindi og
- eigi rétt til að starfa sem almennur heimilislæknir með rétt til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.
18. gr.
Heimild til að reka lyfsölu.
Menntun umsækjanda sem lyfjafræðingur í öðru EES-ríki eða Sviss sem uppfyllir skilyrði 11. eða 12. gr. skal lögð til grundvallar sem samsvarandi menntun lyfjafræðinga á Íslandi vegna umsóknar um lyfsöluleyfi hér á landi.
Ef gerðar eru viðbótarkröfur um starfsreynslu í lyfjabúð á Íslandi vegna umsóknar um lyfsöluleyfi skal leggja til grundvallar samsvarandi starfsreynslu í öðru EES-ríki eða Sviss.
Um heimild til að reka lyfsölu hér á landi gilda ákvæði lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
IV. KAFLI
Almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, til að hljóta starfsleyfi þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar.
19. gr.
Starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli vitnisburðar um formlega menntun og hæfi.
Umsækjandi á rétt á starfsleyfi hér á landi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi, félagsráðgjafi, fótaaðgerðafræðingur, geislafræðingur, heilbrigðisgagnafræðingur, heyrnarfræðingur, hnykkir (kírópraktor), iðjuþjálfi, lífeindafræðingur, lyfjatæknir, matartæknir, matvælafræðingur, náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu, næringarfræðingur, næringarráðgjafi, næringarrekstrarfræðingur, osteópati, sálfræðingur, sjóntækjafræðingur, sjúkraflutningamaður, sjúkraliði, sjúkranuddari, sjúkraþjálfari, stoðtækjafræðingur, talmeinafræðingur, tannfræðingur, tannsmiður, tanntæknir og þroskaþjálfi ef hann leggur fram hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist er í öðru EES-ríki eða Sviss til að geta starfað þar innan framangreindrar löggiltrar heilbrigðisstéttar.
Menntun skv. a-lið 1. mgr. 21. gr. veitir ekki rétt til starfsleyfis skv. 1. mgr. ef menntunarkröfur á Íslandi eru skv. e-lið 1. mgr. 21. gr.
20. gr.
Kröfur sem gera má ef starfsgrein er ekki lögvernduð í því ríki sem umsækjandi kemur frá.
Umsækjandi sem starfað hefur í öðru EES-ríki eða Sviss innan starfsgreinar sem nefnd er í 1. mgr. 19. gr., þar sem starfsgreinin er ekki lögvernduð, á rétt á starfsleyfi hér á landi hafi hann starfað innan starfsgreinarinnar í öðru EES-ríki eða Sviss í minnst eitt ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum, að því tilskildu að hann leggi fram eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi til að inna starfið af hendi skv. 1. mgr. 19. gr. Það sama gildir um nám skv. 2. mgr. 19. gr. og 21. gr.
Ef sótt er um starfsleyfi í starfsgrein sem er lögvernduð í öðru EES-ríki eða Sviss, og námið uppfyllir kröfur um þrepaskiptingu menntunar skv. b-, c-, d- eða e-lið 1. mgr. 21. gr., er ekki krafist starfsreynslu skv. 1. mgr.
21. gr.
Þrepaskipting menntunar og hæfis.
Við beitingu ákvæða 23. gr., um skilyrði fyrir starfsleyfi, og 24. gr., um uppbótarráðstafanir vegna meðferðar umsókna um viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi, skal stuðst við eftirfarandi flokkun og flokka faglega menntun og hæfi í eftirfarandi stig:
- Hæfnisvottorð gefið út á grundvelli annaðhvort:
- náms sem fellur ekki undir vottorð eða prófskírteini í skilningi b-, c-, d- eða e-liðar eða sérstaks prófs án undangengins náms eða að umsækjandi hafi verið í fullu starfi í þrjú ár eða í samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum eða
- almenns grunnskóla- eða framhaldsskólanáms sem staðfestir að handhafi hafi öðlast almenna þekkingu.
- Vottorð sem staðfestir að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt á framhaldsskólastigi annaðhvort:
- almennu námi, þar sem við bætist nám eða faglegt nám annað en það sem um getur í c-lið, og/eða starfi á reynslutíma eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar því námi eða
- tæknilegu eða faglegu námi, þar sem bætist við, ef við á, nám eða faglegt nám sem um getur í næsta tölulið á undan og/eða starf á reynslutíma eða starfsreynsla sem krafist er til viðbótar því námi.
- Prófskírteini sem vottar að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt annaðhvort:
- eins árs námi eftir framhaldsskólastigið, öðru en því sem um getur í d- og e-liðum, eða samsvarandi tíma í hlutanámi þar sem eitt inntökuskilyrðið er að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun eða að lokið hafi verið samsvarandi námi á öðru stigi í framhaldsskóla, auk faglega námsins sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið eða
- lögverndaðri menntun og þjálfun eða, þegar um lögverndað starf er að ræða, námi sem er byggt upp á sérstakan hátt þar sem stefnt er á hæfni sem gengur lengra en á stigi skv. b-lið, á samsvarandi námsstigi og kveðið er á um í næsta tölulið á undan sem tryggir sambærileg fagleg gæði og undirbýr nemann undir sambærilega ábyrgð og verkefni.
- Prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. þriggja en mest fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi tíma í hlutanámi, sem að auki má gefa upp í samsvarandi fjölda ECTS-eininga, við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama skólastigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið.
- Prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi hlutanámi, sem að auki má gefa upp í samsvarandi fjölda ECTS-eininga, við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama stigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið.
22. gr.
Jöfn staða prófskírteina.
Litið skal á hvern vitnisburð um formlega menntun og hæfi eða safn slíkra vitnisburða, sem lögbært stjórnvald í aðildarríki að EES-samningnum eða Sviss gefur út og vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið námi í einu aðildarríkjanna, í fullu námi eða hlutanámi, innan eða utan formlegra námsbrauta, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi af því tagi sem um getur í 21. gr., þar með talið sama þrep, og veitir rétt til aðgangs að eða stundunar starfs eða að búa sig undir að stunda viðkomandi starf.
Litið skal á formlega menntun og hæfi sem veitir handhafa áunnin réttindi þó svo að hann uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í gildandi lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkis fyrir því að fá aðild að, eða stunda starfsgrein, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt sömu skilyrðum og segir í a-lið 1. mgr. 21. gr. Þetta á einkum við ef viðkomandi ríki eykur kröfur um menntun vegna aðgangs að og iðkunar starfs og ef einstaklingur, sem hefur áður lokið námi sem uppfyllir ekki auknar kröfur um menntun og hæfi, getur nýtt sér áunnin réttindi á grundvelli laga eða stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkinu. Í því tilviki er fyrra nám metið sambærilegt nýja námsþrepinu við mat á því hvort skilyrði skv. 23. gr. séu uppfyllt.
23. gr.
Skilyrði fyrir veitingu stafsleyfis.
Ef réttur til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður á sviði lögverndaðrar starfsgreinar hér á landi er háður skilyrðum um sérstaka faglega menntun og hæfi skal landlæknir veita umsækjanda heimild til að starfa sem slíkur ef hann hefur undir höndum hæfnisvottorð eða vitnisburð um þá formlegu menntun og hæfi sem krafist er og um getur í 21. gr.
Einnig skal veita umsækjanda sem hefur stundað starfsemi sem um getur í 1. mgr., sbr. 1. mgr. 19. gr., í fullu starfi í eitt ár eða samsvarandi í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum í öðru aðildarríki sem lögverndar ekki þá starfsgrein, heimild til að starfa innan þeirrar starfsgreinar að því tilskildu að hann hafi undir höndum eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem annað aðildarríki, sem lögverndar ekki starfsgreinina, gefur út.
Hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi skv. 1. og 2. mgr. skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Vera gefinn út af lögbæru stjórnvaldi í aðildarríki að EES-samningnum eða Sviss, sem starfar á grundvelli laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla viðkomandi ríkis.
- Skal staðfesta að handhafi hafi fengið menntun og undirbúning til að gegna viðkomandi starfi.
Ekki er þó heimilt að krefjast eins árs starfsreynslu skv. 2. mgr. þegar vitnisburður umsækjanda um formlega menntun og hæfi vottar lögverndaða menntun.
Landlæknir skal taka gilt það menntunarþrep sem heimaaðildarríki staðfestir skv. 21. gr. Einnig skal hann taka gilt vottorð þar sem heimaaðildarríki vottar að lögverndað nám eða starfsnám, með því sérstaka skipulagi sem um getur í 2. tölul. c-liðar 1. mgr. 21. gr., sé jafngilt því þrepi sem kveðið er á um í 1. tölul. c-liðar 1. mgr. 21. gr.
Þrátt fyrir framangreint getur landlæknir hafnað umsókn handhafa hæfnisvottorðs, sem fellur undir a-lið 1. mgr. 21. gr., um aðgang að starfsgrein og að starfa sem slíkur ef formleg menntun og hæfi, sem krafist er hér á landi til að leggja stund á starfsgreinina, flokkast undir e-lið 1. mgr. 21. gr.
24. gr.
Uppbótarráðstafanir.
Landlækni er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 23. gr., að krefjast þess að umsækjandi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma, sbr. 25. gr., eða taki hæfnispróf, sbr. 26. gr., ef:
- námið sem umsækjandi hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi sem krafist er hér á landi tekur til, eða
- sú starfsgrein sem er lögvernduð hér á landi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfsgrein í heimaaðildarríki umsækjanda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér á landi og er að inntaki verulega frábrugðið því námi sem liggur að baki hæfnisvottorði umsækjanda eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi hans.
Umsækjanda er heimilt að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.
Þrátt fyrir meginregluna um val umsækjanda milli aðlögunartíma og hæfnisprófs getur landlæknir tekið ákvörðun um annaðhvort aðlögunartíma eða hæfnispróf þegar:
- handhafi prófskírteinis sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 21. gr. sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis skv. c-lið 1. mgr. 21. gr. eða
- handhafi prófskírteinis sem vísað er til í b-lið 1. mgr. 21. gr. sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis skv. d- eða e-lið 1. mgr. 21. gr.
Sé umsækjandi handhafi prófskírteinis sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 21. gr., og sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis skv. d-lið 1. mgr. 21. gr., getur landlæknir sett skilyrði bæði um aðlögunartíma og hæfnispróf.
Að því er varðar beitingu a- og b-liðar 1. mgr. er með „verulega frábrugðnu inntaki“ vísað til þess námsefnis sem hefur grundvallarþýðingu til þess að leggja stund á starfsgrein hvað varðar þá fagþekkingu, færni og hæfni sem heilbrigðisstarfsmaður hefur aflað sér og jafnframt að verulegur munur er á inntaki náms umsækjanda og því námi sem krafist er hér á landi.
Áður en þess er krafist að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða taki hæfnispróf, sbr. 1. mgr., skal landlæknir staðfesta hvort sú fagþekking, færni og hæfni sem hann hefur aflað sér með starfsreynslu sinni í aðildarríki eða þriðja landi eða með ævinámi sé þess eðlis að það nái fyllilega eða að hluta til yfir þann verulega mun sem vísað er til í 1. mgr.
Ákvörðun landlæknis skv. 3. mgr. skal rökstudd. Einkum skal koma fram í rökstuðningi:
- Hvaða menntunarþreps er krafist hér á landi til viðkomandi starfs til samanburðar við það menntunarþrep sem umsækjandi býr yfir og kemur fram í umsókn.
- Hver sá verulegi munur er, sem vísað er til í 1. mgr., og ástæður þess að umsækjandi getur ekki bætt upp muninn með fagþekkingu, færni og hæfni, sem aflað hefur verið með starfsreynslu, eða með ævinámi sem staðfest hefur verið af til þess bærum aðila.
Tryggja skal að umsækjandi eigi möguleika á að þreyta hæfnispróf það sem vísað er til í 1. mgr. innan sex mánaða frá því að ákvörðun um hæfnispróf liggur fyrir.
25. gr.
Aðlögunartími.
Með aðlögunartíma er átt við starf innan lögverndaðrar starfsgreinar hér á landi undir handleiðslu starfsmanns með ótakmarkað starfsleyfi í viðkomandi starfsgrein. Starfstími undir handleiðslu skal skipulagður af yfirmanni viðkomandi stofnunar ásamt tveimur starfsmönnum með ótakmarkað starfsleyfi í viðkomandi starfsgrein og skal starfstíminn síðan metinn. Að lokinni handleiðslu getur umsækjandi þurft að bæta við sig frekara námi.
Landlæknir setur nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum svo og um stöðu umsækjanda sem vinnur undir handleiðslu hér á landi.
26. gr.
Hæfnispróf.
Með hæfnisprófi er átt við próf þar sem fagþekking umsækjanda er metin til að gegna starfi innan lögverndaðrar heilbrigðisstéttar hér á landi.
Prófin skulu skipulögð og lögð fyrir af viðkomandi kennslustofnun í samráði við landlækni.
Landlæknir skal útbúa lista yfir þær námsgreinar sem umsækjanda skortir við samanburð á námskröfum sem gerðar eru til starfsgreinar hér á landi og prófskírteinum umsækjanda eða öðrum gögnum um nám.
Hæfnispróf skal ná til námsgreina sem valdar eru af lista landlæknis og hafa grundvallarþýðingu til að gegna starfi innan viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi heilbrigðisstétt hér á landi.
V. KAFLI
Frelsi heilbrigðisstarfsmanna til að veita þjónustu.
27. gr.
Meginregla um frjálsa þjónustustarfsemi.
Ekki er heimilt að takmarka frjálsa þjónustustarfsemi heilbrigðisstarfsmanna hér á landi og bera við skorti á faglegri menntun og hæfi umsækjanda nema slíkt leiði af ákvæðum 28. og 29. gr.:
- ef þjónustan hefur lögmæta staðfestu í EES-ríki í þeim tilgangi að leggja stund á sömu starfsgrein þar (þ.e. staðfestuaðildarríki) og
- ef heilbrigðisstarfsmaður flytur og hefur lagt stund á starfsgreinina í einu eða fleiri EES-ríkjum í a.m.k. eitt ár á næstliðnum tíu árum áður en þjónustan er veitt, ef starfsgreinin er ekki lögvernduð í því staðfestuaðildarríki. Skilyrði um eins árs starfsreynslu gildir ekki þegar annaðhvort starfsgreinin eða menntunin til starfsins eru lögvernduð.
Ákvæði þessa kafla gilda aðeins þegar heilbrigðisstarfsmaður flytur til Íslands til að veita þjónustu tímabundið og óreglubundið í starfsgrein sem um getur í III. og IV. kafla.
Eðli þjónustu sem veitt er tímabundið og óreglubundið skal metið í hverju tilviki fyrir sig, sérstaklega hvað varðar tímalengd, tíðni, reglufestu og samfellu þjónustunnar.
Þegar heilbrigðisstarfsmaður flytur til Íslands til að veita þjónustu tímabundið og óreglubundið skal hann fylgja þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsgreinina er varða faglega menntun og hæfi með beinum hætti, m.a. skilgreiningu á starfsgreininni, notkun á starfsheitum og ákvæðum um alvarlega vanrækslu í starfi sem beinlínis hafa verið sett til að tryggja öryggi sjúklinga og lýðheilsu með beinum og sérstökum hætti svo og ákvæði um viðurlög sem gilda gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum hér á landi sem leggja stund á sömu starfsgrein í öðru EES-ríki.
28. gr.
Undanþágur.
Heilbrigðisstarfsmenn frá öðrum EES-ríkjum sem hafa í hyggju að veita þjónustu tímabundið eða óreglubundið hér á landi, eru undanþegnir kröfum sem gerðar eru til innlendra sérfræðinga og varða:
- starfsleyfi frá landlækni, skráningu hjá eða aðild að fagsamtökum eða sérfræðistofnun og
- skráningu hjá Sjúkratryggingum Íslands í þeim tilgangi að gera upp reikninga hjá vátryggjanda vegna starfsemi tryggðra aðila.
Heilbrigðisstarfsmaður sem óskar eftir uppgjöri reikninga hjá Sjúkratryggingum Íslands skal gera stofnuninni fyrir fram grein fyrir þeirri þjónustu tímabundinni eða með hléum hér á landi sem hann veitir eða eftir á, sé um neyðartilfelli að ræða.
29. gr.
Yfirlýsing gefin fyrir fram ef heilbrigðisstarfsmaður flytur.
Landlækni er heimilt að krefjast þess, þegar heilbrigðisstarfsmaður flytur í fyrsta sinn frá EES- ríki til Íslands til að veita þjónustu, að hann geri landlækni fyrir fram grein fyrir því með skriflegri yfirlýsingu, lýsingu á vátryggingavernd eða annarri persónulegri eða sameiginlegri vernd fyrir starfsmenn með tilliti til starfsábyrgðar. Skal yfirlýsingin endurnýjuð árlega hafi heilbrigðisstarfsmaðurinn í hyggju að veita áfram þjónustu tímabundið eða óreglubundið.
Landlækni er heimilt að krefjast þess að yfirlýsingunni fylgi eftirfarandi gögn þegar þjónustan er veitt í fyrsta sinn eða ef um verulegar breytingar á aðstæðum er að ræða samkvæmt fyrirliggjandi gögnum:
- Sönnun ríkisfangs heilbrigðisstarfsmanns.
- Vottorð sem staðfestir að heilbrigðisstarfsmaður sé með lögmæta staðfestu EES-ríki eða Sviss í þeim tilgangi að stunda lögmæta heilbrigðisstarfsemi, þar sem fram kemur að honum sé heimilt að stunda viðkomandi starfsemi og að honum sé ekki bannað að leggja stund á hana á þeim tíma er hann afhendir vottorðið.
- Vitnisburður um formlega menntun og hæfi.
- Vottorð um að heilbrigðisstarfsmaður hafi stundað umrædda starfsemi í a.m.k. eitt ár á síðastliðnum tíu árum, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr.
- Vottorð sem staðfestir að viðkomandi hafi ekki verið vikið úr starfi varanlega eða tímabundið, eða hreint sakavottorð sé þess krafist af íslenskum ríkisborgurum.
- Vottorð um starfsábyrgðartryggingu sem gildir á Íslandi (sjúklingatryggingu).
- Yfirlýsing um að umsækjandi hafi þá þekkingu á tungumálinu sem er nauðsynleg til að geta lagt stund á hana hér á landi.
Heilbrigðisstarfsmaður sem starfar skv. 27. gr. skal nota starfsheiti í samræmi við 41. gr.
Yfirlýsing skv. 1. mgr. skal veita heilbrigðisstarfsmanni rétt til aðgangs að þjónustustarfsemi eða til að leggja stund á slíka starfsemi hvar sem er hér á landi.
Í fyrsta sinn sem þjónusta er veitt á sviði sem fellur innan lögverndaðrar starfsgreinar skv. IV. kafla sem snertir öryggi sjúklinga og lýðheilsu og nýtur ekki sjálfkrafa viðurkenningar skv. III. kafla, getur landlæknir kannað faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns áður en þjónusta er veitt. Slík forathugun er aðeins leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa eða öryggi sjúklinga bíði alvarlega hnekki vegna ófullnægjandi starfsmenntunar og hæfis heilbrigðisstarfsmanns og hún gengur ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni.
Landlæknir skal upplýsa heilbrigðisstarfsmann um ákvörðun sína skv. 5. mgr. eigi síðar en einum mánuði eftir viðtöku yfirlýsingarinnar og fylgiskjala skv. 1. og 2. mgr. um að:
- kanna ekki faglega menntun hans og hæfi,
- fagleg menntun hans og hæfi hafi verið könnuð:
- þess sé krafist að hann taki hæfnispróf eða
- honum sé heimilt að veita þjónustuna.
Komi upp vandkvæði sem gætu leitt til tafa á ákvörðunartöku landlæknis skv. 5. mgr. skal hann tilkynna heilbrigðisstarfsmanni um ástæður tafarinnar innan fyrsta mánaðar og jafnframt hvenær ákvörðunar er að vænta. Ákvörðun skal þó lögð fram fyrir lok annars mánaðar eftir viðtöku allra skjala.
Þegar verulegur munur er á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns og þeirri menntun sem krafist er hér á landi, að því marki að sá munur geti ógnað öryggi sjúklinga og lýðheilsu og ekki er unnt að bæta upp mismuninn með faglegri starfsreynslu eða með fagþekkingu, færni og hæfni sem aflað er í ævinámi sem faglega hefur verið staðfest af til þess bærum aðila, skal heilbrigðisstarfsmanni veitt tækifæri til að sýna, einkum með hæfnisprófi, að hann hafi aflað sér þeirrar fagþekkingar eða hæfni sem á skortir. Undir öllum kringumstæðum verður að vera mögulegt að veita þjónustuna innan mánaðar frá því að landlæknir tekur ákvörðun skv. 5. mgr.
Berist heilbrigðisstarfsmanni engin viðbrögð frá landlækni innan frests skv. 7. mgr. er honum heimilt að veita þjónustuna. Þegar menntun og hæfi hefur verið staðfest skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem notað er hér á landi.
30. gr.
Upplýsingar sem ber að veita sjúklingi.
Í þeim tilvikum þegar heilbrigðisþjónusta er veitt undir því starfsheiti sem notað er í staðfestuaðildarríkinu eða á grundvelli formlegrar menntunar og hæfis heilbrigðisstarfsmanns, getur landlæknir krafist þess að heilbrigðisstarfsmaðurinn láti sjúklingi í té eftirfarandi upplýsingar, að hluta eða í heild:
- Hvort og í hvaða viðskiptaskrá eða aðra opinbera skrá heilbrigðisstarfsmaður er skráður, skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá.
- Nafn og heimilisfang lögbærs eftirlitsstjórnvalds ef starfsemin er háð starfsleyfi í öðru EES-ríki eða Sviss.
- Þau fagfélög eða sambærilegu aðila sem heilbrigðisstarfsmaður er skráður hjá.
- Starfsheiti eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns og það aðildarríki sem gaf hann út, sé starfsheiti ekki fyrir hendi.
- Upplýsingar um vátryggingavernd eða aðra persónulega eða sameiginlega vernd fyrir starfsmenn með tilliti til starfsábyrgðar (sjúklingatryggingar).
31. gr.
Samvinna stjórnvalda.
Í hvert sinn sem í boði er heilbrigðisþjónusta og ef upp kemur réttmætur vafi er landlækni heimilt að biðja viðkomandi lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki heilbrigðisstarfsmanns (staðfestuaðildarríki) að láta í té hvers kyns upplýsingar varðandi lögmæti staðfestu og góða starfshætti hans auk upplýsinga um hvort hann hafi sætt agaviðurlögum eða refsiréttarlegum viðurlögum sem varðað geta takmörkun eða sviptingu starfsréttinda (e. letter of good standing).
Ákveði landlæknir að kanna faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns getur hann farið fram á að stjórnvöld í heimaríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður er með lögmæta staðfestu láti í té upplýsingar um nám hans að því marki sem nauðsynlegt er til að meta verulegan mun sem kann að reynast skaðlegur öryggi sjúklinga eða lýðheilsu.
Lögbærum stjórnvöldum ber að tryggja að skipst sé á öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að fylgja kvörtunum sjúklinga vegna þjónustu heilbrigðisstarfsmanns eftir með réttum hætti. Greina skal sjúklingi frá niðurstöðu kvörtunar.
Lögbærum stjórnvöldum þar sem lögmæt staðfesta heilbrigðisstarfsmanns er ber að veita þessar upplýsingar skv. VI. kafla og tryggja að farið sé með þær sem trúnaðarmál og að ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga séu virt.
32. gr.
Kröfur til heilbrigðisþjónustu.
Um heilbrigðisstarfsmenn, sem samkvæmt þessum kafla eiga rétt á að veita tímabundna eða óreglubundna heilbrigðisþjónustu hér á landi, gilda lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, lög um sjúkraskrár, nr. 55/2009, svo og önnur lög, reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á. Enn fremur gilda eftir því sem við á ákvæði laga mennta- og menningarmálaráðuneytisins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, og reglugerðir settar með stoð í þeim lögum.
VI. KAFLI
Samvinna stjórnvalda og fyrirkomulag viðvarana.
33. gr.
Samvinna stjórnvalda.
Lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki og heimaaðildarríki skulu hafa náið samráð og veita gagnkvæma aðstoð til að auðvelda beitingu reglugerðarinnar. Þau skulu tryggja að farið sé með upplýsingar sem þau skiptast á sem trúnaðarmál.
Lögbær stjórnvöld skulu skiptast á upplýsingum að því er varðar takmörkun eða sviptingu starfsréttinda sem eru líkleg til að hafa áhrif á heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld skulu virða ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Lögbær stjórnvöld skulu nota upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI) við beitingu 1. og 2. mgr.
34. gr.
Fyrirkomulag varðandi viðvaranir.
Landlæknir skal tilkynna lögbærum stjórnvöldum allra EES-ríkja þegar stjórnvald eða dómstólar hafa takmarkað eða svipt eftirfarandi heilbrigðisstarfsmenn starfsleyfi eða sérfræðileyfi, í heild eða að hluta, svo og tímabundið í faglegri starfsemi í heilbrigðisþjónustu hér á landi:
- Lækni og almennan heimilislækni sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í liðum 5.1.1 og 5.1.4 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Sérfræðing á sviði lækninga sem ber starfsheiti sem um getur í lið 5.1.3 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Hjúkrunarfræðing í almennri hjúkrun sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í lið 5.2.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Tannlækni sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í lið 5.3.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Sérfræðing á sviði tannlækninga sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í lið 5.3.3 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Ljósmóður sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í lið 5.5.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Lyfjafræðing sem er handhafi vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem um getur í lið 5.6.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Handhafa vottorða sem um getur í 2. lið í VII. viðauka tilskipunarinnar er votta að handhafinn hafi lokið námi sem uppfyllir þær lágmarkskröfur sem settar eru fram í 24., 25., 31., 34., 35., 40. og 44. gr. tilskipunarinnar, eftir því sem við á, en hófst fyrir þær viðmiðunardagsetningar fyrir menntun og hæfi sem settar eru fram í liðum 5.1.3, 5.1.4, 5.2.2, 5.3.2, 5.3.3, 5.5.2 og 5.6.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.
- Handhafa vottorða um áunnin réttindi eins og um getur í 23. gr., 27. gr., 29. gr., 33. gr., 33. gr. a, 37. gr., 43. gr. og 43. gr. a tilskipunarinnar.
- Annan heilbrigðisstarfsmann sem stundar starfsemi sem getur haft áhrif á öryggi sjúklinga þegar hann stundar lögverndaða starfsemi í því aðildarríki.
Landlæknir skal senda upplýsingar skv. 1. mgr. um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI) eigi síðar en þremur dögum eftir þann dag þegar ákvörðun var tekin um að takmarka eða svipta viðkomandi heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi í heild eða að hluta. Takmarka skal þessar upplýsingar við eftirfarandi:
- Nafn heilbrigðisstarfsmanns.
- Viðkomandi starfsgrein.
- Upplýsingar um innlent stjórnvald eða dómstól sem tók ákvörðun um takmörkun eða sviptingu.
- Umfang takmörkunar eða sviptingar.
- Gildistíma takmörkunar eða sviptingar.
Landlæknir skal upplýsa lögbær stjórnvöld í öllum EES-ríkjum með viðvörun um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI), eigi síðar en þremur dögum eftir ákvörðun landlæknis eða dómstóls, um þá heilbrigðisstarfsmenn sem hafa sótt um viðurkenningu á menntun og hæfi, sem síðar hafa orðið uppvísir að því hjá landlækni eða fyrir dómstólum að hafa notað falsaðan vitnisburð um faglega menntun og hæfi.
Landlæknir skal þegar í stað upplýsa lögbær stjórnvöld í EES-ríkjum um það þegar takmörkun eða svipting starfsréttinda skv. 1. mgr. er felld úr gildi og frá og með hvaða dagsetningu.
Vinna má gögn vegna viðvarana innan upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn (IMI) á gildistíma þeirra. Viðvörun skal eytt úr upplýsingakerfinu fyrir innri markaðinn innan þriggja daga frá því að ákvörðun um afturköllun var samþykkt eða frá því að svipting eða takmörkun starfsleyfis var felld úr gildi.
Landlæknir skal upplýsa heilbrigðisstarfsmann skriflega þegar ákvörðun um viðvörun um hann er send til annarra EES-ríkja, ásamt viðvöruninni sjálfri.
Um málsmeðferð slíkra mála hér á landi fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
Um vinnslu persónugreinanlegra upplýsinga skv. 1. og 3. mgr. fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
VII. KAFLI
Málsmeðferðarreglur.
35. gr.
Frestur til afgreiðslu umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi, málsmeðferð og eftirlit með faglegri menntun og hæfi.
Landlæknir skal staðfesta viðtöku umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi innan eins mánaðar frá því að hún berst og láta umsækjanda vita ef skjöl vantar.
Landlækni er heimilt að kanna faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns áður en hann veitir þjónustu skv. V. kafla innan lögverndaðrar starfsgreinar í fyrsta sinn. Slík forathugun er leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa og öryggi sjúklings bíði alvarlegan hnekki vegna ófullnægjandi menntunar og hæfis heilbrigðisstarfsmanns og athugunin gengur ekki lengra en nauðsynlegt er. Þetta gildir ekki um starfsréttindi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga sem hljóta starfsleyfi skv. III. kafla.
Ef vafi leikur á öryggi eða trúverðugleika gagna er landlækni heimilt að kalla eftir staðfestingu lögbærs stjórnvalds í heimaaðildarríki umsækjanda á áreiðanleika gagnanna. Ef fyrir liggur réttmætur vafi getur landlæknir óskað eftir staðfestingu á því frá lögbæru stjórnvaldi í því ríki sem upphaflega gaf út starfsleyfi um að umsækjandi hafi ekki misst starfsleyfi sitt eða verið bannað að iðka starf sitt vegna ávirðinga í starfi eða dóms fyrir glæpsamlegt athæfi er tengist starfinu.
Landlæknir getur óskað eftir umsögn eða áliti þar til bærs fagaðila á þeim gögnum sem lögð eru fram með umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
Afgreiða skal umsókn skv. III. kafla svo skjótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir þann dag sem fullgerð umsókn umsækjanda var lögð fram.
Heimilt er að framlengja frest til afgreiðslu umsóknar um einn mánuð þegar fjallað er um viðurkenningu á vitnisburði um nám og starfsreynslu.
Umsókn skv. IV. kafla skal afgreidd í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir móttöku allra nauðsynlegra gagna.
Við móttöku umsóknar um evrópskt fagskírteini frá lögbæru stjórnvaldi í öðru EES-ríki gilda frestir skv. II. kafla.
Um málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, þ. á m. um heimild til að kæra ákvörðun eða drátt á ákvörðun.
36. gr.
Synjun á útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa.
Þrátt fyrir að skilyrði III. og IV. kafla séu uppfyllt á umsækjandi ekki rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi ef fyrir liggja ástæður sem leitt geta til sviptingar leyfis.
37. gr.
Starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar í þriðja ríki.
Umsækjandi um starfsleyfi eða sérfræðileyfi, með menntun frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (þriðja ríki), á rétt á að umsókn hans verði metin skv. IV. kafla, ef hann leggur fram eftirtalin gögn hið minnsta:
- Vitnisburð um formlega menntun og hæfi eða prófskírteini útgefið í þriðja ríki sem uppfyllir lágmarkskröfur tilskipunarinnar.
- Vottorð um þriggja ára starfsreynslu frá EES-ríki eða Sviss sem hefur viðurkennt vitnisburðinn.
Ef umsækjandi sem ekki hefur starfsreynslu skv. b-lið 1. mgr. en leggur fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem útgefinn er í þriðja ríki, ásamt staðfestingu frá EES-ríki eða Sviss um að það hafi viðurkennt vitnisburðinn, skal landlæknir meta menntun vegna umsóknar um starfsleyfi eða sérfræðileyfi skv. IV. kafla. Landlæknir skal enn fremur meta starfsreynslu sem staðfest er að fram hafi farið í EES-ríki eða Sviss.
38. gr.
Tungumálakunnátta.
Heilbrigðisstarfsmaður, sem fær viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skv. III. og IV. kafla eða sá sem hyggst veita heilbrigðisþjónustu skv. V. kafla sem hefur áhrif á lýðheilsu og öryggi sjúklinga, skal búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfið hér á landi með viðunandi hætti.
Athugun á tungumálakunnáttu er heimil ef starfsgreinin sem um ræðir varðar öryggi sjúklinga og lýðheilsu og ef verulegur og hlutlægur vafi leikur á hvort kunnátta starfsmanns í tungumálinu sé nægjanleg til þeirra starfa sem hann hyggst sinna. Athugunin getur aðeins farið fram eftir útgáfu evrópsks fagskírteinis skv. II. kafla eða eftir viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi eftir því sem við á. Könnun á tungumálakunnáttu skal miðast við það starf sem sótt er um að iðka.
Vinnuveitandi skal eftir atvikum meta hvort tungumálakunnátta heilbrigðisstarfsmanns er viðunandi til að öryggi og hagsmunir sjúklinga séu tryggðir.
39. gr.
Upplýsingagjöf.
Umsækjandi um starfsleyfi eða sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari og sá sem hyggst veita þjónustu skv. V. kafla skal snúa sér til landlæknis til að fá upplýsingar er varða reglugerð þessa og framkvæmd hennar. Landlæknir skal sjá til þess að umsækjandi fái upplýsingar um íslenska heilbrigðislöggjöf sem nauðsynleg er til að hann geti starfað innan löggiltrar heilbrigðisstéttar.
Umsækjanda skal tryggt aðgengi að rafrænum upplýsingum á íslensku og ensku um lögvernduð störf hér á landi og um menntunarkröfur til þeirra í samræmi við II. kafla laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 76/2011, eftir því sem við getur átt. Við ákvörðun um umfang þeirra upplýsinga skal höfð hliðsjón af ákvæðum 57. gr. tilskipunarinnar.
Umsækjanda skv. 1. mgr. skal gert kleift að senda umsókn sína ásamt fylgigögnum og ljúka allri formlegri vinnu við umsókn rafrænt.
Menntamálastofnun er falið að veita þeim er til hennar leita upplýsingar og leiðbeiningar er varða viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Hún hefur einnig með höndum upplýsingagjöf til hliðstæðra miðstöðva í öðrum EES-ríkjum og Sviss þegar eftir slíku er leitað.
40. gr.
Gögn sem leggja skal fram með umsókn.
Landlæknir getur krafist þess að umsækjandi um starfsleyfi eða sérfræðileyfi leggi fram eftirfarandi skjöl og vottorð sem talin eru upp í VII. viðauka tilskipunarinnar:
- Sönnun á ríkisfangi umsækjanda.
- Staðfest afrit hæfnisvottorðs eða vitnisburðar um formlega menntun og hæfi sem veitir aðgang að viðkomandi starfsgrein.
- Staðfestingu á starfsnámi/starfsreynslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
- Upplýsingar um sviptingu, takmörkun, afturköllun starfsleyfis eða önnur slík viðurlög vegna alvarlegra brota í starfi eða mistaka (e. letter of good standing). Slík gögn mega ekki vera eldri en þriggja mánaða.
- Vottorð frá lögbæru stjórnvaldi í heimalandi umsækjanda til viðbótar vitnisburði um formlega menntun og hæfi, um að vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé í samræmi við það sem um getur í tilskipuninni.
- Sakavottorð sé þess krafist af íslenskum ríkisborgurum.
Umsækjandi skal láta í té nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að sannreyna hvort menntun hans sé verulega frábrugðin íslensku námi. Geti umsækjandi ekki lagt fram upplýsingar skv. 1. mgr. skal hann upplýsa landlækni um lögbært stjórnvald eða aðra opinbera stofnun í því ríki sem gögnin eiga að koma frá. Ef fyrir hendi er réttmætur vafi um að útgefið hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé gildur og að umsækjandi fullnægi ekki lágmarkskröfum um menntun samkvæmt tilskipuninni getur landlæknir krafist staðfestingar frá lögbæru stjórnvaldi í viðkomandi EES-ríki eða Sviss um lögmæti vitnisburðarins og að umsækjandi uppfylli þær menntunarkröfur sem settar eru fram í tilskipuninni.
Ef fyrir hendi er réttmætur vafi um að vitnisburður um formlega menntun og hæfi, gefinn út af lögbæru stjórnvaldi í EES-ríki eða Sviss, feli í sér nám sem fór fram að öllu leyti eða að hluta í menntastofnun í öðru EES-ríki eða Sviss getur landlæknir krafist staðfestingar frá því ríki sem upprunalega gaf út vitnisburðinn um hvort:
- nám við menntastofnunina hafi fengið formlega staðfestingu í því EES-ríki eða Sviss sem gaf út viðurkenninguna,
- vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé hinn sami og hefði verið gefinn út ef námið hefði alfarið verið stundað í því EES-ríki eða Sviss sem gaf út viðurkenninguna, og
- vitnisburður um formlega menntun og hæfi veiti sömu starfsréttindi á yfirráðasvæði EES-ríkis eða Sviss þar sem vitnisburðurinn var gefinn út.
41. gr.
Notkun starfsheitis.
Heilbrigðisstarfsmenn sem hlotið hafa starfsleyfi og sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari skulu nota íslensk starfsheiti viðkomandi starfsgreinar hér á landi. Heilbrigðisstarfsmaður skal nota starfsheiti þess ríkis þar sem hann er með lögmæta staðfestu þegar þjónusta skv. V. kafla er veitt. Starfsheitið skal tilgreint á opinberu tungumáli eða einu af opinberu tungumálum heimaaðildarríkis þannig að komist verði hjá ruglingi við starfsheitið hér á landi. Ef slíkt starfsheiti er ekki til skal heilbrigðisstarfsmaður nota það starfsheiti sem tilgreint er á vitnisburði um faglega menntun og hæfi.
Lækni, tannlækni, hjúkrunarfræðingi, ljósmóður eða lyfjafræðingi sem er heimilt að starfa án starfsleyfis eða sérfræðileyfis hér á landi er heimilt að nota íslensk starfsheiti.
42. gr.
Viðurkenning á starfsþjálfun.
Ef aðgengi að lögverndaðri starfsgrein hér á landi er háð því að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður hafi lokið tilskildu vinnustaðanámi eða starfsþjálfun skal landlæknir viðurkenna starfsþjálfun sem farið hefur fram í öðru EES-ríki eða Sviss, að því gefnu að hún sé í samræmi við landsreglur eða námskrár í viðkomandi ríki og uppfylli kröfur hér á landi. Leggja skal fram skriflega lýsingu á námsmarkmiðum og úthlutuðum verkefnum sem umsjónarmaður starfsnema í gistiaðildarríki ákvarðar.
Ef starfsþjálfun eða vinnustaðanámi er lokið í þriðja ríki skal tekið tillit til þess þegar til meðferðar er umsókn heilbrigðisstarfsmanns um starfsleyfi eða sérfræðileyfi hér á landi.
Viðurkenning á starfsþjálfun kemur ekki í veg fyrir að fylgt sé kröfum um að heilbrigðisstarfsmenn standist lokapróf til þess að fá aðgang að viðkomandi starfi hér á landi.
Landlæknir skal birta leiðbeiningar um skipulag og viðurkenningu starfsþjálfunar sem farið hefur fram í öðru ríki.
43. gr.
Útgáfa staðfestingar til nota í öðru EES-ríki eða Sviss.
Landlæknir skal samkvæmt beiðni heilbrigðisstarfsmanns, sem hyggst óska eftir viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi eða veita tímabundna þjónustu í öðru EES-ríki eða Sviss, útbúa vottorð sem staðfestir að starfsmaðurinn eigi rétt á að starfa sem löggiltur heilbrigðisstarfsmaður og eftir atvikum sem sérfræðingur eða almennur heimilislæknir, sbr. 17. gr., hér á landi.
Landlæknir skal afturkalla staðfestingu skv. 1. mgr. sé heilbrigðisstarfsmaður sviptur starfsleyfi, sérfræðileyfi, leyfi til að ávísa lyfjum eða ef leyfi er takmarkað. Sama á við ef heilbrigðisstarfsmaður afsalar sér starfsleyfi, leggur inn starfsleyfi, sérfræðileyfi eða leyfi til að ávísa lyfjum.
44. gr.
Ríkisborgarar Norðurlanda.
Um ríkisborgara frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð gilda enn fremur samningar sem ríkisstjórnir Norðurlandanna gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar.
45. gr.
Gjaldtaka.
Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Heimilt er að taka sérstakt gjald til viðbótar gjaldi skv. 1. mgr. fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun landlæknis á umsóknum um starfsleyfi, sérfræðileyfi og vinnslu umsóknar um evrópskt fagskírteini til að gegna starfi hér á landi. Þar á meðal er heimilt að taka gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu.
Gjaldi skal stillt í hóf og miðast við umgang þeirrar vinnu sem felst í faglegu mati umsóknar.
Ráðherra setur gjaldskrá vegna 2. mgr. að fengnum tillögum landlæknis. Gjaldskráin skal taka mið af umfangi þeirrar vinnu sem umsagnaraðilar og matsaðilar inna af hendi við veitingu starfsleyfa, sérfræðileyfa og útgáfu evrópsks fagskírteinis.
Landlækni er heimilt að innheimta gjald skv. 2. mgr. áður en umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar og gögn send til umsagnaraðila og matsaðila. Skal þá liggja fyrir nákvæm kostnaðargreining samkvæmt gjaldskrá.
Um gjaldtöku fyrir hæfnispróf fer skv. 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, og 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
46. gr.
Önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
Reglugerð þessi er sett til fyllingar lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og reglugerðum settum með stoð í þeim, svo og öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eftir því sem við getur átt, sem og tilskipun 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, ásamt öllum síðari breytingum og viðaukum.
47. gr.
Innleiðing.
Reglugerð þessi felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, sem birt var 10. apríl 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 19/2008.
Þá er og með reglugerð þessari innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“), eins og þessi gerð var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 sem birt var 7. febrúar 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11/2019, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnar ESB 2015/983 frá 24. júní 2015 um málsmeðferð við útgáfu evrópska fagskírteinisins og beitingu viðvörunarkerfisins samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.
48. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 9. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur brott reglugerð nr. 461/2011, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum.
Heilbrigðisráðuneytinu, 14. maí 2020.
Svandís Svavarsdóttir.
Guðlín Steinsdóttir.
Fylgiskjöl. (sjá PDF-skjal)
|