1. gr.
Almennt.
Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til fjögurra ára í senn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði.
Sveitarfélög sem mynda sameiginlegt atvinnusvæði eða þar sem aðrar aðstæður mæla með skulu jafnframt gera sameiginlega húsnæðisáætlun fyrir svæðið. Með sameiginlegu atvinnusvæði er átt við að landfræðileg nálægð sveitarfélaga sé þannig að íbúar eins sveitarfélags sæki með auðveldum hætti atvinnu í öðru nágrannasveitarfélagi.
Íbúðalánasjóði ber að fylgjast með áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.
Íbúðalánasjóður lætur sveitarfélögum í té þau gögn og aðrar upplýsingar á sviði húsnæðismála sem hann hefur safnað og nýst geta sveitarfélögum við vinnslu húsnæðisáætlana.
2. gr.
Húsnæðisáætlanir.
Í húsnæðisáætlun skal gerð grein fyrir því hvernig sveitarfélag ætlar að mæta húsnæðisþörf.
Í húsnæðisáætlun skal m.a. gerð grein fyrir eftirfarandi:
- Stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu:
- Mat á stöðu framboðs íbúða í sveitarfélaginu.
- Greining á fjölskyldugerðum í sveitarfélaginu.
- Greining á fjölda og hlutfalli leiguíbúða í sveitarfélaginu.
- Greining á fjölda og hlutfalli búseturéttaríbúða í sveitarfélaginu.
- Greining á umfangi byggingarframkvæmda í sveitarfélaginu.
- Greining á mögulegu framboði íbúða sem ekki eru í notkun sem íbúðarhúsnæði.
- Skipulagsáætlunum:
- Skipulagsáætlanir sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
- Lóðaframboð til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis.
- Áform um þéttingu byggðar í sveitarfélaginu.
- Þarfagreiningu:
- Mat á húsnæðisþörf vegna mannfjöldaspár, efnahagsþróunar og svæðisbundinnar atvinnustefnu.
- Mat á húsnæðisþörfum þeirra sem þurfa sértækar húsnæðislausnir s.s. fatlaðs fólks, aldraða, námsmanna og þeirra sem eru tekju- og eignaminni.
- Mat á húsnæðisþörf ólíkra hópa.
- Markmiði og aðgerðaráætlun sveitarfélagsins:
- Mat á áætlaðri uppbyggingu og kostnaði vegna uppbyggingar til að mæta húsnæðisþörf í sveitarfélaginu.
- Reglur sveitarfélagsins um veitingu stofnframlaga, áætlaður kostnaður við veitingu stofnframlaga og fjármögnun.
- Reglur sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning og áætlaður kostnaður vegna sérstaks húsnæðisstuðnings.
Íbúðalánasjóður útbýr fyrirmynd sem sveitarfélög geta nýtt við vinnslu húsnæðisáætlana.
3. gr.
Endurskoðun húsnæðisáætlana.
Sveitarfélag og sveitarfélög sem eru með sameiginlega húsnæðisáætlun skulu skoða árlega hvort þörf sé á endurskoðun húsnæðisáætlunar með tilliti til þróunar eða breytinga sem orðið hafa á forsendum hennar síðastliðið ár. Uppfærðum húsnæðisáætlunum skal skila til Íbúðalánasjóðs eigi síðar en 1. mars ár hvert.
4. gr.
Samræmi við aðrar áætlanir.
Sveitarfélög skulu tryggja að húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sé í samræmi við gildandi fjárhags- og skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og eftir atvikum aðrar áætlanir sem áhrif hafa á þróun húsnæðismála.
5. gr.
Eftirlit.
Sinni sveitarfélag ekki skyldu sinni samkvæmt reglugerð þessari skal Íbúðalánasjóður senda sveitarfélaginu áskorun um úrbætur og gefa því frest til að verða við henni. Bregðist það ekki við innan frestsins skal Íbúðalánasjóður tilkynna það til ráðuneytisins.
6. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 14. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Sveitarfélög skulu ljúka við gerð húsnæðisáætlunar í samræmi við reglugerð þessa ekki síðar en 1. mars 2019.
Velferðarráðuneytinu, 21. desember 2018.
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ingibjörg Broddadóttir.
|