1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglnanna:
- 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Svið hinnar sameiginlegu stjórnsýslu skólans eru: alþjóðasvið, framkvæmda og tæknisvið, fjármálasvið, kennslusvið, markaðs- og samskiptasvið, mannauðssvið, upplýsingatæknisvið, og vísinda- og nýsköpunarsvið og þróunarsvið.
- 5. málsl. 1. mgr. orðast svo: Kennslusvið, vísinda- og nýsköpunarsvið, markaðs- og samskiptasvið, og alþjóðasvið og þróunarsvið heyra beint undir rektor.
- Orðið „stjórnsýslu“ í 6. málsl. 1. mgr. fellur brott.
- Á undan orðinu „hefur“ í 6. málsl. 1. mgr. koma orðin: fjármála og rekstrar.
2. gr.
Á eftir 20. mgr. 86. gr. reglnanna bætist við ný málsgrein sem orðast svo:
Diplómanám í farsæld barna, áföll og samþætt þjónusta (60e) viðbótarpróf á meistarastigi.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. reglnanna:
- Á eftir 11. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
Diplómanám í alþjóðasamskiptum er 60 eininga sjálfstætt nám að loknu BA/BS-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Hægt er að fá námið metið inn í MA-nám í alþjóðasamskiptum að uppfylltum inntökuskilyrðum.
- Á eftir núverandi 14. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
Diplómanám í kynjafræði er 60 eininga sjálfstætt nám að loknu BA/BS-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Hægt er að fá námið metið inn í MA-nám í kynjafræði að uppfylltum inntökuskilyrðum.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. reglnanna:
- Á eftir e-lið í upptalningu kennslugreina í 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Til MS-prófs í heilsugæsluhjúkrun.
- Núverandi stafliður f verður stafliður g og þannig koll af kolli.
- Á eftir 7. mgr. bætist við ný málsgrein sem hljóðar svo í heild sinni:
MS-nám í heilsugæsluhjúkrun er tveggja ára bóklegt nám og starfsþjálfun í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landspítala, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og landshlutaheilbrigðisstofnanir, 120 einingar, að loknu BS-prófi í hjúkrunarfræði. Nemendur brautskrást með sameiginlega prófgráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 98. gr. reglnanna:
- Á eftir 10. mgr. 98. gr. bætist við ný málsgrein sem hljóðar svo í heild sinni:
Inntökuskilyrði í námsleiðina heilsugæsluhjúkrun, MS, er 210–240 eininga BS-próf í hjúkrunarfræði með að lágmarki 7,0 í meðaleinkunn, íslenskt hjúkrunarleyfi og staðfest ráðning í sérnámsstöðu við heilbrigðisstofnun. Innritun er miðuð við tiltekinn stúdentafjölda á hverju ári, samkvæmt ákvörðun háskólaráðs, að fengnum rökstuddum tillögum fræðasviðs heilbrigðisvísinda fyrir hönd deildar. Verði umsækjendur fleiri en nemur þeim fjölda sem háskólaráð ákvarðar, fjallar námsstjórn í heilsugæsluhjúkrun um umsóknirnar og tekur ákvörðun um val stúdenta.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 107. gr. reglnanna:
- Á eftir orðinu „til“ í 1. mgr. koma orðin: BS- og.
- 10. mgr. orðast svo í heild sinni:
Nám í tannlæknisfræði til kandídatsprófs jafngildir 360 námseiningum, að meðtöldum 180 einingum til BS-prófs í tannlæknisfræði. Nám til BS-prófs í tannlæknisfræði jafngildir 180 einingum og nám til BS-prófs í tannsmíði jafngildir 180 einingum.
- Orðin „eða cand. odont. prófi“ í 2. málsl. 12. mgr. falla brott.
- 2. málsl. 14. mgr. orðast svo: Nemendur sem lokið hafa 180 eininga cand. odont.-prófi, að loknum 180 einingum til BS-prófs í tannlæknisfræði, fá metnar 30 einingar fyrir BS/cand. odont.-námið og þurfa því að ljúka 30 eininga kjarnanámskeiðum sem skiptast í skyldu- og valnámskeið.
- Í stað orðsins „grunnnámi“ í 1. málsl. 15. mgr. koma orðin: grunn- og/eða kandídatsnámi.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. reglnanna:
- Í stað orðsins „námi“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur orðið: kandídatsnámi.
- 2. málsl. 9. mgr. orðast svo: Samanlagður heildarnámstími í BS- og kandídatsnámi í tannlæknisfræði má ekki vera lengri en sjö ár og námstími tannsmíðanema ekki lengri en fjögur ár.
8. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. reglnanna:
- Í stað orðsins „enska“ í a-lið í 1. mgr. koma orðin: ensk fræði.
- Í stað orðsins „japanska“ í a-lið í 1. mgr. koma orðin: japanskt mál og menning.
- Í stað orðsins „enska“ í c-lið í 1. mgr. koma orðin: ensk fræði.
9. gr.
Eftirfarandi breyting verður á 117. gr. reglnanna:
- Á eftir 16. mgr. bætast við tvær nýjar málsgreinar sem hljóða svo:
Diplómanám, íslenskustoð í menntavísindum, er sjálfstætt 60 eininga grunnnám. Diplómanám í skapandi sjálfbærni er sjálfstætt 60 eininga grunnnám.
10. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 128. gr. reglnanna:
- Í stað orðsins „lífefnafræði“ í upptalningu kennslugreina í b-lið í 1. mgr. koma orðin: lífefna- og sameindalíffræði.
- Í stað orðsins „lífefnafræði“ í upptalningu kennslugreina í c-lið í 1. mgr. koma orðin: lífefna- og sameindalíffræði.
- 3. mgr. fellur brott í heild sinni.
11. gr.
Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 9. desember 2024.
Jón Atli Benediktsson.
|