1. gr.
Af öllum húseignum í Mosfellsbæ skal greiða árlega fráveitugjald samkvæmt gjaldskrá þessari, sem skal varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins, sbr. 23. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ, nr. 1014/2010.
2. gr.
Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera mat fasteigna þ.e. samanlagt fasteignamat húsa og lóða, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001. Fráveitugjald skal nema 0,089% af álagningarstofni.
Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.
3. gr.
Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Fráveitugjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur fráveitugjaldið lögveðsréttar með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði, sbr. 16. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 og 23. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ.
4. gr.
Við álagningu árlegs fráveitugjalds getur bæjarstjórn samþykkt að nýta heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um niðurfellingu eða lækkun til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.
5. gr.
Í þeim tilvikum sem Mosfellsbær nýtir heimild samkvæmt 20. gr. samþykkta um fráveitu sveitarfélagsins til að innheimta stofngjald skal það nema kr. 277.938 fyrir hvern 6″ heimæðarstút.
Fyrir heimæðarstúta stærri en 6″ greiðast kr. 432.501 eða raunkostnaður veitunnar hverju sinni.
Í þeim tilvikum þar sem lengd heimæðar frá stofnæð að lóðarmörkum fer yfir 10 metra skal innheimta raunkostnað hverju sinni.
Óski húseigandi eftir færslu fráveituheimæðar að nýjum tengipunkti greiðir hann útlagðan kostnað veitunnar.
6. gr.
Gjaldskrá þessi var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 862. fundi 4. desember 2024, með vísan til samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ nr. 1014/2010, sbr. og 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 1493/2023.
Mosfellsbæ, 4. desember 2024.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
|