1. gr.
Ákvörðun og markmið.
Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem hér greinir.
Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.
2. gr.
Gildissvið.
Takmörkun á samkomum tekur gildi 31. júlí 2020 kl. 12.00 og gildir til 13. ágúst 2020 kl. 23.59.
Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.
Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.
3. gr.
Fjöldatakmörkun.
Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýsingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar fleiri en 100 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:
- Ráðstefna, málþinga, útifunda o.þ.h.
- Kennslu, fyrirlestra og prófahalds, sbr. þó 1. mgr. 8. gr.
- Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
- Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúarsamkoma.
- Annarra sambærilegra viðburða með fleiri en 100 einstaklingum.
Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 einstaklingar inni í sama rými.
4. gr.
Nálægðartakmörkun.
Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.
Í starfsemi sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en kveðið er á um í 1. mgr., svo sem í heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum, nuddstofum og í almenningssamgöngum, skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem fjarlægð milli einstaklinga verður ekki viðkomið. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu skulu uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna (CEN). Sóttvarnalæknir getur sett nánari leiðbeiningar um kröfur til andlitsgríma samkvæmt ákvæði þessu.
5. gr.
Takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu.
Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar og spilasalir skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar.
Í starfsemi þar sem notaður er sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi, starfsemi líkamsræktarstöðva, spilasala og spilakassa, skal búnaður sótthreinsaður milli notenda.
6. gr.
Þrif og sótthreinsun almenningsrýma.
Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.
Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, m.a. við afgreiðslukassa í verslunum.
7. gr.
Takmörkun gildissviðs.
Ákvæði 3. og 4. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa í millilandaferðum.
8. gr.
Undanþágur.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra.
9. gr.
Gildistaka.
Auglýsing þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 739/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, með síðari breytingum.
Heilbrigðisráðuneytinu, 30. júlí 2020.
F. h. r.
Elsa B. Friðfinnsdóttir.
Ásthildur Knútsdóttir.
|