1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga hvað varðar:
- Kerfi um hámarksmagn og tilhögun upplýsingagjafar að því er varðar gagnsæi og aðra útreikninga, skv. 5. og 22. gr. MiFIR.
- Kröfur um gagnsæi fyrir viðskiptavettvanga og verðbréfafyrirtæki að því er varðar hlutabréf, heimildarskírteini, kauphallarsjóði, skírteini eða aðra svipaða fjármálagerninga og um þá skyldu að viðskipti með tiltekin hlutabréf skuli fara fram á viðskiptavettvangi eða hjá innmiðlara, skv. 4., 7., 14., 20., 22. og 23. gr. MiFIR.
- Tilgreiningu gagna fyrir og eftir viðskipti sem boðið er upp á og aðgreiningarstig gagna, skv. 12. gr. MiFIR.
2. gr.
Tilvísanir.
Heimildarskírteini: Tilvísanir í reglum þessum til heimildarskírteina eins og þau eru skilgreind í 45. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til heimildarskírteina skv. 24. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Hlutabréf: Tilvísanir í reglum þessum til hlutabréfa eins og um getur í a-lið 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/EB skal skilja sem tilvísanir til hlutabréfa skv. a-lið 63. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Innmiðlari: Tilvísanir í reglum þessum til innmiðlara sem verðbréfafyrirtækis eins og þeir eru skilgreindir í 20. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til innmiðlara skv. 26. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Kauphallarsjóður: Tilvísanir í reglum þessum til kauphallarsjóðs eins og hann er skilgreindur í 46. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/EB skal skilja sem tilvísanir til kauphallarsjóðs skv. 28. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Opinber birting tíma verðtilboða: Tilvísanir í reglum þessum til opinberu birtingar tímans þegar verðtilboð hafa verið færð inn eða þeim breytt, í samræmi við 50. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til samstillingar viðskiptaklukkna skv. 91. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
3. gr.
Innleiðing reglugerða.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 11. nóvember 2021, bls. 32-40 og 168-209, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019 bls. 7-19, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/577 frá 13. júní 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um kerfi um hámarksmagn og tilhögun upplýsingagjafar að því er varðar gagnsæi og aðra útreikninga.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/587 frá 14. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um kröfur um gagnsæi fyrir viðskiptavettvanga og verðbréfafyrirtæki að því er varðar hlutabréf, heimildarskírteini, kauphallarsjóði, skírteini eða aðra svipaða fjármálagerninga og um þá skyldu að viðskipti með tiltekin hlutabréf skuli fara fram á viðskiptavettvangi eða hjá innmiðlara.
Með reglum þessum öðlast einnig gildi hér á landi framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/572 frá 2. júní 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um tilgreiningu gagna fyrir og eftir viðskipti sem boðið er upp á og aðgreiningarstig gagna, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 78 frá 9. desember 2021, bls. 10-12, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 3., 4., 5., 7., 9., 13., 15. og 16. tölulið 2. mgr. 145. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 1422/2021 um gagnsæiskröfur á mörkuðum fyrir fjármálagerninga.
Seðlabanka Íslands, 24. febrúar 2022.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|