Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1080/2023

Nr. 1080/2023 28. september 2023

SIÐAREGLUR
fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands.

Inngangur.

Í því skyni að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni staðfestir forsætisráðherra siða­reglur starfsfólks Stjórnarráðs Íslands sem hér fara á eftir, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Við undirbúning reglnanna var haft samráð við starfsfólk ráðu­neytanna og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Siðareglurnar veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir því mikilvæga ábyrgðar­hlutverki að starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Jafnframt gefa þær almenningi færi á að bera starfs­hætti saman við skráðar og útgefnar reglur.

Hver starfsmaður gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Stjórnendur í ráðu­neytum skulu enn fremur sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi ráðuneytanna. Starfsfólk getur í vafatilfellum leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 115/2011.

Þeir sem telja starfsfólk hafa brotið gegn siðareglunum geta komið ábendingum um það á fram­færi við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess meðal annars að stjórnsýslan fari fram í sam­ræmi við siðareglur sem settar eru á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafnframt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Siðareglur þessar verður að skoða í samhengi við almennar siðareglur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og aðrar siðareglur sem kunna að eiga við, sbr. heimild í 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011 til að útfæra siðareglur nánar í hverju ráðuneyti. Enn fremur eiga siðareglurnar að endurspegla tiltekin grunngildi í opin­berum störfum eins og fagmennsku, skilvirkni, heilindi og óhlutdrægni.

 

1. gr.

Frumskyldur.

  1. Starfsfólk veitir ráðherra faglega aðstoð og ráðgjöf og starfar að öllu leyti samkvæmt stjórnar­skrá og lögum og í samræmi við grunngildi stjórnsýslunnar.
  2. Starfsfólk kemur fram af heiðarleika og vinnur saman af metnaði og ábyrgð með almanna­hagsmuni að leiðarljósi.
  3. Starfsfólk hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, gætir fyllstu fagmennsku og auðsýnir pólitískt hlut­leysi.

 

2. gr.

Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar.

  1. Starfsfólk notfærir sér ekki stöðu sína eða upplýsingar fengnar í starfi í þágu eiginhagsmuna eða hagsmuna tengdra aðila.
  2. Starfsfólk forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónu­legra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist ekki að koma í veg fyrir hagsmuna­árekstra af þessu tagi skal upplýsa um þá.
  3. Starfsfólk upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur tengsl sem valdið geta hagsmuna­árekstrum.
  4. Starfsfólk sinnir ekki aukastörfum, trúnaðar- eða félagsstörfum sem ósamrýmanleg eru starfi þess í Stjórnarráðinu.
  5. Starfsfólk gætir hófs í viðtöku gjafa og þiggur ekki verðmætar gjafir persónulega vegna starfs síns.

 

3. gr.

Meðferð fjármuna.

  1. Starfsfólk sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna ríkisins. Ekki er stofnað til útgjalda fyrir hönd ráðuneytisins nema tilefni þeirra samræmist starfsemi þess og hlutverki.
  2. Starfsfólk nýtir ekki opinbera fjármuni eða gæði starfsins í persónulegum tilgangi eða til þess að hygla öðrum.

 

4. gr.

Háttsemi og framganga.

  1. Starfsfólk dregur skýr fagleg mörk á milli starfs og einkalífs.
  2. Starfsfólk vandar samskipti og kemur fram af háttvísi og virðingu.
  3. Starfsfólk virðir trúnað gagnvart samstarfsfólki og vinnustað, svo sem við notkun samfélags­miðla.
  4. Starfsfólk hefur trúverðugleika ráðuneytis síns að leiðarljósi í allri framgöngu og virðir mann­réttindi og mannlega reisn í hvívetna.

 

5. gr.

Faglegir starfshættir.

  1. Fagmennska, samvinna og gagnkvæm virðing einkenna starfsumhverfi Stjórnarráðsins.
  2. Starfsfólk gætir að mörkum stjórnmála og stjórnsýslu.
  3. Starfsfólk vandar vinnubrögð og alla meðferð upplýsinga og gagna og gætir trúnaðar.
  4. Starfsfólk byggir ráðgjöf sína og ákvarðanir á bestu fáanlegum upplýsingum. Faglegs mats sérfróðra aðila er aflað þegar við á.
  5. Starfsfólk viðurkennir mistök og leitast við að læra af þeim.
  6. Starfsfólk leggur sig fram um að viðhalda og bæta þekkingu á sínu starfssviði.

 

6. gr.

Gagnsæi og upplýsingamiðlun.

  1. Upplýsingar eru veittar greiðlega í samræmi við lög og almenn viðmið.
  2. Starfsfólk miðlar upplýsingum af nákvæmni, heilindum og með skýrum hætti.
  3. Mistök eða misskilningur, sem varðar ákvarðanir, meðferð mála, eða miðlun upplýsinga er leið­réttur eins fljótt og mögulegt er.
  4. Starfsfólk leitast við að eiga greið og opin samskipti við almenning og hagaðila og gætir þess að upplýsingar um markmið og framgang samráðs séu aðgengilegar.

 

7. gr.

Ábyrgð og eftirfylgni.

  1. Hver starfsmaður er, í samræmi við stöðu sína og hlutverk, ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum.
  2. Yfirmenn kynna starfsfólki siðareglur þessar, bregðast við sé ekki eftir þeim farið og ganga á undan með góðu fordæmi.
  3. Verði starfsmaður áskynja um siðferðilega ámælisvert eða ólögmætt athæfi á vinnustað skal hann koma ábendingum þar um til næsta yfirmanns, sem tengist ekki athæfinu, eða annarra við­eigandi aðila.
  4. Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.

 

8. gr.

Gildistaka.

Siðareglur þessar öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglna þessara falla úr gildi siðareglur fyrir starfs­fólk Stjórnarráðs Íslands nr. 410/2012.

 

Forsætisráðuneytinu, 28. september 2023.

 

Katrín Jakobsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir.


B deild - Útgáfud.: 13. október 2023