1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um starfsemi innlendra vátryggingafélaga og starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. Þá gilda reglur þessar um vátryggingasamstæður, sbr. 1. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður.
2. gr.
Sniðmát fyrir gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.
Reglur þessar eru settar til að innleiða framkvæmdarreglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) þar sem fram koma tæknilegir framkvæmdarstaðlar að því er varðar sniðmát fyrir gagnaskil vátryggingafélaga, eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði og blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 31. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi og 31. og 32. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður.
3. gr.
Innleiðing reglugerðar.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/894 frá 4. apríl 2023 um tæknilega framkvæmdarstaðla fyrir beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB að því er varðar sniðmátin fyrir framlagningu upplýsinga frá vátrygginga- og endurtryggingafélögum til eftirlitsyfirvalda sem nauðsynlegar eru fyrir eftirlit þeirra og um niðurfellingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/2450, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 280/2023 frá 27. október 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 93 frá 19. desember 2024, bls. 1-1596.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 13. mgr. 31. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi og 7. mgr. 31. gr. og 6. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður, öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi reglur nr. 1114/2021 um sniðmát fyrir gagnaskil vátryggingafélaga og vátryggingasamstæðna.
Seðlabanka Íslands, 19. desember 2024.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|