1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um stuðningslán samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020. Hún gildir ekki um viðbótarlán sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli liðar 7.32 í heimildagrein fjárlaga fyrir árið 2020, nr. 133/2019, sbr. fjáraukalög fyrir árið 2020, nr. 26/2020.
2. gr.
Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Aðallánastofnun: Sú lánastofnun þar sem mest velta var á innstæðum rekstraraðila síðustu tólf almanaksmánuði, eða þá heilu almanaksmánuði sem hann hefur starfað hafi hann starfað skemur en tólf almanaksmánuði.
Lánshæfismat: Lánshæfismat á vegum aðila sem hefur leyfi til að gera lánshæfismat skv. 1. mgr. 15. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
Rekstrarár: Tekjutímabil rekstraraðila skv. 1. mgr. 59. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Vanskilaskrá: Vanskilaskrá á vegum aðila sem hefur leyfi til vanskilaskráningar skv. 1. mgr. 15. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
3. gr.
Umsókn.
Rekstraraðili, eða sá sem rekstraraðili hefur veitt umboð, sækir um stuðningslán í gegnum miðlæga þjónustugátt á vefnum Ísland.is og tilgreinir þá fjárhæð sem sótt er um. Hann skal staðfesta við umsókn að honum sé kunnugt um og samþykki upplýsingamiðlun skv. 4. gr.
Umsóknir um stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu skulu vera aðgreindar frá umsóknum um stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs. Í umsókn um stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs skal tilgreina þann láns- og endurgreiðslutíma sem sótt er um, sbr. 2. mgr. 8. gr.
4. gr.
Hlutverk miðlægrar þjónustugáttar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem umsjónaraðili Ísland.is, aflar upplýsinga frá rekstraraðila, lánastofnunum, Skattinum, Fjársýslu ríkisins og aðilum sem annast lánshæfismöt eða vanskilaskrár sem eru nauðsynlegar til að meta hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði fyrir því að fá stuðningslán skv. 1. og 10. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, sbr. einnig 7. gr. þessarar reglugerðar, og hver fjárhæð þess geti að hámarki orðið.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið framsendir umsókn, ásamt upplýsingum skv. 1. mgr. og upplýsingum um fyrri umsóknir rekstraraðila og afgreiðslu þeirra, til aðallánastofnunar rekstraraðila. Hafi hún ekki samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, skal rekstraraðili velja til hvaða lánastofnunar, sem samið hefur við Seðlabankann samkvæmt nefndu ákvæði, umsókn og upplýsingar skv. 1. málsl. skulu sendar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið upplýsir lánastofnun sem fær umsókn framsenda skv. 2. mgr. um hvort framkomnar upplýsingar gefi til kynna að rekstraraðili uppfylli skilyrði fyrir því að fá stuðningslán og hvort umsókn kunni að kalla á sérstaka skoðun lánastofnunarinnar.
Lánastofnun skal upplýsa fjármála- og efnahagsráðuneytið um afgreiðslur umsókna og veitt lán.
5. gr.
Ákvörðun.
Lánastofnun sem fær umsókn framsenda skv. 2. mgr. 4. gr. ákveður hvort rekstraraðila skuli veitt stuðningslán og fjárhæð þess. Hún getur kallað eftir frekari upplýsingum og gögnum frá rekstraraðila ef hún telur það nauðsynlegt til að taka ákvörðun um lánveitingu, þ. á m. um fjárhæð láns.
Lánastofnun afgreiðir stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu á grundvelli umsóknar og upplýsinga sem henni berast skv. 2. mgr. 4. gr. nema hún megi bersýnilega ætla að umsóknin byggist á ófullnægjandi upplýsingum.
Lánastofnun er heimilt að veita rekstraraðila stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs uppfylli hann öll skilyrði 1. og 10. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, sbr. einnig 7. gr. þessarar reglugerðar, og, eftir atvikum, viðmið sem lánastofnun setur um veitingu slíkra lána á grundvelli samnings við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr. laganna.
Lánastofnun er heimilt að veita stuðningslán til ársloka 2020.
6. gr.
Hámarksfjöldi lána.
Rekstraraðili getur fengið allt að tvö stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu og allt að tvö stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs. Stuðningslán til hvers rekstraraðila geta þó samanlagt aldrei orðið hærri en leiðir af 11. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.
7. gr.
Rekstrarhæfi.
Rekstraraðili uppfyllir skilyrði 8. tölul. 10. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, ef a.m.k. annað af eftirtöldu á við:
- Samkvæmt síðasta lánshæfismati þegar umsókn er lögð fram eru líkur á alvarlegum vanskilum af hans hálfu næstu tólf mánuði minni en 5%.
- Hann uppfyllir a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
- Hann er ekki á vanskilaskrá þegar umsókn er lögð fram.
- Rekstur hans skilaði hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) a.m.k. annað af tveimur síðustu rekstrarárum eða frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020 hafi hann ekki starfað heilt rekstrarár.
- Eigið fé rekstrar var jákvætt í lok síðasta rekstrarárs eða í lok febrúar 2020 ef starfsemi hans var ekki hafin í lok síðasta rekstrarárs.
8. gr.
Lánstími.
Stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu skal veitt til 30 mánaða og endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans.
Lánastofnun getur veitt stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs til lengri tíma en 30 mánaða, eða framlengt lánstíma umfram 30 mánuði, og krafist lengri endurgreiðslutíma en 12 mánaða. Lánstími má þó ekki verða lengri en fjögur ár og endurgreiðslur, sem skulu vera í formi jafnra greiðslna, skulu hefjast eigi síðar en tveimur árum frá því að lán er veitt.
9. gr.
Upplýsingar.
Rekstraraðili skal geta nálgast almennar upplýsingar um stuðningslán og upplýsingar um afgreiðslu umsóknar um stuðningslán á miðlægri þjónustugátt á vefnum Ísland.is. Rekstraraðili skal beina fyrirspurnum um stuðningslán til aðallánastofnunar sinnar eða annarrar lánastofnunar sem hann hefur tilgreint skv. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr.
10. gr.
Meðferð ágreiningsmála.
Rekstraraðili getur borið réttarágreining við lánastofnun um stuðningslán undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki eftir því sem nánar greinir í samþykktum nefndarinnar eða dómstóla eftir almennum reglum.
11. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 8. tölul. 10. gr., 2. mgr. 13. gr. og 24. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, öðlast þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 29. maí 2020.
F. h. r.
Guðrún Þorleifsdóttir.
|