1. gr.
Við 11. gr. reglugerðarinnar bætast þrjár nýjar málsgreinar sem verða 4., 5. og 6. mgr. og orðast svo:
Fyrir valkvæða sýnatöku vegna greiningar á SARS-CoV-2 samkvæmt reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 nr. 580/2020 greiðir einstaklingur gjald samkvæmt þeirri reglugerð.
Sýnataka hjá einstaklingum sem sýna einkenni sjúkdómsins COVID-19 í samræmi við fagleg fyrirmæli landlæknis er þeim að kostnaðarlausu skv. 1. mgr.
Uppfylli einstaklingur ekki skilyrði faglegra fyrirmæla landlæknis skal hann greiða gjald fyrir sýnatöku samkvæmt reglugerð nr. 1248/2019, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Frá og með 1. júlí 2020 skal greiða gjald sem nemur 11.000 kr. og rennur gjaldið til þeirrar heilbrigðisstofnunar sem framkvæmir sýnatökuna. Gjaldið myndar ekki afsláttarstofn skv. 4. gr. reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. jafnframt 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Heilbrigðisstofnun er jafnframt heimilt að taka komugjald.
2. gr.
Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 12., 13., 17. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, og 1. tölul. 1. mgr. og 5. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 10. júní 2020.
Svandís Svavarsdóttir.
|