Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1048/2020

Nr. 1048/2020 27. október 2020

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.

1. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 3. gr. reglugerðarinnar:

3. mgr. orðast svo: Langtímavegabréfsáritun felur í sér heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga og skal útlendingur sem sækir um slíka áritun vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari. Dvöl útlendings þegar sótt er um slíka áritun skal vera í samræmi við 49. gr. útlendingalaga nema annað sé tekið fram. Langtíma­vegabréfsáritun er einungis heimilt að gefa út einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili.

 

2. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein sem verður 5. gr. a, svohljóðandi:

Heimilt er að veita útlendingi sem er undanþeginn áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun í allt að 180 daga til að stunda hér á landi fjarvinnu sæki hann um slíka áritun áður en hann kemur til landsins. Sé útlendingur kominn til landsins þegar sótt er um langtímavegabréfsáritun í þeim tilgangi að stunda hér á landi fjarvinnu er heimilt að veita hana í allt að 90 daga.

Heimilt er að veita útlendingi sem er undanþeginn áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun til þess að dvelja með maka sínum sem dvelur hér á landi í samræmi við 1. mgr. Um það hver telst maki samkvæmt ákvæði þessu fer eftir 69. gr., sbr. 70. gr. laga um útlendinga.

Heimilt er að veita barni sem er yngra en 18 ára og er undanþegið áritunarskyldu langtíma­vegabréfsáritun ef foreldri dvelur hér á landi á grundvelli 1. mgr. eða 2. mgr. Um skilgreiningu á því hvað er barn samkvæmt ákvæði þessu fer eftir 69. gr., sbr. 71. gr. laga um útlendinga.

Útlendingur sem sækir um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 1. mgr. skal auk almennra skil­yrða sýna fram á erlendar tekjur sem samsvara kr. 1.000.000 á mánuði.

Í þeim tilvikum þegar útlendingur sækir um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 2. mgr. þarf auk almennra skilyrða að sýna fram á að sá sem fékk áritun samkvæmt 1. mgr. hafi erlendar tekjur sem samsvara kr. 1.300.000 á mánuði.

Í þeim tilvikum þegar sótt er um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 3. mgr. þarf auk almennra skilyrða að sýna fram á staðfestingu á því að barn á skólaskyldualdri skv. íslenskum lögum fái kennslu frá skóla í heimaríki eða skóla á Íslandi sem hefur samþykkt að taka við barninu eða með heimakennslu.

Með fjarvinnu skv. 1. mgr. er átt við skipulag og framkvæmd vinnu með notkun upplýsinga­tækni þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi á starfsstöð erlendis er unnin utan þeirrar starfsstöðvar hér á landi. Þeim sem sinnir fjarvinnu, sbr. 1. mgr., er óheimilt að starfa í þágu inn­lendra aðila eða starfa á annan hátt á innlendum vinnumarkaði.

Sé fjarvinnu sinnt í þágu erlends vinnuveitanda skal viðkomandi útlendingur sýna fram á stað­festingu frá vinnuveitenda um að honum sé heimilt að inna starf sitt af hendi hér á landi.

Sé fjarvinnu sinnt af sjálfstætt starfandi einstaklingi skal hann sýna fram á að hann sé sannan­lega sjálfstætt starfandi í því landi sem hann hefur fasta búsetu eða starfar alla jafna.

 

3. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 21. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 27. október 2020.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Haukur Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 28. október 2020