Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1180/2015

Nr. 1180/2015 8. desember 2015

GJALDSKRÁ
embættis byggingar- og skipulagsfulltrúa Súðavíkurhrepps.

1. gr.

Gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari.

Af öllum lóðum og nýbyggingum og stækkunum eldri húsa í Súðavíkurhreppi, hvort sem er á eignar­lóðum eða leigulóðum, skulu lóðarhafar greiða til sveitarfélagsins eftirtalin gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari:

  1. Gatnagerðargjald. Af öllum nýbyggingum og viðbyggingum í þéttbýli í Súðavíkurhreppi, samkvæmt samþykktu deiliskipulagi eða staðfestu aðalskipulagi, skal greiða gatna­gerðar­gjald, sbr. 12. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006.
  2. Byggingarleyfisgjald, sbr. 51. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
  3. Stofngjald vatnsveitu skv. lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.
  4. Stofngjald holræsa skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

2. gr.

Framkvæmdaleyfisgjald og gjald fyrir skipulagsvinnu.

Gjöld skv. gjaldskrá þessari af framkvæmdum og skipulagsvinnu í Súðavíkurhreppi eru:

  1. Framkvæmdaleyfisgjald, sbr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  2. Gjald vegna skipulagsvinnu, sbr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3. gr.

Ráðstöfun byggingarleyfis-, gatnagerðar- og framkvæmdaleyfisgjalda
og gjalda vegna skipulagsvinnu.

Gatnagerðargjaldi skal varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu og viðhalds gatna og annarra gatna­mannvirkja. Tekjum sveitarfélagsins vegna gjalds af skipulagsvinnu, byggingarleyfis, fram­kvæmda­leyfis, afgreiðslu- og þjónustugjalda skal varið til að standa straum af hluta kostnaðar byggingar- og skipulagsfulltrúa.

4. gr.

Útreikningur gatnagerðargjalds.

Af hverjum fermetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar samkvæmt fermetra­verði byggingarvísitölu, eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987. Allar fjárhæðir í þessari gjaldskrá taka breytingum 1. dag hvers mánaðar í samræmi við breytingu á byggingarvísitölu.

Gjaldskráin gildir jafnt fyrir leigulóðir og eignarlóðir þar sem sveitarfélagið stendur að gatnagerð.

Stofngjöld fráveitu og vatnsveitu eru innheimt sérstaklega og ekki innifalin í gatnagerðargjaldi.

Hundraðshluti byggingarkostnaðar ákvarðast sem hér segir:

    Lágmarksgjald kr.
Íbúðarhúsnæði 5,5% 1.700.000
Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús 4,5% 3.400.000
Iðnaðarhúsnæði, hótel, verslanir og skrifstofur 4,2% 4.235.000
Hesthús og önnur gripahús í þéttbýli 3,0%    300.000

Lágmarksgjald skv. 1. mgr. skal aldrei vera hærra en sem nemur 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni skv. útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Af viðbyggingum er ekki greitt lág­marks­gjald, aðeins er greitt ofangreint gjald af viðkomandi viðbyggingu.

Við úthlutun lóðar greiðir lóðarleigjandi 152.000 kr. við afhendingu lóðar og sú upphæð gengur upp í gatnagerðargjald.

Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun húsnæðis þannig að hún færist í hærri gjaldflokk, sbr. 1. mgr., skal greiða gatnagerðargjald sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

5. gr.

Undanþágur frá greiðslu gatnagerðargjalds.

Undanþegnar greiðslu gatnagerðargjalds eru eftirtaldar byggingar:

  1. Lagnakjallarar og aðrir gluggalausir kjallarar, sem aðeins er gengið í innan frá.
  2. Óeinangruð smáhýsi, minni en 10 m², fyrir stærri garðhús er greitt sama gatnagerðargjald og fyrir hesthús.
  3. Óupphituð svalaskýli íbúðarhúsa sem eru 20 m² eða minni.

6. gr.

Heimild til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds.

Sveitarstjórn getur lækkað eða fellt niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, sbr. ákvæði 6. gr. laga nr. 153/2006. Sveitarstjórn er heimilt að hækka eða lækka gjaldskrá gatnagerðargjalds um allt að 35% vegna breytilegs kostnaðar við undirbyggingu og frágang gatna eftir hverfum, m.a. vegna kostnaðar við land, jarðvegsdýpi, stærð lóðar við götu, staðsetningu lóðar, verðmæti lóðar, þversnið lóðarfrágangs o.fl.

7. gr.

Eldri samningar og skilmálar um gatnagerðargjald.

Um samninga um gatnagerðargjald af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarfélagið fyrir gildistöku gjaldskrár þessarar, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjald, sem sveitarstjórn hefur sett fyrir sömu tímamörk og lóðarhafi og lóðareigandi hefur undirgengist, fer eftir hljóðan áður gerðra samninga.

8. gr.

Áfangaskipting framkvæmda.

Í þeim tilvikum þegar lóðarhafi hyggst byggja hús, annað en íbúðarhús, í áföngum, getur sveitar­stjórn heimilað slíka áfangaskiptingu og þá skal gatnagerðargjald hverju sinni greiðast sam­kvæmt þeirri samþykkt sem í gildi er þegar byggingarleyfi hvers áfanga er útgefið.

Umsækjandi skal taka það sérstaklega fram í lóðarumsókn að hann ætli að reisa fyrirhugað mannvirki í áföngum og hvenær hann hyggst hefja framkvæmdir á hverjum byggingaráfanga.

Verði heimiluð áfangaskipti falla í gjalddaga gjöld við upphaf hvers byggingaráfanga í samræmi við áform lóðarhafa við úthlutun lóðarinnar.

9. gr.

Stofngjald fráveitu og vatnsveitu.

Stofngjald holræsa fyrir íbúðarhúsalóð er kr. 137.000. Fyrir aðrar lóðir greiðast kr. 300.000 á hverja tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins.

Stofngjald vatnsveitu skal innheimt af öllum fasteignum sem tengdar eru vatnsveitu sveitar­félagsins. Til að heimæð vatnsveitu fáist þarf að vera búið að tengja fasteign við fráveitu. Gjaldið er innheimt við veitingu byggingarleyfis eða afhendingu heimæðar. Sama gjald skal greiða við endur­nýjun heimæða sem ekki eru í eigu vatnsveitunnar.

  1. Íbúðarhúsnæði, verslun og þjónusta, heimæð minni en 40 mm, kr. 239.000.
  2. Iðnaðar- og atvinnuhúsnæði, heimæð stærri en 40 mm, kr. 427.000.

Stofngjald vatnsveitu byggir á ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Stofngjald fráveitu byggir á ákvæði laga um uppbyggingu og rekstur fráveitu nr. 9/2009.

10. gr.

Flokkun bygginga og gjaldskrá.

Innheimta skal byggingarleyfisgjald fyrir hverja þá framkvæmd sem byggingarleyfi er gefið út fyrir.

Byggingarleyfisgjald er grunngjald, að viðbættu gjaldi á hvern m³ byggingar. Þó skal ekki inn­heimta byggingarleyfisgjald fyrir byggingar sem eru 10 m² eða minni, nema um viðbyggingar sé að ræða.

Innifalið í byggingarleyfisgjaldi er lögboðin meðferð byggingarleyfiserinda, lóðarblöð, yfirferð teikn­inga og reglubundið eftirlit, eftir því sem við á.

Samkvæmt gjaldskrá þessari skal greiða byggingarleyfisgjald fyrir útgáfu á byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi/skipulags- og byggingarnefnd samþykkir.

Innifalið í byggingarleyfisgjaldi er ein yfirferð aðaluppdrátta, byggingarleyfi, byggingareftirlit, lög­bundnar úttektir, fokheldisvottorð og vottorð um lokaúttekt. Fyrir aukaúttektir greiðist eftir gjald­skrá sveitarfélagsins.

Fyrir byggingarleyfi nýrra húsa, viðbygginga, breytingar húsa, verulega breytingu innan lóðar og sam­þykki fyrir breyttri notkun greiðist fast gjald kr. 64.000.

Að auki greiðist fyrir hvern m³ nýbygginga og viðbygginga skv. eftirfarandi:

  Tegund byggingar/framkvæmdar Fastagjald kr. Gjald á m³ kr.
1 Íbúðarhús, bílskúrar 64.000 238
2 Hótel, verslanir, skrifstofur 64.000 238
3 Iðnaðarhús, verkstæði 64.000 170
4 Gripahús, hlöður, vélageymslur, tankar, ker, þrær o.s.frv. 64.000 137
5 Frístundahús, veiðihús, fjallaskálar o.s.frv. 64.000 475

11. gr.

Undanþágur til lækkunar á byggingarleyfisgjaldi.

Undanþága til lækkunar á byggingarleyfisgjaldi er veitt ef um eftirtalin viðhaldsverkefni sem kalla á byggingarleyfi er að ræða:

  1. Breyting á klæðningu eða gluggum (útlitsbreyting 25-50% af fastagjaldi).
  2. Endurnýjun lagnakerfa (breytinga á lagnaleið, 25% af fastagjaldi reiknast af hverju lagna­kerfi).
  3. Breyting á burðarvirki (50% af fastagjaldi). Á aðeins við ef verið er að rýra burðarvirki, ef framkvæmd fylgir jafnframt breyting, er greitt fullt gjald.
  4. Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir á lóð. Svo sem girðingar yfir 1,8 m, bygging sólpalla hærri en 0,5 m frá jörðu (25% af fastagjaldi) o.s.frv.

12. gr.

Gjöld vegna framkvæmdaleyfa.

Samkvæmt gjaldskrá þessari skal greiða gjald fyrir veitingu framkvæmdaleyfa vegna þeirra framkvæmda sem afla þarf framkvæmdaleyfis fyrir.

Gjaldið má ekki vera hærri upphæð en nemur kostnaði við útgáfu leyfisins auk kostnaðar við til­heyrandi eftirlit með framkvæmdum. Lágmarksgjald vegna veitingar framkvæmdaleyfis er kr. 152.400. Innifalinn í framkvæmdaleyfisgjaldi er kostnaður sveitarfélagsins vegna útgáfu og undir­búnings leyfisveitinga auk kostnaðar við eftirlit að undangengnum breytingum á skipulagi.

13. gr.

Gjöld vegna skipulagsvinnu.

Samkvæmt gjaldskrá þessari skal greiða gjald fyrir grenndarkynningar og deiliskipulagsbreytingar eins og hér segir:

a. Almenn breyting vegna bygginga- eða framkvæmdaleyfis kr. 50.000
b. Lítil breyting á deiliskipulagi eða lóðarblaði kr. 111.800
c. Grenndarkynning vegna breytingar á deiliskipulagi kr. 50.800
d. Afgreiðsla deiliskipulagsbreytingar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga kr. 152.400
e. Afgreiðsla deiliskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga kr. 203.200
f. Afgreiðsla nýs deiliskipulags skv. 40. og 41. gr. skipulagslaga kr. 203.200

Greitt er fyrir hvern þann lið hér að ofan sem sveitarfélagið þarf að vinna við fullnaðarafgreiðslu deiliskipulags eða deiliskipulagsbreytingar. Afgreiðslur hér að ofan fela í sér kostnað við umfjöllun sveitarfélagsins auk auglýsinga um kynningu skipulagsins og gildistöku. Landeigandi eða fram­kvæmdar­aðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breyt­ingu á deiliskipulagi á hans kostnað. Um ferli slíks fer skv. 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  Framkvæmdaleyfi og skipulagsvinna Gjald kr. Athugasemdir
1 Framkvæmdir (efnistökuleyfi) 45.700 Lítið svæði
2 Framkvæmdaleyfi 152.400 Lágmarksgjald
3 Grenndarkynning 50.800 Vegna byggingar- eða rekstrarleyfis
4 Lítil breyting á deiliskipulagi eða lóðarblaði 111.800 Grenndarkynning og lóðarblað
5 Deiliskipulagsbreyting 152.400 Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010
6 Deiliskipulagsbreyting 203.200 Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010
7 Nýtt deiliskipulag 203.200 Samkvæmt 40. og 41. gr. laga nr. 123/2010
8 Breyting á aðalskipulagi 203.200 Viðmiðunargjald

14. gr.

Gjaldskrá fyrir þjónustu og leyfisveitingu.

Greiða skal fyrir þjónustu og leyfisveitingu sem byggingarfulltrúi veitir umfram þá sem innifalin er í byggingarleyfisgjaldi.

  Gjöld fyrir leyfisveitingar og þjónustu Kr.
1 Endurskoðun aðaluppdrátta 32.800
2 Hver endurskoðun séruppdráttar 10.700
3 Afgreiðslugjald og endurnýjun leyfis án breytinga 32.800
4 Aukavottorð um byggingarstig og stöðuúttekt 32.800
5 Eignaskiptayfirlýsingar, hver umfjöllun 19.200
6 Gjald fyrir lóðarúthlutun 162.500
7 Gjald fyrir framlengingu lóðarúthlutunar 66.000
8 Breyting á lóðarleigusamningi að beiðni lóðarhafa 13.600
9 Umsýslugjald vegna þinglýsingar lóðarsamnings er 0,65% af fasteignamati  
10 Fyrir breytingu á lóðarblaði eða gerð nýs lóðarblaðs 19.200
11 Húsaleiguúttekt 26.000
12 Útkall byggingarfulltrúa að óþörfu (ath. að um tímagjald er að ræða) 16.200
13 Afgreiðsla stöðuleyfis 32.800
14 Endurnýjun stöðuleyfis 40.600
15 Fyrir hverja útsetningu lóðar/húss, hver mæling, skv. tilboði  
16 Úttekt vegna meistaraskipta 10.200
17 Úttekt vegna byggingarstjóraskipta 43.700
18 Af viðameiri framkvæmdum er heimilt að innheimta tímavinnugjald af þeirri vinnu sem lagt er út í við gerð úttekta vegna meistara- og byggingarstjóraskipta, kr. 15.900 á tímann  
19 Leyfi til niðurrifs mannvirkja 25.500
20 Breyting á skráningu 26.000
21 Aðrar leyfisveitingar, úttektir og vottorð/vinna sérfræðings 25.500
22 Ljósritun A3 teikningar á pdf-formi (hvert viðhengi) 480

15. gr.

Greiðslur og greiðsluskilmálar.

Gjalddagi 50% gatnagerðargjalds er við lóðarveitingu og gjalddagi eftirstöðva þegar byggingarleyfi er veitt, þó eigi síðar en 6 mánuðum frá lóðarúthlutun. Hafi gjöldin eigi verið greidd innan ofan­greinds frests, fellur úthlutun lóðarinnar úr gildi.

Gjalddagi gatnagerðargjalds í öðrum tilvikum en við úthlutun lóðar miðast við útgáfu bygg­ingar­leyfis.

Umsækjandi um lóð, sem fengið hefur sömu lóð úthlutað án þess að greiða gatnagerðargjald innan mánaðar, fær lóðinni ekki úthlutað í þriðja sinn, nema fyrir liggi greiðsla gatnagerðargjalds.

Eindagi gjalda samkvæmt samþykkt þessari er 30 dögum eftir gjalddaga.

16. gr.

Ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

Lóðarhafi leigulóðar og eigandi eignarlóðar ber ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

17. gr.

Endurgreiðsla byggingar- og gatnagerðargjalds.

Byggingarleyfisgjöld eru óafturkræf þótt lóðarúthlutun og byggingarleyfi falli úr gildi, þar sem lagt hefur verið í þá vinnu sem umfjöllun og afgreiðsla krefur, að undanskildum kostnaði við loka- og áfangaúttektir.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt í eftirtöldum tilvikum:

  1. Ef lóðarhafi skilar úthlutaðri lóð eða ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða fellur niður, sbr. reglur sveitarfélagsins um úthlutun lóða.
  2. Ef gatnagerðargjald hefur verið greitt í tengslum við útgáfu byggingarleyfis, en leyfið fellur úr gildi.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt innan 30 daga, vegna endurgreiðslu skv. a-lið, sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við útgáfu byggingarleyfis sbr. b-lið, en þá skal gatnagerðargjald endurgreitt innan 30 daga frá því að byggingarleyfishafi hefur sannanlega krafist endurgreiðslu.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt með verðbótum, án vaxta, miðað við breytingu vísitölu neyslu­verðs frá því lóðarhafi greiddi gatnagerðargjaldið til endurgreiðsludags.

Um endurgreiðslu fer að öðru leyti skv. 9. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006.

Hafi gjöldin eigi verið greidd innan ofangreinds frests, fellur úthlutun úr gildi.

Umsækjandi lóðar, sem fengið hefur sömu lóð úthlutað á ný og greiðir ekki gjöldin innan mánaðar, fær ekki úthlutað lóð í þriðja sinn nema fyrir liggi greiðsla gatnagerðargjalds. Eindagi gjalda skv. gjaldskrá þessari er 30 dögum eftir gjalddaga.

Af gjaldföllnu gatnagerðargjaldi skulu greiðast dráttarvextir, skv. ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

18. gr.

Ýmis ákvæði.

Öll gjöld, önnur en gatnagerðargjald, samkvæmt gjaldskrá þessari eru miðuð við vísitölu bygg­ingar­kostnaðar í janúar 2015 120,9, (grunnur frá 2010). Endurreikna skal gjöldin í upphafi hvers árs, á grundvelli vísitölu byggingarkostnaðar í janúar og gilda þau til loka ársins.

Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari eru, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, tryggð með lög­veðs­rétti í viðkomandi fasteign og eru aðfararhæf samkvæmt 10. tl. 1. mgr. laga um aðför nr. 90/1989. Séu gjöld ekki greidd á eindaga skulu reiknast dráttarvextir frá gjalddaga, skv. ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kostnaður lóðarhafa vegna lóðar sem er skilað eða þegar byggingarleyfi er afturkallað, vegna atriða er varða lóðarhafa, svo sem hönnunar- og rannsóknarkostnaður á lóðinni eða framkvæmdir unnar samkvæmt graftrarleyfi áður en byggingarleyfi er gefið út, er ekki endurgreiddur af sveitarfélaginu. Sé lóð afturkölluð eða byggingarleyfi fellt úr gildi eftir að undirstöður eru fullgerðar, eða á síðari stigum byggingarframkvæmda, skal dómkveðja tvo matsmenn til að verðleggja þær framkvæmdir sem unnar hafa verið, enda hafi þær verið teknar út og viðurkenndar af byggingarfulltrúa. Kostnað vegna matsins greiða sveitarfélagið og lóðarhafi að jöfnu. Sveitarfélagið skal leysa til sín lóðina með mannvirkjum á grundvelli mats hinna dómkvöddu matsmanna að frádreginni hlutdeild lóðarhafa í kostnaði vegna matsgerðarinnar.

19. gr.

Heimildarákvæði.

Sveitarstjórn er heimilt að undanþiggja einstök hverfi, götur eða landsvæði ákvæðum 3. gr. að öllu leyti, ef um er að ræða að sveitarfélagið semji við einn og sama framkvæmdaraðila, um að taka að sér að byggja öll mannvirki á svæðinu og ganga að fullu frá götum, bifreiðastæðum, opnum svæðum o.s.frv. Í slíkum tilfellum skal framkvæmdaraðili greiða sveitarsjóði sem nemur að minnsta kosti 15% af útreiknuðu samanlögðu gatnagerðargjaldi til að standa straum af kostnaði við tengigötur. Sveitarsjóður skal eftir sem áður yfirtaka til rekstrar þær götur sem byggðar eru með framangreindum hætti.

20. gr.

Samþykkt og gildistaka.

Gatnagerðargjald byggir á lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og reglugerð um gatna­gerðar­gjald nr. 543/1996.

Byggingarleyfis- og þjónustugjöld byggja á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og bygg­ingar­reglugerð nr. 112/2012.

Framkvæmdaleyfi og gjöld fyrir skipulagsáætlanir byggja á skipulagslögum nr. 123/2010.

Gjaldskrá þessi skal endurskoðuð í desember ár hvert.

Gjaldskrá þessi öðlast gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Vegna gatnagerðargjalds, sem lagt hefur verið á fyrir gildistöku gjaldskrár þessarar en hefur ekki verið greitt að fullu, skal farið eftir ákvæðum þeirrar gjaldskrár sem álagning gatnagerðargjalds byggði á.

Samþykkt af sveitarstjórn Súðavíkurhrepps, 8. maí 2015.

Pétur G. Markan sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 23. desember 2015