Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 110/2021

Nr. 110/2021 25. júní 2021

LÖG
um félög til almannaheilla.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um félög sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá og stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Lögin gilda þó ekki um skráningarskyld félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

    Lög þessi gilda hvorki um félög sem stofnað er til með lögum frá Alþingi nema svo sé tekið fram í samþykktum þeirra né félög sem komið er á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Lögin gilda ekki um félög skv. 5. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, nema svo sé tekið fram í samþykktum þeirra, sbr. þó 5. mgr. 29. gr.

    Í lögum þessum er með félagi átt við félag til almannaheilla.

 

2. gr.

Styrkir til félaga.

    Ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera geta gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá.

 

3. gr.

Atvinnustarfsemi félaga.

    Félag getur stundað þá atvinnustarfsemi sem nefnd er í samþykktum þess, leiða má beint af tilgangi félagsins eða hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu.

    Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

 

II. KAFLI

Stofnun félags til almannaheilla.

4. gr.

Stofnsamningur.

    Við stofnun félags skal stofnsamningur þess liggja frammi ásamt drögum að samþykktum fyrir félagið. Í stofnsamningi skulu koma fram upplýsingar um nöfn og kennitölur stofnenda og tilgangur félagsins. Stofnsamningur skal vera dagsettur og undirritaður af a.m.k. þremur lögráða félags­mönnum.

 

5. gr.

Samþykktir.

    Í samþykktum félags skal tilgreina:

  1. heiti félagsins,
  2. tilgang, þ.m.t. fjármögnun og ráðstöfun fjármuna,
  3. þátttökuskilyrði, sbr. 6. gr.,
  4. skyldu félagsmanna til að greiða félagsgjöld og önnur gjöld til félagsins,
  5. fjölda stjórnarmanna og varamanna þeirra eða lágmarks- og hámarksfjölda þeirra ásamt kjörtímabili stjórnarmanna og hverjir skuli rita firma félagsins,
  6. reikningsár félagsins og samþykkt ársreiknings,
  7. kjörtímabil endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja, skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna,
  8. hvenær halda eigi aðalfund og með hvaða hætti eigi að boða aðalfund og aðra félagsfundi,
  9. hvernig fara eigi með eignir félagsins sé það lagt niður eða því slitið.

 

III. KAFLI

Félagsaðild.

6. gr.

Félagsmenn.

    Félagsmenn í félagi geta verið einstaklingar, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir.

    Öllum sem uppfylla skilyrði samþykkta um inngöngu í félag er hún heimil. Sá sem óskar inn­göngu í félag skal sækja um aðild til stjórnar þess. Stjórnin tekur ákvörðun um aðildina sé ekki annað ákveðið í samþykktum félagsins.

    Stjórn félags skal halda skrá yfir félagsmenn. Þar skal skrá fullt nafn, heimilisfang og kennitölu félagsmanna.

 

7. gr.

Úrsögn úr félagi.

    Félagsmaður í félagi á rétt á því hvenær sem er að segja sig úr því með því að tilkynna það skrif­lega til stjórnar félagsins eða stjórnarformanns þess. Það getur hann einnig gert á fundi í félag­inu með því að tilkynna það til bókunar í fundargerð. Ákveða má í samþykktum félags að úrsögn taki gildi að tilteknum tíma liðnum eftir tilkynningu um úrsögn. Sá tími má þó ekki vera lengri en eitt ár.

 

8. gr.

Brottvísun úr félagi.

    Vísa má félagsmanni úr félagi á grundvelli ástæðna sem nefndar eru í samþykktum þess. Félagið getur þó alltaf vísað félagsmanni úr félagi ef hann uppfyllir ekki:

  1. þær skyldur sem hann undirgekkst við inngöngu í félagið eða
  2. þau skilyrði fyrir félagsaðild sem mælt er fyrir um í samþykktum félagsins eða í lögum.

    Ákvörðun um brottvísun skal tekin á félagsfundi sé ekki kveðið á um annað í samþykktum félags. Getið skal um ástæður brottvísunar í ákvörðun félagsins. Félagsmaður getur tekið þátt í atkvæða­greiðslu um brottvísun sína. Áður en ákvörðun um brottvísun er tekin skal gefa viðkomandi kost á að tjá sig um málið.

    Nú tekur stjórn félags, samkvæmt samþykktum þess, ákvörðun um brottvísun og skal þá sá sem brottvísun beinist að eiga rétt á því að skjóta þeirri ákvörðun til félagsfundar.

    Ákveða má í samþykktum félags að félagsmaður teljist genginn úr því hafi hann ekki greitt félags­gjöld í ákveðinn tíma.

 

IV. KAFLI

Ákvörðunartaka.

9. gr.

Félagsfundir.

    Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt því sem kveðið er á um í sam­þykktum þess.

    Aðalfund skal halda á þeim tíma sem ákveðið er í samþykktum félagsins. Sé ekki boðað til aðal­fundar á hver félagsmaður rétt á að krefjast þess að fundurinn verði haldinn.

    Aðra félagsfundi en reglulega aðalfundi skal halda hafi það verið ákveðið á aðalfundi, stjórnin telji ástæðu til þess eða minnst tíundi hluti atkvæðisbærra félagsmanna krefjist þess í þeim tilgangi að taka ákveðið mál til meðferðar.

    Kröfu um félagsfund skal senda stjórn félagsins skriflega og greina fundarefni. Stjórn skal án tafar boða til fundarins. Hafi fundurinn ekki verið boðaður eða hafi ekki verið unnt að senda kröfuna til stjórnar skal ráðherra, að kröfu bærs eða bærra félagsmanna, láta boða til fundarins og heimila að fundurinn verði haldinn á kostnað félagsins eða leggja fyrir stjórn félagsins að gera það. Um fundarboð, kostnað o.fl. fer eftir ákvæðum laga um einkahlutafélög eins og við á.

    Fundarstjóra á félagsfundi ber að sjá til þess að ákvarðanir fundar séu færðar til bókar. Fundar­stjóri og minnst tveir fundarmanna, sem félagið eða fundurinn hefur til þess valið, skulu fara yfir og staðfesta fundargerð með undirritun sinni.

    Félagsmenn eiga rétt á að fá bókanir skv. 5. mgr. afhentar krefjist þeir þess.

 

10. gr.

Aðalfundir.

    Á aðalfundi eða á fulltrúaráðsfundi, sé svo ákveðið í samþykktum félagsins, skal taka ákvörðun um:

  1. breytingar á samþykktum félagsins, sbr. 2. mgr. 32. gr.,
  2. afsal eða kaup fasteignar eða annarrar eignar sem þýðingu hefur fyrir rekstur félagsins,
  3. skipulag kosninga skv. 15. gr.,
  4. kosningu eða brottvikningu stjórnar, stjórnarmanna, endurskoðenda eða endurskoð­unar­fyrirtækis eða skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna,
  5. samþykkt ársreikninga og uppgjöf ábyrgðar,
  6. slit félagsins.

    Heimila má í samþykktum að stjórn félagsins geti ákveðið sölu, skipti og veðsetningu eigna félagsins.

 

11. gr.

Aðalfundarboð.

    Aðalfund skal boða eftir því sem mælt er fyrir um í samþykktum félagsins. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn.

    Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.

    Málefnum skv. 10. gr. verður ekki ráðið til lykta á fundinum sé þeirra ekki getið í fundarboði.

 

12. gr.

Atkvæðisréttur félagsmanna.

    Einungis félagsmenn eiga atkvæðisrétt í félaginu. Í samþykktum félags má kveða á um að kjörnir fulltrúar þess geti tekið ákvarðanir fyrir hönd þess.

    Hver félagsmaður hefur atkvæðisrétt sem nemur einu atkvæði sé ekki annað tekið fram í sam­þykktum. Enginn getur farið með atkvæðisrétt annars samkvæmt umboði sé það ekki sérstak­lega heimilað í samþykktum.

    Í samþykktum má ákveða að sá sem ekki hefur greitt félagsgjald um ákveðinn tíma geti ekki neytt atkvæðisréttar.

    Í samþykktum skal mæla fyrir um fyrirkomulag rafrænnar atkvæðagreiðslu, sé hún heimiluð.

 

13. gr.

Hæfi á félagsfundi.

    Félagsmaður á hvorki atkvæðisrétt né getur lagt fram tillögu til ákvörðunar á félagsfundi þegar fjallað er um samning milli hans og félagsins eða um önnur málefni þar sem hagsmunir hans og félagsins fara ekki saman.

    Stjórnarmaður eða annar félagsmaður, sem rekið hefur erindi fyrir félagið eða ber á því ábyrgð að öðru leyti, hefur ekki atkvæðisrétt um val eða brottvikningu endurskoðanda, endurskoð­unar­fyrirtækis, skoðunarmanns eða trúnaðarmanns úr hópi félagsmanna, samþykkt ársreiknings eða uppgjöf ábyrgðar varði þær ákvarðanir viðkomandi erindi.

    Hæfi skv. 1. og 2. mgr. tekur einnig til þeirra sem koma fram fyrir félagsmann.

 

14. gr.

Ákvarðanir félags.

    Leiði ekki annað af samþykktum félags ræður meiri hluti atkvæða úrslitum á félagsfundi.

    Minnst þrjá fjórðu hluta greiddra atkvæða þarf til breytinga á samþykktum félags, slita þess eða afhendingar meiri hluta eigna þess.

    Ef félag er, samkvæmt samþykktum sínum, aðili að öðru félagi má ákveða í samþykktum að breyting á þeim krefjist einnig samþykkis síðarnefnda félagsins.

 

15. gr.

Kosningar.

    Kosning á fundi er meirihlutakosning sé ekki annars getið í samþykktum félagsins. Tryggja skal öllum sem hafa rétt til áhrifa í félaginu tækifæri til að taka þátt í tilnefningum til framboðs.

    Við meirihlutakosningu sigrar sá sem fær flest atkvæði mæli samþykktir félagsins ekki fyrir um annað.

    Kosning á fundi getur verið rafræn enda séu notaðar aðferðir til að tryggja framangreind skilyrði um þátttöku, ákvarðanir, atkvæðisrétt og hæfi.

 

16. gr.

Ógildanlegar ákvarðanir.

    Hafi ákvörðun félags ekki verið tekin í samræmi við lög eða samþykktir þess getur félagsmaður, stjórnin eða einstakur stjórnarmaður höfðað mál gegn félaginu til þess að fá ákvörðuninni hrundið. Sá sem átti þátt í hinni ógildanlegu ákvörðun á fundi hefur þó ekki þennan rétt.

    Mál skal höfða innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var tekin eða frá dagsetningu bókunar ákvörðunarinnar hafi hún verið tekin rafrænt. Hafi mál ekki verið höfðað innan þessa tíma skal ákvörðunin talin gild, sbr. þó 1. mgr. 17. gr.

    Hafi stjórnin höfðað málið skal þegar kalla saman félagsfund og velja umboðsmann til þess að halda uppi vörnum fyrir félagið.

 

17. gr.

Ógildar ákvarðanir.

    Ákvörðun sem stríðir gegn lögum eða brýtur gegn réttindum utanaðkomandi aðila er ógild þrátt fyrir ákvæði 16. gr. Sama gildir um ákvörðun sem samkvæmt efni sínu rýrir sérstaka hagsmuni sem félagsmaður á samkvæmt samþykktum félagsins eða sem raskar jafnræði félagsmanna.

    Félagsmaður, stjórnin eða einstakur stjórnarmaður, svo og aðrir sem telja rétt á sér brotinn með ákvörðun félagsins, geta höfðað mál gegn félaginu til að fá það staðfest að ákvörðunin sé ógild.

 

18. gr.

Félagasambönd.

    Í samþykktum félags má kveða á um að aðilar að félaginu séu annaðhvort einungis félög eða bæði einstakir félagsmenn og félög. Í samþykktum slíkra félagasambanda má kveða á um að kjörnir fulltrúar aðildarfélaga geti tekið ákvarðanir fyrir hönd þeirra. Jafnframt má taka fram að ákvörðunarrétti skuli beitt með atkvæðagreiðslu og skal þá taka fram í samþykktum félagsins um hvaða málefni eða undir hvaða kringumstæðum slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram.

    Ákvæði laga þessara um aðalfundi gilda eftir því sem við á um fundi fulltrúa aðildarfélaga í félaga­sambandi. Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein gildir ekki um málefni skv. 10. gr.

    Í samþykktum má kveða á um að við atkvæðagreiðslu í félagasambandi geti félagsmenn í sambandinu tekið ákvarðanir fyrir hönd félagsins hvort sem þeir eru beinir félagsmenn í félaginu eða félagar í einhverju aðildarfélagi þess.

    Atkvæðagreiðsla getur farið fram rafrænt, með pósti, tölvupósti eða á annan sambærilegan hátt.

 

V. KAFLI

Stjórnun félags.

19. gr.

Stjórn félags.

    Stjórn félags skal skipuð fæst þremur mönnum og einum varamanni. Stjórnin fer með málefni félagsins í samræmi við ákvarðanir félagsins, samþykktir þess og ákvæði laga sem um það gilda.

    Stjórn félags skal móta stefnu og skipuleggja starf félagsins. Stjórnin skal funda reglulega til að hafa eftirlit með rekstri félagsins og taka ákvarðanir um starf þess. Stjórn skal halda gerðabók þar sem niðurstöður og ákvarðanir stjórnarfunda eru skráðar.

    Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund svo framarlega sem ekki eru gerðar strangari kröfur í samþykktum. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnar­fundum nema samþykktir kveði á um annað.

    Stjórnin kemur fram fyrir hönd félags. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara stjórn og fram­kvæmda­stjóri með stjórn félagsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal hlíta stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenju­legar eða mikils háttar. Stjórnin skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi félagsins og ber ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár. Þá skal stjórnin sjá til þess að fjár­munum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang félagsins.

    Stjórn kýs sér formann nema samþykktir kveði á um annað. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Nú hefur bú einstaklings verið tekið til gjaldþrotaskipta og er hann þá ekki bær til að sitja í stjórn félags eða gegna stöðu framkvæmdastjóra þess fyrr en hann er aftur orðinn fjár síns ráðandi.

    Einungis stjórn félags getur veitt og afturkallað prókúruumboð.

 

20. gr.

Ritun firma.

    Stjórn félags kemur fram út á við fyrir hönd félagsins og ritar firma þess.

    Stjórn félags getur veitt stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins svo framarlega sem öðruvísi er ekki ákveðið í samþykktum þess. Ákvæði 5. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. eiga við um þá sem heimild hafa til ritunar firma.

    Ritunarréttinn má takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu. Aðra tak­mörkun á ritunarrétti er ekki unnt að skrá.

    Stjórn félags getur hvenær sem er afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma félagsins.

 

21. gr.

Vanhæfi.

    Stjórnarmanni eða starfsmanni í félagi er hvorki heimilt að taka þátt í meðferð né ákvörðun í máli sem varðar samning milli hans og félagsins eða í nokkru öðru máli þar sem hagsmunir hans kunna að stangast á við hagsmuni félagsins.

    Stjórn félags er ekki heimilt að reikna sér, endurskoðendum, skoðunarmönnum, trún­aðar­mönnum úr hópi félagsmanna, framkvæmdastjórum eða öðrum sem fara með stjórnunar­störf hærra endurgjald fyrir störf hjá félaginu en venjulegt er eftir eðli og umfangi starfanna.

    Óheimilt er félagi að veita lán eða setja tryggingu fyrir þá sem getið er í 2. mgr. Sama gildir um þá sem eru í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með þeim og þá sem eru skyldir þeim eða mægðir í beinan legg ellegar standa þeim að öðru leyti sérstaklega nærri. Þetta á þó ekki við um fyrirgreiðslu félags sem fellur að starfsemi félagsins og allir sem uppfylla ákveðin skilyrði eiga jafnan aðgang að.

 

22. gr.

Bókhald og ársreikningur.

    Félagi er skylt að færa bókhald og semja ársreikning í samræmi við lög um bókhald. Stjórn og framkvæmdastjóri félags skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við lögin.

    Á aðalfundi eða fulltrúaráðsfundi skulu kosnir einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoð­unar­fyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna til að yfirfara ársreikning og varamenn þeirra. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um hæfi og störf endurskoð­enda og endurskoðunarfyrirtækja og ákvæði laga um bókhald gilda um hæfi og störf skoðunar­manna og trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna. Trúnaðarmenn sem kosnir eru úr hópi félags­manna mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.

    Hafi félag með höndum verulegan atvinnurekstur skal halda fjárreiðum og reikningshaldi varð­andi þann rekstur aðskildu frá öðru bókhaldi og eignum félagsins. Sé félag í tengslum við atvinnu­fyrirtæki samkvæmt samþykktum sínum eða samningi skal þess getið í ársreikningi eða skýringum við hann.

    Ársreikningur skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningur skal lagður fram á aðalfundi félags til samþykktar.

    Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skal stjórn félags birta ársreikning, og ef við á samstæðureikning, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis eða undirritun skoðunarmanns eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna, sem og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur, á vef félagsins eða opinberlega með sambærilegum hætti.

 

VI. KAFLI

Slit félags.

23. gr.

Slit félags.

    Nú ákveða félagsmenn, sbr. 10. gr., að slíta félagi og skal þá stjórn þess gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til slitanna, nema skipaður sé skiptastjóri, einn eða fleiri, til að annast slitin. Ekki er þörf á formlegri slitameðferð hafi félagsmenn, þegar tekin var ákvörðun um slit á félaginu, samtímis samþykkt endanleg reikningsskil, efnahags- og rekstrarreikning, sbr. 22. gr., sem lögð eru fram af stjórn félagsins og fram kemur að engar skuldir séu í félaginu og það hafi engar skuldbindingar. Ef félagið skuldar eitthvað ber að skipa skiptastjóra.

    Fjárhagslegar ráðstafanir félags sem félagsmenn hafa ákveðið að slíta eru eingöngu heimilar í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna slitameðferðar. Hafi skiptastjórar verið skipaðir er þeim heimilt að birta innköllun þar sem skorað er á lánardrottna félags að lýsa kröfum sínum og að gefa eignir félagsins upp til gjaldþrotaskipta, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði eignir, sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar, ekki nýttar á þann hátt sem samþykktir félagsins kveða á um skal skiptastjóri framselja eignirnar til landssamtaka sem félagið var aðili að eða til þess sveitarfélags sem félagið er með skráð lögheimili í við slit sem skal ráðstafa þeim til verkefna sem sambærileg eru þeim sem kveðið er á um í samþykktum félagsins. Skiptastjóri skal semja endanleg reikningsskil, efnahags- og rekstrarreikning, sbr. 22. gr., fyrir félagið og sjá til þess að þau séu varðveitt.

    Félagi hefur verið slitið þegar slitameðferð er lokið, það er tilkynnt og félagið afskráð, sbr. 3. mgr. 32. gr.

 

24. gr.

Heimild til afskráningar á félagi.

    Hafi almannaheillafélagaskrá upplýsingar um að félag hafi hætt störfum, það sé án starfandi stjórnar, endurskoðenda eða skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna eða það sinni ekki tilkynningarskyldu sinni til skrárinnar skal skráin senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir félagið samkvæmt síðustu skráningu í almannaheillafélagaskrá aðvörun þess efnis að félagið verði fellt út af skránni, sbr. VIII. kafla, komi ekki fram upplýsingar innan þess frests sem skráin setur er sýna fram á að félagið starfi enn. Berist ekki svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu til fyrirsvarsmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta birt einu sinni í Lögbirtingablaði. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn getur almannaheillafélagaskrá fellt niður skráningu félagsins. Innan árs frá afskráningu geta félagsmenn eða lánardrottnar gert kröfu um að bú félagsins verði tekið til skipta í samræmi við 25. gr. Hafi félag verið afskráð, og félagsmenn eða lánardrottnar ekki gert kröfu um að bú félags verði tekið til skipta eða beiðni hefur ekki borist almannaheillafélagaskrá um skráningu félags á nýjan leik, skal ráðuneytið skipa skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 23. gr. Ef eignir eru í félaginu að loknum skiptum fer um þær samkvæmt samþykktum félagsins.

    Almannaheillafélagaskrá má jafnframt breyta skráningu þannig að afskráð félag sé skráð á nýjan leik enda berist beiðni þar um innan árs frá afskráningu og sérstakar ástæður mæli með endur­skráningu. Ekki má ráðstafa heiti félagsins á þessum tíma. Þótt félag hafi verið fellt út af almanna­heillafélagaskrá breytir það í engu persónulegri ábyrgð sem stjórnarmenn eða félagsmenn kunna að vera í vegna skuldbindinga félagsins.

 

VII. KAFLI

Slit félags með dómi.

25. gr.

Slit félags og veiting áminningar.

    Að kröfu ráðherra er fer með málefni ákæruvalds og dómstóla, ríkissaksóknara eða félagsmanna getur héraðsdómur á heimilisvarnarþingi félags slitið félagi með dómi hafi félagið brotið að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.

    Í stað þess að slíta félagi getur dómurinn veitt því áminningu enda telst brot ekki verulegt.

    Ef félagi er slitið eða það áminnt má einnig slíta eða áminna annað félag, sem beint eða óbeint er aðili í fyrra félaginu, hafi síðara félagið stuðlað að aðgerðum sem um er getið í 1. mgr., enda hafi því einnig verið stefnt.

    Verði eignir félags, sem hefur verið slitið á þennan hátt, ekki nýttar á þann hátt sem samþykktir félagsins kveða á um, sbr. i-lið 5. gr., eða notkun þeirra stríðir gegn lögum eða góðum stjórnar­háttum skulu eignir félagsins renna til ríkisins sem skal ráðstafa þeim til verkefna sem sambæri­leg eru þeim sem kveðið er á um í samþykktum félagsins.

  

26. gr.

Bráðabirgðabann við starfsemi félags.

    Nú hefur mál verið höfðað til slita á félagi og getur dómari þá að beiðni málsaðila stöðvað starfsemi þess til bráðabirgða ef líkur eru á því að félag brjóti að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.

    Að beiðni ríkissaksóknara er dómara heimilt að banna starfsemi félags til bráðabirgða skv. 1. mgr., þrátt fyrir að mál hafi ekki verið höfðað til slita á félagi, ef rökstuddur grunur er um að félag brjóti ella að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum. Slíkt bráðabirgðabann fellur niður verði ekki krafist slita á félaginu innan 14 daga frá útgáfu bannsins og skal ekki gilda lengur en þar til mál er höfðað.

    Óheimilt er að stofna nýtt félag um starfsemi sem bönnuð hefur verið til bráðabirgða.

 

27. gr.

Slit félags og skiptastjórar.

    Þegar félagi er slitið eða starfsemi þess bönnuð til bráðabirgða skal félagið tafarlaust láta af starfsemi sinni. Stjórn félags getur þó, sé starfsemi bönnuð til bráðabirgða, haldið áfram rekstri og varðveitt hann og eignir félagsins þar til endanleg niðurstaða um slit þess liggur fyrir ákveði dómur ekki annað.

    Ef dómurinn heimilar ekki stjórn félags að stjórna eignum þess skv. 2. málsl. 1. mgr. skal hann skipa því a.m.k. einn fjárhaldsmann til að varðveita eignir félagsins.

    Við slit félags skal dómurinn tilnefna einn eða fleiri skiptastjóra ef þörf krefur. Ákvæði laga þessara um skiptastjóra og andmæli við ráðstöfun þeirra gilda eftir því sem við á.

    Sé krafa um slit félags tekin til greina skal farið að fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem erfingjar taka ekki að sér ábyrgð á skuldbindingum hins látna.

 

VIII. KAFLI

Skráning í almannaheillafélagaskrá.

28. gr.

Stjórnvald.

    Ríkisskattstjóri skráir félag samkvæmt lögum þessum og lögum um fyrirtækjaskrá og starfrækir almannaheillafélagaskrá í því skyni.

 

29. gr.

Tilkynning um félag.

    Skráning félags til almannaheilla í almannaheillafélagaskrá er valkvæð og er ætluð félögum þar sem stærð, umfang eða eðli starfseminnar felur í sér þær skyldur og réttindi sem í lögunum er kveðið á um.

    Tilkynningar til almannaheillafélagaskrár ásamt fylgiskjölum og tilskildum skráningargjöldum skal senda almannaheillafélagaskrá beint á því formi sem skráin ákveður. Skal málsmeðferð vera rafræn sé þess kostur.

    Með tilkynningu skal senda stofnsamning, stofnfundargerð og samþykktir félagsins. Í tilkynn­ing­unni skal koma fram fullt heiti félags og tilgangur, heimilisfang og varnarþing, nöfn og kenni­tölur stjórnarmanna og varamanna og tilgreining stjórnarformanns og annarra þeirra sem geta skuld­bundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.

    Stjórnarmenn og varamenn skulu undirrita tilkynninguna og lýsa því yfir að þær upplýsingar sem fram koma í tilkynningunni séu réttar og þeir sem þar koma fram hafi rétt til að skuldbinda félagið að lögum.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. er heimilt að skrá félög skv. 5. gr. íþróttalaga í almannaheillafélagaskrá þótt ekki sé tekið fram í samþykktum þeirra að þau séu félög til almannaheilla. Skal um tilkynningu til almannaheillafélagaskrár í slíkum tilvikum fara skv. 2.–4. mgr.

 

30. gr.

Meðferð tilkynninga.

    Þegar almannaheillafélagaskrá berst tilkynning skv. 29. gr. skal skráin m.a. kanna:

  1. hvort tilkynning samrýmist ákvæði 29. gr.,
  2. hvort heiti félagsins sé skýrt aðgreint frá heiti annarra félaga sem þegar eru skráð og hvort heitið sé villandi,
  3. hvort ákvæði laganna mæli gegn því að félagið sé skráð,
  4. hvort ákvæði laga um fyrirtækjaskrá mæli gegn því að félagið sé skráð.

    Mæli einhver þau atriði sem nefnd eru í 1. mgr. gegn því að félagið sé skráð, en ekki þyki þó efni til að hafna skráningu, skal þeim sem tilkynnir félagið til skráningar gefinn kostur á að bæta eða leiðrétta tilkynninguna. Þetta skal gert innan ákveðins frests sem almannaheillafélagaskrá setur. Hafi leiðrétting eða viðbót ekki borist innan frestsins skal hafna skráningu.

    Mæli ekkert gegn skráningu skal skrá félagið í almannaheillafélagaskrá.

 

31. gr.

Tákn félags.

    Eingöngu þeim félögum til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum þessum er heimilt að hafa orðin félag til almannaheilla eða skammstöfunina fta. í heiti sínu.

 

32. gr.

Tilkynning um breytingar og slit.

    Breytingar á samþykktum félags, val á nýjum stjórnarmanni eða varamanni í stjórn eða breyting á heimild til að skuldbinda félagið, ásamt öðru því sem skráð hefur verið, ber að tilkynna til almannaheillafélagaskrár innan mánaðar frá breytingunni. Breyttar samþykktir í heild sinni skulu fylgja tilkynningu um breytingar. Sömu reglur gilda um meðferð tilkynningar um breytingu á því sem áður er skráð og um upphafstilkynningu til almannaheillafélagaskrár.

    Breyting á samþykktum félags tekur gildi við skráningu í almannaheillafélagaskrá. Sama gildir um breytingu á stjórn félags og varastjórn og öðrum þeim einstaklingum sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.

    Þegar félagi til almannaheilla hefur verið slitið, sbr. VI. kafla, skal tilkynna það til almanna­heilla­félagaskrár og auglýsa slit félagsins í Lögbirtingablaði.

    Almenn félagasamtök sem skráð eru í fyrirtækjaskrá geta að uppfylltum skilyrðum laga þessara farið fram á að samtökin verði skráð í almannaheillafélagaskrá. Skal félagið þá skila inn nýjum samþykktum, tilkynningu um stjórn, varastjórn og aðra þá sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru. Einnig skal tilkynna um endurskoðanda eða endur­skoð­unarfyrirtæki eða skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna.

   

33. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skráningu í almannaheillafélagaskrá, þ.m.t. um skipulag skráningarinnar, rekstur almannaheillafélagaskrár og aðgang að skránni og gjaldtöku, m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem almannaheillafélagaskrá hefur á tölvutæku formi.

 

IX. KAFLI

Viðurlög.

34. gr.

Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að:

  1. skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum félags eða öðru er það varðar í opinberri aug­lýsingu eða tilkynningu, skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til aðalfundar eða forráða­manna félags eða tilkynningum til almannaheillafélagaskrár,
  2. afhenda án heimildar eða nota aðgangsorð eða annað sambærilegt til að vera viðstaddur eða taka þátt í rafrænum stjórnarfundi eða félagsfundi.

 

35. gr.

Sektir eða fangelsi vegna brota sem varða atkvæðagreiðslu á aðalfundi.

    Sá maður skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem gerist sekur um eftirtaldar athafnir að því er varðar atkvæðagreiðslu á aðalfundi skv. IV. kafla:

  1. aflar sér eða öðrum ólöglegs færis á að taka þátt í atkvæðagreiðslu eða ruglar atkvæða­greiðslu með öðrum hætti,
  2. leitast við með ólögmætri nauðung, frelsisskerðingu eða misbeitingu aðstöðu yfirboðara að fá félagsmann eða umboðsmann hans til þess að greiða atkvæði á ákveðinn hátt eða til þess að greiða ekki atkvæði,
  3. kemur því til leiðar með sviksamlegu atferli að félagsmaður eða umboðsmaður hans greiði ekki atkvæði, þó að hann hafi ætlað sér það, eða að atkvæði hans ónýtist eða hafi önnur áhrif en til var ætlast,
  4. greiðir, lofar að greiða eða býður félagsmanni eða umboðsmanni hans fé eða annan hagnað til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag,
  5. tekur við, fer fram á að fá eða lætur lofa sér eða öðrum hagnaði til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag.

 

X. KAFLI

Gildistaka o.fl.

36. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2021.

 

37. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, með síðari breytingum:
    1. Á eftir orðinu „félög“ í 4. tölul. 2. gr. laganna kemur: félög til almannaheilla.
    2. Á eftir orðinu „manns“ í 3. gr. laganna kemur: félög til almannaheilla.
  2. Lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019: Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    1. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í stofnsamningi skulu koma fram upplýsingar um nöfn og kennitölur stofnenda og tilgangur félagsins.
    2. 2. málsl. orðast svo: Stofnsamningur skal vera dagsettur og undirritaður af stofn­endum félagsins.

 

Gjört í Vestmannaeyjum, 25. júní 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 14. júlí 2021