Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1238/2018

Nr. 1238/2018 20. desember 2018

REGLUGERÐ
um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum á stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði sjúkratryggðra heimilismanna vegna dvalar í hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

2. gr.

Sjúkratryggðir.

Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkra­tryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljist sjúkra­tryggðir hér á landi 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.

3. gr.

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkr­unar­rýmum og dvalarrýmum hjúkrunarheimila eða stofnana samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkra­trygg­ingar. Gjaldskráin skal rúmast innan gildandi fjárlaga. Heimildin gildir frá 1. janúar 2019 til og með 30. júní 2019.

4. gr.

Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Forsenda fyrir greiðsluheimild Sjúkratrygginga Íslands er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir dvöl hafi farið fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

5. gr.

Gjald og þjónusta í hjúkrunarrými og dvalarrými.

Gjaldi fyrir dvöl í hjúkrunarrými og dvalarrými fyrir aldraða er ætlað að mæta hvers konar þjónustu sem heimilismönnum er látin í té á hjúkrunarheimilum eða stofnunum. Gjaldinu er einnig ætlað að mæta rekstri hjúkrunarheimilis eða stofnunar.

Gjald skal greitt þrátt fyrir að heimilismaður hverfi af stofnun í stuttan tíma, svo sem til aðstand­enda yfir helgi eða hátíðar, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ekki aukakostnað af dvölinni.

Fari heimilismaður í hjúkrunar- eða dvalarrými á sjúkrahús eða heilbrigðisstofnun til skamm­tíma­innlagnar skal greiða 85% af gjaldi vegna hans til heimilisins eða stofnunarinnar í allt að 60 daga.

Við andlát heimilismanns eða þegar heimilismaður flytur fyrir fullt og allt af hjúkrunarheimili eða stofnun skal greiða fullt gjald í allt að sjö daga frá andláti eða brottför.

Engar greiðslur eru vegna sjúkratryggðs í hvíldarinnlögn fari hann í aðra skammtímainnlögn. Ef sjúkra­tryggður í hvíldarrými andast skal greiða fullt gjald í allt að tvo daga frá andláti.

Viðbótargjald skal greitt stofnun vegna heimilismanna með langvinna nýrnasjúkdóma þegar þeir vegna blóðskilunar eru innritaðir á sjúkrahús. Sjúkrahúsið greiðir kostnað vegna lyfjagjafar eins og fyrir aðra blóðskilunarsjúklinga sem eru innritaðir.

6. gr.

Húsnæðisgjald.

Sjúkratryggingar Íslands greiða húsnæðisgjald til að mæta kostnaði vegna viðhalds, umsjónar, umsýslu, fasteignagjalda og trygginga vegna húsnæðis. Húsnæðisgjald er hámarksgjald sem miðast við 65 m² fyrir hvert rými. Gjaldið er greitt alla daga ársins, óháð nýtingu rýmanna. Húsnæðisgjald hvers hjúkrunarheimilis er breytilegt eftir stærð og fjölda rýma, sbr. gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Ef meðalstærð rýma, ásamt hlutdeild þeirra í sameiginlegu rými íbúa, er minni skerðast húsnæðisgjöldin í réttu hlutfalli við fjölda fermetra. Húsnæðisgjaldið tekur ekki til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar breytinga og endurbóta á húsnæði.

7. gr.

Framkvæmd.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 22. gr., 24. gr., 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 29. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum gildir frá 1. janúar 2019 til og með 30. júní 2019.

Velferðarráðuneytinu, 20. desember 2018.

Svandís Svavarsdóttir
heilbrigðisráðherra.

Elsa B. Friðfinnsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 21. desember 2018