Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 644/2022

Nr. 644/2022 16. maí 2022

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Samþykkt þessi gildir um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.

Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu, tryggja vinnuvernd starfs­fólks og góða þjónustu við íbúa. Horft verður til úrgangsþríhyrningsins í meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg, áhersla lögð á úrgangsforvarnir og mengunarbótareglan höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.

 

2. gr.

Almenn ákvæði.

Meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þess­arar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Reykjavíkurborg ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og sér um að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Þá sér Reykjavíkurborg um söfnun á heimilisúrgangi í Reykjavík og hefur umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Heilbrigðis­nefnd er heimilt að veita öðrum aðilum tímabundna undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilis­úrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilyrði undanþágu er að þjónusta sem veitt er sé meiri en þjónusta sem Reykjavíkurborg veitir, þ.e. nái til söfnunar á fleiri úrgangsflokkum. Í undanþágu skal kveðið á um nánari skilyrði hennar.

Undanþáguhafi skal gefa Reykjavíkurborg og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fullnægjandi skýrslu um magn úrgangs og flokkun hans, fjölda heimila, fjölda íláta, tíðni losunar og meðferð úrgangsins eða aðrar þær upplýsingar sem leyfishafi óskar auk almennra hollustu- og mengunar­varnaákvæða, á því formi sem gerð er krafa um og samkvæmt fyrirmælum um framsetningu. Undan­þágu­hafi skal veita Reykjavíkurborg og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur gögn til staðfestingar á meðhöndlun úrgangsins, sé þess óskað. Undanþáguhafi skal veita upplýsingar að eigin frumkvæði fyrir 1. mars ár hvert. Sinni undanþáguhafi ekki þeim skyldum sem á hann eru lagðar er heilbrigðis­nefnd heimilt að fella undanþágu um söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi í Reykjavík úr gildi að undangenginni viðvörun. Undanþágu skal aðeins veita þeim sem hefur starfsleyfi til flutnings úrgangs.

Rekstraraðilar sem úrgangur fellur til hjá skulu sjálfir sjá um söfnun og meðferð á þeim úrgangi sem fellur til við reksturinn. Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun tiltekinna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi, sbr. 5. gr. samþykktar þessarar og eftir því sem við á kröfum um sorpgerði og –geymslur sbr. 6. gr. og kröfum um djúpgáma sbr. 7. gr.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs í Reykjavík skv. 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum og að farið sé að samþykkt þessari.

 

3. gr.

Umgengni á lóðum og lendum.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma garðaúrgang eða annan úrgang á víðavangi, götum eða gang­stéttum. Sama á við um númerslausar bifreiðar, bílflök, vélar, gáma, byggingarúrgang og sambærilega hluti.

 

4. gr.

Söfnun á heimilisúrgangi.

Sérhverjum húsráðanda íbúðarhúsnæðis er skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem Reykja­víkur­borg ákveður. Ílát fyrir blandaðan heimilisúrgang og ílát fyrir lífúrgang skal losa að jafnaði á 14 daga fresti. Ílát fyrir pappírs- og pappaúrgang og ílát fyrir plast skal losa að jafnaði á 21 dags fresti. Reykjavíkurborg getur heimilað aðra hirðutíðni, s.s. í dreifbýli eða á Kjalarnesi, svo gæta megi hagkvæmni við hirðu. Reykjavíkurborg í samráði við heilbrigðisnefnd Reykjavíkur útbýr leiðbein­ingar um fyrirkomulag, fjölda, aðgengi og staðsetningu íláta undir úrgang frá heimilum.

Heimilt er að óska eftir að heimilisúrgangur sé hirtur í gámum á yfirborði eða niðurgröfnum sem losaðir eru með krana sbr. 7. gr. Húsráðendur geta valið hirðutíðni gámanna en skal losun þeirra ekki vera örari en á 7 daga fresti að jafnaði og skal blandaður úrgangur og lífúrgangur ekki hirtur sjaldnar en á 21 dags fresti að jafnaði. Hirðutíðni gáma önnur en sú sem tilgreind er í 1. mgr. skal þó ávallt háð samþykki Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg útvegar ílát, önnur en gáma, til notkunar við íbúðarhúsnæði og eru ílátin yfirleitt 240 l plastílát. Húsráðendur sérbýlishúsa geta óskað eftir plastíláti sem er 120 l, svokölluð spartunna. Ílát fyrir lífúrgang er 120 lítrar. Reykjavíkurborg getur þó, ef aðstæður leyfa, heimilað spartunnu við önnur hús en sérbýlishús. Þar sem stærri ílát henta við fjöleignarhús getur Reykjavíkur­borg ákveðið notkun þeirra. Ílátin eru eign Reykjavíkurborgar og sér borgin um viðhald á þeim. Íbúðareigendur skulu gæta þess að valda ekki skemmdum á ílátunum. Verði ílát fyrir skemmdum af öðrum ástæðum en eðlilegri notkun og sliti getur Reykjavíkurborg farið fram á að íbúðareigandi greiði fyrir nýtt ílát.

Íbúðareigendur skulu halda ílátum hreinum svo ekki skapist heilsuspillandi aðstæður eða óþæg­indi af völdum þeirra. Haldi íbúðareigendur ílátum ekki hreinum getur Reykjavíkur­borg látið hreinsa ílátin á kostnað íbúðareigenda.

Húsráðandi, hússtjórn fjöleignarhúsa eða meirihluti eigenda í fjöleignarhúsum geta beðið um að ílátum sé fjölgað eða fækkað og greiðir þá viðkomandi fyrir flutning íláta samkvæmt reikningi. Fjöldi íláta skal ekki vera svo takmarkaður að þau yfirfyllist. Að lágmarki skal vera eitt ílát fyrir blandaðan úrgang við hvert íbúðarhús.

Gæta skal þess að fylla ekki ílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim, flytja og tæma. Tilfallandi umframúrgang sem ekki rúmast í íláti skal losa í sérmerkta poka sem bera hirðugjald, á grenndarstöðvar eða á endurvinnslustöðvar eftir því hvaða úrgangsflokk er um að ræða. Reykja­víkurborg skal sjá til þess að pokar sem bera hirðugjald séu seldir á aðgengilegum stöðum.

Í dreifbýli er Reykjavíkurborg heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp ílát undir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili. Staðsetning íláta skal vera þannig að aðgengi að þeim sé gott. Í ílátin má eingöngu setja heimilisúrgang.

Ganga skal þannig frá úrgangi að ekki stafi af honum hætta fyrir starfsfólk sem sinnir hirðu eða annarri meðhöndlun úrgangs, t.d. pakka inn glerbrotum og hvössum málmhlutum.

 

5. gr.

Flokkun úrgangs.

Íbúum og lögaðilum er skylt að flokka og endurnota eða endurnýta eins og kostur er. Ákvæði þessarar greinar gilda jafnt fyrir báða aðila.

Óheimilt er að setja eftirfarandi úrgangsflokka í ílát og poka fyrir blandaðan úrgang:

  1. Spilliefni, lyf eða annan hættulegan úrgang.
  2. Timbur, brotamálm, múrbrot, jarðefni og grjót og annan grófan úrgang.
  3. Lífúrgangur, þ.e. matarúrgangur og garðaúrgang.
  4. Pappír og pappa, s.s. dagblöð og tímarit, auglýsingapóst, prent- og ljósritunarpappír, fernur, eggjabakka og aðrar pakkningar utan af matvælum og öðrum varningi hvort sem er úr sléttum pappa eða bylgjupappa, s.s. morgunkornspakka, pítsukassa og pappakassa.
  5. Málmar, plast, gler og textíll.
  6. Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir úr áli, plasti, gleri og stáli.

Framangreindan úrgang skal setja í ílát söfnunaraðila sem sérstaklega eru ætluð fyrir við­kom­andi úrgangsflokka eða skila til söfnunar- eða móttökuaðila sem hefur leyfi til móttöku á viðkomandi úrgangsflokki.

 

6. gr.

Sorpgeymslur og -gerði.

Ganga skal þannig frá ílátum, sorpgeymslum og -gerðum að þau valdi ekki óþrifum eða óþæg­indum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þau hreinsuð reglulega. Sorpgeymslur og -gerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

Sorpgeymslur og -gerði við íbúðarhús skulu vera á jarðhæð og standa sem næst aðkomu að lóð eða ekki lengra en 15 m frá lóðarmörkum þar sem því verður komið við. Af ílátum undir úrgang sem draga þarf lengra en 15 m frá sorpgeymslu eða -gerði að hirðubíl til losunar skal greiða viðbótar­losunargjald samkvæmt gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Þar sem fleiri en eitt ílát eru við hús skulu ílát sem ætluð eru sama úrgangsflokki geymd á einum stað en ekki dreift um lóð.

Við hönnun á nýjum sorpgeymslum/-gerðum eða breytingar á eldri geymslum/gerðum, skal rými fyrir sorpílát miðast við að öllum heimilisúrgangi, blönduðum og flokkuðum, sé safnað við heimili.

Halda skal greiðfærri leið að ílátum undir úrgang og hreinsa burt snjó á vetrum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð eða laus á lóð innan hundheldrar girðingar skal tryggja að komast megi óhindrað að ílátum til losunar.

Séu sorpgeymslur eða -gerði læstar skal notast við lyklakerfi Reykjavíkurborgar. Þar sem fara þarf um lokuð hlið eða hurðir getur Reykjavíkurborg farið fram á að til staðar sé búnaður, t.d. krækjur, til að halda hurðum og hliðum opnum meðan losun fer fram.

Aðkomuleiðir að ílátum undir úrgang skulu, eftir því sem kostur er, vera upplýstar og upp­hitaðar svo ekki skapist hætta fyrir starfsfólk við losun ílátanna.

Óheimilt er að staðsetja ílát undir úrgang sem eru þyngri en 40 kg þannig að fara þarf með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð. Þar sem fara þarf með ílát um tröppur skulu vera á þeim fastar sliskjur eða rampur sem draga má ílátin eftir. Gangbraut milli sliskja skal vera u.þ.b. 35 cm breið og breidd hverrar sliskju minnst 20 cm.

Ef frágangur sorpgeymslna og -gerða er ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti er heimilt að synja um losun íláts þangað til úrbætur hafa verið gerðar til samræmis við uppdrætti. Þinglýstum eiganda fasteignar skal gert viðvart og skorað á hann að bæta þar úr. Sama gildir um óviðunandi aðgengi eða frágang á sorpgeymslu eða -gerði sem gerir hirðu úrgangs erfiðleikum háða.

Að öðru leyti er vísað til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

7. gr.

Gámar á yfirborði og djúpgámar.

Hægt er að óska eftir að heimilisúrgangur sé hirtur í gámum á yfirborði eða niðurgröfnum gámum, svokölluðum djúpgámum, sem losaðir eru með krana. Um skilgreiningu á gámum, hvort sem er á yfirborði eða djúpgámum, fer eftir staðlinum IST EN 13071 og skulu gámarnir uppfylla ákvæði staðalsins. Afla skal samþykkis sorphirðu Reykjavíkurborgar við val á gámum, fjölda þeirra og staðsetningu í samráði við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa.

Kaup, rekstur og framkvæmdir við gerð og frágang í kringum gáma og djúpgáma, hvort sem er kassi, gámur, lúga eða annar tengdur búnaður, skal vera á kostnað og ábyrgð lóðarhafa. Gámar skulu rúma það magn úrgangs sem til fellur frá fasteigninni. Við ákvörðun fjölda gáma skal fara eftir viðeigandi ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem tilgreinir þá úrgangsflokka sem safna skal við heimili. Taka skal tillit til þyngdar viðkomandi úrgangsflokks við val á stærð og stað­setningu gáma. Gámar undir lífúrgang skulu ekki vera stærri en þrír rúmmetrar að stærð.

Gámar skulu vera staðsettir á lóð viðkomandi fasteignar. Í undantekningartilfellum þar sem sýnt er fram á, með sérstökum rökstuðningi, að ekki sé unnt að staðsetja djúpgáma á lóð viðkomandi fasteignar er heimilt að staðsetja djúpgáma á sérstakri lóð sem er í tengslum við þá lóð sem fast­eignin stendur á. Ætíð skal vera sami eigandi á lóð undir djúpgáma og eiganda lóðar.

Lóðarhafi ber ábyrgð á rekstri gáma, hreinsun og umgengni um lóðina og nánasta umhverfi hennar eins og um annars konar sorpgeymslur sé að ræða. Heilbrigðisnefnd hefur heimild til að hreinsa lóðina á kostnað eiganda sé talin ástæða til þess, sbr. 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.

Við ákvörðun fjarlægðar gáma frá inngangi fasteignar skal miða við viðeigandi ákvæði bygg­ingar­reglugerðar. Gámar skulu vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir fyrir viðkomandi svæði.

Að öðru leyti gildir 2. gr. samþykktar þessarar eftir því sem við á.

 

8. gr.

Grenndarstöðvar.

Reykjavíkurborg rekur kerfi grenndarstöðva fyrir flokkaðan úrgang.

Á grenndarstöðvum skal tekið á móti flokkuðum úrgangi til endurnýtingar. Grenndarstöðvar skulu vera aðgengi­legir öllum borgarbúum. Stöðvarnar skulu staðsettar á áberandi stöðum, þar sem íbúar og gestir borgarinnar eiga erindi og þar sem aðgengi er gott hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi. Þéttleiki grenndarstöðva skal vera þannig að að jafnaði verði ekki lengra en 1 km fyrir íbúa að grenndarstöð. Þurfi að leggja niður grenndarstöð skal finna henni annan stað áður en starf­semi hennar er lögð niður.

Reykjavíkurborg ákveður hvaða flokkum úrgangs skal tekið við á grenndar­stöðvum að fenginni tillögu heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Óheimilt er að losa annan úrgang á grenndarstöð en þá flokka úrgangs sem tilgreindir eru með merkingum á hverri grenndarstöð.

 

9. gr.

Endurvinnslustöðvar.

SORPA bs. sér um rekstur endurvinnslustöðva í Reykjavík. Þéttleiki endurvinnslustöðva skal vera þannig að að jafnaði verði ekki lengra en 4 km fyrir íbúa að endurvinnslustöð. Þar sem því verður ekki við komið er heimilt að fjölga þeim úrgangsflokkum sem tekið er við á eða við grenndarstöðvar í nágrenninu.

 

10. gr.

Gjaldtaka.

Innheimta skal gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Gjöld skulu ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, sbr. einnig 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöldin skulu vera sem næst meðalraunkostnaði við þá þjónustu sem veitt er og skal mengunarbótareglan höfð til hliðsjónar við ákvörðun gjaldtöku. Gjöld fyrir söfnun á heimilis­úrgangi og rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva innheimtist með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum.

Gjald fyrir heimilisúrgang skal miðast við fjölda og stærð íláta, tegund úrgangs, hreinsunartíðni og vegalengd sem draga þarf ílát við losun. Sé þessu breytt breytist gjaldið miðað við hluta úr ári reiknað í vikum. Reykjavíkurborg annast skráningu íláta og skiptingu gjalds á eigendur.

Í fjöleignarhúsum er gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs skipt eftir hlutfallstölum eigenda í við­kom­andi sameign, sbr. 43. og 45. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Útreikningur hlutfalls­tölu skal byggður á flatarmáli eignarhluta hvers eiganda.

Reykjavíkurborg er heimilt að veita öryrkjum og eldri borgurum undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 6. gr., um viðbótarlosunargjald, þegar sérstakar aðstæður krefja.

Gjald fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva er lagt á allar fasteignir að undanskildu atvinnu­húsnæði í Reykjavík.

Til tryggingar greiðslu samkvæmt gjaldskrá í 2. mgr. er lögveðsréttur í viðkomandi fasteign í tvö ár eftir gjalddaga.

 

11. gr.

Refsiviðurlög.

Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 68. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

12. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi er samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkurborgar og staðfestist hér með sam­kvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 123/2017 um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 16. maí 2022.

 

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 1. júní 2022