Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Markmið, gildissvið o.fl.
Markmið laga þessara er að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesskaga fyrir hugsanlegum afleiðingum eldsumbrota.
Lög þessi gilda um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna á Reykjanesskaga eftir því sem nánar greinir í ákvæðum laganna.
Ríkislögreglustjóri fer með framkvæmd aðgerða sem tekin er ákvörðun um á grundvelli laga þessara.
2. gr.
Nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna.
Ráðherra sem fer með málefni almannavarna er heimilt, að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra, að taka ákvörðun, eina eða fleiri, um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miða að því að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruvár sem tengist eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga.
Nauðsynlegar framkvæmdir sem falla undir 1. mgr. eru:
- uppbygging varnargarða,
- gerð varnarfyllinga yfir veitumannvirki,
- gröftur leiðarskurða.
Tillaga ríkislögreglustjóra skv. 1. mgr. skal að lágmarki fela í sér mat á nauðsyn viðkomandi framkvæmda m.a. með tilliti til þeirra hagsmuna sem til stendur að verja ásamt tæknilegri lýsingu mannvirkjanna, fyrirhugaðri staðsetningu þeirra og kostnaðaráætlun að því marki sem hún liggur fyrir.
Ákvæði 25. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, gilda um framkvæmd ákvarðana skv. 1. mgr. þessa ákvæðis, þar á meðal um heimild til leigunáms og um ákvörðun bóta og samkomulag um bætur fyrir tjón vegna framkvæmda skv. 1. mgr. Áskilnaður 25. gr. laga um almannavarnir um að hættu- eða neyðarstigi hafi verið lýst yfir gildir þó ekki.
Ákvörðun ráðherra samkvæmt þessari grein er endanleg á stjórnsýslustigi.
3. gr.
Samráð vegna ákvarðana um framkvæmdir o.fl.
Veita skal landeigendum þar sem ætlunin er að fara í nauðsynlegar framkvæmdir tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum áður en ákvörðun skv. 2. gr. er tekin.
Áður en ráðherra tekur ákvörðun skv. 2. gr. skal hann gefa sveitarfélagi þar sem hinar nauðsynlegu framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sem og ráðherrum sem fara með skipulagsmál, náttúruvernd og ríkisfjármál, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Minjastofnun Íslands, skamman frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Ráðherra sem fer með málefni almannavarna skal taka mið af tillögum og athugasemdum landeigenda, sveitarfélaga og stjórnvalda skv. 1. og 2. mgr. eins og kostur er. Ef brýna nauðsyn ber til og það þolir ekki bið getur ráðherra tekið ákvörðun skv. 2. gr. þótt sjónarmið þessara aðila liggi ekki fyrir. Framkvæmd samráðs samkvæmt þessari grein er ekki skilyrði fyrir gildi ákvörðunar ráðherra skv. 2. gr. og hefur ekki áhrif á það.
4. gr.
Forvarnagjald.
Leggja skal árlegt gjald á allar húseignir sem nemur 0,08‰ af brunabótamati samkvæmt lögum um brunatryggingar. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.
Vátryggingafélög innheimta gjaldið með iðgjöldum skv. 3. mgr. 11. gr. laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, og gilda 3. og 5. mgr. 11. gr. þeirra laga um innheimtu þess. Álagning gjaldsins skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga.
Ráðherra sem fer með ríkisfjármál getur kveðið nánar á um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð, þar á meðal um innheimtu gjalds.
5. gr.
Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast þegar gildi, utan 4. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2024, og falla brott 31. desember 2026. Þó skulu ákvæði 1.–3. gr. og 3. mgr. þessarar greinar falla úr gildi 1. janúar 2025.
Þrátt fyrir 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.
Ákvæði eftirfarandi laga gilda ekki um undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar skv. 2. gr.:
- Lög um náttúruvernd.
- Lög um menningarminjar.
- Skipulagslög.
- Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
- Lög um opinber innkaup.
- Lög um skipan opinberra framkvæmda.
- Stjórnsýslulög.
- Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
- Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
Gjört í Reykjavík, 14. nóvember 2023.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Katrín Jakobsdóttir.
|