I. KAFLI
Almennt.
1. gr.
Gildissvið og stjórnsýsla.
Samþykkt þessi gildir um hunda- og kattahald í Þingeyjarsveit sem er á starfssviði heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra og sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari. Í þessari samþykkt er eingöngu fjallað um hunda- og kattahald og eiga því orðin dýr og gæludýr í þessari samþykkt eingöngu við um hunda og ketti.
Um almennan aðbúnað og velferð gæludýra sem og um ræktun, verslun, geymslu og leigu gæludýra gilda ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
Samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, fer Matvælastofnun með eftirlit og framkvæmd þeirra laga.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra fer með málefni gæludýra og gæludýrahalds samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Umhverfis- og framkvæmdasvið Þingeyjarsveitar fer með framkvæmd samþykktar þessarar í umboði heilbrigðisnefndar, nema sérstaklega sé getið um eftirlit heilbrigðiseftirlits í samþykkt þessari. Umhverfis- og framkvæmdasvið Þingeyjarsveitar annast framkvæmdina í umboði sveitarstjórnar.
Dýraeftirlitsmenn geta leitað aðstoðar heilbrigðisnefndar, Matvælastofnunar og lögregluyfirvalda, ef og þegar þörf krefur, t.d. ef gæludýr er að mati eftirlitsins hættulegt umhverfi sínu, vörsluaðili dýrsins tálmar starfi eftirlitsaðila samkvæmt samþykkt þessari eða þegar nauðsynlegt er vegna almannahagsmuna, dýravelferðar eða heilbrigðis- og öryggissjónarmiða, að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja dýr.
2. gr.
Hunda- og kattahald.
Hunda- og kattahald er heimilað í Þingeyjarsveit, að fengnu leyfi, sbr. 3. gr., með þeim takmörkunum og að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari.
Óheimilt er að hafa fleiri en tvo hunda og/eða tvo ketti eldri en 4 mánaða á sama heimili. Hægt er að sækja um undanþágu til umhverfis- og framkvæmdasviðs frá hámarksfjölda dýra gegni þau öðru hlutverki en sem gæludýr s.s. til smölunar, minka-/refaleitar, leiðsagnar eða að halda niðri meindýrum í útihúsum. Sé óskað eftir leyfi til að halda fleiri dýr en tvo hunda og/eða tvo ketti skal sækja um það sérstaklega til umhverfis- og framkvæmdasviðs. Slíkum umsóknum skal fylgja rökstuðningur um ástæður, aðbúnað og hæfni umráðamanns til frekara dýrahalds. Ekki þarf að sækja um undanþágu fyrir þau dýr sem fædd eru fyrir gildistöku samþykktar þessarar. Skylt er þó að skrá öll dýr, hjá sveitarfélaginu, innan 6 mánaða frá gildistöku samþykktar þessarar.
3. gr.
Leyfi til hunda- og kattahalds.
Umsókn um leyfi til hunda- og kattahalds skal berast á þar til gerðu eyðublaði til umhverfis- og framkvæmdasviðs Þingeyjarsveitar, þar sem fram kemur kennitala, heimilisfang og nafn eiganda, nafn gæludýrs ásamt þeim gögnum sem fylgja a–d-liðum 2. mgr. þessarar greinar. Umsókn skal berast innan mánaðar frá því að hundur er tekinn inn á heimili, enda hafi samþykkis skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Heimilt er þó að halda hvolpa og kettlinga, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 4 mánaða, enda hafi samþykkis skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Útgáfa leyfis er háð staðgreiðslu skráningargjalds.
Við útgáfu leyfis fær leyfishafi afhenta merkta plötu, sbr. 8. gr. og eintak af samþykkt um hunda- og kattahald í Þingeyjarsveit. Listi yfir skráða hunda og ketti í Þingeyjarsveit er aðgengilegur á heimasíðu Þingeyjarsveitar og uppfærður reglulega.
Leyfi til hunda- og kattahalds má veita að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Umsækjandi skal vera lögráða.
- Að fyrir liggi samþykki sameigenda fjöleignarhúss þar sem það á við, sbr. 4. gr.
- Að hugað sé að ábyrgðartryggingu vegna dýrsins, sbr. 7. gr.
- Að dýrið sé örmerkt, sbr. 8. gr.
Leyfi er persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda er það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn.
Við mat umsóknar eða skráningar getur umhverfis- og framkvæmdasvið leitað umsagnar lögreglu og annarra yfirvalda um umsækjanda og þá hagi hans sem þýðingu geta haft á afgreiðslu umsóknar.
Hafi umsækjandi ítrekað eða gróflega gerst brotlegur við samþykkt þessa, fyrri samþykktir sama efnis, reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra eða lög nr. 55/2013 um velferð dýra, er heimilt að hafna umsókn hans.
4. gr.
Hundar og kettir í fjöleignarhúsum, raðhúsum o.fl.
Áður en dýr er tekið inn á heimili í fjöleignarhúsi skal afla samþykkis tilskilins hluta íbúa og/eða eigenda annarra íbúða, sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými, sbr. 33. gr. e. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þegar sótt er um leyfi til að halda dýr í fjöleignarhúsi skal umsókn fylgja skriflegt samþykki þeirra eigenda og íbúa, sem hlut eiga að máli.
Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til hunda- og kattahalds þó ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og/eða ferðir dýrsins um slík rými eða sameiginlega lóð bönnuð nema þegar verið er að koma dýrunum að og frá séreign, sbr. 33. gr. f. laga nr. 26/1994.
Ef annað er ekki tekið fram, nær samþykki skv. 1. mgr. einvörðungu til tiltekins dýrs og gildir á meðan dýrið lifir. Heimilt er að afturkalla samþykki ef forsendur breytast verulega. Ástæður, sem réttlætt geta afturköllun, eru m.a. heilbrigðisástæður, svo sem ofnæmi, og óþægindi og ónæði, sem fer verulega fram yfir það sem telst venjulegt og eðlilegt.
Ef um er að ræða annars konar sameign en um getur í 1. mgr., eða nábýli af öðrum toga og sameigandi eða nágranni telur dýrahald fara í bága við rétt sinn og hagsmuni, s.s. vegna ítrekaðs eða verulegs ónæðis og færi hann fram gild rök og fullnægjandi gögn því til stuðnings, getur umhverfis- og tæknisvið Þingeyjarsveitar synjað um umbeðið leyfi eða afturkallað áður veitt leyfi.
Ef íbúð í fjöleignarhúsi er leigð út skal leigusali upplýsa leigjanda um hvort dýrahald er leyft í húsinu.
Ef eigandi íbúðar í fjöleignarhúsi, sem veitt hefur leyfi fyrir dýri í annarri íbúð, selur íbúð sína helst samþykkið fyrir það dýr á meðan það lifir, sbr. 5. mgr. 33. gr. e. laga um fjöleignarhús.
5. gr.
Skammtímaheimsóknir.
Hundar eða kettir sem ekki eru skráðir í Þingeyjarsveit mega ekki dveljast þar lengur en í þrjá mánuði nema með leyfi umhverfis- og framkvæmdasviðs og að fengnu samþykki samkvæmt 4. gr. sé um fjöleignarhús að ræða.
Skemmri heimsóknir dýra í fjölbýlishúsum eru heimilar ef enginn mótmælir en fyrir þarf að liggja leyfi ef dvöl þeirra fer yfir nótt.
6. gr.
Hunda- og kattaskrá, tilkynningarskylda eiganda.
Upplýsingar um gæludýr skal skrá hjá umhverfis- og framkvæmdasviði Þingeyjarsveitar. Skrá skal heiti, skráningarnúmer og örmerkisnúmer.
Þar skal einnig skrá nafn og heimilisfang leyfishafa. Eiganda hunds eða kattar ber að tilkynna umhverfis- og framkvæmdasviði um aðseturs- og eigendaskipti. Einnig skal hann tilkynna umhverfis- og framkvæmdasviði ef dýrið drepst eða er flutt úr lögsagnarumdæminu.
7. gr.
Ábyrgðartrygging.
Leyfishafi ber ábyrgð á öllu því tjóni sem dýrin sannanlega kunna að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum. Æskilegt er að leyfishafi hafi ábyrgðartryggingu gæludýra eða sambærilega tryggingu s.s. ábyrgðartryggingu búfjár.
8. gr.
Ormahreinsun, örmerking og merkiplötur.
Skylt er að ormahreinsa hunda og ketti á hverju ári. Skal eigandi dýrs skila vottorði dýralæknis um ormahreinsun til umhverfis- og framkvæmdasviðs fyrir 31. desember ár hvert.
Allir kettir og hundar í Þingeyjarsveit skulu örmerktir, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 80/2016.
Hundar og kettir skulu ávallt bera ól með plötu um hálsinn, sbr. 1. mgr. 3. gr. Á plötuna skal greypa skráningarnúmer dýrsins.
9. gr.
Gjöld fyrir leyfi.
Fyrir leyfi til að halda hund eða kött skal leyfishafi greiða annars vegar leyfisgjald og hins vegar eftirlitsgjald. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði af dýrahaldinu og framkvæmd samþykktar þessarar. Sveitarstjórn setur gjaldskrá samkvæmt 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og skal láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.
Leyfisgjaldið greiðist einu sinni, við skráningu dýrs. Eftirlitsgjald greiðist einnig við skráningu dýrs, þ.e. hlutfallslega miðað við þann mánuð sem skráning fer fram og síðan árlega 1. mars með eindaga 1. apríl ár hvert. Dragist greiðsla lengur en mánuð fram yfir eindaga fellur leyfið niður.
Björgunarsveitar- og hjálparhundar eru undanþegnir eftirlitsgjaldi, en eru eftir sem áður skráningarskyldir og skulu uppfylla skilyrði 3. gr.
Heimilt er að veita þeim eigendum hunda sem sótt hafa námskeið viðurkennds hundaþjálfara 50% afslátt af eftirlitsgjaldi í eitt skipti fyrir hvern hund.
10. gr.
Atvinnustarfsemi.
Um atvinnustarfsemi s.s. ræktun, umfangsmikið hunda- og/eða kattahald fer samkvæmt 10. og 11. kafla reglugerðar nr. 80/2016. Dýrin skulu þó öll vera skráð hjá sveitarfélaginu.
II. KAFLI
Hundar.
11. gr.
Bannaðar hundategundir.
Óheimilt er að halda hunda af þeim tegundum sem tilgreindar eru í 13. gr. reglugerðar nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis og 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta.
12. gr.
Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengniskyldur.
Umráðamenn hunda skulu gæta þess vel, að hundar þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna, með stöðugu eða ítrekuðu ýlfri eða gelti.
Eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hundana.
Óheimilt er að láta hunda vera lausa, nema nytjahunda, sbr. þó 13. gr., þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss, sbr. þó 13. gr., og í umsjá manns sem hefur fullt vald yfir þeim.
Aðeins er heimilt að tjóðra hund ef nauðsyn ber til og þá einungis undir eftirliti í skamman tíma og þannig að hundinum stafi ekki hætta af.
Verði hundur uppvís að grimmd eða ógnandi hegðun tilkynnir sveitarfélagið eiganda um atvikið og ber eiganda að leggja fram atferlismat hundsins til sveitarfélagsins innan tíu virkra daga í framhaldi af því. Standist hundurinn ekki matið eða atferlismati er ekki skilað á tilsettum tíma skal hann tafarlaust aflífaður af dýralækni.
Bannað er að árásarþjálfa hunda.
Að öðru leyti skal fara að ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra, eftir því sem við á.
13. gr.
Staðir þar sem hundar mega vera lausir.
Heimilt er að sleppa hundum lausum á eftirtöldum stöðum og svæðum:
- Á skilgreindum útivistarsvæðum fyrir lausagöngu hunda, séu þau til staðar.
- Á eignarlöndum sem ekki eru í þéttbýli með leyfi landeigenda.
- Á auðum svæðum, fjarri íbúðabyggð, þar sem ekki er von á búfé og með þeim takmörkunum sem getið er um í 14. gr.
14. gr.
Óheimilir staðir.
Óheimilt er að hleypa hundum inn í opinberar stofnanir, skólahús, vatnsveitur, vatnsból og verndarsvæði þeirra, brunna og sjóveitur eða inn á aðra þá staði sem tilgreindir eru í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti, nema í þeim tilvikum sem eru tilgreind í 19. gr. reglugerðarinnar, m.a. um heimildir fatlaðs fólks með hjálparhunda. Einnig er óheimilt að hleypa dýrum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og inn í húsnæði vatnsveitna, sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.
Heimilt er þó að fara með gæludýr inn í íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir, snyrtistofur og aðra starfsemi sem sérstaklega er ætluð dýrum. Heimilt er, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar og með samþykki heilbrigðisnefndar að veita undanþágu til að halda hunda á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.
Ákvæði þessarar greinar gilda þó ekki um nytjahunda að störfum.
15. gr.
Lausir hundar, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður.
Sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hann. Hunda í lausagöngu skal færa í sérstaka hundageymslu, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra, og tilkynna eiganda um handsömunina svo fljótt sem auðið er. Eigandi hunds skal greiða allan kostnað við handsömun og geymslu hans áður en honum er afhentur hundurinn á ný. Ef hunds er ekki vitjað innan einnar viku frá tilkynningu um handsömun er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti er heimilt að aflífa hundinn enda sé eiganda gert ljóst hvað vanræksla á að vitja hundsins geti haft í för með sér. Finnist enginn eigandi hundsins er sveitarfélaginu heimilt að aflífa hundinn að tveim vikum liðnum frá handsömun.
III. KAFLI
Kettir.
16. gr.
Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengnisskyldur.
Eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.
Sérstaklega eru kattaeigendur hvattir til að gæta dýra sinna á varptíma fugla, hengja á þá bjöllur, kraga eða svuntur, takmarka útivistartíma, gefa þeim nægilega eða hverjar þær aðferðir sem gagnast gegn afráni á varptíma.
Leyfishöfum og umráðamönnum katta er skylt að fara vel með ketti og tryggja þeim góða vist og sjá til þess að þeir lendi ekki á flækingi. Að öðru leyti skal fara að ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
17. gr.
Óheimilir staðir.
Óheimilt er að hleypa köttum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar, nema í þeim tilvikum sem tilgreind eru í ákvæði sömu greinar reglugerðarinnar. Einnig er óheimilt að hleypa köttum inn á staði þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli. Ekki má heldur hleypa köttum inn í húsnæði vatnsveitna, sbr. reglugerð um neysluvatn og ölkelduvatn. Framangreindir staðir skv. 1. málsl. eru m.a. eftirfarandi:
- Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir, svo sem lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús, aðgerðastofur og sjúkraþjálfun.
- Skólar og leikvellir.
- Fangelsi.
- Íþróttastöðvar, íþróttahús, baðstaðir og heilsuræktarstöðvar.
- Snyrtistofur, nuddstofur, sólbaðsstofur og húðflúrstofur.
- Samkomustaðir, svo sem kirkjur, leikhús, tónleikasalir, söfn og kvikmyndahús.
- Gististaðir í flokki II, III og IV samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
- Mötuneyti.
- Sumarbúðir fyrir börn.
- Almenningssamgöngutæki.
Heimilt er þó að fara með gæludýr inn á staði þar sem er starfsemi sérstaklega ætluð dýrum, en það geta t.d. verið íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir og snyrtistofur fyrir dýr.
Heimilt er, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar og með samþykki heilbrigðisnefndar, að veita undanþágu til að halda ketti á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.
18. gr.
Lausir kettir, handsömun, geymsla, aflífun og kostnaður.
Umhverfis- og framkvæmdasvið Þingeyjarsveitar skal gera ráðstafanir til útrýmingar á villi- eða flækingsköttum. Í því skyni er heimilt að koma fyrir búrum, agni eða sambærilegum tækjum til að fanga ketti.
Fangaða ketti skal færa í sérstaka kattageymslu og auglýsa handsömunina og gera ráðstafanir til að hafa uppi á eiganda þeirra. Verði kattar ekki vitjað innan viku frá tilkynningu til eiganda er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta. Finnist enginn eigandi er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa.
Köttur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Hafi hálfvilltur (ómerktur) köttur verið handsamaður og eigandi hans gefið sig fram, er óheimilt að afhenda köttinn fyrr en að lokinni skráningu, örmerkingu, greiðslu eftirlitsgjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, örmerkingu, fóðrun, geymslu, auglýsingu eða aflífun kattar skal að fullu greiddur af eiganda.
IV. KAFLI
Þvingunarúrræði o.fl.
19. gr.
Þvingunarúrræði og afturköllun leyfa.
Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla leyfi og skráningu dýra ef vanhöld verða á greiðslu skráningargjalds sem og ef eigandi hefur brotið gegn samþykkt þessari. Einnig er heimilt að afturkalla öll leyfi og skráningar telji sveitarfélagið það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggis. Jafnframt getur sveitarfélagið, telji það og héraðsdýralæknir brýna þörf á, af sömu ástæðu bannað eða takmarkað gæludýrahald í dreifbýli.
Skráðir eigendur eða umráðamenn dýra sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessar skulu sæta skriflegri áminningu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta.
Ef skráður eigandi eða umráðamaður dýra vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um dýrahald og sinnir ekki þeim úrbótum eða áminningu sem hann hefur fengið getur sveitarstjórn afturkallað leyfi, bannað viðkomandi að halda dýr og látið fjarlægja dýrið
Skráðum eiganda dýrs er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.
20. gr.
Lögregluaðstoð.
Umhverfis- og framkvæmdasvið Þingeyjarsveitar getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar.
21. gr.
Viðurlög og kæruheimild.
Um viðurlög vegna brota á samþykkt þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Um kæruheimildir fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
22. gr.
Gildistaka.
Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi samþykktir sveitarfélaganna Þingeyjarsveitar nr. 281/2004 og Skútustaðahrepps nr. 22/2017 um hunda- og kattahald.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Þær undanþágur frá banni við hundahaldi sem veittar hafa verið fyrir gildistöku samþykktar þessarar halda gildi sínu.
II.
Þeim sem halda fleiri hunda en tvo þegar samþykktin tekur gildi er skylt að skrá þá innan sex mánaða og hafa þeir þá leyfi til að halda þá hunda á heimili sínu á meðan þeir lifa.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 7. mars 2023.
F. h. r.
Guðmundur B. Ingvarsson.
Trausti Ágúst Hermannsson.
|