1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. reglnanna:
Á eftir 3. mgr. 5. töluliðar bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
- Deildum er heimilt að innrita doktorsnema í hlutanám og er þá miðað við 50% nám. Skal námsáætlun miðast við 50% framvindu og lengist hámarksnámstími í samræmi við það. Skráning í og úr hlutanámi getur farið fram hvenær sem er á námstíma, að fengnu samþykki doktorsnefndar og fastanefndar deildar eða fræðasviðs. Skrásetningargjald er hið sama hvort sem nemandi er skráður í fullt nám eða hlutanám.
- 3. og 4. málsl. 3. mgr. 11. töluliðar orðast svo: Doktorsnefnd fundar með doktorsnema um stöðu og framvindu verkefnisins eftir því sem þurfa þykir, en þó að jafnaði ekki sjaldnar en einu sinni á ári í tengslum við skil á árlegri framvinduskýrslu. Doktorsnefndin ber jafnframt ábyrgð á framkvæmd ítarlegs mats á þekkingu doktorsnemans einu sinni á námstímanum (t.d. vörn á rannsóknaráætlun eða mat um miðbik náms (mid-term evaluation)), á þeim fræðasviðum þar sem gert er ráð fyrir slíku mati og í samræmi við reglur hverrar deildar.
- Á eftir 18. tölulið bætast við tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
- M.Phil.-gráða.
Komið getur í ljós á námstíma til doktorsprófs að nemandi muni ekki ljúka doktorsnámi af persónulegum ástæðum, breytingum á fjármögnun verkefnis, óviðunandi framvindu í verkefni eða af öðrum ástæðum sem nemandi og/eða doktorsnefnd meta þannig að koma muni í veg fyrir að hægt sé að ljúka verkefninu á tilsettum tíma. Doktorsnefnd getur þá mælt með því við fastanefnd deildar eða fræðasviðs að doktorsnámi verði hætt og nemanda gefist kostur á að brautskrást með prófgráðuna M.Phil., samkvæmt skilgreindri námsleið til M.Phil.-prófs í viðkomandi deild. Samþykki fastanefnd tillögu doktorsnefndar hefur nemandi 12 mánuði frá ákvörðun fastanefndar til að ljúka ritgerð/verkefni sem að mati skipaðs prófdómara stenst kröfur sem gerðar eru til M.Phil.-gráðu. Standist nemandi ekki kröfur innan tilskilinna tímamarka telst námi hætt án prófgráðu. Nemandi getur kært ákvörðun fastanefndar um breytingu á prófgráðu til deildarforseta skv. 50. gr. þessara reglna.
- Doktorsnafnbót eftir andlát.
Í sérstökum tilfellum er deild heimilt að veita doktorsnafnbót eftir andlát doktorsnema. Fyrir þarf að liggja fullbúin ritgerð eða lokadrög ritgerðar sem utanaðkomandi sérfræðingar geta metið hvort teljist tæk til varnar.
2. gr.
Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 17. janúar 2018.
Jón Atli Benediktsson.
Þórður Kristinsson.
|