Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
1033/2018

Nr. 1033/2018 7. nóvember 2018

REGLUGERÐ
um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra þjónustu- og rekstraraðila sem veita þjónustu við fatlað fólk.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um útgáfu og skilyrði starfsleyfa til handa félagasamtökum, sjálfs­eignar­stofnunum og öðrum þjónustu- og rekstraraðilum sem veita eða hyggjast veita þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Reglugerðin gildir einnig um aðila sem reka starfsemi sem ekki er lögbundin en hefur það að meginmarkmiði að veita fötluðu fólki sértæka aðstoð og þjónustu.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að og tryggja að umgjörð þjónustu við fatlað fólk sem veitt er af félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og öðrum þjónustu- og rekstraraðilum sé í sam­ræmi við lög og reglur og uppfylli þær faglegu kröfur sem gera má til slíkra þjónustu- og rekstrar­aðila. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og því sköpuð skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Skapa skal skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum og þjónustan miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður.

II. KAFLI

Leyfisveitingar.

3. gr.

Starfsleyfisskylda.

Öll þjónusta félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra aðila sem fellur undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal hafa gilt starfsleyfi.

Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi sem fellur undir ákvæði þessarar reglugerðar án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út.

Þeir sem vilja hafa með höndum umsýslu með notendastýrðri persónulegri aðstoð samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skulu hafa til þess starfsleyfi. Gildir þar einu hvort einstaklingur hyggst starfrækja aðstoðina fyrir sjálfan sig eða hvort um er að ræða fyrirtæki, sjálfseignarstofnun eða aðra starfsemi. Umsýsluaðili með fleiri en einum NPA-samningi skal vera lögaðili.

4. gr.

Umsókn um starfsleyfi.

Umsókn ásamt fylgigögnum skv. 5. gr. skal skila rafrænt á þar til gerðu eyðublaði og send velferðar­ráðuneytinu.

Telji velferðarráðuneytið að umsókn sé ófullnægjandi eða að upplýsingar vanti skal það leiðbeina umsækjanda um hvaða upplýsingar vantar og gefa honum hæfilegan frest til úrbóta. Sé nauðsyn­legum gögnum ekki skilað innan frests skal umsókn hafnað.

5. gr.

Skilyrði starfsleyfis.

Til þess að þjónustu- og rekstaraðili fái útgefið starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal hann uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Þjónustu- og rekstraraðili hafi ekki hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hafi viðkomandi verið dæmdur til refs­ingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi við­kom­andi til að gegna því starfi sem um ræðir, meðal annars að teknu tilliti til eðlis starf­seminnar og alvarleika brotsins.
  2. Húsnæði fullnægi kröfum laga og reglugerða um aðgengi og á sviði hollustuhátta og bygg­ingar- og brunamála og með tilliti til fyrirhugaðrar starfsemi og fjölda notenda sem áformað er að njóti þjónustunnar.
  3. Lögð sé fram rekstraráætlun sem tilgreini leiðir til öflunar rekstrarfjár og fyrirhugaða nýtingu þess, sbr. einnig 39. gr. laga nr. 38/2018.
  4. Þjónustu- og rekstraraðili uppfylli að öðru leyti kröfur laga og reglugerða eftir því sem við á um reksturinn og þjónustuna, svo sem um aðbúnað starfsmanna, áhættumat og reikn­ings­skil.
  5. Ekki liggi fyrir önnur málefnaleg sjónarmið sem mæla gegn veitingu starfsleyfis með tilliti til þess rekstrar sem um ræðir og starfsleyfið nær til.

6. gr.

Útgáfa starfsleyfis.

Ráðuneytið skal afla umsagnar notendaráðs fatlaðs fólks í því sveitarfélagi sem starfsemin er, áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til afgreiðslu. Ef fyrirhugað er að reka starfsemi á fleiri en einu svæði skal afla umsagna frá notendaráði á hverju svæði fyrir sig.

Tilkynna skal umsækjanda um starfsleyfi ákvörðunina skriflega og upplýsa um heimild til að krefjast rökstuðnings fyrir henni.

Séu skilyrði 5. gr. reglugerðar þessarar uppfyllt er gefið út starfsleyfi.

Starfsleyfi skulu almennt vera ótímabundin. Þó er heimilt að veita starfsleyfi til tiltekins tíma eða binda leyfið við tiltekinn árstíma mæli eðli starfseminnar með því eða starfsleyfið sé veitt með skilyrðum sem þarf að uppfylla innan tiltekins tíma. Hefjist starfsemi leyfishafa ekki innan eins árs frá dagsetningu útgáfu starfsleyfis fellur leyfið úr gildi.

7. gr.

Umfang starfsleyfis.

Starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal gefið út á nafn umsækjanda. Það heimilar eingöngu þjónustu af þeirri tegund og í því húsnæði sem þar er tilgreint og eftir atvikum á þeim árstíma sem tilgreindur er í leyfinu.

III. KAFLI

Breytingar á leyfisskyldri starfsemi.

8. gr.

Breytingar á starfsemi og framsal réttinda.

Þjónustu- og rekstraraðila ber að veita velferðarráðuneytinu upplýsingar um breytingar sem kunna að verða á rekstri eða skipulagi, sem hefur áhrif á þjónustustig starfseminnar, án tafa. Sé þjón­ustan veitt á grundvelli þjónustusamnings við sveitarfélag skal jafnframt upplýsa það um breyt­ingarnar.

Ráðuneytið metur upplýsingar skv. 1. mgr. innan fjögurra vikna frá móttöku þeirra og tilkynnir þjónustu- og rekstraraðila skriflega hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi. Ber þá umsækjanda að leggja fram nýja umsókn í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar þessarar.

Starfsleyfishafa er óheimilt að semja við þriðja aðila um að annast einhverja þá þætti sem liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis nema viðsemjandi hafi gilt starfsleyfi til þess þáttar sem um ræðir. Starfsleyfishafa er þó heimilt að semja við þriðja aðila um að annast afmarkaða rekstrar- eða þjónustuþætti sem ekki liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis.

Taki nýr þjónustu- og rekstraraðili, við starfsemi sem hefur gilt starfsleyfi er ráðuneytinu heimilt, að fenginni umsókn þar um, að færa starfsleyfið á nýjan þjónustu- og rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt starfsleyfi. Skilyrði þess að heimilt sé að flytja starfsleyfi á nýjan þjónustu- og rekstraraðila er að hann uppfylli skilmála skv. 5. gr. og að ekki sé um að ræða breytingar á þjón­ustustigi starfseminnar. Með því færast öll skilyrði, réttindi og skyldur sem felast í starfsleyfinu yfir á nýja leyfishafann og skal starfsleyfið fært yfir á nafn hans.

9. gr.

Aðilar sem eru þegar í rekstri.

Þeim félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og öðrum þjónustu- og rekstaraðilum sem við gildis­töku reglugerðar þessarar veita þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðningsþarfir eða hafa það að meginmarkmiði að veita fötluðu fólk sértæka aðstoð og þjónustu, sbr. 2. mgr. 1. gr, ber að sækja um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar þessarar innan sex mánaða frá gildistöku hennar.

10. gr.

Tilkynning um lok starfsemi.

Þegar þjónustu- og rekstraraðili tekur ákvörðun um að hætta starfsemi ber honum að tilkynna það til ráðuneytisins án ástæðulauss dráttar og fellur þá starfsleyfið úr gildi við lok starfseminnar.

11. gr.

Afturköllun starfsleyfis.

Liggi fyrir upplýsingar um að þjónustu- og rekstraraðili vanræki skyldur sínar gagnvart notendum þjónustunnar eða aðrir annmarkar séu á starfsemi starfsleyfishafa skal velferðarráðuneytið tilkynna þjónustu- og rekstraraðila og eftir atvikum ábyrgðaraðila um það skriflega. Í tilkynningu skal tilgreina hverjir annmarkarnir eru, og eftir atvikum með hvaða hætti skuli bætt úr, og aðila gefinn frestur til úrbóta. Hafi ekki verið bætt úr tilgreindum annmörkum innan veitts tímafrests getur velferðarráðuneytið afturkallað útgefið starfsleyfi. Sé að mati ráðuneytsins um að ræða alvarlega annmarka á starfsemi starfsleyfishafa er því heimilt að afturkalla starfsleyfi samstundis og skal þá stöðva starfsemi tafarlaust.

Atriði sem geta orsakað afturköllun starfsleyfis eru til að mynda ef þjónustu- og rekstraraðili:

Greiðir starfsfólki ekki laun í samræmi við kjarasamninga eða virðir ekki réttindi þess að öðru leyti.
Virðir ekki lagareglur um meðferð persónuupplýsinga.
Ráðstafar tekjum af starfseminni í þágu annarra verkefna eða misfer með fjármuni notenda.
Býður ekki upp á viðeigandi aðlögun, sbr. 12. tölul. 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 7. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast gildi 7. nóvember 2018.

Velferðarráðuneytinu, 7. nóvember 2018.

Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 26. nóvember 2018