1. gr.
Samþykkt þessi er gerð til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í lögsagnarumdæmi Dalvíkurbyggðar í samræmi við ákvæði laga um búfjárhald nr. 38/2013 og laga um velferð dýra nr. 55/2013, m.a. að koma í veg fyrir ágang búfjár á lóðir íbúanna og vernda gróður í sveitarfélaginu.
Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar fer með framkvæmd málaflokksins.
2. gr.
Búfjárhald nautgripa, hrossa, sauðfjár, svína, kanína, geita, alifugla, loðdýra og annarra þeirra dýra og fugla sem falla undir hugtakið búfé í Dalvíkurbyggð, utan lögbýla, er óheimilt án leyfis landbúnaðarráðs.
3. gr.
Allt búfjárhald á lögbýlum er háð eftirliti Matvælastofnunar.
Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 2. gr. skal senda skriflega umsókn til landbúnaðarráðs. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda þess og húsakost.
Telji landbúnaðarráð að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er veitir það leyfið. Leyfið skal gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Um leyfið gilda ákvæði þessarar samþykktar og er það uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.
Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum um búfjárhald eins og þau eru á hverjum tíma, eða stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim, má afturkalla leyfið með viku fyrirvara.
Útgáfa leyfis er háð því skilyrði að umsækjandi hafi ætíð gilda búfjártryggingu fyrir þann fjölda búfjár sem leyfið gildir um.
4. gr.
Byggingafulltrúi skal halda skrá yfir lönd sem úthlutað er til beitar og slægna. Umsóknum um land til grasnytja fyrir búfé skal skila til byggingafulltrúa sem úthlutar leyfum eftir umsögn landbúnaðarráðs. Leyfin skulu gefin út á nafn og eru ekki framseljanleg.
Þeir aðilar sem halda sauðfé á skipulögðum svæðum, á vegum Dalvíkurbyggðar, hafa upprekstrarrétt fyrir fé sitt á þeim úthaga sem viðkomandi deiliskipulag gildir um, þ.e. Dalvíkurdeild á Ytra-Holtsdal og Árskógsdeild á Þorvaldsdal.
Í leigusamningum skulu vera ákvæði um viðhald gróðurs og ofbeit. Byggingafulltrúi og/eða landbúnaðarráð geta krafist úrbóta eða sagt upp viðkomandi leigusamningi.
5. gr.
Óheimilt er að halda búfé nema hafa fyrir það hús/skjól sem samræmist reglugerð um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna. Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir búfé sitt. Honum er skylt að gefa búfjáreftirlitsmanni upplýsingar um búfjáreign og heyfeng og sýna honum búfé og aðstöðu þegar þess er óskað.
6. gr.
Öllum umráðamönnum búfjár í sveitarfélaginu, á lögbýlum og utan þeirra, er skylt að hafa það í vörslu sem hér segir:
- Nautgripi allt árið.
- Hross frá þeim degi sem hrossasmölun á sér stað samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar til 15. júní nema sérstaklega standi á og þá samkvæmt ákvörðun fjallskilastjóra í umboði bæjarstjórnar.
- Sauðfé samkvæmt gildandi fjallskilasamþykkt.
7. gr.
Öllum umráðamönnum búfjár í sveitarfélaginu, á lögbýlum og utan þeirra, er heimilt að nota ógirt heimalönd sín og/eða afrétti til upprekstrar eigin búfjár. Upprekstur á afrétt skal ákveðinn eftir ástandi gróðurs og girðinga hverju sinni í samráði við fjallskilastjóra í hverri deild fyrir sig.
8. gr.
Hvern þann búfénað sem sleppur úr vörslu skal handsama og færa í örugga vörslu sem búfjáreftirlitsmaður eða byggingafulltrúi sér um. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína og gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, svo sem tjón og kostnað við handsömun. Við ítrekuð brot og hafi eigandi vanrækt að sækja gripi sína eða greiða áfallinn kostnað innan 10 daga, er heimilt að svipta viðkomandi leyfi til búfjárhalds í Dalvíkurbyggð. Um ráðstöfun gripa fer eftir lögum nr. 55/2013, um velferð dýra.
9. gr.
Byggingar gripahúsa eru einungis leyfðar á landbúnaðarsvæðum sem eru skipulögð skv. aðalskipulagi.
10. gr.
Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar eiga eða hafa í umsjón sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar, skulu tilkynna búfjárhald sitt til landbúnaðarráðs og sækja um leyfi til búfjárhalds innan tveggja mánaða frá gildistöku þessarar samþykktar.
11. gr.
Brot á samþykkt þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2013, um búfjárhald. Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af landbúnaðarráði og bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar, staðfestist hér með samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2013, um búfjárhald, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Samþykkt þessi kemur í stað samþykktar nr. 605/2013, um búfjárhald í Dalvíkurbyggð.
F.h. Dalvíkurbyggðar, 21. júní 2022.
Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, fjármála- og stjórnsýslustjóri.
|