Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 497/2019

Nr. 497/2019 24. maí 2019

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.

1. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 3. gr. reglnanna:

Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:

Sértryggt skuldabréf: Skuldabréf eða önnur einhliða, óskilyrt, skrifleg skuldarviðurkenning sem nýtur sérstaks fullnusturéttar í tryggingasafni útgefanda og gefið er út samkvæmt lögum nr. 11/2008.

2. gr.

11. gr. reglnanna breytist og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í viðskiptum við Seðlabankann.

Eftirfarandi tryggingar eru hæfar í viðskiptum við Seðlabankann:

  1. Skuldabréf gefin út af ríkissjóði Íslands í íslenskum krónum.
  2. Innstæðubréf gefin út af Seðlabankanum.
  3. Bundin innlán fjármálafyrirtækja við Seðlabankann.
  4. Íbúðabréf gefin út af Íbúðalánasjóði.
  5. Sértryggð skuldabréf. Útgefið markaðsvirði flokks skal vera yfir 5 ma. kr. og staðfest að það magn hafi selst. Tryggingasafn sértryggðs skuldabréfs skal eingöngu samanstanda af skulda­bréfum tryggðum með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi. Fjármálafyrirtæki getur lagt fram til tryggingar allt að 3 ma. kr. að markaðsvirði af eigin útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Seðlabankinn getur samþykkt skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði, Landsvirkjun, Lánasjóði sveitar­félaga og Reykjavíkurborg hæf til tryggingar. Seðlabankinn birtir á vefsíðu sinni þá flokka skulda­bréfa sem bankinn samþykkir.

Verðbréf sett til tryggingar viðskiptum skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Hafa viðskiptavaka annaðhvort á skipulegum verðbréfamarkaði eða í upplýsingaveitu sem Seðlabankinn viðurkennir þar sem sýnd eru bæði kaup- og sölutilboð.
  2. Vera rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.

Seðlabankinn getur vikið frá skilyrði 1. tl. 3. mgr.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. reglnanna:

  1. Við 3. mgr. bætist: að undanskildum sértryggðum skuldabréfum, sbr. 5. tl. 1. mgr. 11. gr.
  2. 4. mgr. breytist og orðast svo: Séu verðbréf dregin út, þau falla í gjalddaga, Fjár­mála­eftirlitið afturkallar leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa sem lögð hafa verið fram til trygg­ingar eða fjármálafyrirtæki óskar eftir því að fá verðbréf afhent fyrir gjalddaga skuld­bind­ingar, skal það leggja fram nýjar hæfar tryggingar og skal þá matsverð þeirra vera a.m.k. jafn­hátt og matsverð áður framlagðra trygginga.

4. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 18. gr. reglnanna:

Við 2. mgr. bætist eftirfarandi: og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra laga­ákvæða.

5. gr.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. og 38. gr., laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Reglur þessar voru ræddar og samþykktar á fundi peningastefnunefndar þann 21. maí 2019.

Reykjavík, 24. maí 2019.

Seðlabanki Íslands,

  Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.
Sturla Pálsson,
framkvæmdastjóri
markaðsviðskipta og fjárstýringar.

B deild - Útgáfud.: 27. maí 2019